Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. ágúst 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Árangur í starfi - viðskiptalífið og siðareglur.

Valgerður Sverrisdóttir
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á ráðstefnu ÍMS – Árangur í starfi –
í Háskólanum í Reykjavík, 12. ágúst 2003.
Viðskiptalífið og siðareglur.


Það er mér mikil ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ráðstefnu Íslensku menntasamtakanna hér í dag.

Especially it is a great honour and a privilege to have such a distinguished scholar as Dr. Howard Gardner with us here today.

Ég mun í ávarpi mínu ræða um viðskiptalífið og þær siðferðislegu kröfur sem við gerum til þeirra sem taka þátt í viðskiptum.

Um viðskiptalífið eins og aðra þætti samfélagsins gilda margvísleg lög og reglur sem þátttakendum ber að hlýða og virða.

Í öllum mannlegum samskiptum hafa þó til viðbótar lögum myndast ýmsar leikreglur sem fólk setur sjálft og við teljum að byggi á almennt viðurkenndum siðferðisreglum. Stundum ganga slíkar reglur reyndar inn í landslög eins og til dæmis bann við mismunun starfsmanna á grundvelli kynferðis eða litarháttar.

Hins vegar er alveg ljóst að löggjöfin nær ekki til og getur aldrei náð til allra þeirra samskipta sem eiga sér stað í flóknu samskiptaferli stjórnenda og starfsmanna fyrirtækja, viðskiptavina þeirra og hluthafanna. Hér verða því fyrirtækin sjálf og stjórnendur þeirra að setja sér nánari samskiptareglur sem byggja á þeim siðferðisviðhorfum sem æðsta stjórn fyrirtækjanna vill hafa að leiðarljósi.

Mikilvægt er að slík kerfi eða aðferðir séu þannig úr garði gerð að þau hvetji starfsmanninn og hjálpi honum til að ná sínum persónulegu þörfum en um leið sé tryggt að hann sé að vinna að hagsmunum fyrirtækisins í heild, hluthafa og viðskiptavina. Til þess að ná betri tökum á þeim atriðum og skapa réttlátt vinnu- og starfsumhverfi horfa fyrirtæki og opinberar stofnanir nú í æ ríkara mæli til viðskiptasiðareglna.

Í viðskiptasiðareglum tel ég að markmiðið eigi að vera að taka á sem flestum málaflokkum í starfsemi fyrirtækja. Þannig ættu viðskiptasiðareglur að taka á atriðum eins og til dæmis; tengslum við starfsmenn, tengslum við hluthafa, tengslum við viðskiptavini, tengslum við birgja, tengslum við stjórnvöld svo og atriðum er varða hollustu starfsmanna.

Í öllum þeim málaflokkum sem ég hef hér drepið á er að finna margvísleg úrlausnarefni sem mikil nauðsyn er fyrir fyrirtæki, starfsmenn þeirra og viðskiptavini að tekin sé afstaða til og hún opinberlega kunngerð með setningu viðskiptasiðareglna.

Orðspor og traust fyrirtækja er ein verðmætasta eign þeirra. Tengsl við viðskiptavini og hvernig fyrirtæki tryggir þeim vörur í hæsta gæðaflokki á sanngjörnu verði skiptir miklu máli.

Samkeppni fer vaxandi og fyrirtækin kunna að freistast til að slá af réttum kröfum og almennum siðareglum til að ná fram viðskiptalegum yfirburðum. Gæðaleikföng sem neytendur geta keypt á góðu verði en í reynd eru framleidd af börnum í þrældómi í fjarlægu landi er eitt dæmi um slíkt háttarlag.

Umræða hefur aukist á undanförnum árum um mikilvægi starfsmanna fyrir fyrirtæki og mannauðsstjórnun. Fyrirtæki verða því að taka á ýmsum atriðum og setja sér siðferðileg viðmið í samskiptum sínum við starfsmenn. Nauðsynlegt er að þau aðstoði starfsmenn sína til að þróa hæfileika sína og þeir nái sem mestum árangri og frama innan fyrirtækis sem utan og að grunnviðmið séu sett að þessu leyti sem byggja á virðingu fyrir einstaklingum.

Í vaxandi samkeppni þurfa fyrirtæki líka að huga að tengslum við samkeppnisaðila sína og setja starfsmönnum skýr mörk um að nálgast til dæmis aldrei upplýsingar með óheiðarlegum aðferðum.

Nauðsynlegt er líka að afstaða stjórnenda sé ljós og skýrt sé tekið fram að fyrirtæki ætli að vinna með festu að ná fram markmiðum sínum en á heiðarlegan hátt og ekki að taka þátt í aðgerðum sem takmarka samkeppni eða hafa á annan hátt neikvæð áhrif á markaðinn.

Fyrir tæpum þremur árum var samþykkt á vettvangi OECD yfirlýsing um alþjóðlegar fjárfestingar og fjölþjóðleg fyrirtæki. Í yfirlýsingunni eru fyrirtæki hvött til þess að setja sér og gefa út opinberlega viðbótaryfirlýsingar sem fjalli meðal annars um félagsleg, umhverfisleg og síðast en ekki síst siðferðileg stefnumið fyrirtækisins og atriði sem varða viðskiptasiðferði sem þau aðhyllast.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil breyting á viðskiptaumhverfinu á Íslandi. Samtímis hefur mikilvægur vaxtabroddur margra íslenskra fyrirtækja verið í útlöndum. Alþjóðavæðing íslensks viðskiptalífs er því orðin staðreynd sem jafnframt gerir æ ríkari kröfur til stjórnenda og starfsmanna íslenskra fyrirtækja.

Fjölmörg fyrirtæki verða í sífellt meira mæli að tryggja góð samskipti við viðskiptavini, hluthafa og starfsmenn og aðlaga sig að þeim kröfum sem í vaxandi mæli eru gerðar til viðskiptasiðferðis þeirra. Stjórnvöld geta ekki og eiga ekki að mínu mati að taka að sér að móta innihald slíkra reglna fyrir fyrirtækin. Með sama hætti og einstaklingar í þjóðfélaginu setja sér sín eigin siðferðilegu mörk í samskiptum sínum við aðra þá verða fyrirtækin að axla sjálf þessa ábyrgð og setja sér skýr viðmiðunarmörk. Í góðri bók var sagt: "Af ávöxtunum skulið þér þekkja þá". Þessi kenning er því síung og mikilvægt að hafa í huga.
Góðir áheyrendur.
Ég hef aðeins tæpt á örfáum atriðum þessa mikilvæga máls en ég treysti því að áfram verði fjallað um það á opinberum vettvangi og að það nái að þróast áfram á næstu mánuðum með jákvæðum hætti til hagsbóta fyrir allt viðskiptalífið á Íslandi.

Ég vona að ráðstefnan í dag muni leiða til aukinnar umræðu um meðal annars siðferði í viðskipum og muni vekja þátttakendur til meðvitundar um hlutverk sitt og ábyrgð. Megið þið eiga hér fræðandi og skemmtilegan dag. Ég þakka fyrir.





Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta