Aðalfundur Samorku.
Ágætu fundargestir.
Ég fagna því að fá að segja nokkur orð í upphafi ársfundar Samorku hér í dag. Þessi fundur er helgaður umræðuefninu íslensk orkustefna, sem fjallað verður sérstaklega um hér síðar í dag af fjölmörgum sérfræðingum. Ég á því miður þess ekki kost að vera viðstödd þá umræðu en fagna því að til hennar skuli vera stofnað á þessum vettvangi. Ég efa ekki að þau erindi er hér verða flutt og umræður um þetta áhugaverða efni munu verða til þess að auðvelda okkur næstu skref við mótun orkustefnu til næstu framtíðar.
En hver er orkustefna Íslendinga?
Stundum hefur verið sagt að íslenskri orkustefnu hingað til hafi mátt skipta upp í fjögur tímabil allt eftir þeim áherslum og þróun sem orðið hefur í uppbyggingu orkugeirans.
Fyrsta tímabilið má telja fram að síðari heimsstyrjöld þegar þjóðin vaknaði smám saman af nauðþurftarstriti fyrri alda og hóf að nýta í smáum stíl vatnsorkuna og heita vatnið.
Annað áherslutímabil orkustefnunnar er vitaskuld tímabil rafvæðingar og uppbyggingar raforkukerfisins, sem hófst um miðja síðustu öld. Telja má að það tímabil hafi tekið tæp 40 ár og lokið með síðustu áföngum byggðalínunnar um 1985.
Um miðjan sjöunda áratuginn hefst þriðja tímabilið sem má kalla stóriðjutímabil og stendur enn yfir þótt ekki hafi verið um samfellda uppbyggingu að ræða.
Fjórða áherslutímabilið er tímabil innlendra orkugjafa í stað innfluttrar olíu, uppbygging hitaveitna og styrking raforkukerfisins sem hófst í kjölfar olíukreppunnar og hefur staðið yfir allt til þessa dags.
Hvert fimmta áherslutímabilið verður vitum við ekki, en ekki er ólíklegt að það gæti orðið tímabil framleiðslu á hreinum orkuberum, sem gætu leyst af hólmi olíueldsneyti í samgöngum og skipakosti.
Orkustefnan endurspeglar áherslur okkar í orkumálum á hverjum tíma. Eins og ég hef hér drepið á hefur okkur heppnast alveg ótrúlega vel að byggja upp orkuumhverfi, sem eftir hefur verið tekið.
Fyrir viku var haldin hér í Reykjavík vel heppnuð ráðstefna helstu álfyrirtækja og orkuframleiðenda víða að úr heiminum. Það vakti athygli þar hve mikil bjartsýni ríkir með aukna álnotkun á næstu tveimur áratugum og tækniþróun í álframleiðslu og ekki síður endurvinnslu sem gerir þennan iðnað sífellt umhverfisvænni. Þó svo að við horfum fram til þess tíma að framleiða okkar eigið eldsneyti með innlendum orkugjöfum virðist allt benda til þess að við eigum enn svigrúm að nýta á hagkvæman hátt orkuauðlindir okkar á næstu áratugum til frekari stóriðju.
Umræður um orkumálefni verið nokkuð áberandi að undanförnu í kjölfar álits svokallaðrar 19 manna nefndar um tilhögun raforkuflutnings. Vonandi sér fyrir endann á þeim deilum er niðurstöður nefndarinnar hafa óneitanlega valdið. Alþingi mun fjalla um málið á næstu vikum og væntanlega samþykkja lög nú á vorþingi. Mörg reglugerðarverkefni koma í framhaldinu í tengslum við hin nýju raforkulög, sem nú eru í undirbúningi.
Þá er orðið brýnt að ljúka við gerð frumvarps um hitaveitur, sem hafin var vinna við fyrir um 2 árum en hefur ekki tekist að ljúka. Þar munu koma að verki sérfræðingar sem Samorka hefur tilnefnt ásamt sérfræðingum iðnaðarráðuneytis.
Fyrstu drög að endurskoðun laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum hafa verið til skoðunar í iðnaðarráðuneytinu á síðustu misserum. Sú stefna hefur verið mörkuð að þau lög taki einnig til rannsókna á vatnsorku þannig að þau munu ná til allra rannsókna á jarðrænum orkulindum. Öll sú lagasetning er ég hef minnst hér á er hluti af umgjörð og stefnumörkun okkar í orkumálum á næstu árum og því er afar mikilvægt að vel sé vandað til þeirrar lagasetningar.
Talandi um orkustefnu get ég ekki látið hjá líða í lokin að minnast á gerð 1. áfanga rammaáætlunar sem nýlega er lokið við. Með gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er þess freistað að samhæfa mat og flokkun virkjunarkosta eftir hagkvæmni þeirra, umhverfisáhrifum auk áhrifa á atvinnuþróun. Þá hefur með þessu verki verið stigið mikilvægt skref til samræmingar og þróunar rannsóknaraðferða vegna náttúrufarsrannsókna, sem auðveldar framhald verkefnisins á næstu árum. Auðvitað þarf orkustefna okkar að taka tillit til þeirra umhverfisáhrifa sem orkumannvirki geta valdið og rammaáætlun mun auðvelda stjórnvöldum og orkufyrirtækjum að stíga eðlileg skref í rannsóknum og undirbúningi virkjana í framtíðinni.
Ágætu gestir.
Ég vona að ársfundurinn verði ánægjulegur og málþing um mótun íslenkrar orkustefnu gefi okkur hugmyndir að áherslum og stefnumörkun næstu ára í orkumálum.
Ég þakka áheyrnina
kk