Ávarp ráðherra á blómasýningu
Ágætu aðstandendur Blómasýningar 2003.
Hér er að hefjast mikil og falleg sýning á vegum Samband garðyrkjubænda er lýtur að blómum og blómarækt. Þar eru margir kallaðir til eins og blómaframleiðendur, Gaðryrkjuskóli ríkisins í samstarfi við blómaskreyta, heildsölur í blómaverslun og félag blómaverslana. Til hamingju allir saman með glæsilega sýningu.
Í einu magnaðasta kvæði sem Íslendingar eiga; Áföngum eftir Jón Helgason prófessor segir hann svo í einu ljóðanna:
Séð hef ég skrautleg suðræn blóm
sólvermd í hýjum garði;
áburð og ljós og aðra virkt
enginn til þeirra sparði;
mér var þó löngum meir í hug
melgrasskúfurinn harði,
runninn upp þar sem Kaldahvísl
kemur úr Vonarskarði.
Nú kann einhver að spyrja hvort það sé ætlun mín að líkja fallegu rósunum við melgrasskúfinn harða, en svo er nú ekki nema að hluta til. Hins vegar er melgrasskúfurinn í sjálfu sér fallegur en einkum er það hans undramáttur; að festa rætur í örfoka landi við hörðustu aðstæður sem heillar og kallar fram stolt Íslendingsins í brjóstum okkar allra.
Það hefði forðum þurft að segja mörgum manninum það tvisvar að hér á landi væri mögulegt að rækta hin fegurstu blóm sem ættu aðeins að finnast í heitum suðrænum görðum, en þetta er nú staðreyndin í dag.
Til að gera það mögulegt hafa dugmiklir einstaklingar tekið í þjónustu sína þá krafta sem landinu tilheyra og beislað þá til göfugra verka.
Heita vatnið úr iðrum jarðar hefur verið leitt í þúsunum kílómetra um gróðurhús íslenskra blómaframleiðenda og gert það mögulegt að halda á þessum viðkæma gróðri þeim kjörhita sem blómin þurfa og þegar sá árstími kemur að sólin kveður hér á norðurslóðum, kemur til kasta rafmagnsins sem fengið er úr fallvötnum landsins að lýsa upp húsin á jafn magnaðan hátt og sjálf sólin og er þá ekki við lítið jafnað.
Með þessu, ásamt þrautsegju, dugnaði og þekkingu hvers framleiðanda hefur okkur íslendingum tekist að framleiða hinar fegustu rósir og önnur sólvermd suðræn blóm sem fyllilega standast allar gæðakröfur hvað varðar fegurð og fjölbreytileika.
Og þá kemur til kasta annarra aðila; þeirra sem sjá um dreifinguna og söluna. Fulllestaðir bílar í tuga eða hundraðavís renna daglega með framleiðsluna á markaðinn þar sem fjölbreytilegur hópur viðskiptamanna bíður í ofvæni eftir rósinni rauðu eða einhverju öðru fallegu blómi. Blómanna bíður fjölbreytilegt hlutverk; að fara á fundarborð í ráðstefnusal; á tveggja manna borð á litlum veitingastað; í fallegan krans sem er hinsta kveðja aðstandenda til látins ástvinar; í kraga brúðgumans; í lófa unnustunnar á stefnumótsstað eða í vasa á heimilinu í upphafi helgar svo dæmi séu tekin. Tækifæri blómanna er óteljandi og sífellt færist þessi skemmtilegi siður í vöxt, - að láta blómin tala eins og gott slagorð segir til um. Til að blómin njóni sín til fulls fara skreyingar um hendur þar til hæfra meistara sem hafa sérhæft sig í blómaskreytingum og eru fullnuma í þeim fræðum, og hafa trúlega flestir þeirra numið í Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum.
Á þessari litlu einföldu mynd sést að mörg eru handtökin og öll skila þau okkur Íslendingum á einn eða annan hátt arði. Einn lifir á framleiðslunni, annar á sölunni, sá þriðji á skreytingunni og sá fjórði nýtur fegurðar blómanna ef svo mætti segja.
Blóm hafa löngum glatt og margar fyrirgefningarnar hafa verið fengnar í stað lítils blómvandar. Þau eru litfögur og vekja aðdáun mannsins á verkum skaparans og þeim fylgir hlýja og gleði.
Það hafa þau alltaf gert og orðið mörgu skáldinu að yrkisefni.
Áður var glóandi fífill undir veggjarbroti var fyrsta merki um að vorið væri komið. Ofinn var úr honum krans og börn settu á höfðu sér. Blésu svo á biðukolluna og óskuð sér. Sóleyjarbreiða í varpa litaði heilu túnflekkina og þrátt fyrir að hvorki hún né fífillinn væri sérstakt fóður fyrir skepnurnar sem mest um vert væri að lifðu af, var þessum smáblómum fyrirgefið af öllum tilurð sín vegna fegurðar og litadýrðar í annars tilbreytingarsnauðu umhverfi daganna.
Ágæta samkoma.
Ég óska öllum aðstandendum þessar glæsilegu sýningar til hamingju með daginn og vona að framtakið vekji tilætlaðan árangur og athygli landsmanna.