Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. júlí 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Með höfuðið hátt.

Formaður undirbúningsnefndar, góðir gesti,

Það er mér mikill heiður og ánægja að fá að vera með ykkur hér í kvöld og setja ráðstefnuna "Með höfuðið hátt" sem er umræðuvettvangur ungs fólks um búsetuskilyrði á Vestfjörðum.

Að þessu framtaki stendur þverpólitískur hópur fólks úr ungliðahreyfingum stjórnmálaflokkanna og óháðir.

Ég vil lýsa aðdáun minni á þessu framtaki unga fólksins. Yfirskrift ráðstefnunnar "Með höfuðið hátt" er lýsandi fyrir þann hug sem unga fólkið ber til átthaganna og þann vilja að vinna Vestfjörðum vel.

Í dagskrá ráðstefnunnar kemur fram mikill metnaður og víðsýni. Auk þess hefðbundna sem fjallað er um á ráðstefnum almennt af þessum toga, verður fjallað um Evrópumál og sýnist mér unga fólkið sýna dirfsku og kjark með þeirri ákvörðun. Ég hef í starfi mínu sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagt mig fram um að efla atvinnulíf á landsbyggðinni enda fer ég með byggðamál, svo sem ábyrgð á gerð byggðaáætlunar og málefni Byggðastofnunar.

Sérstök verkefnisstjórn er að störfum um byggðaþróun fyrir Vestfirði og starfar hún á grundvelli Byggðaáætlunar fyrir Vestfirði, sem unnin var af Vestfirðingum, en verkefnisstjórnin starfar á ábyrgð iðnaðarráðuneytisins.

Nokkur verkefni sem unnið er að eru komin á góðan rekspöl, svo sem uppbygging rannsókna á sviði eldis- og veiðarfæratækni í Þróunarsetri hér vestra.

Samstarfssamningur við Menntamálaráðuneyti hefur verið undirritaður, sem kveður m.a. á um Háskólasetur á Ísafirði og í samstarfi við samgönguráðuneytið hefur verið varið þónokkrum fjármunum til álitlegra verkefna í ferðaþjónustu.

Góðir gestir.

Markmiðið með þessari ráðstefnu unga fólksins er að koma fram með raunhæfar umbótatillögur eins og segir í fundarboði. Þetta er sett fram af hógværð, en þó dylst engum að það er verið að tala um auknar framfarir og bjartari framtíð fyrir byggðarlagið.

Ég leyfi mér að segja fyrir hönd okkar allra sem hér erum í kvöld að við eigum þar sameiginlegt markmið.

Vestfirðir skarta sínu fegursta á þessum árstíma og ferðamannastraumur hingað fer vaxandi.

Ég segi það stundum að líf okkar hér á þessari afskekktu eyju sé ævintýri út af fyrir sig. Þar skiptir fjölbreytileikinn miklu máli. Vestfirðir eru mikilvægur þáttur í þeirri heildarmynd sem gerir okkur að stoltum Íslendingum.

Ég segi ráðstefnuna "Með höfuðið hátt" setta.

Gangi ykkur vel.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta