Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. júní 2003 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Ávarp samgönguráðherra við formlega opnun Safnhússins Eyratúni á Ísafirði

Við opnun Safnahússins Eyratúni á Ísafirði ávarpaði samgönguráðherra Sturla Böðvarsson viðstadda.


Íbúar Ísafjarðarkaupstaðar og aðrir gestir. Gleðilegan þjóðhátíðardag.

Það er vissulega fagnaðarefni að Safnahúsið skuli í dag formlega opnað og það er vel viðeigandi að endurgerð Safnahússins njóti viðurkenningar ríkisstjórnarinnar, sem eitt af menningarhúsum landsins, með sérstökum samningi milli menntamálaráðuneytis og Ísafjarðarbæjar.Ákvörðun um stuðning við að reisa eða endurbyggja menningarhús var og er tímabær hvatning til þess að styrkja og bæta búsetu í landinu og koma til móts við þau byggðarlög, sem hafa afl til þess að snúast gegn óæskilegri þróun byggðanna. Uppbygging á sviði menningarmála er hluti af atvinnuuppbyggingu í landinu og ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Vert er að minnast þess og árétta að menningin blómstrar í gróandi mannlífi.

Þegar ég sat á vinnustofu minni heima í Stykkishólmi og hugleiddi þetta ávarp og forsendur menningarhúsa, horfði ég yfir Breiðasundið til Klofningsfjallsins yfir í Dalasýsluna. Ég minntist skilgreiningar fóstru Steins Steinars á menningu, en Steinn var fæddur á Laugalandi við Djúp en ólst upp í Dalasýslu. Hún skilgreindi menningu á sérstakan hátt við fósturson sinn: ,,Menning, það er rímorð drengur minn sem þeir nota fyrir sunnan til að ríma á móti þrenningunni. Menning, þrenning". Skýringar fóstru Steins eru mjög í ætt við skáldskaparstíl Steins sem bar merki kaldhæðni þess er flutti á mölina.

Enn þann dag í dag veltum við því fyrir okkur hvað þurfi til að skapa jákvæða menningu. Hvar verður menningin til? Þarf hús utan um menninguna eða einungis hugsjónir, vilja og gott mannlíf. Raunar er allt starf okkar hluti af menningunni.

Það þarf ekki að efast um að það bjó að baki mikill hugur og vilji hjá Ísfirðingum til þess að efla og auka menningu staðarins þegar þeir reistu nýtt sjúkrahús 17. júní 1925, rúmum fimm árum áður en Landsspítalinn í Reykjavík var tekinn í notkun. Gamli spítalinn ber höfundi sínum og byggingameisturum fagurt vitni og setur mikinn og sterkan svip á bæjarmyndina. Og það ber merki ríkrar menningar hér á staðnum að reisa svo glæsilegt hús. Því er endurreisn þessa húss, sem menningarhúss, tímamótaviðburður sem ber að fagna.

Við Íslendingar höldum með réttu á lofti verkum skálda okkar og sagnaarfi, sem var skráður á skinn. En við eigum einnig mikinn fjársjóð í byggingarlistinni, hvers konar handverki og atvinnutækjum er tengjast atvinnuháttum, sem okkur ber að varðveita.

Hér á Ísafirði eru varðveitt ómetanleg menningaverðmæti í formi allra gömlu endurgerðu húsanna. Þeir einstaklingar, sem hafa staðið fyrir þessu stórvirki eiga mikinn heiður skilinn. Og í dag bætist þetta glæsilega hús í hóp uppgerðra húsa á Íslandi, sem eru perlur byggðanna og sýna stórhug og reisn íbúanna.

Sem ráðherra ferðamála fagna ég þessu framtaki og hvet til þess að starfsemi safnahússins verði kynnt sérstaklega ásamt með endurgerð gamalla húsa í Ísafjarðarbæ. Hef ég ákveðið að veita sérstakan styrk frá samgönguráðuneytinu, að upphæð ein milljón króna, til að kynna þetta merka framtak sem er starfsemi safnahússins og endurgerð gamalla húsa á Ísafirði.

Það er von mín að Safnahúsið megi verða jafnt bæjarbúum sem ferðalöngum ríkuleg uppspretta mennta og menningar. Ég óska íbúum Ísafjarðarkaupstaðar til hamingju með Safnahúsið Eyrartúni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta