Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

2. júlí 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Opnun Íslenskra orkurannsókna.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra



Ávarp við opnun
Íslenskra orkurannsókna


Ágætu gestir.

Dagsins í dag, 1. júlí 2003, verður þegar fram líða stundir minnst sem eins af merkustu dögum í sögu íslenskra orkumála. Í dag koma til framkvæmda ný raforkulög, einnig koma til framkvæmda ný lög um Orkustofnun og loks lög um Íslenskar orkurannsóknir, sem er tilefni þess að við komum hér saman í dag og fögnum.

Hin nýja stofnun, Íslenskar orkurannsóknir tekur við hlutverki orkurannsóknarsviðs Orkustofnunar, sem hefur starfað sem sjálfstæð eining innan stofnunarinnar frá árinu 1997 og hefur annast að mestu jarðhitarannsóknir og rannsóknir er tengjast jarðrænum auðlindum landsins.

Saga íslenskra orkurannsókna er í raun stórmerk. Við Íslendingar vorum seinir til að að nýta orkulindir okkar eins og alkunna er. Okkur skorti fjármagn, þekkingu og mannauð til að sinna þessum verkefnum og það er fyrst eftir kreppu- og stríðsárin að hjólin fóru að snúast. Með raforkulögunum frá 1946 var sköpuð ákveðin festa í orkurannsóknum og uppbyggingu raforkukerfisins hér á landi, og fyrstu árin beindust rannsóknir að verulegu leyti að vatnsorku. Árið 1956 voru rannsóknir á jarðhita færðar undir raforkumálastjóraembættið þannig að frá þeim tíma hafa rannsóknir orkulinda landsins verið undir nánast sama hatti. Á þeirri hendi hefur einnig verið umfangsmikil stjórnsýsla en í dag verður sú eining sjálfstæð og henni falin stóraukin verkefni með nýjum raforkulögum.

Hin nýja stofnun, Íslenskar orkurannsóknir, sem nú hefur tekið til starfa, stendur því á gömlum merg. Alkunna er að þær orkurannsóknir er unnar hafa verið hér á landi á undanförnum áratugum hafa skipt sköpum fyrir grunnrannsóknir á náttúrufari landsins og fjölmargir aðilar njóta þess í dag hve vel og skipulega var staðið að verki við framkvæmd þeirra. Í þessu sambandi get ég ekki látið hjá líða að minnast á áratuga jarðfræðirannsóknir stofnunarinnar. Þær grunnrannsóknir ásamt aukinni tækni við leit á jarðhita hefur leitt til þess að í dag eru um 88% húsnæðis hér á landi hitað upp með jarðhita og árlegur ávinningur þjóðarinnar af nýtingu jarðhitans til hitunar nemur mörgum miljörðum króna.

Fyrirsjáanlegt er að á næstu áratugum verður jarðhitinn nýttur í auknum mæli til raforkuframleiðslu og um leið aukast kröfur á okkur að nýta sem best þá orku er þar verður beisluð til annarra nota. Þetta gefur okkur vissulega margvíslega möguleika í framtíðinni en um leið verðum við að hafa í huga að við státum af endurnýjanlegum orkulindum og þurfum að gæta þess að ganga ekki of langt í nýtingu.

Það eru því mörg verkefni fyrir höndum, sem Íslenskar orkurannsóknir munu sinna. Ég veit að meðal starfsmanna stofnunarinnar er aðall íslenskra vísindamanna á jarðhitasviði, sem halda mun uppi því þekkta orðspori er fer af jarðhitaþekkingu okkar. Það er ljóst að hin nýja stofnun mun sinna í auknum mæli margvíslegum erlendum verkefnum í þeim tilgangi að auka notkun jarðhitans og þar mun þáttaka hinnar nýju stofnunar í starfsemi Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna skipta miklu máli.

Góðir samkomugestir.

Ég vil í lokin árna Íslenskum orkurannsóknum allra heilla og er sannfærð um að framtíð stofnunarinnar sé björt. Til hamingju með daginn og hina nýju stofnun.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta