Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. september 2003 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Norðurál fimm ára

Laugardaginn 27. september var haldið upp á fimm ára starfsafmæli Norðuráls. Við það tækifæri bauð Norðurál og Columbia Ventures Corporation til móttöku. Samgönguráðherra flutti þar eftirfarandi erindi:


Hr. Kenneth Peterson, iðnaðarráðherra, starfsmenn Norðuráls, góðir gestir.

Í nafni íbúa Norðvesturkjördæmis vil ég fagna þessum degi og færa starfsmönnum og eigendum Norðuráls innilegar hamingjuóskir vegna 5 ára afmælis starfseminnar hér á Grundartanga. Í tilefni þessara tímamóta færi ég Kenneth Peterson sérstakar þakkir fyrir framsýni og starf hans að uppbyggingu Norðuráls í þágu byggðanna og í þágu íslensks iðnaðar í kjördæminu.

Það var vissulega óvænt innkoma þegar Kenneth Peterson haslaði sér völl í íslensku atvinnulífi með því að reisa álver Norðuráls á undraskömmum tíma og starfsemin hófst hér fimm árum síðar. Fyrir vinnumarkaðinn á svæðinu var stofnun Norðuráls mikilvæg viðbót og hefur tryggt öflugt vaxtarskeið, sem hefur ekki einungis eflt svæðið við Hvalfjörðinn heldur hefur starfsemi Norðuráls verið mikilvægur hlekkur í uppbyggingarkeðju og aflvaki hagvaxtar á Íslandi.

Vestlendingar, og þá sérstaklega íbúar Akraness og Borgarfjarðarsvæðisins, hafa horft mjög til þess að hér mætti iðnaðarstarfsemin vaxa enn frekar með stækkun Norðuráls. En það er ekki einungis vilji þeirra, sem hér búa, heldur einnig þingmanna og ríkisstjórnarinnar sem hefur lagt áherslu á stækkun álversins til hagkvæmrar nýtingar orkulinda okkar Íslendinga. Það er von mín að við munum fá fregnir af frekari áformum um aukna starfsemi hér svo auka megi hagkvæmni fjárfestingar í álveri og orkuverum og tryggja þannig þau störf sem álverinu fylgja beint og óbeint.

Ég vil nota tækifærið til þess að vekja athygli á þeim miklu möguleikum sem höfnin hér á Grundartanga gefur, svo miðsvæðis og vel sett sem hún er, til þess að tengjast millilandasiglingum og vörudreifingu um landið. Í gildandi Samgönguáætlun er nú tryggt fjármagn til þess að tengja hafnarsvæðið með nýjum vegi sem vonandi hefjast framkvæmdir við á þessu hausti.

Það er mat okkar í samgönguráðuneytinu að ein mikilvægasta aðgerð til þess að létta á umferðarþunga á veginum inn í höfuðborgarsvæðið sé að byggja upp betri móttöku hér á hafnarsvæðinu á Grundartanga til umskipunar. Með þeim hætti þyrftu ekki allir flutningar sem eru á veginum í dag að fara inn í höfuðborgarumferðina um íbúðarhverfi að Sundahöfn, Hafnafjarðarhöfn eða Kópavogshöfn.

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að lýsa yfir vilja mínum um að aðstæður verði skapaðar til þess að Grundartangahöfn fái frekara hlutverk vegna aukinna krafna um siglingavernd.

Ég óska eigendum Norðuráls og starfsmönnum til hamingju með daginn. Megi framtíðin verða jafn farsæl og árin fimm sem við fögnum í dag.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta