Gangsetning verksmiðju Pharm Artica á Grenivík.
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Ávarp við gangsetningu verksmiðju Pharm Artica á Grenivík
föstudaginn 16. maí 2003.
föstudaginn 16. maí 2003.
Kæru sveitungar og aðrir gestir.
Það er mér mikil ánægja að vera hér í dag enda er brotið blað í atvinnusögunni - nú þegar þetta litla samfélag okkar haslar sér völl í lyfja- og snyrtivöruframleiðslu.
Við getum séð það fyrir okkur að þegar atvinnusagan verður skrifuð á ný, síðar á öldinni, þá mun bókin ekki heita bein úr sjó heldur krem úr krús eða eitthvað þvíumlíkt.
Fyrir mig, sem ráðherra byggðamála, hefur þetta sérstaklega mikla þýðingu þar sem ég hef ávallt lagt ríka áherslu á að á landsbyggðinni verði til fyrirtæki sem byggja á nýrri þekkingu og reynslu.
Koma fyrirtækisins Pharm Artica til Grenivíkur er varla nein tilviljun. Frumherjarnir Torfi, Jónína og Bergþóra hafa unnið að þróun hugmyndarinnar í fjögur til fimm ár og nýtt þann tíma til þess að vinna að vöruþróun og hönnun framleiðsluferla og jafnframt að því að finna framleiðslunni heimili. Það fannst hér á Grenivík - vegna þess að sveitarfélagið var tilbúið að leggja það af mörkum sem til þurfti.
Nú er gamla áhaldageymslan og slökkvistöðin okkar orðin að iðnfyrirtæki sem uppfyllir allar alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til svona framleiðslu. Það hefði sennilega aldrei orðið ef heimamenn hefðu ekki tekið frumkvöðlunum opnum örmum og búið svo í haginn fyrir starfsemina að þeir sáu ávinninginn af því að koma hingað. Ég tel að miklu hafi skipt að hreppurinn var tilbúinn til þess að standa straum af kostnaði við breytingarnar á húsnæðinu og ekki hefur síður verið mikilvægt að fyrirtækið okkar - Sænes - var tilbúið til þess að verða einn af lykil-fjárfestum í Pharm Artica.
Þessir tveir þættir er einmitt það sem oftast þarf til að laða til sín ný fyrirtæki, þ.e. annarsvegar að geta lagt til húsnæði og aðstöðu sem hentar nýrri starfsemi og hinsvegar hlutafé frá heimamönnum í ný fyrirtæki.
Starfsemi Pharm Artica fer af stað á réttum tíma því lyfjaframleiðsla einstakra apóteka er að leggjast af, m.a. vegna breytinga á innlendum lyfjamarkaði og einnig vegna hertra alþjóðlegra krafna sem gerðar eru til lyfjaleiðslu. Pharm Artica kemur þannig inn í ákveðið tóm sem myndast og notar tækifærið til að fylla það með framleiðslunni héðan. Einnig hefur fyrirtækið náð eftirtektarverðum samböndum við erlendan snyrtivöruframleiðenda um þróun nýrra afurða. Ég þykist sjá að þau tengsl geti reynst happadrjúg í framtíðinni við að koma snyrtivörum sem framleidd eru hér á Grenivík inn á erlenda markaði.
Ég vil að lokum óska frumkvöðlunum, starfsmönnum fyrirtækisins, þeim sem unnið hafa að því að starfsemi Pharm Artica hefur orðið að veruleika og öllum íbúum Grýtubakkahrepps til hamingju með nýja fyrirtækið. Fyrirtækinu óska ég gæfu og góðs gengis í framtíðinni.