Þing Neytendasamtakanna
Ágætu þingfulltrúar, forystufólk og trúnaðarmenn Neytendasamtakanna.
Það er mér mikil heiður að fá að ávarpa ykkar þing sem landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins og síðast en ekki síst sem neytandi. Minn flokkur fer með málefni neytenda í þessari ríkisstjórn og flyt ég ykkur bestu kveðjur frá Valgerði Sverrisdóttur ráðherra neytendamála.
Sem neytandi geri ég mér grein fyrir því hve mikilvægt er fyrir þjóðfélagið og íslenska neytendur að hafa sterk félagasamtök eins og Neytendasamtök Íslands sem gæta hagsmuna litla mannsins í viðskiptaheimi þeirra stóru og sterku. Það er því engum blöðum um það að flétta að starf ykkar er mikilvægt og er það mat mitt að Neytendasamtökunum hafi oftast tekist að taka málefnalega á þeim málum sem upp hafa komið í þjóðfélagsumræðunni hverju sinni.
Ágætu þingfulltrúar.
Hagsmunir landbúnaðararins og neytenda liggja saman og má í raun segja að án hins gæti hvorugt þrifist. Íslenskur landbúnaður hefur frá örófi alda verið ein af undirstöðuatvinnuvegum okkar Íslendinga og brauðfætt þjóðina allt frá landnámi. Nær alls staðar í landinu þar sem mögulegt var að fá beit fyrir ærnar eða tuggu í kýrnar setti fólk sig niður og framfleytti sér. Án efa varð þetta til þess að nær allt landið byggðist. Gamla tóftarbrotið vitnar um strit forfeðra okkar, strit og tár þess liðna.
Í dag er staðan sú að íslenskur landbúnaður hefur sl. 10-15 ár gengið í gegnum einhverjar þær mestu breytingar sem átt hafa sér stað í sögu hans. Kröfur neytenda til landbúnaðarins aukast sífellt bæði hvað varðar verð og gæði og reynir því æ meira á íslenska bændur að standa sig og skila neytendum þeirri vöru sem þeir svo gjarnan vilja fá.
Þegar rætt er um íslenskan landbúnað verður að hafa hina fjölþættu hagsmuni neytenda og sveitanna að leiðarljósi. Gæði íslenskra landbúnaðarrafurða er óvéfengjanleg og er erfitt að finna álíka gæði annars staðar á byggðu bóli.
Ég tel t.d. afar mikilvægt sem íslenskur neytandi að geta treyst því að þau matvæli sem ég versla hér séu í lagi og beri ekki sjúkdóma sem gætu reynst mér og mínum lífshættuleg. Ég minnist þess sjálfur er ég heimsótti Kína að hafa orðið einum slíkum sjúkdómi að bráð. Ég vil ekki leggja slíka lífsreynslu á nokkurn mann. Hver hér inni man ekki eftir kúariðunni í Evrópu og óttanum sem fylgdi þeirri umræðu. Hversu margir voru þá þakklátir íslenskum bændum og okkar matvælaöryggi ?
Ég minni á það að sl. vetur þurfti landbúnaðarráðuneytið að auglýsa bann við innflutning frá Bandaríkjunum, Kína, Tælandi, Suður-Kóreu, Víetnam, Japan, Tævan, Kambódíu, Indónesíu, Laos, Pakistan og Hong Kong vegna Avian Inflúensu eða fuglaflensu sem er skæður fuglasjúkdómur sem borist getur í menn og aldrei hefur greinst á Íslandi. Bannið náði til lifandi fugla, frjóeggja og hrárra og soðinna afurða alifugla frá ofangreindum löndum. Svona bönn virka oft í umræðunni sem duttlungar og sérhagsmunir. En liggur nokkuð við, já líf liggur við, heils og hamingja barna okkar, að öryggi okkar verði ekki ógnað.
Því tel ég afar brýnt að tryggja áframhaldandi hreinleika og heilbrigði íslensks landbúnaðar og því fæðuöryggi sem íslenskur landbúnaðar veitir, viðhaldist samhliða góðri samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Með hag neytenda og íslensk landbúnaðar að leiðarljósi var m.a. gefin út reglugerð á síðasta ári sem tryggir rekjanleika búfjárafurða frá fæðingu til sölu afurða til endaneytenda. Markmiðið með þessari reglugerð er að styrkja matvæla- og búfjáreftirlit á íslenskum búfjárafurðum.
Ágætu þingfulltrúar.
Íslenskur landbúnaður mun þurfa að keppa við innfluttar afurðir í meira mæli en áður hefur þekkst, ekki spurning um hvort heldur hvenær ! Staða mála innan WTO er með þeim hætti að það er fyrirsjáanlegt að frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir mun aukast. Það er því afar mikilvægt að íslenskur landbúnaður sé vel í stakk búinn til að mæta aukinni samkeppni. Á þetta lagði ég áherslu við gerð nýs mjólkursamnings við Bændasamtök Íslands, þar lagið ég einnig áherslu á það að sú hagræðing sem átt hefur sér stað í mjólkurbúskapnum skilaði sér í auknum mæli til neytenda og vil ég hér minna á mikilvægi þess fyrir íslenska neytendur, mjólkurframleiðendur og mjólkuriðnaðinn, að viðhaldið sé gagnsæi í verðlagningu á mjólkurvörum. Staðan á dagvörumarkaði í dag er þannig að það er beinlínis lífsspursmál fyrir heilbrigða samkeppni á þeim markaði að skipulag mjólkuriðnaðarins haldist. Þetta er í raun síðasta vígið fyrir “kaupmanninn á horninu” sem annars yrði kraminn af hinum stóru. Það er alveg ljóst að það er neytendum framtíðarinnar fyrir bestu að hér ríki ekki einokun eða fákeppni á dagvörumarkaði. Slík staða er ekki vænleg fyrir íslenskt samfélag og íslenskar neytendur. Það er því ljóst að það er beinlínis sameiginlegt hagsmunamál bænda og neytenda að viðhalda gagnsæri verðlagningu í mjólkuriðnaði.
Ágætu þingfulltrúar.
Nýlega lauk störfum nefnd viðskiptaráðherra sem fjallaði um íslenskt viðskiptaumhverfi. Margt af því sem nefndin fjallaði um skiptir neytendur miklu. Nú er unnið að því að útfæra tillögur nefndarinnar og má reikna með að viðskiptaráðherra kynni lagafrumvörp er varða neytenda- og samkeppnismál á næstu dögum. Tillögurnar tóku ekki aðeins til stjórnsýslunnar á þessu sviði heldur einnig til heimilda samkeppnisyfirvalda.
Hvað stjórnsýsluþáttinn varðar lagði nefndin til að eftirlit með samkeppnishömlum verði aðskilið öðrum verkefnum sem Samkeppnisstofnun sinnir í dag. Með þeim hætti verði lögð skýrari áhersla á samkeppniseftirlitið. Það skiptir neytendur á okkar litlu mörkuðum afar miklu máli að samkeppniseftirlit sé öflugt. Þá er einnig lagt til að samkeppniseftirlit fái auknar heimildir, m.a. til að krefjast skipulagsbreytinga hjá fyrirtækjum. Með slíkt vald þarf auðvitað að fara varlega og aðeins að beita í ýtrustu neyð.
Ég hvet Neytendasamtökin til að kynna sér vel þau frumvörp sem lögð verða fram á næstunni og taka þátt í því opna umræðuferli sem þau verða sett í. Það er okkur öllum mikilvægt að sem mest umræða eigi sér stað um þessi mál og að sem mest samstaða geti náðst um fyrirhugaðar breytingar.
Ágætu þingfulltrúar.
Nú er skollið á kennaraverkfall, sem hefur mikil áhrif á börn og foreldra. Ég ætla ekki hér að fjalla um þetta verkfall, tel sjálfur að kennarar eigi að hafa góð laun – en verkfall sé í dag úrelt og taktlaus lausn, sem skaðar mest stétt þeirra sem því beita og bitnar á saklausum aðila, sem í þessu tilfelli eru bæði börn og foreldrar. Ég ætla hins vegar af þessu tilefni að velta fyrir mér framtíðarneytendum þessa lands þ.e.a.s. börnum og ungmennum dagsins í dag, hvort ekki þurfi að stokka skólastarfið upp.
Ég hef alltaf horft öfundaraugum til þeirra þjóða sem eru með íþróttastarfið í skólakerfinu sjálfu. Ég tel að lífsins vegna og framtíðarinnar vegna verðum við að efla íþróttir og hreyfingu barna og unglinga. Ég tel að við verðum að stórefla íþróttaiðkun í skólakerfinu og færa stóran hluta af íþróttastarfinu inn í skólakerfið. Íþróttir eiga að vera almenningseign en ekki séreign fárra í íþróttafélögum þeirra bestu. Íþróttafélögin eyða milljörðum í sjeníin, fótbolta- og handboltastrákar settir á laun en fjöldinn er ekki með í íþróttafélaginu. Skólakerfið okkar er staðið að því að skera niður lögboðna skyldu um útivist og hreyfingu. Samtímis færist neysla barna og unglinga frá hollum mat yfir í ruslfæði. Er stærsta tímasprengja heilbrigðiskerfisins að þróast á Íslandi ? Það sagði mér Anton Bjarnason íþróttakennari, á dögunum að það væri sitt mat að svo væri. Margir íþróttakennarar eru áhyggjufullir og talið er að hér á landi sé eitt af hverjum fjórum börnum illa statt líkamlega vegna offitu. Anton sagði mér frá merkilegri könnun á ástandi barna frá Exeter í Bretlandi. Læknavísindin segja að hjartavöðvi barns þurfi í 30 mínútur á hverjum degi að fá púls í 140 slög til að þroskast og eiga lífslíkur og hreysti í 80 ár. Af 400 barna úrtaki í þessari borg féllu 386 barnanna á prófinu, þessi börn horfa á sjónvarp og leika tölvuleiki í 35 klst. á viku.
Nú spyr ég Neytendasamtökin, skólakerfið og foreldra þessa lands, hvort hér sé ekki verk að vinna? Er útrásarmaðurinn Magnús Scheving að útfæra aðferð til að bjarga börnum um víða veröld, sem ekki síst ætti að vera okkar verkefni hér heima, hreyfing og hollur matur? Er víkingaþjóðin að ala upp kynslóð sem fær músarhjarta og verður áhættuhópur sjúkdóma á næstu áratugum vegna hreyfingarleysis og mataræðis? Foreldrar dagsins í dag eru uppteknir við að aka börnum sínum hvern spöl. Ef þið farið um bæi þessa lands þá sjást börn sjaldan að leik útivið, miklu fremur sjást börn með gulan poka að bera videóspólu heim og dregið er fyrir glugga, þar sitja videógláparar lokaðir inni á björtum degi sem sækja orku sína eða orkuleysi í CocaCola og bland í poka.
Ég hef hér velt upp áhyggjuefni við ykkur og spyr: Þurfum við ekki að gera þjóðarátak til að efla hreysti sem snýr að hreyfingu og mataræði? Ungviði þarfnast hreyfingar og skólinn, í samstarfi við foreldra, getur einn tekið þetta verkefni að sér, íþróttir og hreyfing fyrir alla. Það er mjólkin, kjötið, grænmetið og fiskurinn, ásamt hreyfingunni, sem skapar hraustan líkama. Ég set það hér fram, að starf íþróttafélaganna færist inn í skólastarfið og æskan fær afl til að öðlast betra líf. Ég spyr líka, eru gömlu skólaleikirnir, eins og fallin spýta og að hlaupa í skarðið, gleymdir? Það er sannað að börn sem stunda íþróttir eru betri nemendur á bókina og um leið eru íþróttir forvörn gegn tóbaki og vímuefnum. Ég hef það mikla trú á Neytendasamtökunum, að ég tel þau gætu orðið boðberar nýrra tíma á þessu sviði.
Ágætu neytendur.
Hvað er það sem við Íslendingar eigum saman? Við eigum þetta land, með fjöll og dali og sjávarnið. Við eigum sögu um fátækt. Við eigum lýðveldissögu, þar sem þessi litla þjóð sneri sjálf þróuninni við og erum nú það land í Evrópu sem býr við einna bestu lífskjör og vaxandi hagsæld, vonandi um langa hríð. Stjórnvöld og atvinnulífið sjá stór tækifæri fyrir unga Íslendinga heima og að heiman. Eggjunum í hagkörfunni fjölgar, iðnaður og ferðamenn gefa gjaldeyristekjur til jafns við sjávarútveginn. Viljum við hverfa inn í valdablokkir til að sækja þangað skammvinnan gróða? Vinnan er móðir mannsins. Í mörgum löndum Evrópu hefur atvinnuleysi fætt af sér þrjár til fjórar kynslóðir manna í sömu fjölskyldu sem lifir án þess að vinnan sé til staðar. Um leið og við sköpum tækifæri með samningum við erlend ríki, skulum við minnast þess að halda fast um aðalatriðin, stjórna sjálf okkar auðlindum án erlendra yfirráða. Hafið er okkar gullkista, grundvöllur lífskjara komandi kynslóða. Neytendur þessa lands, þjóðin sjálf, á rétt á þeirri þjóðarsátt, að við ákveðum hvernig nýting auðlinda verður. Hverjar eru þær náttúruperlur sem mannshöndin þyrmir.
Við eigum fossa og fegurð sem aldrei má raska. Við eigum auðnir og sanda sem vekja hughrif og hafa nýtt aðdráttarafl í veröld nýrra tækifæra. Þetta er verkefni stjórnmálamanna að ná samstöðu um á næstu árum. Við þurfum að fórna, en fyrst og fremst að forgangsraða og móta stefnu framtíðarinnar. Ísland á ærinn auð og þau stóru verkefni síðustu ára sem ráðist hefur verið í, ekki síst í iðnaði, skapa öryggi næstu ára. Ríkisstjórn athafna er ekki alltaf vinsæl í augnablikinu, en það gildir samt að þora að takast á við framtíðina.
Neytendur þessa lands vilja góð lífskjör og ung kynslóð gerir kröfur um að vera í fremstu röð. Enn á það við sem sagt var á Hvítárvöllum forðum: “Þar er fallegt ef vel veiðist.” Neytendur eru þjóðin og Neytendasamtökin eiga að horfa inn í framtíðina með stjórnvöldum og marka stefnuna jákvætt, en gagnrýni má samt ekki skorta. Ég trúi á dugnað unga fólksins og auðlindir þessa lands og þá sérstöðu sem landið býr okkur. Í neyð eigum við eina þjóðarsál. Nú þurfum við að fara yfir það sem sameinar okkur og hætta að deila um smámuni, það á jafnt við um ykkur og okkur stjórnmálamennina ekki síður.