Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. desember 2003 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Afhending Viðskiptaverðlaunanna 2003 og tilnefning Frumkvöðuls ársins 2003

Það er mér sönn ánægja og mikill heiður að fá að afhenda Viðskiptaverðlaunin fyrir árið 2003 og veita viðurkenninguna Frumkvöðull ársins 2003.

Mér finnst það lofsvert framtak hjá Viðskiptablaðinu og Stöð 2 að veita þessar viðurkenningar sem nú eru veittar í áttunda sinn. Þær hafa vakið verðskuldaða athygli og verið þeim sem þau hafa hlotið til margskonar gagns og framdráttar. Jafnframt eru viðurkenningar sem þessar hvati fyrir aðra til að láta til sín taka í íslensku athafnalífi.

Viðskiptaverðlaunin.

Það er stjórnarformaður Kaupþings Búnaðarbanka - Sigurður Einarsson sem hlýtur Viðskiptaverðlaunin 2003. Sigurður hefur staðið í stórræðum á árinu svo eftir hefur verið tekið. Markverðust er vafalítið sameining Kaupþings banka þar sem Sigurður var forstjóri og Búnaðarbanka Íslands í maí síðastliðinn, en með henni varð til stærsti banki landsins: Kaupþing Búnaðarbanki hf.

Kaupþing banki hefur vaxið ört, bæði á innlendum markaði og einnig erlendis. Frá stofnun dótturfyrirtækis Kaupþings í Lúxemborg fyrir sjö árum hafa erlend umsvif bankans stóraukist og er bankinn nú með rekstur í tíu löndum. Eftir þennan stórfenglega vöxt síðustu ára er Kaupþing Búnaðarbanki kominn í hóp tíu stærstu banka á Norðurlöndum og sér ekki fyrir endann á þeirri útrás og áframhaldandi vexti.

Fullyrða má að Sigurður Einarsson eigi öðrum fremur heiðurinn að vexti og viðgangi Kaupþings Búnaðarbanka á undanförnum árum. Sigurður er því vel kominn að Viðskiptaverðlaununum fyrir árið 2003.

Sigurður Einarsson: Má ég biðja þig um að koma hingað og taka við Viðskiptaverðlaunum 2003.

Til hamingju.

Frumkvöðull ársins 2003.

Það er frumkvöðullinn og íþróttagarpurinn Magnús Scheving sem hlýtur viðurkenninguna Frumkvöðull ársins 2003. Ég hef fylgst með Magnúsi í nokkur ár og get ekki annað en lýst yfir aðdáun minni á frumlegum og djörfum hugmyndum hans og þeirri miklu eljusemi og úthaldi sem leitt hefur til þess árangurs.

Magnús hefur verið einstaklega ötull við að þróa hugmyndir sínar um Latabæ sem nú eru að verða að umfangsmikilli starfsemi. Í þeirri uppbyggingu hefur Magnús ekki látið nægja að horfa á innlendan markað heldur beint sjónum sínum að tækifærum erlendis. Þetta hefur leitt til þess að á þessu ári náði hann samningi við bandaríska sjónvarpsstöð um framleiðslu og sýningu á 40 sjónvarpsþáttum um Latabæ í Bandaríkjunum.

Magnús hefur unnið að þróun hugmyndanna um Latabæ í heil 11 ár.

Magnús Scheving er sannkallaður frumkvöðull og góð fyrirmynd.

Magnús: Má ég biðja þig um að koma hingað og taka við viðurkenningunni Frumkvöðull ársins 2003.

Til hamingju.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta