Ávarp samgönguráðherra Sturlu Böðvarssonar við opnun Öryggisviku sjómanna 2004
Góðir gestir.
Það er mér mikil ánægja að vera hér í dag við opnun Öryggisviku sjómanna sem nú er sett í annað sinn. Vikan var haldin hátíðleg í fyrsta sinn hér á landi árið 2002. Árið áður hafði komið fram sú hugmynd að í stað þess að halda einn dag hátíðlegan í tilefni að Alþjóðasiglingadeginum væri verðugt verkefni að helga heilli viku öryggismálum sjómanna. Nú er í annað sinni efnt til Öryggisviku sjómanna og er þema hennar að þessu sinni „Forvarnir auka öryggi".
Öll þekkjum við til forvarna í einhverri mynd. En hvað eru forvarnir í sjómennsku? Forvarnir eru hér, sem annars staðar, fyrirbyggjandi aðgerðir og sem dæmi má nefna virkt eftirlit útgerða og áhafna með öryggismálum í skipum, reglubundnar æfingar um borð í skipum, aukin vitund sjómanna um slysahættu og svo mætti lengi telja. Hlutverk sjómannsins er hins vegar alltaf kjarninn í Öryggisviku sjómanna.
Nú er Öryggisvika sjómanna orðinn hluti af verkefnaáætlun um öryggi sjófarenda. Ákveðið hefur verið halda hana annað hvert ár í Reykjavík en hitt árið verði haldnir málfundir víðsvegar um land þar sem öryggismál sjómanna eru rædd og yfirfarin.
Síðan ég tók við embætti samgönguráðherra hef ég lagt mikla áherslu á aukið öryggi sjófarenda. Má þar nefna lögleiðingu losunar- og sjósetningarbúnaðar gúmmíbjörgunarbáta, langtímaáætlun um öryggismál sjófarenda, endurskipulagningu á starfsemi Rannsóknarnefndar sjóslysa, nýja löggjöf og markvissari reglur um rannsókn sjóslysa þar sem m. a. er skilað tillögum til úrbóta að rannsókn lokinni. Tillögur rannsóknarnefndarinnar hafa orðið kveikjan að fimm rannsóknarverkefnum sem unnin eru á vegum Siglingastofnunar.
Öryggi sjófarenda verður alltaf best tryggt með góðri og stöðugri þjálfun sjómanna og samstilltu átaki stjórnvalda, útgerðar og sjómanna á sviði öryggismála. Það er vilji allra að fækka slysum til sjós. Þeir, sem sinna verkefnaáætlun um öryggi sjófarenda, gegna lykilhlutverki við átak til aukins öryggis. En rétt er að minna á að árangri verður ekki náð nema allir hafi trú á verkefninu og leggi fram krafta sína og metnað. Ég óska sjófarendum og landsmönnum öllum til hamingju með Alþjóðasiglingadaginn. Það er von okkar, sem störfum í samgönguráðuneytinu, að Alþjóðasiglingadagurinn verði til þess að auka öryggi sjófarenda.
Ég segi hér með Öryggisviku sjómanna 2004 setta.