Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

5. júlí 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Ársfundur Byggðastofnunar.

Ágætu ársfundargestir.

Nú er gildistími byggðaáætlunar fyrir árin 2002 til 2005 hálfnaður, en áætlunin var samþykkt á Alþingi í maí 2002. Í örstuttri samantekt má segja að megininntak hennar sé að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla - atvinnulíf, - menntun og - samfélagslega grunngerð. Til að ná þessum markmiðum hefur fjölda verkefna verið hrundið í framkvæmd og verður ekki annað sagt en að þar hafi flest gengið vel og samkvæmt áætlunum. Ég hef ekki tækifæri til að rekja þau verkefni að þessu sinni en vil benda á upplýsingarit sem liggur hér frammi. Þar er greint frá nokkrum þessara verkefna, en tilgangur útgáfunnar er að gefa einfalda en skýra yfirlitsmynd af stöðu framkvæmdar áætlunarinnar eins og hún var í upphafi þessa árs.

Eins og titill þessa rits ber með sér hefur við framkvæmd byggðaáætlunarinnar fyrst og fremst verið lögð áhesla á: þróun byggðar á grundvelli þekkingar og nýsköpunar. Þetta er ný nálgun, sem er í samræmi við þær öru breytingar sem íslenskt samfélag hefur gengið í gegnum á síðusta áratug og sem mun gæta í enn ríkari mæli á komandi árum. Orsakir breytinganna má fyrst og fremst rekja til hraðra framfara í upplýsinga- og samskiptatækni - sem Netið er gleggsta dæmið um - og einnig til þeirrar miklu alþjóðavæðingar sem sett hefur mark sitt á íslenskt atvinnulíf og drifið áfram sókn þess í útlöndum. Þrátt fyrir að margir hafi fundið fyrir vaxtarverkjum þessara breytinga verður ekki undan þeim vikist. Í þessu sambandi er sóknin besta vörnin, eins og svo oft áður, og því er framundan er að afla þekkingar og reynslu sem nýtist til nýrrar sóknar með afurðir sem byggja á íslenskum sérkennum. Þannig getum við skapað okkur viðskiptalegt samkeppnisforskot í alþjóðlegu samhengi.

Það gefur auga leið að aðlögun atvinnulífsins að þessum breytingum er jafn mikilvæg öllum landsmönnum. Hún hefur þó reynst auðveldari í hringiðu athafnalífsins á höfuðborgarsvæðinu en víðast annarsstaðar og á meðan svo er heldur rekstur sértækra byggðaaðgerða gildi sínu og réttmæti. Markmið þeirra mun áfram verða að leita jöfnunar í lífskjörum með uppbyggilegum aðgerðum eins og lagður er grunnur að í framkvæmd núverandi byggðaáætlunar.

Svo umfangsmikið verkefni er þó enganvegin á færi eins ráðuneytis enda snerta málefni landsbyggðarinnar málefni allra ráðuneyta og stofnana þeirra. Veigamestu verkefnin hafa því verið unnin í nánu samráði við önnur ráðuneyti eins og menntamálaráðuneyti - um nýjungar í menntamálum á öllum skólastigum og með samgönguráðuneyti - um verkefni á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu. Þetta samstarf ráðuneytanna hefur verið mjög farsælt en hvert ráðuneyti sér um framkvæmd þeirra samstarfsverkefna sem tilheyra málaflokki þess.

Segja má að búið sé að skipuleggja allt starfið er tengist framkvæmd byggðaáætlunarinnar til ársloka 2005. Tvö stór verkefni eru að fara af stað þessa dagana. Veigamest þeirra er framkvæmd byggðaáætlunar fyrir Eyjafjarðarsvæðið. Til grundvallar liggur sú skoðun að lykillinn að árangri fyrir svæðið sé að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins, en í því felst m.a. að - efla skólastarf; - bæta skilyrði til að stunda vísindastarfsemi, rannsóknir og þróun; - efla framboð á sértækri heilbrigðisþjónustu; - styrkja ferðaþjónustu; og - fjölga störfum sem krefjast sérþekkingar. Með öðrum orðum er byggt ennfrekar á helstu styrkleikum svæðisins á sviði matvælaframleiðslu, heilbrigðis-, skóla-, og ferðaþjónustu.

Byggðaáætlun fyrir Eyjafjarðarsvæðið er til þess fallin að styrkja uppbyggingu þéttbýlis á Akureyri sem jafnframt getur orðið meginþáttur styrkingar búsetu á Norðurlandi. Einkum munu nágrannasvæðin í Skagafirði og Þingeyjarsýslum hafa mikinn efnahagslegan, mennigarlegan og félagslegan ávinning af eflingu Eyjafjarðarsvæðisins, ekki hvað síst er alla þjónustu varðar. Jafnframt er nokkuð ljóst að um leið og ákveðin kjarnabyggð styrkist á Norðurlandi, hefur það ekki aðeins áhrif á nærliggjandi byggðarlög, heldur einnig á þau byggðarlög sem fjær liggja þungamiðju svæðisins. Þannig mun byggðin á öllu Norðurlandi og yfir á Norð-Austurland væntanlega njóta þessa. Segja má að öflugur þéttbýliskjarni, sem er innan tveggja til þriggja klukkustunda akstursleiðar, bætir grannsvæðunum aðgengi að þjónustu, afþreyingu, menningarstarfsemi, menntun, sérhæfðri heilbrigðisþjónustu og styrkir þar með búsetuskilyrði þeirra. Skilyrði til atvinnurekstrar batna einnig vegna nálægðar við þjónustu, stærri markað og fleiri viðskiptartækifæri, auk þess sem ferðamannastraumur eykst til þessara svæða.

Samkomulag hefur náðst á milli 10 lykilaðila um framkvæmd þessarar áætlunar og verður nú eftir helgina gengið frá svokölluðum vaxtarsamningi um aðgerðir á þriggja ára tímabili sem er til þess fallin að efla samkeppnishæfni atvinnulífs, skjóta styrkari stoðum undir sjálfbæran hagvöxt og bætt búsetuskilyrði.

Byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð er mikilvægur hluti af því meginmarkmiði áætlunarinnar: - "að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla þau byggðarlög sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og bestu möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu". Á gundvelli þessa hafur einnig verið unnið að framkvæmd byggðaáætlunar fyrir Vestfirði, sem byggir á fyrirliggjandi tillögum heimamanna sjálfra. Þriðja byggðarlagið sem fengið hefur sérstaka athygli á grundvelli þessa markmiðs er Mið-Austurland. Verkefnin þar eru annars eðlis en víðast hvar annara staðar og einkennast öðru fremur af örum vexti vegna stóriðju og virkjunarframkvæmda.

Hitt verkefnið sem er að fara í gang um þessar mundir er samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytis, menntamálaráðuneytis, sjávarútvegsráðuneytis og Háskólans á Akureyri - um tækniþróun og nýsköpun á sviði líftækni. Einn helsti tilgangur samkomulagsins er að tryggja að veigamiklar rannsóknir sem snerta framtíðarþróun íslensks atvinnulífs verði stundaðar á landsbyggðinni. Rannsóknir og þróunarstarf í líftækni byggir m.a á auðlindum sjávar og getur einnig tengst landbúnaði auk iðnaðarframleiðslu. Í ljósi þessa er eðlilegt að horft sé til landsbyggðarinnar þegar finna á farveg fyrir samstarf á sviði líftækni. Þar eru fyrirtækin og reynsluna að finna og við Háskólann á Akureyri er kjörið umhverfi til að takast á við þróunarverkefni af þessu tagi.

Þrátt fyrir núverandi Byggðaáætlun gildi til ársloka næsta árs er engu að síður tímabært að fara að huga að gerð nýrrar áætlunar fyrir tímabilið 2006–2009. Í meginatriðum tel ég að vinna megi út frá markmiðum núverandi áætlunar, þ.e. að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni með því að efla atvinnulíf, menntun og samfélagslega grunngerð byggðarlaganna. Áfram verður unnið að styrkingu byggðakjarna og áfram verður styrking atvinnulífsins í brennidepli. Auðvitað koma inn nýjar áherslur og ný verkefni - og reynslan af starfi okkar síðustu árin þarf að nýtast okkur í áframhaldandi vinnu. Í því sambandi þarf að meta það sem best hefur gengið og einnig það sem betur hefði mátt fara. Stefnumótunarvinnan þarf að fara í gang næsta haust og vil ég að Byggðastofnun komi ákveðið að þeirri vinnu með ráðuneytinu. Á grundvelli þeirrar viðarmiklu þekkingar sem finna má innan veggja Byggðastofnunar sé ég fyrir mér að stofnunin leggi fyrir ráðuneytið hugmyndir um ný áhersluatriði í september og að meginþungi vinnunnar hefjist í kjölfar þess.

Ágætu ársfundargestir.

Í 3. gr. laga um Byggðastofnun stendur að iðnaðarráðherra skipi á ársfundi sjö menn í stjórn stofnunarinnar til eins árs í senn og sjö menn til vara - og skipi jafnframt formann og varamann. Það er skemmst frá því að segja að stjórn Byggðastofnunar verður óbreytt á því starfsári sem nú fer í hönd. Ég vil þakka stjórnarformanni og stjórn fyrir ágætt starf á síðasta ári og óska henni farsældar á nýju starfsári. Þá vil ég þakka starfsmönnum Byggðastofnunar fyrir vel unnin störf og gott samstarf.

Ég þakka áheyrnina.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta