Ráðstefna um samkeppnishæfni og byggðamál.
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra á ráðstefnu
um samkeppnishæfni og byggðamál,
á hótel KEA Akureyri, 11. apríl 2003
Kæru gestir, Ladies and Gentlemen,
First I would like to say a few words in English. It is a great pleasure to welcome you all to this Conference on Competitiveness and Regional matters in Iceland. I especially want to welcome our foreign guests from OECD, World Economic Forum, EIM and Nordregio, who have come a long way to participate in this Conference. We appreciate your effort greatly.
Kæru gestir,
Það er mér sérstakt ánægjuefni að bjóða ykkur velkomin hingað í dag á ráðstefnu um samkeppnishæfni og byggðamál. Ekki síst vegna þess að ég hef lagt sérstaka áherslu á þessa málaflokka, þar sem ég tel þá afar mikilvæga til að bæta lífskjör og treysta búsetu í þessu landi. Áhersla á þessa málaflokka á síðustu misserum hefur smátt og smátt verið að komast í framkvæmd með ýmsum verkefnum og aðgerðum.
Á síðustu árum hafa átt sér stað örar breytingar einkum um hinn vestræna heim, sem rekja má m.a. til aukins frjálsræðis í viðskiptum og á fjármálamarkaði og tæknilegra framfara. Þessar breytingar má einnig rekja til aukinnar alþjóðavæðingar, sem hefur haft veruleg efnahagsleg og menningarleg áhrif. Þessar breytingar hafa haft áhrif á þróun byggðar og samkeppnishæfni atvinnulífs hér sem í nálægum löndum. Atvinnulíf, byggðir, borgir og lönd verða að bregðast við þessum breyttu aðstæðum, eigi að vera mögulegt að auka verðmætasköpun, atvinnu og lífskjör.
Fjarlægðir á milli staða og landfræðileg staðsetning skipta sífellt minna máli og því er samstarf og samskipti á milli byggða, bæja og borga sem og einstakra landa mun einfaldara en áður var. Þess má geta í þessu sambandi að gefin hefur verið út bók, sem á Íslensku mundi kallast "andlát fjarlægðanna" sem vissulega er ekki alveg raunhæft, en segir sitt um þróunina. Upplýsingar liggja fyrir um að þau svæði sem hvað mestum árangri hafa náð í hringiðu alþjóðavæðingar og í uppbyggingu byggðakjarna, eru þau svæði þar sem áhersla er lögð á samvinnu og samstarf á milli þéttbýlis og dreifbýlis, á milli mismunandi hópa og hagsmunaaðila.
Á síðustu misserum, hefur verið unnið að ýmiss konar verkefnum á sviði byggðamála á vegum ráðuneytisins. Þar ber fyrst að nefna byggðaáætlun fyrir árin 2002 – 2005, en þar er að finna 22 skilgreindar aðgerðir er taka til fjölmargra verkefna. Nefna má t.d. Nýsköpunarmiðstöð á Akureyri, rannsókn á búsetu- og starfsskilyrðum atvinnulífs á landsbyggðinni sem kynnt var nýlega, eflingu menntunar, ferðaþjónustu, rafræns samfélags og umhverfisstarfsemi sveitarfélaga. Þá er ástæða til að nefna að í byggðaáætlun er lögð áhersla á mikilvægi þess að efla byggð við Eyjafjörð. Slík áhersla hefur aldrei áður verið samþykkt af Alþingi.
Verkefnisstjórn um byggðaþróun við Eyjafjörð hefur verið skipuð, en á vegum hennar er í gangi öflugt starf er miðar að því að styrkja Eyjafjarðarsvæðið sem byggðakjarna á Norðurlandi. Þessi ráðstefna er skilgreint afkvæmi verkefnisstjóornarinnar, en ráðstefnan miðar að því að fá til landsins reynslu og þekkingu færustu erlendra aðila á þessu sviði. Umfjöllun um byggðakjarna hefur einnig fengið aukið vægi víða erlendis, vegna aukinnar áherslu þeirra á hagþróun svæða.
Mikil áhersla hefur verið lögð á að bæta samkeppnisstöðu Íslands á síðustu misserum. Í því sambandi má nefna að nýsköpun hefur fengið aukið vægi m.a. með stofnun nýs Vísinda- og tækniráðs. Fyrsti fundur ráðsins var haldinn í þessari viku. Markvisst er unnið að eflingu líftækni og verður öndvegissetur við Háskólann á Akureyri stofnsett á næstunni með áherslu á auðlindalíftækni. Gerð hefur verið úttekt á samkeppnisstöðu skipaiðnaðar og hefur staðan batnað frá því sem var. Íslenskur skipasmíðastöðvar hafa verið að fá verkefni í útboðum, sem boðin hafa verið út á alþjóðlegum mörkuðum. Athugun á rekstri hönnunarstöðvar fer nú fram og er tíðinda að vænta á næstu vikum. Tilraunasamfélag um rafræn viðskipti er í undirbúningi af hálfu ráðuneytisins og öflugt starf á sviði Átaks til atvinnusköpunar er starfrækt og svo mætti lengi telja. Einnig hefur verið unnið að margvíslegum öðrum atriðum er styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja og byggða og ber þar hæst fyrirhugaðar stóriðjuframkvæmdir, sem treysta munu verulega lífskjör á Íslandi, einkum á landsbyggðinni.
Á vegum ráðuneytisins, hefur einnig verið unnið að fjölmörgum endurbótum m.a. hvað varðar fjármálamarkað, aukna erlenda fjárfestingu, einföldun á starfsskilyrðum fyrirtækja, endurbætur á hlutabréfamarkaði, einkavæðingu á fjármálamarkaði, og bætt starfsskilyrði frumkvöðla, svo eitthvað sé nefnt. Allt þetta hefur stuðlað að aukinni samkeppnishæfni atvinnulífs og auðveldað aðlögun þess að þróun og kröfum alþjóðavæðingar, sem hefur verið forsenda framþróunar og hagvaxtar. Árangur af þessu starfi má m.a. sjá í aukinni erlendri fjárfestingu hér á landi í ýmsum greinum og á sama tíma meiri útrás íslenskra fyrirtækja. Samhliða hefur gróska fyrirtækja og frumkvöðla á innlendum markaði aukist til muna. Í heildina litið má segja að Ísland hafi í auknum mæli orðið þátttakandi í þeirri alþjóðavæðingu sem nú ríkir, á grundvelli bættra starfsskilyrða og aukinnar samkeppnishæfni. Þetta hefur skilað sér í meiri verðmætasköpun, aukinni atvinnu og bættum lífskjörum.
Í umfjöllun um byggðamál hefur stundum gætt togstreitu á milli dreifbýlis og þéttbýlis. Til lengri tíma litið fara hagsmunir saman. Til að þroska og þróa umfjöllun um þetta mikilvæga mál og efla enn frekar árangur á sviði byggðamála og samkeppnishæfni almennt og þurfa sem flestir hópar þjóðfélagsins að koma að umfjöllun málsins.
Víða erlendis hefur umfjöllun um byggðamál breyst og umfjöllun um atvinnumál færst frá umræðu um einstaka atvinnugreinar til umfjöllunar um einstök svæði og byggðakjarna. Þetta má m.a. sjá hjá virtri stofnun eins og OECD, sem hefur aukið rannsóknir, athuganir og ráðgjöf á sviði byggðamála. Þetta gefur sterka vísbendingu um að byggðamál eru ekki eitthvað sem er "gamaldags" - heldur er starf á þessu sviði mikilvægur hlekkur í samræmdri og skilvirkri umfjöllun um efnahags- og skipulagsmál og hagþróun einstakra svæða og landa. Alþjóðavæðing og samstarf óháð landamærum skiptir sífellt meira máli.
Í heimi örra breytinga er augljóst að við þurfum að halda vöku okkar. Þetta er mikilvægt þegar við vinnum að frekari þróun og framsókn á sviði samkeppnishæfni og byggðamála. Þá er afar mikilvægt að leita nýrrar þekkingar og reynslu, innanlands og utan til að sækja fram á nýjum sviðum, læra af öðrum um leið og hafin er ný sókn. Það er því ánægjulegt að sjá fulltrúa virtra erlendra stofnana hér í dag, sem hafa viðamikla reynslu og þekkingu á þeim málaflokkum sem hér eru til umfjöllunar, ekki síst á sviði byggðakjarna og samkeppnihæfni.
Góðir gestir,
Ég vil að lokum þakka Verkefnisstjórn um byggðaþróun við Eyjafjörð sérstaklega fyrir undirbúning að þessari ráðstefnu og fulltrúum Iðntæknistofnunar og innlendum og erlendum fyrirlesurum fyrir þeirra framlag.
Dear speakers,
Many thanks to you all for your help and support. I wish you all the best.