Orkan okkar - heimili morgundagsins.
Ágætu gestir.
Ný öld er að ganga í garð og önnur er að kveðja sem færði okkur Íslendinga til nútímans. Þetta var öld rafurmagnsins, eins og fyrri aldamótakynslóð kallaði gjarnan raforkuna, sem leiddi til meiri byltingar á heimilishögum og öllum aðbúnaði þjóðarinnar en hafði orðið frá upphafi Íslandsbyggðar.
Hægt gekk þó í upphafi rafvæðingarinnar. Á fyrstu áratugum aladarinnar var þjóðin fámenn og fátæk, hún óttaðist skjótar umbreytingar og umskiptin urðu fyrst á síðari hluta aldarinnar.
Mörgum okkar sem ólumst upp úti á landsbyggðinni eftir miðja síðustu öld er í fersku minni þau gífurlegu umskipti er urðu hjá fólki þegar fyrstu raflínur risu við rafvæðingu dreifbýlisins. Yngra fólk upplifði rafmagnið sem mikla breytingu, en fyrir eldri kynslóðir, sem lifað höfðu myrkur og harðindi á sínum yngri árum má vissulega segja að bylting hafi orðið þegar í híbýli manna kom ljós og hiti í stað myrkurs, kulda og raka fyrri ára og alda.
Þetta mættu yngri og uppvaxandi kynslóðir þjóðarinnar hugleiða á vaxandi allsnægtar- og afþreyingartímun. Velmegun þjóðarinnar hefur ekki komið af sjálfu sér, hún hefur byggst á dugnaði, menntun og harðfylgi við að hagnýta sér, með bestu tækni hvers tíma, allar náttúruauðlindir lands og sjávar til að byggja upp nútíma samfélag.
Umskipti í lífskjörum þjóðarinnar urðu stórtækust eftir miðja síðustu öld eftir að þjóðin komst til bjargálna. Við skulum hafa í huga að Ísland taldist þróunarríki á sjötta áratug aldarinnar og við þáðum mikla styrki og lán erlendra aðila til samfélagslegrar uppbyggingar eins og raunar margar aðrar þjóðir Evrópulanda eftir að síðari heimsstyrjöld lauk.
Bygging fyrstu stórvirkjunar landsins og byggingu álversins í Straumsvík á árunum 1965-1970 var mikið átak fyrir þjóðina. Uppbygging stóriðju á árunum þar á eftir var fremur hæg en almenn auking varð í raforkunotkun, meðal annars vegna uppbyggingar raforkukerfisins og atvinnufyrirtækja víða um land.
Enginn vafi er á því að nýting orkulinda landsins hefur verið og mun verða áfram einn af grunnþáttunum í efnahagslegri velferð þjóðarinnar. Raforkuframleiðsla þjóðarinnar var nær eingöngu í vatnsaflsvirkjunum eftir að raforkukerfi landsins varð samtengt og olíunotkun til raforkuframleiðslu var aðeins bundin við neyðartilvik. Raforkuframleiðsla síðustu ára í jarðhitavirkjunum hefur góðu heilli stóraukist síðustu ár og hún mun enn aukast á næstu árum. Fjárhagslegur ávinningur þjóðarinnar af nýtingu jarðhitans til hitaveitna á síðustu áratugum hefur einnig verið ótrúlegur og nemur mörgum milljörðum árlega.
Miklir möguleikar eru á nýtingu jarðhitans til raforkuframleiðslu víða um land í framtíðinni. Þar ber að nefna að unnið er að einstöku samstarfsverkefni fjölmargra þjóða og stofnana um rannsóknir á háhitagufu á tvöfalt meira dýpi en við höfum hingað til borað og nýtt okkur. Þetta alþjóðlega rannsóknarverkefni kann að leiða í ljós að unnt verði í lengri framtíð að margfalda afköst háhitasvæða landsins.
Við nýtingu orkuauðlindanna skiptir miklu máli að samstarf og samkomulag takist milli nýtingarsjónarmiða annars vegar og náttúruverndarsjónarmiða hins vegar. Þessi ágreiningur hefur vissulega því miður aukist á undanförnum árum. Þar mun Rammaáætlun sú er unnið hefur verið að á síðustu árum geta skilað okkur mikilvægum árangri.
Sérstaða Íslands varðandi nýtingu endurnýjanlegra orkulinda er einstök meðal þjóða heims. Öll raforka landsins er framleidd með endurnýjanlegum orkulindum og aðeins Noregur hefur jafnt hlutfall meðal þjóða heims. Þá eru 99% orku til húshitunar framleidd með jarðhita eða raforku sem hvergi þekkist annars staðar á byggðu bóli. Um 72% af heildarorkunotkun þjóðarinnar í dag kemur frá endurnýjanlegum orkulindum, jarðvarma og vatnsafli en 28% eru innflutt olía til samgangna og skipaflotans.
Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun haustið 2002 kom ítrekað fram hjá fulltrúum þróunarríkja að aukin orkunotkun þeirra væri grundvallaratriði fyrir útrýmingu fátæktar, framförum og sjálfbærri þróun í þessum ríkjum. Jafnframt var lögð mikil áhersla á að auka raforkuframleiðslu og dreifingu í þróunarríkjum til að þeir tveir milljarðar jarðarbúa sem ekki njóta rafmagns fái notið þess sem fyrst.
Á vettvangi samnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar hefur verið fallist á sérstöðu Íslands til að nýta hreinar orkulindir landsins áfram til notkunar við iðnaðarframleiðslu. Með þessu ákvæði verður okkur heimilt að byggja upp orkufreka stóriðju er styðst við endurnýjanlega orkugjafa, því ella hefði orka til þessara iðjuvera verið framleidd með mengandi orkugjöfum með margfalt meiri losun gróðurhúsalofttegunda.
Okkur ber eigi að síður skylda til þess, eins og öðrum þjóðum, samkvæmt loftslagssamningnum að vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi með öllum mögulegum aðgerðum.
Ágætu gestir.
Við lifum í allsnægtarsamfélagi sem okkur hefur tekist að byggja upp á örfáum áratugum. Á einni öld hefur Ísland breyst úr einu af fátækustu löndum álfunnar í að vera land þar sem ein tekjuhæsta þjóð í heimi býr. Aukin og bætt menntun og mannauður til margra alda skýrir þessa byltingu að nokkru leyti, en það sem sköpum skiptir er að okkur hefur tekist að nýta náttúruauðlindir landsins, fiskimiðin og orkulindirnar til bættra lífskjara þjóðarinnar.
Megi svo verða lengi enn.