Fjölskylduhátíð í Hrísey.
19. júlí 2003
Ávarp ráðherra á fjölskylduhátíð í Hrísey
Góðir Hríseyingar!
Ég vil fyrst þakka þann heiður sem mér var sýndur með því að bjóða mér hingað í dag. Mér er það sérstök ánægja að vera þáttakandi í hátíðahöldunum og ávarpa ykkur með nokkrum orðum. Það segi ég ekki aðeins starfs míns vegna, heldur af því að mér finnst ég auðvitað næstum vera hér eins og heima hjá mér og þarf ekki annað en horfa í kringum mig - ég tala nú ekki um hérna austur yfir álinn - til þess að minna mig á það. En raunar þarf ég þess ekki. Það væri í sjálfu sér nóg fyrir mig að loka bara augunum. Svo kært og kunnuglegt er mér þetta umhverfi allt frá bernskudögum að ég get séð það fyrir mér í huganum hvar og hvenær sem er. Og ég er ekki ein um það af þeim sem alist hafa upp við Eyjafjörð. Davíð frá Fragraskógi líkti honum við helga jörð í kvæði sem þið þekkið eflaust mörg og segir þar m.a.:
- Verja hinn vígða reit
varðtröllin klettablá,
máttug og mikilleit,
Múlinn og Gjögratá.
Hljóti um breiða byggð
blessun og þakkargjörð
allir sem tröllatryggð
taka við Eyjafjörð.
Þið Hríseyingar ættuð manna best að þekkja þessa landslagsmynd og geta tekið undir ósk og bæn skáldsins. Og óneitanlega eruð þið vel í sveit settir með að kalla ykkur Eyfirðinga. Eyjan ykkar, ein sú stærsta við Ísland, rís breið og bunguvaxin úr miðjum firði, svo að félagsleg tengsl og kynni manna á milli hafa frá fornu fari verið mikil bæði við austur- og vesturlandið þaðan sem eyjan byggðist. Svo mikil hafa tengsl eyjar og lands reyndar verið í bókstaflegri merkingu, að náttúrufræðingar telja hana leifar af strandlengju sem einhvern tíma hafi verið föst við Árskógsströnd, enda sundið milli eyjar og Helluhöfða ekki ýkja breitt. Nafnið eitt, Hrísey, er lýsandi og laðar að bæði menn og málleysingja sem best sést af því að hér unir rjúpan sér í friðsældinni í grasi- og lyngivöxnum móunum, svo að fyrir löngu þótti kjörið að koma hér upp sérstakri athugunar- eða rannsóknastöð til að rannsaka líf hennar og hátterni.
En Eyjafjörður er ekki bara fagurt hérað. Þar hefur frá öndverðu verið fjölbyggt og mikið athafnalíf og þess vegna hafa líka gerst þar margar sögur og merkilegar að fornu og nýju. Frá því að hér tók að myndast þorp er nú liðin um það bil öld og 1931 varð Hrísey sjálfstætt sveitarfélag. Allan þennan tíma hefur saga ykkar verið saga um hörkuduglegt fólk sem ákveðið var í að bjóða öllum erfiðleikum birginn og byggja upp gott og lífvænlegt samfélag þar sem sjósókn var aðalbjargræðisvegurinn, enda stutt á gjöful mið.
Á fjölskyldudegi eins og þessum kemur fólk einmitt saman til þess að njóta lífsins á líðandi stund, sýna sig og sjá aðra og rifja upp hvar rætur þess liggja. Það gera ekki aðeins Hríseyingar sem nú eiga heimili hér, heldur fólk sem er brottflutt eða á hingað rætur að rekja og er sjálfsagt margt statt hér ásamt gestum eða ferðamönnum sem eru lengra að komnir.
Þeir vita kannski ekki mikið um Hákarla-Jörund eða aðra nafnkunna sjósóknara sem hér gerðu garðinn frægan á sinni tíð eða þann afkomanda hans sem hvert mannsbarn á landinu vissi hver var fyrir 40 eða 50 árum - þann kappsama síldarkóng Guðmund Jörundsson, sem sigldi flaggskipinu Jörundi drekkhlöðnu inn á Eyjafjörð hvað eftir annað þegar sungið var um "hýreyg og heillandi sprund á Dalvík og Dagverðareyri". Enn lengra er síðan annar frægur síldarskipstjóri, sem gerði út frá Hrísey, söng fyrir allan flotann í kvöldsólinni á Grímseyjarsundi sem frægt er orðið. Já, það eru orðin mörg ár síðan söltuð var síld í Hrísey dag eftir dag og allir máttu veiða eins og þeir vildu, en samt er eins og töluvert af sjómannsblóði renni enn í æðum þeirra sem hingað eiga ættir að rekja og nú koma við útgerðarsöguna með stórhug og myndarbrag eins og áar þeirra. Þótt ekki séu allir sem hingað koma eins vel að sér um mannlífið í Hrísey fyrrum, taka sjálfsagt margir þeirra við sér ef á það er minnt að feður þeirra Samherjafrænda lærðu að hnýta pelastikk í Hrísey og einn ástsælasti leikari þjóðarinnar, Hríseyingurinn Árni Tryggvason, er kannski í hjarta sínu meiri trillukarl, þegar öllu er á botninn hvolft, og vill hvergi eyða sumrinu frekar en hér.
Hríseyingar hafa, eins og margir aðrir sem búið hafa við svipaða atvinnuhætti í sjávarbyggðum landsins, orðið fyrir áföllum á liðnum árum og þurft að horfast í augu við breytingar og óvissu sem ekki hefur verið sársaukalaust. Það er mér vel kunnugt sem þingmanni kjördæmisins og ráðherra iðnaðar og viðskipta að ógleymdum byggðamálum. Margt sem á ykkur brennur heima fyrir kemur inn á mitt borð, þótt hvorki ég né aðrir kunni ævinlega réttu svörin eða geti beitt réttum aðgerðum þegar eftir því er kallað. Oftast eru það líka heimamenn á hverjum stað sem að lokum leysa sinn eigin vanda og þekkja hann best, þótt við stjórnmálamenn eigum og getum stundum lagt okkar af mörkum og skorti ekki vilja til þess. Og illa þekki ég Hríseyinga ef þeir gefast upp fyrir erfiðleikum. Í ljósi þess sem ég hef þegar minnt á vantreysti ég þeim síst til að vinna sig út úr vandanum með kjarki og atorku nú sem fyrr og laga sig að breyttum aðstæðum. Þeir hafa sýnt það áður að það geta þeir.
Þessa dagana fer varla framhjá neinum að næstum hver bær og byggðarlag, fámenn og fjölmenn, efna til staðbundinna hátíðahalda undir ýmsum nöfnum og leggja áherslu á sérstöðu sína. Fjölskylduhátíðin hér núna er einn liðurinn í því og Hríseyingar hafa margt að bjóða gestum sínum sem taka sér far með ferjunni af Sandinum - sem út af fyrir sig er stutt ævintýri á góðum degi.
Á útihátíð er um margt að velja og mikið um að vera. Miðað við þá málaflokka sem mér hefur verið falið að sinna væri það auðvitað ánægjulegt ef allir gætu grætt á öllum án þess að nokkur skaðaðist, en venjulega reynist það draumsýn, enda þyrfti þá enga Samkeppnisstofnun! Líklega komumst við einna næst þessu á fjölskylduhátíð fyrir fólk á öllum aldri eins og þessari. Þar eru allir með og allir græða, en mest á því að eignast glaða stund og góðar minningar.
Ég endurtek þakkir mínar fyrir gott boð. Gleðilega hátíð!