Frumkvöðlaþing Impru, Iðntæknistofnunar, Félags kvenna í atvinnurekstri og Stjórnvísi.
Ávinningur samfélagsins af frumkvöðlastarfi
Góðir gestir.
Það er ánægjulegt að blásið hafi verið til sérstaks frumkvöðlaþings hér í dag, þar sem saman safnast fólk úr ýmsum áttum sem á það sameiginlegt að bera hag frumkvöðla og frumkvöðlastarfsemi fyrir brjósti. Kannanir hafa ítrekað sýnt fram á að í alþjóðlegum samanburði er frumkvöðlastarfsemi mikil á Íslandi. Þetta er auðvitað gleðilegt – en frumkvöðlunum vegnar misvel og ávallt er mikilvægt að velta því fyrir sér hvað megi betur fara í starfsumhverfi þeirra; hvernig hægt sé að styrkja grundvöll þeirra. Þetta er á meðal þess sem hér verður rætt – en markmið frumkvöðlaþingsins er að hvetja til umræðu um þátt frumkvöðla í nýsköpun, starfsskilyrði þeirra og stuðning.
Það skiptir ákaflega miklu máli að frumkvöðlar búi við gott starfsumhverfi – ekki aðeins fyrir frumkvöðlana sjálfa heldur fyrir samfélagið í heild. Ávinningur samfélagsins af öflugu frumkvöðlastarfi er nefnilega mikill. Ávinningurinn felst til dæmis í atvinnuskapandi áhrifum af frumkvöðlastarfsemi en ekki síður í því að frumkvöðlastarfsemi er mikilvægur vettvangur fyrir nýsköpun, sem er almennt viðurkennd sem einn megindrifkrafta hagþróunar og hagvaxtar.
Málefni frumkvöðla hafa verið sérstaklega til umfjöllunar í iðnaðarráðuneytinu undanfarin misseri og það er og hefur verið skýr vilji ráðuneytisins að hlúa vel að frumkvöðlum. Atvinnumálaráðherrar Norðurlandanna samþykktu á fundi sínum haustið 2002 eins konar stefnuskrá um stuðningsumhverfi fyrir lítil nýsköpunarfyrirtæki, frumkvöðla og uppfinningamenn. Með stefnuskránni er samfélagslegt mikilvægi þessara hópa viðurkennt svo og þörfin fyrir sérstakan stuðning við þá. Á meðal þess sem Norðurlöndin hafa skuldbundið sig til með samþykkt stefnuskrárinnar er að efla nýsköpunar- og frumkvöðlaandann almennt, stuðla að auðveldari aðgangi þessara aðila að fjármagni og efla fræðslu og ráðgjöf þeim til handa.
Iðnaðarráðuneytið hefur unnið í þessum anda og gripið til ýmissa aðgerða til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Eitt mikilvægasta skrefið var tekið með setningu laganna um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem tóku gildi fyrir rúmu ári. Markmið laganna er að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að byggja upp innviði og tæknilega getu fyrirtækja, stofnana og frumkvöðla til að takast á við tækniþróun og rannsóknir er henni tengjast sem leiða til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi.
Með lögunum var starfsemi Impru nýsköpunarmiðstöðvar tryggð í sessi og hlutverk hennar nánar skilgreint. Hlutverk Impru er víðtækt og þar fer fram gríðarlega mikilvægt starf í þágu frumkvöðla á Íslandi. Impra er miðstöð upplýsinga og leiðsagnar fyrir frumkvöðla og lítil fyrirtæki. Aðkoma Impru að þessu frumkvöðlaþingi er dæmi um það góða starf sem þar er unnið í þágu frumkvöðla.
Sérstakur Tækniþróunarsjóður var jafnframt settur á stofn með lögunum sem ég nefndi hér áðan. Sjóðurinn heyrir undir iðnaðarráðherra og hefur það hlutverk að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Nú í vor var auglýst í fyrsta skipti eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum. Umsóknarfresturinn rann út um miðjan þennan mánuð og ég get sagt frá því hér að nálægt 100 fjölbreyttar umsóknir bárust. Faglegt mat umsókna er að hefjast og stefnt er að því að ljúka fyrstu úthlutun úr Tækniþróunarsjóði fyrir sumarið. Það verður áhugavert að fylgjast með því hver reynslan af starfsemi þessa nýja sjóðs verður – en það er ljóst að væntingar til hans eru miklar.
Ýmislegt hefur verið gert til að bæta starfsumhverfi frumkvöðla á Íslandi að undanförnu, upptalningin hér að framan er langt í frá tæmandi yfir aðgerðir stjórnvalda í þá átt – en hér verður ekki látið staðar numið. Það má til dæmis nefna að fljótlega mun iðnaðarráðuneytið ásamt Impru hefja vinnu við framkvæmdaáætlun til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum, með það að markmiði að auðvelda stofnun atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáum atvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Staða og starfsumhverfi frumkvöðla er á meðal þess sem sérstaklega verður hugað að við gerð framkvæmdaáætlunarinnar.
Góðir gestir.
Eins og fram hefur komið er markmið þessa frumkvöðlaþings að hvetja til umræðu um þátt frumkvöðla í nýsköpun, starfsskilyrði þeirra og stuðning. Ætlunin er að fá mismunandi sýn, álit og niðurstöður þeirra sem hagsmuna hafa að gæta. Ég fagna þessu framtaki og vænti þess að niðurstöður frumkvöðlaþingsins komi að gagni við þá mikilvægu vinnu sem er framundan hjá stjórnvöldum við að stuðla enn að bættu starfsumhverfi frumkvöðla á Íslandi – íslensku atvinnulífi til heilla.