Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. nóvember 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ráðstefnan Athafnakonur - Frumkvöðlakonur

 

Góðir ráðstefnugestir.

Mér er sönn ánægja að ávarpa þessa ráðstefnu sem athafnakonur úr ýmsum áttum standa fyrir. Umfjöllunarefnið er athyglisvert og umræða um það ávallt nauðsynleg – en líklega felst mikilvægi ráðstefnunnar ekki síst í því að hér hittast atorkumiklar konur, ræða saman og læra þannig hver af reynslu annarrar.

Það vakti athygli mína að yfirskrift ráðstefnunnar er frumkvöðlaKONUR – en ekki einfaldlega frumkvöðlar. Þetta þarf hins vegar ekki að koma á óvart þegar kannað er hvað nýjasta útgáfa Íslenskrar orðabókar hefur að segja um frumkvöðla. Þar segir orðrétt:

Frumkvöðull - forgönguMAÐUR, upphafsMAÐUR, brautryðjandi – MAÐUR sem kemur auga á nýja möguleika í atvinnurekstri og hrindir þeim í framkvæmd.

Nú eru konur vissulega líka menn – en ég held að þessi texti endurspegli samt sem áður þá viðteknu hugmynd að frumkvöðull sé yfirleitt karlmaður. Staðreyndin er því miður sú að enn eiga margir bágt með að ímynda sér konur sem frumkvöðla. Þessu þarf að breyta.

Ég held að það sé óhætt að fullyrða að íslenskar konur séu almennt álitnar sterkar og sjálfstæðar – og það orð hefur með réttu farið af konum á Íslandi að þær séu dugmiklar og athafnasamar. Þetta eru verðmætir eiginleikar í frumkvöðlastarfi.

Konur hafa líka um nokkurt skeið getað státað af því að skipa meirihluta þeirra sem sækja sér háskólamenntun á Íslandi - en enginn vafi leikur á því að góð menntun er dýrmætt veganesti fyrir frumkvöðla.

Þrátt fyrir allt þetta eru konur enn ekki nema tiltölulega lítill hluti frumkvöðla hér á landi.

En það er engin ástæða til að örvænta. Konur hafa á undanförnum árum sótt fram í íslensku atvinnulífi og engin ástæða er til ætla annað en að sú sókn haldi áfram. Fjölmargt hefur verið gert til að virkja þann frumkvöðlakraft sem býr ótvírætt í konum þessa lands – og ef marka má áhuga kvennanna sjálfra á að sækja sér frumkvöðlafræðslu er óhætt að fullyrða að framtíðin er björt.

Skemmst er að minnast átaksins Auður í krafti kvenna, sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Íslandsbanki, Morgunblaðið, Deloitte&Touche og Háskólinn í Reykjavík stóðu að og lauk í upphafi þessa árs. Ekki má heldur gleyma Félagi kvenna í atvinnurekstri, en félagið hefur það m.a. að markmiði að sameina konur í atvinnurekstri og efla samstöðu þeirra og samstarf. Að auka sýnileika og tækifæri kvenna í viðskiptalífinu og stuðla að virðingu og verðskuldaðri athygli samfélagsins á framlagi fyrirtækja sem rekin eru af konum, auk þess að hvetja konur til frumkvöðlastarfa.

Þá langar mig að nefna Brautargengisnámskeiðin - en Impra nýsköpunarmiðstöð, sem rekin er á vegum Iðntæknistofnunar, hefur frá árinu 1996 staðið fyrir Brautargengi –námskeiðum fyrir konur sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd. Námskeiðin hafa allt frá upphafi verið haldin í Reykjavík – en það er ánægjulegt frá því að segja að námskeiðið er nú í fyrsta sinn einnig haldið á landsbyggðinni, Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum, þar sem hluti kennslunnar fer fram með aðstoð fjarfundabúnaðar. Námskeiðið byggist upp á fyrirlestrum, verkefnatímum og persónulegri handleiðslu – og markmið þess er að þátttakendur skrifi viðskiptaáætlun, kynnist grundvallaratriðum við stofnun fyrirtækis og öðlist hagnýta þekkingu á þeim þáttum sem lúta að fyrirtækjarekstri, s.s. stefnumótun, markaðsmálum, fjármálum og stjórnun.

Frá upphafi hafa 236 konur útskrifast af Brautargengisnámskeiðunum. Áhuginn hefur verið mikill – og aðsóknin vaxandi. Umsóknir hafa raunar aldrei verið fleiri en nú í haust en 40 konur sóttust eftir þátttöku á námskeiðinu í Reykjavík og 25 á landsbyggðinni. Allar með verulega frambærilegar viðskiptahugmyndir

Í könnun sem Impra gerði síðastliðið sumar meðal útskrifaðra Brautargengiskvenna kom í ljós að meira en helmingur þeirra rekur fyrirtæki, flest í smærri kantinum – en sum stærri, svo sem Kaffitár og No Name, svo eitthvað sé nefnt. Einnig kom fram að almennt töldu konurnar sig færari stjórnendur eftir námskeiðin og voru tilbúnar að mæla með Brautargengisnámskeiðunum við vinkonur sínar. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður, sem sýna svart á hvítu að frumkvöðlafræðslan skilar árangri.

Góðir gestir.

Við konur erum smátt og smátt að eignast frumkvöðlafyrirmyndir, sem er okkur afar dýrmætt. Ég er sannfærð um að það er mikilvægt að konur í frumkvöðlaumhverfinu standi saman – til dæmis með því að halda og sækja ráðstefnur eins og þessa hér í dag. Við eigum framtíðina fyrir okkur.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta