Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. ágúst 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Hönnunarsýning í Gerðarsafni.

Góðir gestir.

Ég vil þakka þann heiður sem mér er sýndur að fá að opna þrjár hönnunarsýningar hér í Gerðarsafni í kvöld. Sýningu á verkum þeirra Hans J. Wegner og Börge Mogensen ásamt sýningu á íslenskri húsgagnahönnun.

Á tímum vaxandi samkeppni þar sem allt er breytingum undirorpið, skiptir hönnun sífellt meira máli. Góð hönnun er grunnur að verðmætasköpun og aukinni samkeppnishæfni hvort sem er meðal einstaklinga, fyrirtækja eða jafnvel þjóða. Velgengni samfélags okkar byggist ekki síst á framsækni og djörfung þeirra sem byggja landið. Íslenskir hönnuðir hafa sýnt og sannað að verk þeirra eiga fullt erindi á erlenda markaði, íslensk hönnun vekur athygli hvar sem hún er sýnd. Að sama skapi er það mikilvægt framlag Gerðarsafns að sýna verk þeirra Hans J. Wegner og Börge Mogensen, enda er dönsk hönnun löngu heimsfræg og því mikilvægur innblástur fyrir okkur Íslendinga.

Í upphafi kjörtímabilsins setti ríkisstjórnin sér það markmið að auka fjölbreytni atvinnulífsins og bæta samkeppnisstöðu Íslands. Nýsköpun er án vafa mikilvægasta forsenda þess að unnt sé að ná þessu markmiði. Í nýsköpun felst að til verður ný afurð, framleiðsluaðferð eða þjónusta. Þarna spilar hönnun stórt hlutverk, en framsækin hönnun er ein af hornsteinum nýsköpunar.

Eins og hér hefur komið fram þá var þann 1. apríl s.l. opnuð í París íslenska hönnunarsýningin Transforme að frumkvæði iðnaðarráðuneytisins. Þetta er ein umfangsmesta sýning sinnar tegundar sem ráðist hefur verið í af okkar hálfu. Markmiðið með sýningunni var að koma íslenskri hönnun á framfæri og kynna þá framsækni og sérstöðu sem íslenskir hönnuðir hafa tileinkað sér. Vakti sýningin mikla athygli og er ljóst að sóknarfæri eru fyrir íslenska hönnuði erlendis.

 

Samstarfsvettvangur um hönnun, sem stofnað hefur verið til, er ætlað að efla íslenska hönnun og koma íslenskum hönnuðum á framfæri

Unnin verður úttekt á þýðingu hönnunar fyrir íslenskt atvinnulíf sem verði grunnur að stefnumörkun fyrir stjórnvöld og leiðarvísir að aðkomu og stuðningi ríkisins til lengri tíma litið.

 

Ég er þess fullviss að þessi metnaðarfulla sýning hér í Gerðarsafni muni auka enn áhuga almennings á hönnun og sé mikilvægt skref í átt að sókn íslenskrar hönnunar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Eyjólfi Pálssyni innilega fyrir hans mikla framlag til íslenskrar hönnunar. Hann hefur í áratugi verið í fararbroddi á sviði hönnunar og barist fyrir málefnum hönnuða. Ég veit að honum hefur oft fundist hægt ganga, en e.t.v. eru eitthvað bjartari tímar framundan.

 

 

Til slut har jeg lyst til at takke Fru Marianne Wegner, som er Hans J. Wegners datter og er med os her i aften, for hendes hjælp ved forberedelsen af denne udstilling og for at hun gav lov til at vi fik bruge Wegners design. Tusind tak skal du ha´ og velkommen til Island.

Ég lýsi hér með sýningarnar formlega opnaðar. Kærar þakkir.

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta