Ferðamálaráðstefna Ferðamálaráðs í Mývatnssveit
Ráðstefnustjóri, ágætu ráðstefnugestir!
Mér er það sérstök ánægja að ávarpa ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands hér í dag enda er Mývatn og einstök náttúra þessa svæðis einn af þeim hornsteinum sem íslensk ferðaþjónusta byggir á.
Á síðustu ferðamálaráðstefnu fór ég yfir viðbrögð stjórnvalda vegna hryðjuverkanna 11. september 2001, sem ótvírætt hafa ógnað ferðaþjónustunni um allan heim. Ég er mjög ánægður með hvernig samstarf stjórnvalda og hagsmunaaðila í greininni hefur skilað okkur árangri, sem flestir hefðu talið útilokaðan, miðað við þann vanda sem við stóðum gagnvart fyrir réttum tveimur árum.
Við skulum þó ekki dvelja við það heldur horfa fram á veginn. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar er lögð áhersla á að nýta sóknarfæri ferðaþjónustunnar eins og kostur er og gert ráð fyrir að Ferðamálaráð vinni náið með aðilum í greininni að markaðsstarfi og framþróun með það að markmiði að þjónusta við ferðamenn verði heilsársatvinnugrein sem skapi fleiri örugg og vel launuð störf.
Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 320 milljónum króna til markaðssóknar í íslenskri ferðaþjónustu og eru þeir fjármunir enn á ný hrein viðbót við það fé sem Ferðamálaráð hefur úr að spila vegna markaðsstarfs á erlendum vettvangi og þess sem fer til ferðamálasamtaka landshlutanna.
Í ljósi góðrar reynslu munu þessir fjármunir fara í sérstakt markaðsátak undir stjórn ferðamálastjóra og forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs. Reikna ég með að umfangsmikilli auglýsinga- og kynningarherferð verði hrundið af stað á hefðbundnum markaðssvæðum, en að einnig verði stutt við markaðsstarfið í Japan, sem gefur miklar vonir, og er farið að skila sér. Eins geri ég ráð fyrir að skrifstofa Ferðamálaráðs muni í byrjun næsta árs bjóða út fjármuni til samstarfsverkefna og leitast þannig við að tvöfalda það fjármagn sem kemur frá hinu opinbera. Þetta hefur nú verið gert tvisvar sinnum og gafst mjög vel þó að borið hafi á óánægju hjá þeim sem ekki náðu samningum.
Ber að harma það kærumál sem er í gangi svo ekki sé nú talað um þau ómálefnalegu skrif sem ferðaskrifstofa hefur látið sér sæma að útbreiða á Netinu í tilraunum sínum til þess að koma höggi á ráðherra ferðamála. Eru trúlega fá dæmi um sambærilegan málflutning.
Samgönguráðuneytið hefur lagt áherslu á skýrar reglur, svo ekki fari á milli mála hvaða kröfur þarf að uppfylla, til að samstarf um landkynningu komist á með fjármunum úr ríkissjóði.
Ferðamálastjóri hefur ákveðið að halda kynningarfundi um málið, lengja umsóknarfrestinn verulega svo ekki fari á milli mála um hvað málið snýst.
Ég vona að haldið verði áfram með markaðsherferðina ,,Ísland, sækjum það heim" enda byggja fjölmargir aðilar í íslenskri ferðaþjónustu afkomu sína á Íslendingum sem ferðamönnum í eigin landi.
"Iceland Naturally"átakið í Norður-Ameríku hefur nú staðið yfir í fjögur ár, en þar er á ferðinni samstarfsverkefni stjórnvalda og fyrirtækja sem selja vörur og þjónustu á Bandaríkjamarkað. Framlag samgönguráðuneytis er rétt um sjötíu milljónir króna á ári en fyrirtækin leggja fram um það bil 30 milljónir. Þarna hefur skapast öflugt og eftirtektarvert samstarf sem ekki einvörðungu hefur náð góðum árangri heldur sýnir þann slagkraft sem hið opinbera og hagsmunaaðilar geta náð með því að samnýta fjármagn og þekkingu til að ná sameiginlegu markmiði. Ég tel vel koma til greina að nýta reynsluna af IN til hliðstæðs markaðsstarfs í Evrópu.
Með breyttu ferðamynstri hefur þýðing upplýsingamiðstöðva aukist gríðarlega en með því á ég við fjölgun ferðamanna á eigin vegum sem margir hverjir hafa ekki skipulagt dvöl sína út í æsar og þurfa mikla þjónustu.
Reykjavíkurborg opnaði á þessu ári öfluga upplýsingamiðstöð í Reykjavík og heyrir hún undir Höfuðborgarstofu. Eftir að Reykjavíkurborg ákvað að draga sig út úr samstarfi innan Markaðsráðs ferðaþjónustunnar beitti ég mér fyrir því að Ferðamálaráð og Höfuðborgarstofa gerðu með sér samkomulag um aðkomu ríkisins að rekstri stöðvarinnar enda mikilvægt að ferðaþjónustan á öllu landinu eigi aðkomu að þessari þýðingarmiklu upplýsingamiðstöð og borgin komi þannig til samstarfs að nýju sem nýtist á landsvísu. Hefur Höfuðborgarstofa einnig fengið sérstakan styrk til markaðsmála. Meta þarf árangurinn af þessu samstarfi þegar markaðsaðgerðir verða endurmetnar.
Það var svo vordögum að ný og glæsileg Norræna sigldi inn í höfnina á Seyðisfirði. Þetta markar tímamót í ferjusiglingum hingað til lands því hér er komið skip sem stenst kröfur um þægindi.
Tölur hafa sýnt fram á þýðingu þeirra farþega sem til landsins koma á þennan hátt þar sem þeir virðast fara víðar um landið og dvelja lengur á landsbyggðinni en margir aðrir. Ég tel því að fjárfesting í hafnarmannvirkjum og móttökustöðinnni hafi verið fullkomlega réttlætanleg og mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna.
Vísindaveiðar á hrefnu hófust hér við land þann 16. ágúst s.l. Veiðarnar hafa valdið Samtökum ferðaþjónustunnar, og sérstaklega þeim sem starfa við hvalaskoðun, miklum áhyggjum, eins og við er að búast. Hvalaskoðun hefur vaxið sem atvinnugrein og því var fyrirséð að hvalveiðar myndu valda deilum.
Ég legg mikla áherslu á að stjórnendur vísindaveiðanna taki tillit til hvalaskoðunar og forðist að fara inn á þau svæði sem þeir nýta við atvinnu sína. Fjölmiðlaumfjöllun um vísindaveiðarnar hefur verið miklu minni en ég átti von á. Hvort hún á eftir að aukast og skaða okkur á næstu árum er útilokað að segja um á þessu stigi. Í september komu hingað til lands rúmlega 16% fleiri gestir en á sama tíma í fyrra. Við þurfum þó eðlilega að fylgjast vel með allri umfjöllun og hugsanlegum afleiðingum veiðanna. Ég legg þó áherslu á að við tökum ekki sjálf þátt í að blása þetta mál upp í erlendum og innlendum fjölmiðlum á neikvæðum forsendum. Með sama hætti og við gerum kröfur til þess að sjávarútvegurinn taki tillit til ferðaþjónustunnar verðum við, sem erum talsmenn ferðaþjónustunnar, að taka tillit til þeirra hagsmuna sem sjávarútvegurinn telur að þurfi að verja með vísindaveiðum.
Sumarið 2002 gerði Ferðamálasetur Íslands könnun á viðhorfi þátttakenda í hvalaskoðunarferðum. Þar kom m.a. fram að 75 % aðspurðra hefðu komið til Íslands þó að hér væru stundaðar hvalveiðar.
Samgönguráðuneytið var á meðal þeirra sem styrktu þessa rannsókn og mun leggja sitt af mörkum til að tryggja að hún haldi áfram svo leggja megi áfram mat á viðhorf þessa hóps.
Samgönguráðuneytið leggur mikla áherslu á að við alla almenna kynningu á landinu á næstunni verði tekið mið af þessum aðstæðum. Við verðum að tryggja að áfram komi hingað náttúruunnendur sem sækjast í siglingar við landið og hafa áhuga á að skoða hvali og njóta útivistar.
Nú er stutt í að Norðurbryggja, eða Bryggjan, í Kaupmannahöfn verður opnuð með pompi og pragt. Þar verður sköpuð umgjörð fyrir blómlegt starf, sem miðar að því að efla samstarf Íslands, Danmerkur, Færeyja og Grænlands. Löndin fjögur hafa sameinast um að endurreisa eitt elsta og fegursta pakkhúsið á hafnarsvæðinu og mun Ferðamálaráð Íslands opna þar sérstaka landkynningarskrifstofu, en jafnframt verður þarna aðsetur sendiráðs Íslands í Danmörku. Landkynningarskrifstofan á Norðurbryggju markar nýja tíma og nýjar áherslur með öflugri útrás á Norðurlöndum og í Evrópu.
Á næsta ári mun Ísland vera í formennsku í Norðurlandaráði. Á þeim vettvangi er sjónum manna í auknum mæli beint að ferðaþjónustu sem vaxandi atvinnugrein ef rétt er á málum haldið. Samgönguráðuneytið leggur áherslu á að á þessum vettvangi verði stuðlað að gerð samnorrænnar stefnumótunar á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Hér er um gríðarlega víðfeðmt verkefni að ræða og hefur þegar verið unnið mikið starf á ýmsum sviðum nátengdum þessu málefni. Það er því nauðsynlegt að afmarka verkefnið við skýrt afmarkaða og sameiginlega þætti úr menningu Norðurlandanna, í fortíð, nútíð og framtíð.
Einnig verður lögð áhersla á frekari vinnu við stefnumörkun í sjálfbærri ferðaþjónustu á norðurskautssvæðum og að hrinda í framkvæmd aðgerðaráætlun tengdri þessari stefnu. Hér er um þýðingarmikið mál að ræða þar sem ferðaþjónustan getur tengt okkur saman og um sameiginlegar hugmyndir er að ræða. Þá skal stefnt að því að tryggja að Norðurlöndin verði í fararbroddi í aðgengismálum hreyfihamlaðra á ferðamannastöðum.
Ráðstefnugestir. Í sumar gerði ég víðreist um landið til að kynna mér stöðu og nýjungar í ferðaþjónustu. Það eru margir spennandi og ólíkir hlutir á ferðinni; þannig heyrði ég t.d. af hugmyndum um ferðamannagöng í Látrabjargi og fékk fréttir af sælkeraeldhúsi í Skagafirði.
Ferðaþjónustan stendur í miklum blóma víðast hvar en stríðir eðlilega við ýmis vandamál sem einkum tengjast miklum fjárfestingum og litlum viðskiptum yfir veturinn. Auk þess er margt í innviðum sem þarf að bæta m.a. á sviði samgangna og fjarskipta. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir miklum framkvæmdum, sem bæta stöðu ferðaþjónustunnar, og það er mér kappsmál að símafyrirtækin í landinu taki við sér og sjái sér hag í því að efla þjónustuna um allt land svo aukin flutningsgeta á Internetinu og farsíminn geti, í samræmi við kröfur nútímans, verið það atvinnu- og öryggistæki sem ferðamenn og aðilar í ferðaþjónustu um allt land geta treyst á.
Því fer þó fjarri að stöðnun ríki á þessum vettvangi og í síðustu viku var undirritað samkomulag á milli Símans og verkefnisins Upplýsingatækni í dreifbýli - UD - um nýtingu upplýsingatækni til verðmætaaukningar og aukinnar atvinnusköpunar í sveitum landsins þar sem ferðaþjónustan er að eflast og verða mikilvægur þáttur í atvinnulífi. Verkefni Símans og UD felur meðal annars í sér það að Síminn býður bændum um allt land ISDN-plús samband á hagstæðum kjörum hvað varðar stofngjald og fleira. Þessi þjónusta er sprottin af þeim ákvæðum fjarskiptalaganna um að Símanum sé skylt að veita öllum aðgang að ISDN tengingu sem nú þróast mjög ört og nálgast háhraða tækni.
Til þess að ferðaþjónustan hafi möguleika á að þróast sem atvinnugrein í nútímalegu samkeppnisumhverfi þurfa innviðirnir að vera í lagi. Hér á ég við fjölmarga hluti en stórátak hefur verið gert í vegamálum og áfram verður unnið að mikilvægum vegabótum á kjörtímabilinu. Jafnframt mun samgönguráðuneytið standa fyrir sérstökum umferðaröryggisaðgerðum á þjóðvegakerfinu á þessu kjörtímabili. Gert verður sérstakt átak í að sníða af hættulega kafla á vegakerfi landsins og bæta merkingar á vegum um allt land.
Á þessu ári hófst samstarf um byggðamál í tengslum við byggðaáætlun og er markmiðið að styðja sérstaklega við uppbyggingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni næstu þrjú árin a.m.k. Einnig á samgönguráðuneytið í ýmiss konar samstarfi við ferðaþjónustuaðila um allt land í því skyni að gera ferðaþjónstunni kleift að takast á við aukinn fjölda ferðafólks og sífellt meiri kröfur um gæði og þjónustu.
Farþegaskattur hefur verið mikið til umræðu að undanförnu í tengslum við harðnandi samkeppni á flugleiðum og vegna athugasemda ESA sem telur að það samræmist ekki EES reglum að hafa mismunandi skatt í millilandaflugi og innanalandsflugi. Því fól ég Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að meta áhrif farþegaskatts á fjölda flugfarþega.
Í vinnslu þessa máls hafa komið fram vísbendingar um að skatturinn hafi umtalsvert meiri áhrif á flugið en áður hefur verið talið. Verðlagning ferðaþjónustu skiptir mjög miklu máli í því samkeppnisumhverfi sem við hrærumst í. Ég tel óhjákvæmilegt að taka þessa skattlagningu til endurskoðunar og mun beita mér fyrir breytingu á álagningu farþegaskatta til hagsbóta fyrir ferðaþjónustuna.
Þrátt fyrir ágætan árangur og margvísleg framfaraskref er nauðsynlegt að horfa enn frekar til framtíðar og skilgreina þau fjölmörgu verkefni sem bíða ferðaþjónustunnar svo hún megi halda mikilvægri stöðu sinni sem gjaldreyrisskapandi atvinnugrein. Það var því fyrir tveimur árum að ég skipaði nefnd um framtíð ferðaþjónustunnar og fékk henni það stóra verkefni að horfa allt fram til ársins 2030 og leitast við að meta þá sýn sem við blasir og leggja á ráðin um nauðsynlegar aðgerðir svo ferðaþjónustan megi vaxa í sátt við umhverfi landsins.
Tillögur nefndarinnar liggja nú fyrir í þessari skýrslu sem er dreift hér á fundinum og er það von mín að hér sé kominn grunnur til að byggja á nýja stefnu í ferðaþjónustu. Formanni framtíðarnefndar, nefndarmönnum og starfsmanni færi ég mínar bestu þakkir fyrir vel unnin störf.
Með þessari skýrslu framtíðarnefndar, skýrslunni um menningartengda ferðaþjónustu, skýrslunni um heilsutengda ferðaþjónustu og skýrslunni um Auðlindina Ísland tel ég að grundvallarvinnu fyrir stefnumótun íslenskrar ferðaþjónustu liggi fyrir.
Við erum komin á framkvæmdastigið!
Á næstu dögum mun ég skipa þriggja manna stýrihóp sem fær það verkefni að fara í gegnum áðurgreinda vinnu og leggja drög að nýrri ferðamálaáætlun.
Á vegum stýrihópsins starfa síðan tveir undirhópar; annar fær það viðamikla verkefni að vinna tillögur til stýrihóps um þann hluta ferðamálaáætlunar sem snýr að skipulagi, verkefnum og hlutverki stjórnsýslu og annarra þjónustuþátta íslenskrar ferðaþjónustu en hinum er ætlað að gera tillögur um breytt lagaumhverfi greinarinnar. Starfsmaður stýrihópsins verður frá Ferðamálaráði. Stýrihópurinn er fámennur en honum til halds og traust mun ég óska eftir tilnefningum hagsmunaaðila fyrir sérstakan samráðsvettvang, allt að 20 manna en hann mun væntanlega, í samráði við stýrihópinn, halda úti virkri heimasíðu þar sem ALLIR sem við ferðaþjónustu starfa geta komið skoðunum sínum á framfæri. Þeir sem ég mun óska eftir tilnefningum frá eru SAF, Ferðamálasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og stjórnmálaflokkarnir.
Þið heyrið á þessum orðum mínum að ég vil leggja skýrar línur á þessum vettvangi og ég sé ferðamálin verða í algjörum forgrunni í samgönguráðuneytinu á þessu kjörtímabili. Þess vegna hefur verið ákveðið að setja á laggirnar í fyrsta sinn sérstaka skrifstofu ferðamála í ráðuneytinu en ferðamálin hafa hingað til verið á skrifstofu með öðrum og ólíkum málaflokkum og mun skrifstofa ferðamála ásamt Ferðamálaráði koma að vinnu við framtíðar stefnumótun, lagaramma og annað það sem greinin þarf á að halda við upphaf nýrrar aldar. Einnig mun skrifstofan áfram sinna þeim fjölmörgu samstarfsverkefnum sem ráðuneytið kemur að um allt land og erlendu samstarfi.
Ágætu ráðstefnugestir! Það verður spennandi að fylgjast með þeim erindum sem hér verða í dag en meginumræðuefni ráðstefnunnar - markaðssetning Íslands, breyttar áherslur - er mjög brýnt í umhverfi sem tekur stöðugum breytingum og býr oft við mikla óvissu og óstöðugleika. Umræðan er ekki síður brýn þegar fjármagn til markaðsmála hefur stóraukist því allir vilja sjá því varið á þann hátt að gagnist öllum – um allt land.
Stórbrotin náttúra og íbúar sem varðveita menningu sína af kostgæfni er uppskrift að draumastað hvers ferðamanns. Það er von mín að við missum aldrei sjónar á þessari staðreynd og að ferðaþjónustan verði ávallt í fararbroddi við verndun náttúru og menningar þessa lands.
Að lokum vil ég þakka öllum sem komið hafa að undirbúningi ráðstefnunnar; starfsfólki Ferðamálaráðs og fulltrúum ferðaþjónustunnar hér við Mývatn. Ég óska ykkur öllum góðrar ráðstefnu og ánægjulegrar dvalar í fögru umhverfi.