Aðalfundur SVÞ
Góðir aðalfundargestir. Frjáls verslun getur tekið á sig margar myndir. Fyrir löngu stóðu tvær verslanir sitt hvoru megin við sömu götuna á Ísafirði. Einn daginn var kominn miði í glugga annarrar verslunarinnar þar sem stóð: Egg 1.20 kílóið. Þetta var lækkun úr 1.50 og innkaupsverðið var króna. Daginn eftir var kominn miði í glugga hins kaupmannsins og þar stóð líka: Egg, 1.20 kílóið. Daginn þar á eftir voru eggin hjá fyrri kaupmanninum komin í 1.10 og sá seinni fylgdi í kjölfarið næsta dag. Á endanum voru eggin komin niður í fimmtíu aura hjá þeim báðum og lækkaði ekki meira. En innkaupsverðið var það sama og áður, ein króna. Þannig var það um hríð. Loksins kom að því að fyrri kaupmaðurinn gafst upp og gekk yfir götuna til hins og sagði: Við verðum að hætta þessu, sagði hann. Hætta hverju? spurði hinn. Þessu verðstríði. Ég hef þrefaldað söluna á eggjum, en því meira sem ég sel því meira tapa ég. Ég á ekki í neinu verðstríði, sagði hinn. Vertu ekki með nein látalæti. Þú ert í sama verðstíði og ég. Þú selur eggin á fimmtíu aura eins og ég. En ég tapa ekkert á því. Nei, hvernig ferðu að því? Ég kaupi eggin hjá þér. Nú, þessir kaupmenn komu sér síðan saman um að hætta þessu. Höfðu samráð um að selja ekki með tapi. Var nokkuð athugavert við það, eða hvað? En svo fóru menn að hafa samráð um fleira en að selja ekki með tapi. Og þegar menn eru farnir að hafa samráð um gróða, samráð um að halda verði uppi, þá er farið að spyrna við fótum og opinberu eftirliti komið á laggirnar. Svo styrkjast eftirlitsstofnanirnar og kröfur um aukið eftirlit verða enn háværari. Fyrr eða síðar getur komið að því að eftirlitið verði þrúgandi fyrir atvinnulífið. Við viljum frjálsa verslun. Við viljum auka hana og bæta. Viðskiptalífið sjálft ræður mestu um hvernig til tekst. Verði rík tilhneiging til þess að teygja og toga frelsið, ganga eins langt og frekast er kostur, og jafnvel lengra, er hætt við að komi bakslag. Það hafa orðið gífurlegar breytingar á íslensku viðskiptaumhverfi síðustu árin. Möguleikarnir á að nýta kosti frjálsrar verslunar hafa gjörbreyst. Enda hegða margir sér eins og kálfar sem hleypt er út að vori. Ég hef þá trú að það standi stutt og innan tíðar komist á eðlilegt jafnvægi. En það er ekkert óeðlilegt við það að stjórnvöld hafi áhyggjur af hvert stefnir á vissum sviðum í viðskiptalífinu. Það er hins vegar ekki gott þegar menn í viðskiptalífinu segjast ekki skilja um hvað er verið að tala. Þeir segja að stjórnmálamennirnir hafi áhyggjur þegar fyrirtæki séu sameinuð og þeir hafi líka áhyggjur þegar fyrirtækjum er skipt upp. Það sé ekkert samhengi í hlutunum. En áhyggjurnar lúta ekki að þessu. Oft er hægt að ná betri rekstri með því að sameina fyrirtæki og þá er eðlilegt að það sé gert. Oft er hagkvæmara að skipta fyrirtæki upp og þá er eðlilegt að það sé gert. Það er ekki málið. Áhyggjur mínar sem viðskiptaráðherra lúta að fimm þáttum. Í fyrsta lagi að hagræðing í atvinnulífinu sé ekki ætíð drifkraftur breytinganna heldur valdabarátta stækkandi samsteypa. Í öðru lagi að flókið net fyrirtækjasamsteypu minnki gagnsæi og geri yfirsýn stjórnenda og eftirlitsaðila erfiðari. Í þriðja lagi að stjórnunarhættir fyrirtækja séu ekki eins og best verður á kosið. Í fjórða lagi að fyrirtækjasamsteypur geti knúið fram óeðlilega lágt verð í krafti stærðar og hafi þannig líf og limi birgja, framleiðenda og smærri fyrirtækja í hendi sér. Og í fimmta lagi að bankar séu farnir í krafti afls síns að sækja hraðar fram í atvinnulífinu heldur en eðlilegt getur talist. Eins og margoft hefur komið fram þá vinna stjórnvöld nú að skoðun á þessum og fleiri þáttum og verður niðurstöðu að vænta í haustbyrjun.
II. Góðir aðalfundargestir. Fyrir hundrað árum eða svo voru margir staðir hér á landi þannig settir að enginn sá sér hag í að reka þar verslun eða aðra þjónustustarfsemi. Fólkið sjálft kom sér saman um að koma á fót þeirri þjónustu sem nauðsynleg var til þess að þar væri lífvænlegt. Margir staðir hér á landi eru það fámennir að eitt þjónustufyrirtæki getur varla staðið undir sér, hvort sem það er verslun, bílaverkstæði, trésmiðja eða annað. Á svoleiðis stöðum þýðir ekkert að tala um einokun eða fákeppni. Vandamálið er fámenni. Aðalatriðið er að finna leiðir til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að nota aðstöðu sína þar sem svona stendur á. Samgöngur fara batnandi þannig að þeim stöðum fer fækkandi þar sem svona háttar til. Svipuð saga hefur gerst víða um heim og er dæmi um hvert samkeppni má ekki leiða. Samkeppni um að lækka verð og fara í taprekstur kann aldrei góðri lukku að stýra. Hún hefnir sín alltaf fyrr eða síðar á neytendum. Hins vegar hvetur heilbrigð samkeppni menn til þess að leita leiða til þess að lækka verð, án þess að tapa. Samkeppnin ögrar mönnum til þess að gera betur, finna nýjar leiðir til þess að ná árangri, án þess að fara í taprekstur. Oft á nýtt fyrirtæki sem setur sig niður innan um gamalgróin fyrirtæki meiri möguleika. Nýja fyrirtækið er ekki bundið af gömlum skuldbindingum, siðum og venjum. Það getur byggt rekstrarþættina upp á nýjan hátt án utanaðkomandi afskipta. Raðað þannig upp að allir þættir nýtist að fullu. Gömlu fyrirtækin eru kannski bundin í báða skó. Nýja fyrirtækið selur á lægra verði, eykur stöðugt markaðshlutdeild sína og hagnast. Ef einhver þeirra fyrirtækja sem fyrir eru á markaðnum geta ekki brotist út úr viðjunum hljóta þau að líða undir lok. Þetta er alltaf og alls staðar að gerast og í þessu eru kostir samkeppninnar einmitt fólgnir. Nýjar hugmyndir, nýjar aðferðir, koma fram og ryðja því staðnaða burt til hagsbóta fyrir samfélagið. Hér á Íslandi hafa mörg fyrirtæki helst úr lestinni á undanförnum árum vegna þess að þau hafa ekki staðist samkeppni. En því miður hefur það ekki alltaf leitt til þess að það staðnaða og úrelta hyrfi af vettvangi og eftir yrði heilbrigðara viðskiptaumhverfi. Of mörg þessara fyrirtækja hafa verið endurreist eftir að skuldirnar hafa verið hreinsaðar af þeim á einhvern hátt. Það er nauðsynlegt að hyggja að leiðum á þessu sviði, leiðum sem ekki draga úr viðskiptafrelsi, en gera þennan þátt viðskiptalífsins heilbrigðari.
III. Um áratugaskeið hefur verið litið mjög til opinberra aðila um atvinnusköpun hér á landi. Á meðan þjóðin var að rífa sig upp úr fátækt á síðustu öld var nauðsynlegt að beita margs konar úrræðum og menn báru gæfu til þess að gera það. Menn sameinuðust í samvinnufélögum, samlögum og sameignafélögum, einstaklingar beittu sér einir eða sameinuðust í lokuðum hlutafélögum og svo kom hið opinbera til aðstoðar við verkefni sem aðrir réðu ekki við. Oftast var skortur á fjármagni stærsti þröskuldurinn, en það leystu menn með samstöðu. Nú er þetta breytt. Eins og annars staðar í heiminum hefur löggjöf verið breytt í þá átt að þægilegast er að reka fyrirtæki í hlutafélagsformi. Í auðugu þjóðfélagi gera menn líka kröfu til þess að hafa arð af fjármunum sínum í stað þess að láta arðinn liggja í samfélagslegum verkefnum. Til þess að koma arði til skila er hlutafélagsformið heppilegast. Hlutafélagsformið er líka heppilegast til þess að fjármagna fyrirtæki og það er ekki síst mikilvægt nú þegar fjármagn hefur aukist og framfarirnar byggjast á því að það sé hægt að nýta það á arðbæran hátt. Þær breytingar sem stjórnvöld hafa staðið fyrir á undanförnum árum miða að því að hið opinbera komi fyrst og fremst að atvinnulífinu með því að móta rammann, gera einstaklingum og félögum mögulegt að hefja atvinnurekstur og tryggja almennan grundvöll fyrir atvinnustarfsemi að byggja á. Þrátt fyrir þetta eru kröfurnar til atvinnusköpunar hins opinbera oft miklar, ekki síst á landsbyggðinni. Samkvæmt stefnu í byggðamálum hafa stjórnvöld ýmis úrræði til að takast á við byggðaröskun sem fyrst og fremst byggist á því að jafna samkeppnisstöðu íbúa og fyrirtækja. Góðir fundarmenn, Ég þakka fyrir boðið á aðalfund Samtaka verslunar og þjónustu og óska samtökunum velferðar í mikilvægum störfum. Þakka áheyrnina.