Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. maí 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Útskrift Brautargengiskvenna.

Útskriftarnemar, góðir gestir.

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag og afhenda viðurkenningar fyrir viðskiptahugmyndir tveggja kvenna úr kraftmiklum útskriftarhópi Brautargengiskvenna. Um leið langar mig til þess að óska hópnum innilega til hamingju með áfangann. Gangi ykkur vel með hugmyndir ykkar!

Viðskiptahugmyndirnar sem unnið var með á Brautargengisnámskeiðinu að þessu sinni eru afar fjölbreytilegar, enda hafa þátttakendur ólíkan bakgrunn og reynslu. Langt og strangt ferli er nú að baki og afraksturinn, heildstæð viðskiptaáætlun, liggur nú fyrir hjá flestum þeirra. Viðskiptahugmyndirnar voru metnar af sérstakri matsnefnd, sem að þessu sinni var skipuð Berglindi Hallgrímsdóttur, framkvæmdastjóra Impru, Jóni Hreinssyni rekstrarstjóra á Frumkvöðlasetri Impru, Margréti Gunnarsdóttur deildarsérfræðingi á Vinnumálastofnun og Helgu Sigrúnu Harðardóttur, verkefnisstjóra Impru.

Matsnefndin ákvað að veita Sigrúnu Rafnsdóttur meinatækni sérstök hvatningarverðlaun fyrir sína hugmynd.

Sigrún hefur séð ný tækifæri í rótgróinni grein sem hún hefur starfað við um langt skeið. Um er að ræða útfærslu á þekktri aðferðafræði og Sigrún þykir sýna hugrekki og þor en um leið hógværð og raunsæi við að nýta tækifæri sem gefast við uppsetningu á einkarekinni rannsóknarstofu þar sem haft verður að leiðarljósi að skila hratt nákvæmum og réttum niðurstöðum rannsókna. Sigrún hefur fjögurra áratuga starfsreynslu á rannsóknarstofum á vegum hins opinbera, þar af margra ára reynslu sem stjórnandi. Nú hyggst Sigrún færa sjálfa sig, starfsfólk sitt og þá þekkingu og reynslu sem þau búa yfir, nær viðskiptavinunum sem þurfa á þjónustunni að halda.

 

Aðalviðurkenninguna úr hópi Brautargengiskvenna að þessu sinni, hlýtur Elín Ebba Ásmundsdóttir.

Með viðskiptahugmynd sinni um svokallað Hlutverkasetur nær Elín Ebba að tengja samfélagslegan ávinning, atvinnusköpun og virðisauka í fagi sínu við nýja hugmyndafræði og nýja nálgun á viðfangsefnið. Hún byggir verkefni sitt á akademískum rannsóknum, mikilli og langri starfsreynslu, áræðni og dugnaði auk þess sem hún hefur útgeislun sem hrífur aðra auðveldlega með sér. Hlutverkasetrinu er ætlað að sinna starfsendurhæfingu fyrir geðsjúka einstaklinga í bata, koma í veg fyrir örorku meðal þeirra og finna þeim viðeigandi stað í samfélaginu að loknum erfiðum veikindum. Væntingar til Hlutverkasetursins eru miklar og það er trú matsnefndarinnar að Elín Ebba og samstarfsfólk hennar standi undir þeim, enda virðist grunnurinn traustur og stuðningur við verkefnið nú þegar víðtækur.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta