Ráðstefnan „Vænlegar eldistegundir í íslensku fiskeldi: Staða einstakra eldistegunda og þörf á rannsókna- og þróunarvinnu
Ágætu ráðstefnugestir.
Sjávarútvegsráðuneytið hefur á umliðnum árum staðið fyrir átaki til að auka verðmæti sjávarfangs undir merkjum AVS rannsóknasjóðsins í sjávarútvegi sem veitir styrki til rannsóknaverkefna innan allra greina sjávarútvegs, þ.m.t. fiskeldi. Styrkir rannsóknasjóðsins eru til hagnýtra rannsókna og eru ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum.
Hvatinn að stofnun AVS sjóðsins var vitaskuld sá að við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd að hefðbundnar fiskveiðar verða ekki auknar að ráði frá því sem nú er. Í ljósi þess þurfum við að beina sjónum að því að gera meiri verðmæti en áður úr þeim afla sem við veiðum. Því verður aðeins náð með virku þróunarstarfi, auk þess að renna fleiri stoðum undir atvinnugreinina í heild með öflugri nýsköpun. Svo við hugum ögn nánar að forsögu málsins þá skipaði ég stýrihóp í þessum tilgangi í janúar 2002. Hópnum var ætlað að vinna greinargerð um það með hvaða hætti megi efla verðmætaaukningu sjávarfangs undir þeim formerkjum sem ég gat um. Stýrihópurinn - AVS hópurinn - skilaði af sér með ýtarlegri skýrslu í október 2002. Ég þykist vita að flest ykkar þekkið nokkuð til helstu tillagna starfshópsins af lestri skýrslunnar eða hafið heyrt umfjöllun um hana.
Á þeim tveimur árum sem AVS sjóðurinn hefur starfað hafa verið veittir styrkir til 55 verkefna. Á árinu 2003 voru veittar 74 milljónir og á yfirstandandi ári er búið að styrkja verkefni fyrir um 100 milljónir króna en sjóðurinn hefur úr 120 milljónum að spila og því má reikna má með að verkefnum eigi eftir að fjölga nokkuð áður en árið er úti. Í því fjárlagafrumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir 200 milljónum króna í AVS sjóðinn og það er trú mín að greinin geti nýtt sér þennan stuðning til að flýta enn frekar fyrir þróun fiskeldis.
Ráðstefna þessi er því mikilvægur þáttur í því að styrkja stefnumótun við uppbyggingu greinarinnar enda nauðsynlegt að hafa yfirlit yfir stöðu einstakra eldistegunda, ná að meta samkeppnishæfni tegundanna í alþjóðlegu samhengi og greina mikilvæg rannsókna- og þróunarverkefni sem styrkt geta íslenskt fiskeldi.
Mikil breyting hefur orðið í fiskeldinu á fáeinum árum, ekki hvað síst í umhverfi þess og regluverki. Þannig voru á árinu 2002 sett ný lög um eldi nytjastofna sjávar og í framhaldinu setti ráðuneytið reglugerðir við þau lög. Á árinu 2001 voru samþykktar breytingar á lögum um lax- og silungsveiði. Í báðum þessum lögum eru ákvæði sem marka samstarfi ráðuneytanna sem með málaflokkinn fara, þ.e. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, ákveðinn farveg. Þar á ég hvað helst við skipun fiskeldisnefndar sem í sitja fulltrúar frá landbúnaðarráðuneytinu, sjávarútvegsráðuneytinu, Hafrannsóknastofnuninni og Veiðimálastofnun, þ.e. fulltrúar stjórnsýslu og rannsókna á þessu sviði en eins og þið vitið er verkaskiptingu ráðuneytanna á þann veg farið á sjávarútvegsráðuneytið fer með eldi sjávarfisks og annarra sjávardýra en landbúnaðarráðuneytið með eldi ferskvatnsfisks.
Snemma árs 2003 tók fiskeldishópur AVS jafnframt til starfa en auk þeirra verkefna sem fylgja AVS rannsóknasjóðnum, tók hópurinn við verkefnum nefndarinnar: Þorskeldi á Íslandi: Stefnumótun og upplýsingabanki. Meginmarkmið þess voru að meta samkeppnishæfni þorskeldis á Íslandi, móta stefnu í rannsókna- og þróunarvinnu og að afla og miðla upplýsingum um þorskeldi. Verkefnið var samstarfsverkefni sjávarútvegsfyrirtækja, auðlindadeildar Háskólans á Akureyri, Hafrannsóknastofnunarinnar og sjávarútvegsráðuneytisins og stóð nefndin meðal annars að útgáfu ýtarlegrar skýrslu; Þorskeldi á Íslandi: Stefnumótun í rannsókna og þróunarvinnu. Þar sem verkefnisstjórnin lagði fram tillögur um á hvern veg hún teldi áframhaldandi starfsemi best fyrirkomið næstu árin. Við skipun fiskeldishóps AVS lagði sjávarútvegsráðuneytið áherslu á víðtækt samráð í þessu uppbyggingarstarfi á milli atvinnugreinarinnar, rannsóknastofnana og stjórnsýslu og að forystan yrði á hendi greinarinnar sjálfrar.
Ýmislegt fleira mætti rifja upp sem gert hefur verið til að renna stoðum undir uppbyggingu fiskeldisins. Því þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn hafa haft miklar væntingar hér á landi þegar fiskeldið er annars vegar og eflaust setur hroll að sumum þegar þeir minnast hins svokallaða fiskeldisævintýris sem stóð hér yfir á níunda áratugnum. En þvert á móti er reynslan til að læra af henni og hvar stæðum við í vísindum og þekkingu ef aldrei hefðu verið gerðar tilraunir og sumar kostnaðarsamar. Skal ég nú skýra mál mitt ögn nánar. Fyrst til að taka að grunngerð atvinnuvegarins, sjávarútvegs, er allt önnur í dag en hún var á níunda áratugnum. Fyrirtækjunum hefur vaxið fiskur um hrygg og þeim er nú ætlað að hafa forystu um uppbyggingu þessarar atvinnugreinar en ekki hinu opinbera eins og áðar var í of ríkum mæli. Hið opinbera mun þó hafa hlutverki að gegna, þannig kappkostum við í sjávarútvegsráðuneytinu að hafa forystu um að móta meginstefnu og m.a. að setja atvinnugreininni trausta regluumgjörð í nánu samstarfi við greinina sjálfa. Hitt er ekki síður mikilvægt að hið opinbera stuðli að uppbyggingu þekkingar á þessu sviði. Þar munu styrkir úr AVS-rannsóknasjóðnum reynast mikilvægir, auk starfsemi þeirrar sem fram fer á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og hjá skólastofnunum landsins og þá einkum við Hólaskóla og Háskólann á Akureyri.
Í framtíðarsýn fagfólks í sjávarútvegi sem greint er frá í skýrslu AVS-hópsins, er fiskeldinu ætlað stórt hlutverk. Í téðri framtíðarsýn er gert ráð fyrir að hlutur fiskeldis vaxi úr einum milljarði á árinu 2001 í 36 milljarða á árinu 2012. Vitaskuld hlýtur þessi framtíðarsýn að teljast nokkuð bjartsýn og fyrir liggur að að herða verður sóknina. Því nýjustu tölur sýna að útflutningstekjur fiskeldisafurða námu um 1,5-2 milljörðum króna á árinu 2003 eins og fram kemur í skýrslu Fiskeldisnefndar um stöðu og framtíðaráform í íslensku fiskeldi sem Valdimar Ingi Gunnarsson sjávarútvegsfræðingur tók saman og kynnt var í gær. Eldi nýrra tegunda þarf ekki endilega að þróast með sama hætti og laxeldið hefur gert þar sem áherslan er á magnframleiðslu. Þó nú sé horft til þess af mörgum að þorskeldi þróist á þann veg gæti það hæglega tekið lagt drjúgan skerf til verðmætaaukningar þó mál þróist á annan veg. Benda má í því sambandi á að hér á landi hefur náðst mikill árangur í eldi á bleikju en styrkur hennar liggur meðal annars í því að hún er framleidd í litlu magni og því fæst gott verð fyrir hana inn á sérhæfða markaði. Þannig má hugsa sér að tækifæri okkar liggi í því að einblína ekki um of á magnframleiðslu heldur framleiða fleiri tegundir og leita sérhæfðra markaða þar sem hátt verð fæst fyrir fiskinn. Ég undirstrika þó að með þessum orðum er ég hvergi að leggjast gegn fiskeldi á stórum skala ef arðsemin liggur þar.
Fiskeldið er ung atvinnugrein hér á landi en á sér hins vegar geysilanga sögu víða erlendis, einkum í ýmsum Asíulöndum. Fiskeldi er ræktun ekkert ósvipað og landbúnaður, samanber það hversu lík orðin agriculture og aquaculture eru sem bæði eru af sama stofni. Enda var það svo að fiskeldið var lengi stundað sem eins konar hliðargrein við landbúnaðinn, t.d. á Norðurlöndum og snerist þá nánast eingöngu um ferskvatnsfisk. Sú breyting sem orðið hefur nú á síðustu árum er einkum sú að fiskeldið er orðið miklu tengdara sjávarútveginum með því að eldi sjávarfiska og annarra sjávardýra hefur stóraukist.
Fiskeldi er á sambærilega hátt og fiskveiðistjórnun til þess fallið að auka arðsemi sjávarauðlindarinnar og vernda hana um leið. Fiskveiðistjórnun má raunar líkja við að land sé girt og þannig komið í veg fyrir stjórnlausan hjarðbúskap með tilheyrandi rányrkju. Enda er iðulega talað um upptöku fiskveiðistjórnunar með orðunum „Fencing of the Ocean - Girðum hafið"! Hafa menn þá gjarna í huga þá efnahagsbyltingu sem varð þegar slétturnar miklu í Bandaríkjunum voru girtar og stjórnlaus hjarðbúskapur aflagður. Fiskeldið tekur síðan við þar sem fiskveiðstjórnuninni sleppir, því við tilkomu þess er hafið ræktað og afkastageta þess aukinn frá því sem hún er í villtri náttúru.
Svo við víkjum ögn nánar að þorskeldinu þá hefur sjávarútvegsráðuneytið núna síðustu árin úthlutað 500 tonna aflamarki árlega í óslægðum þorski til tilrauna með áframeldi. Hins vegar liggur það ljóst fyrir að þorskeldið verður ekki byggt upp til neinna umtalsverðra afkasta í framleiðslu nema sem aleldi, þ.e. eldi allt frá hrognastigi til slátrunar. Ekki ætla ég hér að reifa öll þau úrlausnarefni sem bíða okkar viðvíkjandi uppbyggingu þorskeldisins eða annars fiskeldis, en vil þó víkja að nokkrum atriðum.
Fyrst vil ég benda á nauðsyn rannsókna og þróunar til að unnt verði að framleiða kvíar sem þoli íslenskar aðstæður en séu þó ekki of dýrar í framleiðslu eða þungar og ómeðfærilegar. Þá þarf að huga að skipulagi fiskeldisins gagnvart staðsetningu þess á hinum ýmsu stöðum við landið. Síðan er það seiðaframleiðslan og markaðsfærslan. Nú þegar hefur verið stofnað sérstakt fyrirtæki í eigu einkafyrirtækja með aðkomu opinberra aðila til að standa í þorskseiðaframleiðslu og jafnframt er þar unnið að uppbyggingu kynbætts eldisstofns. Enda sýnir reynslan úr laxeldinu og raunar úr allri búfjárrækt hversu vonlaus starfsemi sem þessi er án skipulagðra kynbóta. Hvað seiðaframleiðslunni viðvíkur gefur hvorki íslenski markaðurinn né fjárhagsleg sjónarmið tilefni til að dreifa kröftunum, samkeppnin kemur eigi að síður til af fullum þunga og þá að utan og í framleiðslunni eftir að seiðastiginu sleppir.
Þegar þar er komið sögu er framleiðslan alfarið í höndum einkaaðila, fyrst og fremst stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna. Þar eru bæði til staðar fjárhagslegir burðir og þekking, t.d. í markaðsfærslu. Hvað henni viðvíkur vil ég láta eins hagnýts atriðis getið sem er mikilvægi þess að eldisfiski sé ekki blandað saman við villtan fisk heldur haldið sér og þess gætt í öllum skráningum. Í reglum Evrópusambandsins er að auki beinlínis gerð krafa um þetta. Við vinnslu og markaðsstarf þarf að taka tillit til þessara atriða.
Þegar eru að koma fram vísbendingar um að við Íslendingar séum á réttri leið í þorskeldinu starfi og var ánægjulegt að sjá slegið upp á forsíðu Morgunblaðsins 3. október sl., að íslenskur eldisþorskur hafi slegið í gegn, eins og það var orðað. Og vel að merkja hér var um að ræða fisk úr áframeldi, því enn erum við ekki komnir með í framleiðslu fisk af kynbættum eldisstofni sem ræktaður er í aleldi. Þegar þar að kemur getum við gert enn betur því þá munum við vera með stofn með seinan kynþroska, hámarks holdgæði og vaxtarhraða, sem sagt frábæran vinnslufisk.
Góðir ráðstefnugestir.
Ráðstefnan hér í dag með þeirri dagskrá sem boðið er upp á fellur mjög vel að þeim áherslum sem ég hef komið hér inn á. Ég vænti því mikils af henni og veit að þau erindi sem hér verða flutt eru mikilvægt innlegg í áframhaldandi uppbyggingarstarf á leið okkar að öflugu íslensku fiskeldi.