Alþjóðleg ráðstefna í Bonn um endurnýjanlega orku.
Herra ráðstefnustjóri, ráðherra, háttvirt samkoma
Fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands vil ég þakka ríkisstjórn Þýskalands fyrir það frumkvæði að standa fyrir ráðstefnu þessari um endurnýjanlega orku. Ráðstefnan er rökrétt framhald ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna um sjálfbæra þróun sem haldin var í Jóhannesarborg þar sem fram kom að aukin nýting endurnýjanlegra orkugjafa væri ein mikilvægasta forsenda sjálfbærrar þróunar.
Íslendingar eru svo lánsamir að endurnýjanleg orka, þ.e. orka fallvatna og jarðvarma, nemur nú þegar rúmlega 70% af orkunotkun þjóðarinnar. Við eigum enn ónýtta marga kosti á þessu sviði og nýlegar rannsóknir benda til að nýta megi jarðvarma á enn meira dýpi en hingað til hefur verið gert og þannig auka enn afkastagetu þessarar orkuauðlindar frekar. Af þessari ástæðu erum við ákveðin í því að þróa enn frekar notkun endurnýjanlegrar orku í aukinni iðnvæðingu sem verður þannig alfarið byggð á sjálfbærri nýtingu orku. Jafnframt höfum við miklar væntingar um að í nánustu framtíð megi vera unnt að nýta eldsneyti unnið úr endurnýjanlegri orku, svo sem vetni, til þess að knýja bifreiðar okkar og fiskiskip. Við erum reyndar vongóð um það að sá tími muni koma að við verðum að mestu leyti óháð notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngukerfi okkar. Hvenær sá tími mun koma er háð tækniframförum og hagkvæmni.
Herra ráðstefnustjóri
Á ráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna í Jóhannesarborg kom fram hversu mikilvægt það er að auka orkuframleiðslu og orkunotkun til þess að eyða fátækt í þróunarríkjunum. Síðustu 25 árin hefur Ísland rekið Jarðhitaþjálfunaráætlun Háskóla Sameinuðu Þjóðanna þar sem nemendum hvaðanæva úr veröldinni er kennt hvernig þeir eigi að taka þátt í jarðhitarannsóknum í heimalandi sínu. Í Jóhannesarborg ákváðu fjölmörg ríki að ráðast í sérstakt samstarfsátak sem miðar að því að auka hlut endurnýjanlegrar orku í heiminum. Yfir 50% orkunotkunar á Íslandi byggir á nýtingu jarðvarma og það er trú okkar að nýting jarðvarma sem endurnýjanlegs orkugjafa hafi verið vanmetin víða um heim, en einkum þó í þróunarríkjunum. Ríkisstjórn okkar hefur nú ákveðið að beina athygli sinni að sérstökum samstarfsverkefnum á sviði jarðvarma og hefur af því tilefni samþykkt að veita fé til fyrsta verkefnisins af þessu tagi sem varðar þjálfunarnámskeið um nýtingu jarðvarma í Austur-Afríku. Við vonumst til þess að fleiri lönd muni taka þátt í verkefninu og öðrum vænlegum jarðvarmaverkefnum þannig að nýting endurnýjanlegrar orku muni aukast í þessum löndum og leiða til aukinnar velmegunar og velferðar þar.
Ísland vinnar nú að þróun áætlunar til nokkurra ára um þróunarsamvinnu. Hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að á árunum 2008 – 2009 verði þróunaraðstoð orðin þreföld að nafnverði á við það sem hún er í dag.
Lykilstoð þessar áætlunar er sjálfbær þróun þar sem nýting endurnýjanlegra náttúruauðlinda sem orkugjafa er í aðalhlutverki. Í nánustu framtíð mun Ísland því auka viðleitni sína til þess að leggja fram aukið fé og sérfræðiþekkingu á sviði jarðhita í þróunarríkjunum.
Herra ráðstefnustjóri
Að lokum vil ég láta í ljós ánægju mína með að hafa tækifæri til að taka þátt í þessari ráðstefnu hér í Bonn um endurnýjanlega orku og láta í ljós þakklæti mitt til þýsku ríkisstjórnarinnar fyrir að hafa staðið að skipulagningu hennar. Er ég vongóð um að þetta framtak, sem og niðurstöður ráðstefnunnar, muni færa okkur áleiðis í átt til aukinnar nýtingar endurnýjanlegrar orku í framtíðinni.
Ég þakka áheyrnina.