Málþing Háskóla Íslands.
Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp iðnaðarráðherra á málþingi HÍ
um rannsóknir og menntun á landsbyggðinni –
Fræðastarf sem þáttur í atvinnustefnu byggðarlaga.
25. september 2003 í Hátíðarsal HÍ
Góðir gestir.
Ég vil í upphafi segja að það er sérstakt fagnaðarefni að Háskóli Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga skuli blása til þessa málþings um rannsóknir og menntun á landsbyggðinni - og fræðastarf sem þátt í atvinnustefnu byggðarlaga. Að mínu mati er aukin þekking og hæfni undirstaða þess að atvinnulíf á landsbyggðinni nái að vaxa og dafna, enda mun atvinnuþróun að verulegu leyti ráðast af því hvernig til tekst að nýta þekkingu til að byggja upp nýjar atvinnugreinar og til nýsköpunar í hefðbundnum atvinnugreinum.
Í stefnumótandi áætlun ríkisstjórnarinnar um byggðamál fyrir árin 2002-2005 eru dregnar upp 5 meginstoðir til að ná fram markmiðum áætlunarinnar, sem efnislega miða að því að draga úr mismun á lífskjörum fólks milli byggðarlaga. Ein þessara stoða er traust og fjölbreytt atvinnulíf og önnur aukin þekking og hæfni. Þessir mikilvægu þættir birtast skýrt í þeirri áherslu sem iðnaðarráðuneytið hefur lagt við framkvæmd byggðaáætlunar. Við höfum staðið að framsæknum verkefnum í þessum anda í samvinnu við önnur ráðuneyti og fjöldamarga aðila víðs vegar um landið. Mig langar til að tæpa á nokkrum þeirra.
Það liggur beint við að nefna atburði dagsins, en þá var tilkynnt um úrslit í samkeppni um Rafrænt samfélag, sem er þáttur í framkvæmd byggðaáætlunar. Í ljósi upplýsinga um að íbúar landsbyggðarinnar stæðu íbúum höfuðborgarsvæðisins talsvert að baki við tileinkun og notkun upplýsingatækni var þessu þróunarverkefni hleypt af stokkum, enda á upplýsingatæknin að geta verið veigamikið tæki til að jafna búsetuskilyrði á landinu.
Tveimur byggðarlögum hefur nú verið falið að innleiða þróunarverkefni um rafrænt samfélag á næstu þremur árum og fá til þess fjárframlag frá ríkinu á móti eigin framlagi. Byggðarlögin eru annars vegar Árborg, Hveragerði og Ölfus og hins vegar Aðaldælahreppur, Húsavíkurbær og Þingeyjarsveit. Verkefnunum er ætlað að hafa víðtæk áhrif á þróun viðkomandi byggðarlaga og annarra byggðarlaga sem geta í framhaldinu hagnýtt sér þá þekkingu og reynslu sem skapast við framkvæmd verkefnanna.
Ég tel ástæðu til að undirstrika það hér á þessum vettvangi að í iðnaðarráðuneytinu er mikill vilji til að efla rannsóknir á landsbyggðinni og tengja þær atvinnulífinu á hverjum stað, ekki síst rannsóknir sem byggja á grunni hinna hefðbundnu atvinnuvega; sjávarútvegs og landbúnaðar. Á þeim grunni verða til afleidd störf sem byggja á nýrri þekkingu, einkum á sviði líftækni. Plöntulíftækni og sjávarlíftækni eru fræðasvið sem vert er að gefa sérstakan gaum.
Til að efla rannsóknir á sviði fiskeldis hefur nýlega verið ráðstafað 70 milljónum króna til Hólaskóla, en þeir fjármunir eru hluti af söluandvirði hlutabréfa ríkisins í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki sem seld var á síðasta ári.
Nú er unnið að uppbyggingu svokallaðs öndvegisseturs í auðlindalíftækni í tengslum við Háskólann á Akureyri. Þegar rætt er um öndvegissetur er átt við starfsemi þar sem framúrskarandi vísindaleg þekking og kröftugt rannsóknaumhverfi leiða til nýsköpunar atvinnulífsins. Þessi starfsemi mun auðvelda Íslendingum þátttöku í alþjóðlegu samstarfi háskóla og rannsóknastofnana á þessu sviði og færa nýja þekkingu inn í íslenskt atvinnulíf.
Auðlindalíftæknin er vísindagrein sem getur skapað mikla vaxtarmöguleika fyrir iðnað á Íslandi. Ef rétt er á málum haldið sé ég fyrir mér að þess verði ekki langt að bíða að á landsbyggðinni verði til sterk fyrirtæki sem hagnýta erfðaefni út lífríki sjávarins í framleiðslu sinni. Þá er líklegt að bændur geti í náinni framtíð framleitt korntegundir eða aðrar nytjajurtir sem innihalda erfðabreytt prótín sem megi til dæmis nota í lyfjaframleiðslu, iðnaði og landbúnaði.
Öndvegissetrið verður staðsett í nýju rannsóknarhúsi Háskólans á Akureyri, sem nú er í byggingu. Í húsinu verður metnaðarfull og fjölbreytt starfsemi sem miklar vonir eru bundnar við að skili sér í eflingu atvinnulífs. Starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar, var sett á stofn á Akureyri í lok síðasta árs, verður fundinn staður í rannsóknarhúsinu. Þetta er að sjálfsögðu háð þeirri forsendu að áframhaldandi fjárveiting fáist til reksturs stöðvarinnar.
Nýsköpunarmiðstöðinni á Akureyri er ætlað það metnaðarfulla hlutverk að vera framvörður í nýrri atvinnusókn á landsbyggðinni, þar sem megináherslan er lögð á aukna þekkingu og hæfni. Miðstöðin veitir víðtæka fræðslu um frumkvöðlastarfsemi, stofnun og rekstur fyrirtækja, innleiðingu nýjunga í rekstri og nýsköpun. Í starfi Nýsköpunarmiðstöðvarinnar kristallast sú áhersla sem iðnaðarráðuneytið hefur lagt – að ný þekking sé grundvöllur þess að atvinnulíf á landsbyggðinni nái að þróast í takt við þarfir nútímans.
Góðir gestir.
Framtíð landsbyggðarinnar er björt ef okkur tekst að virkja og efla þennan mikilvæga þátt - byggðaþróun á Íslandi til heilla.