Þróunarfélag Austurlands 20 ára.
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp á ráðstefnu Þróunarfélags Austurlands
í tilefni 20 ára afmælis þess 2. maí 2003
í tilefni 20 ára afmælis þess 2. maí 2003
Ágætu ráðstefnugestir.
Við sjáum fyrir okkur glæsilega framtíð Austurlands. Þessi framtíðarsýn er fyrst og fremst afrakstur áratuga baráttu fyrir stóriðju í fjórðungnum. Kyrrstaðan er hjá og við tekur kröftug sókn sem mun hafa víðtækari áhrif en flestir sjá fyrir í dag. Sú sókn mun ekki einskorðast við þau 750 nýju störf á Austurlandi með tilkomu Fjarðaáls. Sóknin mun einng verða borin áfram af aukinni bjartsýni og nýrri tiltrú á framtíð byggðarlaganna hér á Austurlandi og raunar um land allt. Nýir og ferskir vindar munu blása um samfélagið. Það má m.a. rekja til reynslu og þekkingar fjölmargra vel menntaðra karla og kvenna.
Búast má við að árið 2010 muni 10.000 manns búa á Mið-Austurlandi, og verður þá næst stærsti byggðakjarninn, utan Stór-Reykjavíkursvæðisins, hér. Það gefur auga leið að hin nýja þungamiðja sem skapast umhverfis Fjarðaál mun hafa mjög jákvæð áhrif. Fjölbreytni atvinnulífsins mun stóraukast og tækifæri fólksins til að afla sér vel launaðra starfa verða allt önnur en þau eru í dag. Almenn velferð mun vaxa og mannlíf blómstra.
Ljóst er að við getum haft áhrif á þessa þróun og þar með nýtt okkur tækifærin. Áhrifaþættirnir eru fjölmargir en sennilega eru samgöngumálin veigamesti einstaki þátturinn í byggðaþróuninni. Uppbygging byggðakjarna hér á Mið-Austurlandi er verulega háð því að unnt verði að tengja byggðirnar saman. Landfræðilegar hindranir eru margar en við megum ekki missa sjónar á því að hér þarf að verða til vel samtengt svæði sem býður upp á fjölbreytta atvinnu fyrir vel menntað fólk sem veitir alla þá nauðsynlegu þjónustu og afþreyingu sem nútímasamfélag krefst.
Sé litið á Reykjavík til viðmiðunar þá er fólk farið að sækja vinnu lengra en 50 km frá heimili og má leiða líkur að því að eftir tíu ár verði atvinnusvæði Reykjavíkur talið vera allt að 100 km frá heimili innan þéttbýlismarkanna. Með góðum samgöngum á Austurlandi má draga sömu fjarlægðarmörk og getur þá hver sem er séð ávinninginn.
Ástæða þess að fjarlægðarmörkin eru að vaxa svona mikið verður ekki eingöngu rakin til bættra samgangna um greiðfærari vegi heldur einnig til ört vaxandi framfara í upplýsinga- og fjarskiptatækni. Til viðbótar kemur einnig að búast má við breyttri afstöðu fólks til fjarvinnslu sem auk nýrrar tækni mun gera minni kröfur um viðveru starfsfólks á föstum vinnustað.
Þungamiðja atvinnuþróunarinnar næstu árin verður vafalítið í Reyðarfirði. Kaupstaðirnir fyrir norðan og sunnan verða þó engar jaðarbyggðir ef betri tenging á milli þessara byggðalaga verður tryggð. Jarðgöng til Fáskrúðsfjarðar hafa verið ákveðin og það tíðkast ekki í samgöngumálum að hafa mörg orð um það sem er búið. Þá vil ég leggja áherslu á greiðar samgöngur við Hérað, ekki síst vegna flugsamgangna. Næstu skref í jarðgangamálum er tenging undir Hellisheiði til Vopnafjarðar og fyrsta skrefið í tengingu Fjarðarbyggðar við Seyðisfjörð með nýjum göngum milli Norðfjarðar og Eskifjarðar.
Það er mikilvægt að íbúar þessara nágrannabyggða geti sótt vel launaða vinnu í álverið ef þeir svo óska, en ekki er síður mikilvægt að þar geti orðið til afleidd störf og iðnaður sem þjóni álverinu, eða þjónusta sem nýtir sér þau sóknarfæri sem ótvírætt verða til í tengslum við það.
Ljóst er að hið hefðbundna atvinnulíf, sjósókn og landbúnaður, sem við öll höfum alist upp við mun ekki geta staðið undir öllum væntingum okkar um vel launuð og fjölbreytt störf í framtíðinni. Meira þarf að koma til og er mikilvægt að íbúarnir, fyrirtækin og atvinnuþróunarfélögin séu vakandi yfir framförum sem leitt geta til nýsköpunar atvinnulífsins. Auðvitað munu hinir hefðbundnu atvinnuvegir nokkurnveginn halda sínum hlut í efnahag þjóðarinnar en vöxturinn verður að koma frá nýsköpun innnan þessara greina eða frá nýjum greinum.
Þekkingariðnaður mun skipta miklu máli í þessu tilliti. Þekkingariðnaður á borð við líftækni mun geta orðið jafn veigamikill í landbúnaði framtíðarinnar og hefðbundinn landbúnaður er í dag - og vafalítið arðbærari fyrir bændur. Líftæknin mun á sama hátt skipta sköpum fyrir aukna verðmætasköpun úr lífríki hafsins. Sumir, sem telja sig hafa innsýn í þróun atvinnulífsins á komandi áratugum, hafa sagt að auðlegð hafsins hafi aðeins verið nýtt að litlu leyti og mun meiri nýjan ávinnig sé þangað að sækja en þangað er sóttur nú.
Nátengt þessu er fiskeldi sem náð hefur góðri fótfestu á Austurlandi nú þegar og er ég ekki í vafa um að það muni fara vaxandi og reynast okkur drjúg búbót í framtíðinni.
Þessar nýju atvinnugreinar byggja á nýrri vísindalegri þekkingu og hæfni okkar til þess að hagnýta hana skapar samkeppnisstöðu okkar á alþjóðamörkuðum. Samkeppnisumhverfi austfirskra fyrirtækja er nefnilega ekki afmarkað af íslenskum markaði heldur verða fyrirtækin að lúta kostum og kjörum sem ráðandi eru á opnum og óheftum samkeppnismörkuðum. Þessu fylgja bæði kostir og gallar. Kostirnir ættu þó að vera öllum nokkuð auðsæir þar sem opinber verndun atvinnulífsins, t.d. með verndartollum, er í flestum tilfellum skaðleg til lengri tíma litið.
Eitt af þeim verkefnum sem alþjóðavæðingin hefur fært okkur heim er þróunarverkefni um vetnisvætt samfélag. Ísland hefur vakið athygli víða um heim fyrir hispurslausa og framsækna nálgun við þetta verkefni. Ég ætla í sjálfu sér ekki að gera það að umfjöllunarefni en í stað þess að vekja athygli á að í því tvinnast saman mjög áhugaverð nýsköpun í þágu atvinnulífsins og mikilvæg lausn á aðkallandi umhverfisvanda. Þetta hátæknilega mál snýst nefnilega ekki eingöngu um tæknilega lausn á því að knýja áfram vélar framtíðarinnar heldur einnig um lausn á umhverfisvandamáli. - Það fjallar í hnotskurn um sjálfbæra þróun.
Algengt er að litið sé á nýsköpun og atvinnuþróun sem andstæðu umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar eins og Austfirðingar hafa áþreifanlega orðið varir við á síðustu misserum. Þetta er röng nálgun því sjálfbær þróun hlýtur að snúast um að samþætta efnahagsleg, félagsleg og umhverfisleg markmið, - þar sem m.a. er lögð áhersla á aðgerðir sem eru til þess fallnar að treysta byggð í landinu og stuðli þannig að sjálfbærri þróun samfélagsins. Okkur mun verða það betur og betur ljóst að lausn margra umhverfsimála verður að finna í þróunaverkefnum atvinnulífsins.
Einfalt dæmi sem skýrir þetta er vindorkuver sem framleiðir vetni sem orkjugjafa fyrir vélar. Hér er um að ræða sjálfbæran orkubúskap í sinni einföldustu mynd.
Sé litið heildstæðara á tækniþróunina þá tekur hún í stöðugt vaxandi mæli mið af bættri orkunýtingu og aukinni framleiðni. Drifkraftur þess er oftast efnahagslegur ávinningur fyrir notanda tækninnar. Engu að síður er mikils um vert að ekki sé horft framhjá því að bæði bætt orkunýting og aukin framleiðni leiða til minni aðfanga og minni úrgangs, þ.e. minni umhverfisáhrifa.
Ný vísindasvið, eins og nanótæknin, eru nú að hasla sér völl í atvinnulífinu en þau munu gegna mun víðtækara hlutverki en áður hefur þekkst við að sameina efnahagsleg markmið nýsköpunar atvinnulífsins og umhverfisbætur. Við eigum því á komandi árum eftir að sjá enn betur að hagsmunir tæknilegra framfara í atvinnulífinu og hagsmunir umhverfisverndar eru ekki andhverfir heldur samhverfir.
Góðir ráðstefnugestir.
Þróunarfélag Austurlands er 20 ára um þessar mundir. Mikil samstaða hefur ríkt um starfsemi félagsins og er það mjög ánægjulegt. Félagið hefur gegnt mikilvægu hlutverki þessa tvo áratugi og mun svo vafalítið verða áfram. Það er ljóst að mikil umskipti eru framundan í atvinnumálum Austfirðinga. Þróunarfélagið mun þurfa að hafa hönd á púlsi þeirra breytinga og vera í fararbroddi við að leiða þróunina inn á brautir sem gefa Austfirðingum mestan ávinning.
Iðnaðarráðuneytið hefur lagt sig fram um að byggja upp kröftuga stoðþjónustu hjá Iðntæknistofnun og Byggðastofnun fyrir atvinnuþróunarfélögin. Sú starfsemi mun einng þurfa að þróast í takt við samfélagsbreytingar, þróun vísinda og tækni og þarfir atvinnuþróunarfélaganna.
Ég vil að síðustu leyfa mér að vera svolítið persónuleg og segja að það hefur verið mér mikið ánægjuefni að starfa með þróunarfélaginu á síðustu árum. Það hefur verið ögrandi að fá að takast á við það sameiginlega verkefni okkar að efla Austurland með uppbyggingu stóriðju. Framundan eru góðir tímar fyrir Austurland. Ég óska ykkur til hamingju með afmælið.
Takk fyrir.