Þjóðarblómið
Forseti Íslands Herra Ólafur Ragnar Grímsson, aðrir góðir gestir.
Til hamingju með daginn og verið hjartanlega velkomin til þess mikla atburðar er við Íslendingar veljum okkur þjóðarblóm. Er við veljum eitt af okkar fallegu íslensku blómum til að vera í forsvari og sem merkisbera íslenskrar náttúru, hreinleika og fegurðar.
Já blómin voru og eru fyrstu vorboðarnir og jafn mikið er enn beðið eftir að fífillinn og sóleyin láti sjá sig á Arnarhóli eins og eftirvæntingin var mikil í sveitinni áður fyrr. Hver þekkir ekki að börnin komi hlaupandi inn og segi: Mamma; það er kominn fífill.
Blómin hafa löngum verið skáldunum okkar yrkisefni og fallegt er kvæði Jónasar Hallgrímssonar:
Fífilbrekka gróin grund
grösug hlíð með berjalautum.
Flóatetur fífusund
fífilbrekka smáragrund
yður hjá ég alla stund
undi best í sæld og þrautum.
Fífilbrekka gróin grund
grösug hlíð með berjalautum
Bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi
sólarylur blíður blær
bunulækur fagurtær.
Yndið vekja ykkur nær
allra best í dalnum frammi
Bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi
Góðir gestir.
Þegar mér barst erindi Ásdísar frá Skörðugili ákvað ég að leggja mitt að mörkum. Þar sem brýnt er að samstaða ríki um svona mál og þar sem það snertir svo marga taldi ég eðililegt að leita til þeirra samstarfsaðila minna í ríkisstjórn sem ég taldi að þetta mál myndir helst varða. Allir tóku þeir erindinu vel og niðurstaðan að fulltrúar okkar mynduðu starfshóp til að fylgja verkinu eftir. Þeim til liðsinnis var svo Lanvernd sem fór með framkvæmdina.
Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka samráðherrum mínum aðildina að verkefninu, nefndarmönnum vel unnið verk og Landvernd fyrir einstaklega fagmannleg og góð vinnubrögð.
Eins og hér hefur verið skýrt fór fram eindanlegt val á þjóðarblómi með atkvæðagreiðslu þjóðarinnar.
Niðurstaðan liggur fyrir þar sem eitt blóm fékk fleiri atkvæði en önnur og því eðlilegast og réttast að það hljóti heiðurinn.
Kosið var um 7 blóm og reiknuð stig fyrir hvert atkvæði eftir viðurkenndum leikreglum sem kynntar voru. Niðurstaðan er fengin og var hún kynnt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun
Niðurstðan var þessi:
7. sæti Geldingahnappur 14. 597 stig
6. -- Lambagras 15. 084 --
5. -- Hrafnafífa 15. 515 --
4. -- Blágresi 19. 243 --
3. -- Blóðberg 21. 384 --
2. -- Gleym-mér-ei 21. 802 --
1. -- Holtasóley 21. 942 --
Það er því okkar velþekkta, fallega og íslenska Hotlasóley sem valin hefur verið af þjóðinni sem þjóðarblóm Íslendinga. Óska ég henni og okkur til hamingju með valið.
Kæru samkomugestir.
Hvert þessara blóma hefur sér til ágætis mikið, og öll eiga þessi blóm sérstakt rúm í hjörtum okkar.
Geldingahnappurinn fallegi sem víða gægist upp úr auðninni,
Lambagrasið með blómum skrýddan grænan kollinn,
Fífan sem hefur lýst þjóðinni í gegnum aldirnar,
Blágresið blíða í berjalautu vænni,
Blóðbergið veitt bragð sitt og fjörefni í drykkinn,
Gleym mér ei-in blóm unga fólksins, minninganna og ástarinnar og
Holtasóleyan með sín stóru hvítu blöð sem umlykja hið gyllta höfuð.
Nefndinni bárust margar ábendingar og þar á meðal flutu vísur. Einn sendandinn var Herra Pétur Sigurgeirsson biskup. Í tilefni þess að Holtasóleyjan hefur nú verið valin sem þjóðarblóm Íslendinga leyfi ég mér að fara með þá ágætu stöku.
Holt er vorri eyju á,
yndi holtin veita.
Holtum á þar helst má sjá
holta - sóley skreyta.
Nú vil ég biðja Forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson að gera svo vel að koma hingað og að taka við skjali sem vottar að Holtasóleyin hafi verið valin sem þjóðarblóm Íslensku þjóðarinnar árið 2004.
Sömuleiðis langar mig til að biðja frú Ásdísi Sigurjónsdóttur frá Skörðugili að koma hingað upp og taka á móti smá þakklætisvotti frá okkur ráðherrunum fyrir að vekja athygli á þessu þarfa verkefni.