Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. október 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Fundur með formönnum norrænu félaganna 9. október 2004.

Ágætu félagar í norrænu samstarfi.

Það er mér sérstök ánægja að eitt af mínum fyrstu embættisverkum sem nýskipaður samstarfsráðherra skuli vera að koma hér á fund til ykkar formannanna í grasrót norræns samstarfs. Það má líkja Norrænu félögunum og þeim tengslanetum sem þau mynda við hjartavöðvann í norrænu samstarfi – það eru þau sem blása okkur stjórnmálamönnunum anda í brjóst, tengja okkur við fólkið og veita okkur upplýsingar um þau vandamál sem leysa þarf í hinu formlega samstarfi. Það er því ákaflega mikilvægt fyrir mig að eiga gott samstarf við ykkur og að geta leitað í þann þekkingarbrunn sem ykkar félög eiga sameiginlegan með systurfélögum á Norðurlöndum. Það er líka ánægjuefni að enn skuli bætast við í þá fjölskyldu - með 28. félagsdeildinni hér heima - úr Rangárþingi.

Ég hef komið að norrænu samstarfi allar götur frá því að ég tók sæti á Alþingi fyrir sautján árum og veit af eigin raun hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga.

Það er afar brýnt að við sinnum því vel á öllum sviðum - í hinum ýmsu ráðherranefndum og samstarfsstofnunum og að við tökum virkan þátt í að móta stefnu og forgangsraða verkefnum á tímum þeirra öru breytinga sem við nú upplifum í Evrópu.

Það hefur líka þýðingu að hin frjálsu félagasamtök, sem eru eitt helsta kennimerki norrænnar menningar og samstarfshefðar, séu virk í þessu starfi. Þau eru ein meginstoðin í okkar samfélagsskipan og drifkraftur umbóta á mörgum sviðum.

Eins og þið eflaust vitið þá hafa Íslendingar leitt samstarfið í Norrænu ráðherranefndinni á þessu ári. Undir yfirskriftinni Auðlindir Norðurlanda var mótuð stefna fyrir fjölmörg samstarfsverkefni sem hrint var úr vör á árinu – verkefni sem falla undir undirkafla formennskuáætlunarinnar Lýðræði, menningu og náttúru. Þar er einmitt litið til þess auðs sem við Norðurlandabúar eigum í fólki, samfélagsskipan og náttúrugæðum.

Við settum lýðræðið á oddinn vegna þess að það eru ýmis teikn á lofti í norrænum samfélögum sem benda til þess að hættur steðji að. Helstu sjúkdómseinkennin eru minnkandi kosningaþátttaka t.d. í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Noregi í fyrra þar sem

einungis 6 af hverjum tíu greiddu atkvæði. Í Finnlandi eru dæmi um enn dræmari kosningaþáttöku í sveitarstjórnarkosningum, svo ekki sé talað um kosningar til Evrópuþings þar sem einungis 4-5 af hverjum tíu ómaka sig á kjörstað.

Norræn lýðræðisnefnd sem skipuð var í byrjun árs hefur m.a. skoðað þennan vanda og leitað skýringa. Ein er sú að alþjóðavæðingin hefur leitt til stöðugt flóknari viðfangsefna á vettvangi stjórnmálanna. Aðlögun Norðurlanda að lögum og reglugerðum á evrópska efnahagssvæðinu eru dæmi um slík viðfangsefni.

Jafnframt hafa skapast nýjar forsendur fyrir stjórnmálastarfi og stjórnmálaþáttöku – í norrænum velferðarríkjum nútímans hefur fólk mun fleiri valkosti en stjórnmálaflokkana til að láta að sér kveða og velur sér fremur tengslanet á Netinu, þrýstihópa eða grasrótarhreyfingu um einstök málefni sem vettvang til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Þetta gildir sérstaklega um ungt fólk, en norskar rannsóknir sýna að fækkun kjósenda er nær eingöngu vegna áhugaleysis yngstu kjósendanna.

Þó við hér á Íslandi getum enn stært okkur af góðri kosningaþáttöku og virkri þátttöku í stjórnmálaflokkum – gætum við staðið andspænis sömu vandamálum þegar til lengri tíma er litið.

Lýðræðisnefndin hefur einnig skoðað áhrif breyttrar verkskiptingar ríkis og sveitarfélaga á lýðræðisferli. Það er almenn tilhneiging til þess á Norðurlöndum að sveitarfélögum sé falin framkvæmd ákvarðana sem teknar eru af ríkisvaldinu – og að gengið sé á sjálfstæði þeirra sem stjórnsýslueiningar með full yfirráð yfir eigin tekjum. Slíkt getur grafið undan pólitískri virkni í hinu staðbundna lýðræði og trú fólks á að hafa raunveruleg áhrif á sitt nánasta umhverfi.

En af hverju er ég að taka þetta upp hér með formönnum Norrænu félagana á Íslandi?

Jú, af því að hin frjálsu félagasamtök eru brú í svo víðtækum skilningi í samfélaginu – það er sameiginleg ábyrgð – okkar sem störfum í stjórnmálum og ykkar sem leggið okkur til verkefnin - að virkja fólk til starfa á lýðræðislegum vettvangi. Við verðum að hlúa að lýðræðinu í stóru sem smáu – og efla lýðræðisleg vinnubrögð á öllum sviðum í norrænum samfélögum. Hið lýðræðislega stjórnarform sækir kraft sinn í virka þátttöku borgaranna í lifandi þjóðfélagsumræðu og félagastarfi.

Þrátt fyrir sífellt flóknari pólitísk viðfangsefni – líka á hinum norræna vettvangi og sem ekki er alltaf auðvelt að úrskýra í stuttu máli fyrir kjósendum – er ég ákaflega bjartsýn á framtíð norræns samstarfs. Í ráðherratíð minni hef ég starfað í fjórum ráðherranefndum; þeim sem fara með atvinnumál, neytendamál, orkumál og byggðamál.

Í þeim náðust nokkrir merkir áfangar á árinu. Á ráðherrafundum á Akureyri í ágúst

voru gefnar út yfirlýsingar um aðgerðir til að koma á norrænum raforkumarkaði án landamæra og um samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja til að bæta kjör neytenda og á fjarskiptasviði komu menn sér saman um aðferðir sem miða að því að jafna kostnað á símtölum innanlands og milli Norðurlanda .

Þá leiddum við Íslendingar endurskoðun á norrænu rannsóknarsamstarfi.

Það skilaði sér í nýrri Norrænni nýsköpunarmiðstöð, sem tók til starfa snemma árs, nýju sameiginlegu rannsóknarráði; NordForsk og nýrri framkvæmdaáætlun um vísindasamstarf og nýsköpun. Meginmarkmiðið er að nýta betur sameiginlegt fjármagn á norrænum þekkingarmarkaði, stuðla að samkeppnishæfara atvinnulífi og koma Norðurlöndum í fremstu röð á sviði rannsókna og nýsköpunar.

Enn eitt sem mig langar að minnast á eru aðgerðir til að styrkja vestnorrænt samstarf og svæðasamstarf við granna okkar við Norður-Atlantshaf. Á árinu var gerð úttekt á samgöngum á útnorðri, sem vonandi nýtast í tvíhliða samningum Íslands, Grænlands og Færeyja um flugleiðir og tíðari flugsamgöngur á milli landanna. Möguleikar þess að nýta vistvæna orku á strjálbýlum svæðum voru líka kannaðir með það fyrir augum að auka hlut endurnýjanlegrar orku í stað olíu og verður þessu starfi haldið áfram með frekari rannsóknum. Þá stendur til að efla starfsemi Norrænu Atlantsnefndarinnar NORA sem hefur aðsetur í Færeyjum.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um þá vinnu á norrænum vettvangi sem mætti gjarnan fá mun meiri umfjöllun í íslenskum og öðrum norrænum fjölmiðlum.

Það eru forréttindi okkar Norðurlandabúa að eiga jafn greiðan aðgang inn í lönd frændþjóðanna og raun ber vitni, njóta þar réttinda til atvinnu og félagslegrar þjónustu, og geta á fjölmörgum sviðum gengið að samræmdri löggjöf. Þetta eru gæði sem stöðugt þarf að minna á og standa vörð um. Þetta vita menn manna best hér hjá Norræna félaginu sem hefur tekið að sér upplýsingaþjónustuna Halló Norðurlönd fyrir Norrænu ráðherranefndina. Ég er sannfærð um að á vettvangi félgsins eiga eftir að kvikna margar góðar hugmyndir um önnur samstarfsverkefni og viðburði til að efla samkennd Norðurlandabúa og sem ég get vonandi greitt fyrir á síðari stigum og átt samstarf við ykkur um.

Ég þakka ykkur fyrir að bjóða mér á þennan fund.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta