Aðalfundur Samtaka verslunarinnar - FÍS
Fundarstjóri, ágætu fulltrúar á aðalfundi Samtaka verslunarinnar og aðrir góðir gestir.
Árið 1698 var Hólmfastur Guðmundsson hjáleigumaður á Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd dæmur til húðstrýkingar fyrir að hafa selt þrjár löngur, tíu ýsur og tvö bönd af sundmaga til kaupmannsins í Keflavík. Hólmfastur tilheyrði verslunarsvæði kaupmannsins í Hafnarfirði og hafði því brotið gegn verslunarfyrirkomulagi Danakonungs með því að selja fiska sína í Keflavík.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan danskir kaupmenn höfðu einokun til verslunar á Íslandi. Þó hafa breytingarnar í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi sennilega aldrei verið eins miklar og á síðustu 10-15 árum og þá ekki síst núna síðustu misseri. Ríkið hefur næstum alfarið dregið sig út úr beinni þátttöku í atvinnulífinu ef undan er skilin fræðslu- og heilbrigðisstarfsemi. Óbein þátttaka þess sem hluthafa í fyrirtækjum á fjarskiptamarkaði mun og brátt heyra sögunni til. Í kjölfar þeirra miklu breytinga og hræringa í atvinnu- og viðskiptalífi sem við höfum orðið vitni að síðustu misseri hefur spunnist töluverð umræða um samþjöppun, fákeppni og hringamyndun í efnahagsstarfsemi okkar.
- 2 -
Við skulum hins vegar átta okkur á því að hræringarnar eru ekki óeðlilegar í ljósi þeirra tækifæra sem hafa skapast með opnun efnahagslífsins og brotthvarfi ríkisins úr jafn þýðingarmikilli atvinnustarfsemi sem starfsemi banka er. Breytingarnar bera á sinn hátt vitni um grósku í íslensku atvinnulífi, kannske meiri en löngum hefur verið.
Hitt er annað mál að einmitt á tímum hraðra breytinga þurfum við að vera sérstaklega vel á varðbergi gagnvart aukinni samþjöppun og hættunni á hringamyndun í okkar litla samfélagi. Samtök verslunarinnar hafa látið þetta málefni til sín taka samanber yfirskrift aðalfundar samtakanna nú í ár. Samtökin hafa hvatt til öflugs samkeppniseftirlits og sýnt skilning á því mikilvæga hlutverki sem samkeppnisreglur þjóna í nútíma viðskiptalífi.
Frjálst markaðshagkerfi byggir á frelsi í viðskiptum og frjálsri samkeppni. Frelsi er hins vegar vandmeðfarið á hvaða sviði sem er. Frelsi eins getur skapað öðrum ófrelsi og þannig snúist upp í andhverfu sína. Það er á þessu grundvallar viðhorfi sem samkeppnislög byggja, frelsi eins til viðskipta og til að keppa má ekki takmarka möguleika annarra til viðskipta, þjóðfélaginu til skaða. Því er það hlutverk samkeppnisreglnanna að hafa taumhald á atferli fyrirtækja að því leyti sem það atferli heftir starfsemi annarra fyrirtækja til skaða fyrir markmið samkeppnisreglnanna.
- 3 -
Markaðir með fáum fyrirtækjum eru algengir hér á landi sem í flestum ef ekki öllum vestrænum ríkjum. Að tryggja virka samkeppni á slíkum mörkuðum er án efa erfiðasta viðfangsefnið þegar kemur að því að framfylgja samkeppnislögunum. Fákeppnismarkaðir geta verið skaðlegir samkeppni vegna þess að þegar fyrirtæki eru fá á markaði eykst hættan á ólögmætu samráði og því að verðmyndun stjórnist ekki af samkeppni heldur gagnkvæmu tilliti fyrirtækjanna á markaðinum með þeim afleiðingum að verðlagið verður það sama og myndi vera við einokun.
Í samkeppnislögum okkar er að finna ákvæði sem ætlað er að hamla gegn myndun fákeppnismarkaða, en þar á ég við samrunaákvæði laganna. Þeim verður einnig beitt um ólögmætt samráð fyrirtækja, samanber yfirstandandi rannsókn Samkeppnisstofnunar á ólögmætu samráði olíufélaganna. Loks banna íslensku samkeppnislögin misnotkun á markaðsyfirráðum. Slík misnotkun getur falist í óhóflegri verðlagningu. Þannig held ég að samkeppnisyfirvöld séu út af fyrir sig ágætlega vopnum búin til að takast á við þau samkeppnislegu vandkvæði sem gjarnan eru fylgifiskar fákeppnismarkaða. Það er ekki þar með sagt að lögin gætu ekki verið beittari eða framkvæmdin markvissari.
Það hefur oft heyrst að vegna fámennis þjóðarinnar, smæðar hagkerfisins og nálægðarinnar í íslensku samfélagi, þar sem allir þekkja alla, þá séu neikvæð áhrif fákeppnismarkaða meira áhyggjuefni hér á landi en í stærri löndum og útheimti öflugra samkeppniseftirlit, jafnvel önnur úrræði en núgildandi samkeppnislög búa yfir. Aðrir halda því fram á móti að vegna smæðar íslenska hagkerfisins og þar af leiðandi smæðar íslenskra fyrirtækja borið saman við erlenda samkeppnisaðila þurfi að beita öðrum mælistikum við mat á áhrifum samruna þegar metið er hvort leyfa eigi þá eða ekki.
- 4 -
Síðari röksemdin er ekki íslensk uppfinning. Henni hefur verið haldið á lofti í stærri ríkjum en okkar, sem þó eru lítil í samanburði við enn stærri ríki. Þar er því almennt hafnað við mótun samkeppnisstefnu að nauðsynlegt sé að leyfa fyrirtækjum að verða stór, jafnvel markaðsráðandi á heimamörkuðum sínum. Það sé forsenda að fyrirtæki frá smærri ríkjum geti keppt úti í hinum stóra heimi eða varið sókn erlendra fyrirtækja inn á heimamarkaði. Við höfum mörg dæmi um að íslensk fyrirtæki hafi staðið sig vel í samkeppni á erlendri grund án þess að þau hafi fyrst skapað sér markaðsráðandi stöðu hér á landi. Þvert á móti má segja að það að vernda fyrirtæki fyrir samkeppni t.d. með því að leyfa þeim að ná einokun eða markaðsyfirráðum hér á landi sé uppskrift að værukærð og metnaðarleysi.
Það er hins vegar staðreynd að hagkvæmni atvinnurekstrar vex yfirleitt með aukinni stærð enda verði vöxturinn í samkeppni við önnur fyrirtæki. Það er jafnframt ljóst að okkar litla hagkerfi gerir það að verkum að fyrirtæki sem eingöngu starfa hér á landi eiga erfiðara með að ná sömu hagkvæmni í rekstri og fyrirtæki í sömu grein á stærri mörkuðum. Við getum því hvorki bannað fyrirtækjum að vera stór eða að verða stór. Við getum heldur ekki skert athafna- og samningsfrelsi fyrirtækja til að kaupa í öðrum fyrirtækjum einfaldlega vegna þess að þau eru stór og hafa peninga til þess. Inngrip í slík viðskipti verða aðeins gerð með stoð í skýrum reglum og til að vernda lagalega skilgreinda hagsmuni þjóðfélagsins. Efni íslenskra samkeppnislaga er að þessu leyti í samræmi við það hvernig samsvarandi samkeppnisreglum er beitt í öðrum ríkjum Evrópu.
- 5 -
Ég er þeirrar skoðunar að eftir því sem frelsið í viðskiptum verður meira og þátttaka ríkisins í atvinnurekstri minni verður þörfin fyrir eftirlit með því að fyrirtækin hegði starfsemi sinni í samræmi við forsendur frelsisins meiri, t.d. eftirlit með því að samkeppni sé í raun frjáls og að allir sitji við sama borð hvað varðar kauphallarviðskipti svo annað dæmi sé tekið. Þetta liggur í hlutarins eðli. Ég er ekki þar með að segja að eftirlit þurfi að vera yfirþyrmandi bákn viðskiptalífinu til íþyngingar og trafala.
Eftirlitið verður hins vegar að vera nægjanlega öflugt til þess að það veiti fyrirtækjum á markaðinum samkeppnislegt aðhald og stuðli þar með að virkri samkeppni. En samkeppnislegt aðhald getur komið frá öðrum en opinberum eftirlitsaðilum. Ég leyfi mér að velta því upp hér að fyrirtækin sjálf, sem keppinautar og viðskiptavinir markaðsráðandi fyrirtækja sem misnota aðstöðu sína eða fyrirtæki sem sammælast um verð, geta einnig veitt samkeppnislegt aðhald með því að sækja rétt sinn fyrir dómstólum og krefjast skaðabóta úr hendi hins markaðsráðandi fyrirtækis ef brot sannast. Ef lagabreytingar þarf til að þessi leið verði raunhæfari en hún kannske er í dag þá er það nokkuð sem mér finnst full ástæða til að skoða gaumgæfilega.
Eins og kynnt hefur verið þá hef ég nýlega skipað nefnd um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Nefndin skal m.a. taka fyrir hvernig bregðast megi við aukinni samþjöppun og með hvaða hætti skuli þróa reglur þannig að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts. Samkeppnisstofnun hefur tvívegis á undanförnum tíu árum unnið skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl í íslensku atvinnulífi. Sú fyrri kom út 1994 og sú síðari 2001. Í þessum skýrslum var jafnframt samþjöppun í formi markaðshlutdeildar fyrirtækja í öllum helstu atvinnugreinum okkar skoðuð að undanskildum sjávarútveginum.
- 6 -
Báðar þessar skýrslur sýndu að takmarkað gagnsæi eignarhaldsfyrirtækja og fyrirtækjasamsteypa er í íslensku viðskiptalífi og hafði þetta ástand færst til verri vegar á milli skýrslna.
Síðan 2001 hefur orðið mikil uppstokkun á eignarhaldi í íslensku atvinnulífi og viðskiptablokkir hafa riðlast. Könnun sem gerð yrði nú myndi því sýna gjörbreytta mynd af eignarhaldi og valdatengslum.
Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það sé næstum einsdæmi að þjóð búi yfir upplýsingum af því tagi sem þessar skýrslur hafa að geyma. Þessar skýrslur ættu að koma að miklu gagni nú þegar við teljum ástæðu til að skoða þróunina í eigna- og stjórnunartengslum hér á landi í kjölfar þeirra miklu breytinga sem orðið hafa í viðskiptalífi okkar undanfarið og ég vék að í upphafi.
Ein af forsendum heilbrigðs og kraftmikils efnahagslífs er heilbrigð og virk samkeppni. Það er ekki ósennilegt að vegna fámennis þjóðarinnar og smæðar íslensks efnahagskerfis kristallist betur hér en í stærri ríkjum þau samkeppnislegu vandkvæði sem tengjast fákeppnismörkuðum. Hvort þessi einkenni kalli á önnur úrræði en þegar eru til staðar í löggjöf okkar er ekki tímabært fyrir mig að tjá mig um. Stjórnvöld munu taka afstöðu til þessa þegar niðurstaða "viðskiptalífsnefndarinnar" liggur fyrir seinna á þessu ári.