Ráðstefna Verslunarráðs Íslands um stækkun ESB og íslenska útrás.
Ágætu gestir.
[Sögulegur áfangi]
Síðastliðinn laugardag var sögulegum áfanga í sögu Evrópu náð. Hann markar endalokin á rúmlega fjörtíu ára skiptingu álfunnar. Sú skipting einkenndist af stirðum og oft á tíðum fjandsamlegum samskiptum austurs og vesturs. Vá kalda stríðsins vofði yfir Evrópubúum seinni hluta síðustu aldar og mótaði daglegt líf þeirra. Það svipti stóran hluta þeirra grundvallarmannréttindum og gerði þá að föngum í eigin föðurlandi.
Þegar þetta er rifjað upp gerir maður sér betur grein fyrir því hversu stækkun ESB nú, eru mikil tímamót. Loksins er búið að festa lýðræði, frelsi og önnur grundvallarmannréttindi í sessi í Mið- og Austur Evrópu. Brostnar vonir og svik fortíðar eru nú endanlega að baki og við tekin bjartari tíð. Fáa hefði grunað það fyrir rúmum fimmtán árum að Varsjárbandalagsríkið Pólland yrði bæði aðili að NATO og ESB. Það er því ærin ástæða til þess að samgleðjast nágrönnum okkar í Evrópu og óska þeim til hamingju með þennan glæsta áfanga.
[Stækkun gjörbreytir viðskiptaumhverfinu]
Eins og kunnugt er bættust 10 ný ríki við ESB í upphafi mánaðarins. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í þessum löndum en þó er ljóst að þau eiga enn langt í land með að standa jafnfætis eldri aðildarríkjum í efnahagslegu og félagslegu tilliti. Í nýju ríkjunum búa rúmlega 70 milljónir manna og í stækkuðu Evrópusambandi munu því verða rúmir 450 milljónir íbúa. Neytendum á innri markaðnum hefur fjölgað um tæp 20% en heildarþjóðarframleiðsla ESB jókst hins vegar einungis um 5% á sama tíma.
Stækkunin gjörbreytir starfsumhverfi fyrirtækja á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Samræmdar reglur gilda á öllu svæðinu. Sá laga- og stofnanarammi sem fyrirtæki starfa eftir er traustari og í raun allur annar en samkvæmt þeim fríverslunarsamningum sem í gildi voru fyrir aðild þessara ríkja að ESB.
Stjórnendur evrópskra fyrirtækja gera sér fulla grein fyrir þessum breyttu forsendum og þeim tækifærum sem leynast í nýju aðildarríkjunum. Samkvæmt nýrri könnun fyrirtækisins Deloitte sem náði til 200 stærstu fyrirtækjanna í V-Evrópu hafa yfir 80% fyrirtækja þar meiri áhuga á að fjárfesta í nýju ríkjunum nú en fyrir aðild þeirra að ESB.
Þrátt fyrir að flest nýju ríkjanna hafi búið við miðstýrð hagkerfi en Vestur-Evrópuríki við markaðshagskerfi, er ekki allt sem sýnist í þeim efnum. Til að mynda las ég nýlega að meira frelsi ríkti í pólska orkugeiranum en á sama sviði í Frakklandi og að frjálsræði í bankalöggjöf væri meira í Tékklandi en í Þýskalandi. Það er því ljóst að fjárfestingartækifærin liggja víða.
Þrátt fyrir að menn hafi gert sér dagamun víða í Evrópu hinn 1. maí síðastliðinn ber að árétta að stækkun ESB verður enginn dans á rósum. Stækkunin er stórt og að mörgu leyti erfitt viðfangsefni. Umsóknarríkin óttast atgervisflótta og íbúar Vestur-Evrópu óttast flóðbylgju láglaunafólks frá nýju ríkjunum. Margir telja að stofnanir Evrópusambandsins séu ekki í stakk búnar fyrir 10 ný ríki og enn aðrir telja að stjórnkerfi sumra nýju landanna sé ekki enn komið á það stig að það standist þær kröfur sem eðlilegt er að gera til markaðshagkerfa.
Það er því að ýmsu að hyggja í þessu sambandi. Það er hins vegar afar mikilvægt að stofnun þessa stærsta fríverslunarsvæðis heims takist vel, ekki bara fyrir íbúa ESB og okkur í EFTA, heldur fyrir alþjóðaviðskiptakerfið.
[Tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki]
Við stækkun að ESB var settur á stofn nýr þróunarsjóður EFTA. Markmið sjóðsins er að jafna samkeppnisstöðu og draga úr efnahagslegri og félagslegri misskiptingu innan evrópska efnahagssvæðisins. Ár hvert láta EFTA-ríkin í sameiningu 10 milljarða króna af hendi rakna til uppbyggingar í nýju ríkjunum.
Styrkhæf verkefni í sjóðnum eru m.a. á sviði umhverfisverndar, sjálfbærrar þróunar, þróunar mannauðs og heilbrigðisþjónustu. EFTA-ríkin ákveða á endanum hvaða verkefni hljóta styrk en mikilvægt er að gera sér grein fyrirað verkefnaval er í höndum nýju ríkjanna. Íslensk stjórnvöld eru hins vegar í lykilaðstöðu til þess að aðstoða hérlend fyrirtæki við að koma hugmyndum að verkefnum á framfæri og opna þeim dyr í samskiptum sínum við lykilaðila í nýju ríkjunum.
Ég sé fyrir mér möguleika fyrir íslensk fyrirtæki til dæmis á sviði jarðhitaráðgjafar, hugbúnaðar og framleiðslutækja svo dæmi séu tekin. Auk þess höfum við ýmislegt fram að færa á sviði hafrannsókna og fiskveiðistjórnunar sem Eystrasaltsríkin og Pólland gætu til dæmis lært af. Einnig er hugsanlegt að samstarfsfletir finnist á sviði umhverfismála, háskólamenntunar og heilbrigðismála, þar sem íslenskir sérfræðingar eða fyrirtæki kæmu við sögu.
Við erum útflutningsþjóð og okkur er tamara að tala um útflutning en innflutning. Við megum hins vegar ekki festast í þessari "útflutningshugsun" þó hún láti ef til vil betur í eyrum. Hagstæðari innflutningur og aukin viðskipti landa á milli er drifkraftur hagvaxtar ekki síður en útflutningur. Ég var nýlega stödd í Kína með hópi íslenskra innflutningsaðila og er ég ekki í vafa um að sú ferð á eftir að skila sér í aukinni verslun á milli landanna og lægra vöruverði hér á landi. Í því sambandi er sérstaklega mikilvægt að við náum beinum viðskiptatengslum við aðila í viðkomandi ríkjum í stað þess að nota evrópsk vöruhús sem milliliði, en það leiðir til kostnaðarauka og í sumum tilvikum aukinna álaga.
[Framtíðin ekki eingöngu í okkar höndum]
Efnahagsleg staða Íslands veltur í ríkum mæli á þeim viðskiptakjörum sem við búum við á alþjóðavettvangi. Um 75% okkar utanríkisviðskipta er við Evrópuríki. Það er lykilatriði fyrir okkur að halda viðskiptakjörum okkar við þau sem hagstæðustum.
Við verðum því að fylgjast grannt með þeirri þróun sem á sér stað í alþjóðamálum og þá sérstaklega meðal nágranna okkar. Örlagaþræðir Íslands liggja því miður ekki einungis í okkar höndum.
Hagkerfi okkar er sífellt að breytast og samsetning atvinnulífsins verður sífellt fjölbreyttari. Hvern hefði grunað fyrir nokkrum árum að Íslendingar hefðu keypt ein öflugustu fjarskipta- og lyfjafyrirtæki í Búlgaríu? Fyrir fimm árum hefðu fáir ef nokkur trúað því að alþjóðleg umsvif okkar fjármálafyrirtækja væru orðin svo umfangsmikil sem raun ber vitni. Öll aukning fiskneyslu í heiminum kemur úr fiskeldi. Verður fiskeldi orðin jafnmikilvæg atvinnugrein sjávarútveginum eftir áratug?
Mun þessi þróun kalla á breyttar áherslur og aðra skilmála í milliríkjasamstarfi okkar en hingað til hafa tíðkast?
Enginn getur spáð fyrir um framtíðina en ætli íslensk stjórnvöld að halda Íslandi í fremstu röð í efnahagslegu tilliti verðum við hins vegar að standa alþjóðavaktina, fylgjast náið með veðrabrigðum og taka stímið þangað sem mesta aflavonin er.