Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. júlí 2004 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Landsmóti hestamanna 2004

Gleðilega hátíð, hestamenn!

Verið öll hjartanlega velkomin á Landsmót.  Erlenda gesti býð ég sérstaklega velkomna til Íslands um leið og ég þakka þeim tryggð og vináttu við Ísland og íslenska hestinn. 

Ísland skartar fegurð sinni.  Veðurguðirnir hafa verið með okkur þessa daga, að vísu laugað okkur með tárum himins í einni og einni skúr.  Ég lít á skúrirnar sem gleðitár og hrifningu af hestinum.  Þetta staðfestir þá trú okkar allra sem elskum íslenska hestinn, að hann einn sé hestur guðanna – lang flottastur.  Ég flyt hestamönnum og landsmótsgestum kveðju ríkisstjórnarinnar allrar á hátíðarstund.  Ég hef rætt við forystumenn ríkisstjórnarinnar og við erum sammála um að sá stuðningur sem ríkisstjórnin hefur tekið þátt í hafi heppnast vel.  Við teljum að það sé þess virði að halda áfram á sömu braut með því að taka þátt í og leggja fjármagn í ný átaksverkefni.

Vegna hestsins og ævintýranna í kringum hann er í dag eftirsóknarvert að vera landbúnaðarráðherra og í framtíðinni verður sóst eftir að sitja í því ráðherraembætti vegna hestsins og hestamanna, enda vegna átaksverkefnis ríkisstjórnarinnar kemur nú helmingur ráðherra ríkisstjórnarinnar að málefnum hestamanna.  Jafnframt hefur sú breyting orðið á fimm árum að hið gamla góða heiti að vera bóndi, er komið í tísku og heiðursnafnbót þeirra sem eru að byggja upp ný og glæsileg býli í sveitum þessa lands.

Í dag minnumst við frumherjanna sem ákváðu fyrir meira en 50 árum að gera íslenska hestinn að þessum yndislegasta fjölskylduhesti heimsins.  Þúsundir manna um allan heim eiga nú hlutdeild í þessum hesti með okkur.  Hér er uppskeruhátíð.  Aldrei hefur Ísland átt öflugra reiðfólk og jafn mikið úrval gæðinga.  Sjáið börnin, þau sitja hestinn eins og englar.  Sunnlenskir hestamenn hafa unnið þrekvirki hér á Gaddstaðaflötum.

Rístu og sýndu sæmd og rögg

sól er í miðjum hlíðum.

Dagsins glymja hamars högg

heimurinn er í smíðum.

                                                            (Höf. Helgi Sveinsson)

Hér er nú glæsilegasta útivistarsvæði og íþróttavöllur landsins.  Ég þakka brekkunni fyrir undirtektir og þakklæti til sunnlenskra hestamanna með þessu mikla lófaklappi.  Ríkisvaldið hefur nú í fimm ár stutt við átaksverkefni hestamanna með sveitarfélögum, Flugleiðum, KB banka og Bændasamtökum Íslands.  Stofnað hefur verið embætti umboðsmanns/sendiherra hestsins.  Þessi verkefni hafa skapað nýja sókn og sigra.  Hesturinn er íslensk gersemi og okkur Íslendingum ber að tryggja okkar forystuhlutverk.  Ég tel að ríkisvaldið eigi áfram að styðja hestinn og hestamenn í gegnum slík átaksverkefni.

Ágætu gestir.

Verið velkomin á Suðurland.  Hér rísa hrossabúgarðar og hetjur ríða um héruð sem forðum.  Já, lífið er “eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár, sem tilbiður Guð sinn og deyr.  Íslands þúsund ár.”

Hér hefur hestamennskan lifað í þúsund ár.  Hún er hluti af þjóðmenningu okkar.  Fasmikill makki hestsins og töltið þýða, setur okkar hest fremstan meðal gæðinga.

Ágætu landsmótsgestir.

Þetta er íslenskur hestur, tákn landsins, mótaður af landinu.  Hér er mekkan, uppsprettan, forystan í ræktun, ættbókin færð, hér er upprunalandið.  Ábyrgð okkar er mikil gagnvart okkur sjálfum og öllum eigendum íslenska hestsins.

Ágætu erlendu gestir.  Góðir Íslendingar.

Landsmótið er glæsilegra en nokkru sinni fyrr.  Það lofar starf Landssambands hestamanna, Félags Hrossabænda, Félags tamningamanna, Háskólans á Hólum og allra þeirra sem hafa gert reiðkennslu og hestinn að sínu verkefni og áhugamáli í lífinu.  Ég þakka þann metnað sem hestamenn setja á oddinn.  Hér hefur ríkt gleði og vinafundur.  Hér stendur yfir mikið ævintýri.  Hér ómar hláturinn og gleðin.  Hér hefur verið faðmast og kysst.  Við höfum séð það besta í íslenskri hrossarækt og reiðmenningu.  Miklar framfarir og jafn betri hesta en áður.  Hesturinn er skaparans meistaramynd, er mátturinn, steyptur í hold og blóð, eins og skáldið orðaði það.

Ég ætla hér að lokum að heiðra Tone Kolnes, formann FIVE.  Hún hefur í 14 ár gegnt forystu í samtökum sem um heim allan eru að berjast fyrir íslenska hestinum.  Hún er hinn dæmigerði Íslandshestamaður, elskar Ísland, hér giftist hún sínum norska manni, Per, fyrir 28 árum.  Hún er nú fremst meðal jafninga í því starfi sem unnið er erlendis í okkar þágu og íslenska hestsins og hestamanna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta