Fagfundur raforkusviðs Samorku
Fundarstjóri, góðir fundargestir!
Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að ávarpa fund ykkar hér í dag. Dagskrá fundarins er ítarleg og fjölbreytt, auk þess sem fyrirhugaðar eru heimsóknir í Fjarðarselsvirkjun og um virkjunarsvæðið við Kárahnúka. Haldið var upp á 90 ára afmæli Fjarðarselsvirkjunar fyrir hálfu ári en hún er elsta starfandi virkjun hér á landi og má kalla hana fyrstu nútíma virkjunina.
Við Kárahnúka er eins og kunnugt er unnið að stærstu virkjun hér á landi fyrr og síðar. Það má því með sanni segja, að menn geti á þessum fundi upplifað mikla sögu með heimsóknum á þessa staði. Þetta er saga er hófst með hægfara rafvæðingu á landsbyggðinni þar sem kostur var á og síðar einnig með stærri virkjunum fyrir helstu bæjarfélögin, Reykjavík og Akureyri. Um miðja öld hófst síðan rafvæðing alls landsins með samtengdu og öflugu raforkukerfi og uppbyggingu orkuiðnaðar sem enn sér ekki fyrir endann á. En umfram allt er þessi saga framfarasaga, uppbygging raforkukerfis þjóðarinnar hefur átt gífurlegan þátt í aukinni hagsæld og framförum á síðari hluta 20. aldar og mun áfram gegna veigamiklu hlutverki við að bæta kjör almennings um langa hríð.
Miklar breytingar hafa orðið í orkuumhverfi okkar á síðasta áratug. Raforkuframleiðslan hefur aukist um tæp 80% og er raforkunotkun á mann hér á landi orðin sú mesta í heiminum. Þá hefur raforkuframleiðsla jarðvarmavirkjana meira en fimmfaldast á liðnum áratug. Á þessu tímabili hefur tekist að skjóta sterkum rótum undir uppbyggingu stóriðju eftir langt stöðnunartímabil og vel lítur út með frekari aukningu hennar á næstu árum.
Helstu lög er varða orkumál eru orðin 20-30 ára og jafnvel enn eldri. Í ljósi breyttra aðstæðna höfum við því eðlilega þurft að huga að breytingum. Eins og kunnugt er voru ný raforkulög samþykkt á Alþingi í mars 2003. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði laganna var gildistöku III. kafla laganna um flutning raforku frestað til 1. júlí 2004, en sérstakri nefnd var falið að gera tillögu um fyrirkomulag flutnings raforku, m.a. um stærð flutningskerfisins og hvernig rekstri þess og kerfisstjórnun skyldi háttað.
Á grundvelli tillagna nefndarinnar hefur verið til umfjöllunar á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á raforkulögum þar sem m.a. er að finna tillögur um breytingar á ákvæðum laganna sem sérstaklega verður fjallað um síðar hér á þessum fundi. Frumvarpið bíður annarrar umræðu í þinginu. Þó svo það verði samþykkt er vinna okkar rétt að byrja með nýjum raforkulögum. Klukkan tifar á okkur og vinna er hafin af hálfu ráðuneytisins, Orkustofnunar, Samorku og orkufyrirtækja við smíði margra reglugerða sem nauðsynlegt er að setja í tengslum við hin nýju raforkulög. Með samvinnu og samstarfi þessara aðila er þess að vænta að okkur takist farsællega til með framkvæmd raforkulaganna á næstu árum.
Mjög aukinn áhugi hefur verið erlendis á að nýta sérþekkingu og reynslu Íslendinga á jarðhitasviði. Þó svo að verkefni á þeim vettvangi hafi orðið færri en menn höfðu vænst hafa vonir verið bundnar við öflun jarðhitaverkefna á vegum fyrirtækisins ENEX í Kína. Þá hafa nokkur ríki Austur-Evrópu nýlega óskað eftir formlegu jarðhitasamstarfi við Íslendinga, en þar er vænlegur markaður fyrir uppbyggingu nýrra hitaveitna á næstu árum vegna kröfu Evrópusambandsins um aukna hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa fyrir árið 2010. Mörg ný aðildarlönd búa yfir möguleikum á nýtingu jarðhita og við eigum mikla möguleika á að nýta styrktarsjóði bandalagsins, þar eð mest áhersla er lögð á að draga úr mengun í þessum ríkjum. Í september s.l. ákvað ríkisstjórnin að Ísland yrði aðili að samstarfi Norðurlanda um stofnun fjárfestingarsjóðs í Eystrasaltsríkjunum til að draga úr losun koltvísýrings frá orkufyrirtækjum í þeimlöndum á næstu 5 árum. Aðild að sjóðnum gefur íslenskum orkufyrirtækjum forgang að áhugaverðum fjárfestingum í endurbyggingu og endurbótum orkufyrirtækja í þessum löndum, sem miðast við endurnýjanlega orkugjafa og/eða draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda í viðkomandi orkuverum.
Þá ákvað ríkisstjórnin á síðasta ári að kosta til helminga á móti Samorku rekstur skrifstofu framkvæmdastjórnar Alþjóða jarðhitasambandsins hér á landi á árunum 2005–2010. Með þeim rekstri munu opnast auknir möguleikar á kynningu og útbreiðslu á íslenskri jarðhitaþekkingu og menningu, og mun sú starfsemi vafalaust geta leitt til aukinna jarðhitaverkefna erlendis.
Okkur Íslendingum hefur vegnað vel undanfarin ár við að byggja upp orkufrekan iðnað í samstarfi við erlenda aðila og ekkert bendir til annars en að eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku muni aukast verulega á alþjóðlegum vettvangi á næstu árum. Það uppbyggingartímabil stóriðju er hefur ríkt hér á landi s.l. 8–9 ár mun væntanlega góðu heilli haldast næstu 5–8 ár ef af líkum lætur. Vissulega þurfum við þó að fara að öllu með gát við uppbyggingu orkulinda okkar. Með byggingu Kárahnúkavirkjunar og gufuvirkjana á Reykjanesi og Hellisheiði vegna stækkunar Norðuráls höfum við náð því marki að hafa virkjað um 14 TWh/ári sem er nálægt 30% af því gufu- og vatnsafli sem hagkvæmt er talið að virkja til raforkuframleiðslu hér á landi að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Hins vegar er nýting og rannsóknir á háhitasvæðum landsins skemur á veg komin en í vatnsafli og leggja þarf auknar áherslur á rannsóknir háhitans á næstu árum.
Til þess að stuðla að meiri sátt um framtíðarnýtingu orkulinda landsins ákvað ríkisstjórnin á árinu 1999 að vinna við gerð svokallaðrar rammaáætlunar um virkjanir. Hér er um að ræða yfirlitsáætlun um virkjunarkosti landsins, flokkun á hagkvæmni þeirra, umhverfisáhrifum sem þeir kunna að valda og hver samfélagsleg áhrif þeirra muni geta orðið. Fyrsta áfanga rammaáætlunar lauk um síðustu áramót og er stefnt að því að vinna við annan áfanga hefjist á þessu ári. Að mati margra sérfræðinga er vel til þekkja er hér um að ræða einstakt verkefni á alþjóðavísu og hefur það vakið nokkra athygli erlendis.
Í næsta áfanga Rammaáætlunar verður verkefnastjórnun mun einfaldari í sniðum en við fyrsta áfanga, enda var þar að mörgu leyti um að ræða brautryðjendaverk, sem við getum byggt á til framtíðar. Nokkuð var gagnrýnt að orkufyrirtæki hefðu ekki átt nægilega marga fulltrúa við vinnu að fyrsta áfanga áætlunarinnar.
Góðir fundarmenn.
Staða Íslendinga í orkumálum er einstök meðal þjóða heims og við þurfum að nýta hana okkur sjálfum til framdráttar og öðrum þjóðum til aðstoðar eftir því sem við á. Um allan heim erofuráhersla lögð á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Okkur hefur tekist að nýta orkuauðlindir landsins til raforkuframleiðslu síðustu áratugi með farsælum hætti sem hefur verið og mun verða áfram einn af grunnþáttunum í efnahagslegri velferð þjóðarinnar.
Herra fundarstjóri
Ég vonast til að fundurinn skili árangursríku starfi og dvöl ykkar hér á Austurlandi, þar sem er að sjá glöggt dæmi um mikilvægi orkunýtingar og orkuiðnaðar fyrir landsbyggðina og þjóðina alla.
Ég þakka áheyrnina.