Kynningarfundur um mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda fyrir árin 2003-2008 á Hótel KEA Akureyri.
Valgerður Sverrisdóttir
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp á kynningarfundi um
mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda
fyrir árin 2003 - 2008
Hótel KEA, Akureyri, 16. apríl 2003
Góðir gestir,
Eins og kunnugt er þá eru nú framundan einhverjar mestu framkvæmdir á sviði stóriðjumála sem um getur í atvinnusögu þjóðarinnar. Það er ekki á daglegt brauð að erlendir aðilar fjárfesti hér á landi í atvinnulífi fyrir tugi milljarða, eins og fyrirhugað er vegna byggingar álvers á Austurlandi og Vesturlandi. Þegar erlendir aðilar fjárfesta hér á landi, er mikilvægt að sem mest af þeirri fjárfestingu skili sér sem aukin umsvif innlendra aðila, bæði hvað varðar byggingar og rekstur.
Aukin alþjóðavæðing hefur gert það að verkum að fjarlægðir og landfræðileg staðsetning skipta sífellt minna máli í efnahagslegum, pólitískum og menningarlegum samskiptum svæða sem þjóða. Þetta á einnig við um fjárfestingu, þar sem einstök ríki og svæði, keppa í mun ríkara mæli en áður um fjármagn, fólk og fyrirtæki – ekki síst á sviði erlendrar fjárfestingar. Traust efnahagsstjórn og bætt starfsskilyrði hér á landi þar sem Ísland er ofarlega og hefur farið hækkandi á alþjóðlegum listum um samkeppnishæfni og starfsskilyrði, s.s. hjá World Economic Forum – sem var kynnt hér á Akureyri á sl. föstudag, gefa til kynna að Ísland er með traustari fjárfestingarlöndum. Þessi árangur verður ekki til á einum degi, heldur hefur það tekið langan tíma að byggja upp þessa stöðu, með markvissum aðgerðum á sviði efnahags- og atvinnumála. Árangur af því starfi kemur nú fram í áhuga erlendra aðila, eins og sjá má af fyrirhuguðum fjárfestingum á næstunni.
Hér í dag verða kynntar niðurstöður starfshóps er fjallað hefur um Mannaflaþörf og sérhæfni vegna stóriðjuframkvæmda fyrir árin 2003 – 2008.", en þessi starfshópur var skipaður í árslok 2002. Einnig verða á fundinum erindi og hagnýtar ábendingar frá verkfræðistofum/aðilum með mikla reynslu er varða þátttöku í stóriðjuverkefnum, um það hvernig íslensk fyrirtæki geta sem best undirbúið sig í þeim tilgangi að ná sem mestum árangri varðandi tilboð og verkefni í fyrirsjáanlegum stóriðjuframkvæmdum. Sambærilegar skýrslur hafa áður verið gerðar og hafa sannað gildi sitt. Tilgangur verkefnisins er að skilgreina og tímasetja áætlaða mannaflaþörf og þær þekkingar- og hæfniskröfur sem krafist er vegna áætlaðra stóriðjuframkvæmda. Einnig er tilgangurinn að varpa ljósi á hve miklar og hvers eðlis framkvæmdir við iðjuver og tilheyrandi virkjanir eru og búa íslensk fyrirtæki betur undir að takast á við þessi verkefni og gera þau betur samkeppnishæf. Þannig getur hlutdeild þeirra orðið meiri í þessum framkvæmdum en annars hefði orðið.
Í starfshópnum áttu sæti: Baldur Pétursson, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, formaður, Andrés Svanbjörnsson Fjárfestingarstofunni, orkusviði, Ingólfur Sverrisson, Samtökum iðnaðarins og Örn Friðriksson, Samiðn, sambandi iðnfélaga. Starfshópurinn réði Verkfræðistofu Guðmundar og Kristjáns hf. (VGK) sem tæknilegan ráðgjafa til þess að fjalla um framkvæmdaáætlanirnar og unnu Auður Andrésdóttir, jarðfræðingur, Kristinn Ingason og Runólfur Maack vélaverkfræðingar að verkefninu í samvinnu við starfshópinn. Ég vil þakka þessum aðilum fyrir þeirra störf. Það er mikilvægt að vanda sem mest undirbúning innlendra fyrirtækja vegna fyrirhugaðra stóriðjuframkvæmda, svo auka megi líkur á árangri þeirra á þessum markaði. Það verður því áhugavert að sjá niðurstöður starfshópsins og hvaða aðgerðir hann telur helst komi til greina. Jafnframt verður áhugavert að heyra álit annarra aðila á markaði en hér eru einnig á meðal okkar fulltrúar annarra verkfræðifyrirtækja, til að fjalla almennt um undirbúning íslenskra fyrirtækja vegna verkefna á sviði stóriðjumála og hvaða atriði eru mikilvægust í því sambandi. Jafnframt munu aðrir aðilar í starfshópnum kynna sín sjónarmið.
Góðir gestir,
Það er von mín að skýrslan og þessar upplýsingar, nýtist atvinnulífi, launþegum sem og þjóðinni í heild, til að gera hlut innlendra aðila sem mestan í fyrirhugðum stóriðjuframkvæmdum sem framundan eru og megi þannig stuðla að aukinni verðmætasköpun í þjóðfélaginu.
Takk fyrir.