Ársfundur Orkustofnunar.
Ágætu fundargestir.
Mér er það ánægjuefni að flytja hér nokkur orð í upphafi fyrsta ársfundar hinnar nýju stjórnsýslustofnunar, Orkustofnunar. Fyrir réttu ári samþykkti Alþingi ný lög, annars vegar um Orkustofnun og hins vegar lög um Íslenskar orkurannsóknir. Með þeim lögum var stjórnsýslu- og rannsóknarþáttum skipt upp eftir langa sambúð, en hana má rekja um 50 ár aftur í tímann þegar jarðhitarannsóknir á vegum ríkisins fluttust yfir til raforkumálaskrifstofunnar.
Talið var óhjákvæmilegt að gera slíkar breytingar vegna stóraukinna nýrra verkefna Orkustofnunar í samræmi við ákvæði hinna nýju raforkulaga. Þar er stofnuninni ætlað mjög veigamikið hlutverk og verður nánar fjallað um þær breytingar í sérstöku erindi hér á þessum fundi.
Þrátt fyrir hið aukna stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk sem stofnuninni hefur verið falið var hins vegar talið rétt að Vatnamælingar yrðu áfram um sinn vistaðar innan Orkustofnunar. Sérstakri nefnd, sem skipuð var helstu hagsmunaaðilum á þessu sviði, var falið að kanna hvort unnt væri að efla og styrkja Vatnamælingar með því að sameinast svipaðri starfsemi í öðrum stofnunum eða fyrirtækjum í einni öflugri stofnun á sviði vatnafars. Niðurstaða nefndarinnar liggur nú fyrir og er hún einróma sammála um að stefna beri að sjálfstæðri stofnun eða fyrirtæki um starfsemi á sviði vatnamælinga, vatnafræði og áþekkrar starfsemi. Munu viðræður hefjast innan skamms um hvaða starfsemi á vegum hins opinbera gæti verið hentugt að sameina undir merkjum vatnamælinga.
Enginn vafi er á því að þær markvissu vatnsorku- og jarðhitarannsóknir sem Orkustofnun og áður Raforkumálaskrifstofan hafa unnið að á síðustu fimm áratugum hafa skipt sköpum í nýtingu á orkuauðlind landsins. Fyrstu áratugina var raunar meiri áhersla lögð á vatnsaflið, m.a. vegna þess að tækni við að nýta jarðvarma til raforkuframleiðslu á þeim tíma var skammt á veg komin. Almenna reglan við virkjanarannsóknir hefur verið sú að ríkið hefur annast grunnrannsóknir, yfirlits- og frumáætlanir á virkjunarkostum í vatnsafli. Í jarðhitarannsóknum hefur ríkið síðustu árin aðeins annast almennar grunnrannsóknir og yfirborðsrannsóknir, en fyrr á árum tók ríkið einnig verulegan þátt í kostnaði við jarðboranir og var ástæða þess öðru fremur sú að hitaveitur voru svo vanburðugar fjárhagslega lengi vel fram eftir síðustu öld að ríkið varð að taka þátt í undirbúningskostnaði þeirra.
En þetta hefur heldur betur breyst. Staða okkar Íslendinga í orkumálum er orðin einstök meðal þjóða heims og við þurfum að nýta hana okkur til framdráttar og öðrum til aðstoðar. Nýting orkuauðlinda landsins til raforkuframleiðslu síðustu áratugi, meðal annars fyrir ný álver, hefur verið hröð og farsæl og enginn vafi er á því að nýting orkulinda landsins hefur verið og mun verða einn af grunnþáttunum í efnahagslegri velferð þjóðarinnar.
Það átak er gert var á áttunda og níunda áratug síðustu aldar til að auka notkun jarðvarma sem orkugjafa hefur skilað þeim árangri að um 89% húsnæðis hér á landi er nú hitað upp með hitaveitum og er það að sjálfsögðu einsdæmi. Samkvæmt útreikningum, sem gerðir hafa verið af sérfræðingum Orkustofnunar, hefur sparnaður við jarðhitanotkun á upphitun húsnæðis á árabilinu 1970–2000 samanborið við olíuhitun numið um 330–350 milljörðum króna. Fjárhagslegur ávinningur þjóðarinnar af nýtingu jarðhitans á síðustu áratugum hefur því verið stórkostlegur og í raun ótrúlegur. Möguleikar á enn frekari nýtingu þessarar auðlindar eru margvíslegir í framtíðinni eins og sjá má af því að á síðasta áratug hefur orðið fimmföldun á raforkuframleiðslu jarðhitavirkjana hér á landi.
Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun haustið 2002 kom ítrekað fram hjá fulltrúum þróunarríkja að aukin orkunotkun þeirra væri grundvallaratriði fyrir útrýmingu fátæktar og fyrir framförum og sjálfbærri þróun í þessum ríkjum. Var sú skoðun þeirra vel rökstudd og þekkjum við Íslendingar harla vel hvaða þýðingu aukin orkunotkun hefur haft fyrir alla þróun samfélags okkar á liðnum áratugum.
Annað áberandi umræðuefni fundarins var krafan um aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í orkunotkun heimsins og þá einna helst í hinum þróuðu ríkjum. Því miður er fátt sem bendir til þess enn sem komið er að svo verði á næstu áratugum. Á fundinum var komið á laggirnar óformlegu samstarfi þjóða heims er búa við mikla möguleika á endurnýjanlegum orkulindum, eða hafa áhuga á aukinni notkun þeirra og erum við Íslendingar þar á meðal.
Á síðasta hausti var haldin hér alþjóðleg jarðhitaráðstefna, meðal annars til að minnast 25 ára afmælis Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Það var einkar ánægjulegt að sjá og heyra hve vel hefur til tekist með starfsemi skólans og enginn vafi er á því að efling á starfsemi hans væri eitt farsælasta framlag Íslands til þróunaraðstoðar og til að aðstoða fátækari þjóðir við aðná því alþjóðlega marki að auka endurnýjanlega orkunotkun sína.
Augljóst er því að mjög vaxandi áhugi er á að nýta sérþekkingu og reynslu Íslendinga á jarðhitasviðinu á næstu árum þó svo að verkefni hafi orðið færri en menn höfðu vænst. Um nokkurra ára skeið hafa vonir verið bundnar við öflun jarðhitaverkefna á vegum fyrirtækisins ENEX í Kína með stuðningi íslenskra stjórnvalda. Því miður hafa þær vonir ekki orðið að veruleika svo heitið geti enn sem komið er. Þá hafa nokkur ríki Austur-Evrópu óskað eftir samstarfi við Íslendinga á jarðhitasviði, en þar er vænlegur markaður fyrir uppbyggingu nýrra hitaveitna á næstu árum vegna kröfu Evrópusambandsins um aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í þeim löndum, fyrir árið 2010.
Á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að kosta til helminga á móti Samorku rekstur skrifstofu framkvæmdastjórnar Alþjóða jarðhitasambandsins hér á landi á árunum 2005–2010. Með þeirri ákvörðun munu opnast auknir möguleikar á kynningu og útbreiðslu á íslenskri jarðhitaþekkingu og menningu, og slík starfsemi mun vafalaust geta leitt til aukinna jarðhitaverkefna erlendis.
Ágætu fundargestir,
Á síðustu árum hefur orðið mikil vakning meðal þjóða heims um að nýta vetni sem orkubera og orkumiðlara. Sú þróun hefur ekki síst orðið fyrir áhrif loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna þar sem iðnríki heims hafa undirgengist skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Um 90% olíunotkunar Íslendinga eru vegna olíunotkunar í samgöngum og vegna fiskiskipa og þessi olíunotkun veldur um 70% af losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Því er afar mikilvægt að unnið verði að því að nýta innlendar raforkuorkulindir til þess að draga úr losun þessara lofttegunda strax og það þykir tæknilega mögulegt og hagkvæmt.
Íslensk stjórnvöld mótuðu á árunum 1998-1999 þá stefnu að nýta endurnýjanlegar orkulindir landsins til að framleiða vistvænt eldsneyti í framtíðinni. Þau og helstu orkufyrirtæki landsins stóðu að stofnun fyrirtækisins Íslensk-Nýorka á árinu 1999 ásamt erlendum stórfyrirtækjum. Það fyrirtæki hefur annast undirbúning og framkvæmd tilraunar á notkun vetnisstrætisvagna og hafa þrír slíkir vagnar verið í akstri hjá Strætisvögnum Reykjavíkur undanfarna fimm mánuði.
Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að í framtíðinni verði íslenskt samfélag samfélag hreinna orkulinda og orkubera þar sem vetnisnotkun komi í stað hefðbundinna brennsluefna í samgöngum og skipum. Til að fylgja eftir þessum áformum hefur ríkisstjórnin samþykkt að koma á laggirnar sérfræðiskrifstofu um vistvænt eldsneyti hjá Orkustofnun, en stofnunin hefur eins og kunnugt er verið frá upphafi sérfræðistofnun stjórnvalda um eldsneytismál. Sú starfsemi er ekki síst hugsuð til að annast hina faglegu stjórnun þessa málaflokks fyrir hönd stjórnvalda undir yfirumsjón sérstakrar stýrinefndar skipuð fulltrúum sex ráðuneyta.
Hér í dag mun Ágúst Valfells, sem veitir skrifstofunni forstöðu, flytja erindi um þetta áhugaverða efni, sem ég veit að vekja mun athygli ársfundargesta.
Fyrir þremur vikum var haldin í Reykjavík vel heppnuð ráðstefna helstu álfyrirtækja og orkuframleiðenda víða að úr heiminum. Þar vakti athygli hve mikil bjartsýni ríkir um aukna álnotkun og tækniþróun í álframleiðslu á næstu tveimur áratugum. Þó svo að við horfum fram til þess tíma að framleiða okkar eigið eldsneyti með innlendum og hreinum orkugjöfum virðist allt benda til þess að við eigum enn svigrúm að nýta á hagkvæman hátt orkuauðlindir okkar á næstu áratugum. Ekkert bendir því til annars en að við getum enn aukið orkuframleiðslu okkar án þess að hugsanlega ganga á möguleika okkar til framleiðslu á vistvænu eldsneyti innan eins til tveggja áratuga fyrir samgöngutæki okkar og skipaflota.
Til þeirrar framtíðar eigum við marga ónýtta virkjunarkosti að því séð verður af niðurstöðum 1. áfanga rammaáætlunar, en niðurstöður hennar lágu fyrir í lok síðasta árs. Mikill hluti verkstjórnunar við rammaáætlun hefur hvílt á auðlindadeild Orkustofnunar og mun gera svo áfram. Er ástæða til að þakka hér á þessum vettvangi þeim starfsmönnum er hlut eiga að máli svo og farsælu starfi verkefnisstjórnar um rammaáætlun undir formennsku Sveinbjörns Björnssonar, sem nýlega hefur látið af störfum sem deildarstjóri auðlindadeildar. Honum eru hér með færðar alúðarþakkir fyrir frábært starf.
Ágætu ársfundargestir.
Á síðasta ársfundi Orkustofnunar kvöddum við hina gömlu stofnun með nokkrum trega, enda merkilegu tímabili að ljúka í orkusögu landsins, eins og ég hef fyrr í ræðu minni getið um. Nýtt tímabil í umgjörð orkumála er að hefjast. Breytingar á starfsemi núverandi stofnana, Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna, á síðasta ári hafa gengið afar vel fyrir sig. Fyrir það er ég þakklát öllum þeim sem að því verki hafa komið og raunar öllum starfsmönnum þessara stofnana.
Það hefur verið sagt að nauðsynlegt sé að þekkja sína sögu og skynja rétt sína samtíð, ef ætlunin er að móta stefnu til framtíðar.
Orkusaga Íslendinga er einstök, það erum við sammála um og ég tel að afar vel hafi tekist til um uppbyggingu virkjana og orkuiðnaðar.
Í ljósi þess er ég hef hér sagt er ég sannfærð um að okkur auðnist um ókomna framtíð að móta glæsta íslenska hreina orkustefnu er byggist á áratuga ef ekki alda gamalli baráttu þjóðarinnar við höfuðskepnurnar, eld og ís, sem nú í raun virðast vera orðnir bestu vinir lands og þjóðar í óeiginlegri merkingu. Megi svo verða um langa hríð enn.
Ég þakka áheyrnina.