Aðalfundur Samtaka fiskvinnslu án útgerðar 6. nóvember 2004
Ræða Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra á aðalfundi Samtaka fiskvinnslu án útgerðar 6. nóvember, 2004
Ágætu fundarmenn!
Í ræðum mínum að undanförnu hefur mér orðið tíðrætt um miklar og örar breytingar í fiskvinnslunni á undanförnum árum. Fiskkaupendur verða sífellt kröfuharðari, auknar og breyttar kröfur um gæði, rekjanleika, stærðarflokkun og efnainnihald eru til merkis um það. Margir ykkar sem hér eru, hafið verið brautryðjendur í að aðlaga framleiðsluna nýjum kröfum fiskkaupenda þar sem þið hafið getað með skjótum hætti komið til móts við breytileika markaðarins. Þekking ykkar á útflutningi á ferskum fiski hefur verið mikils virði fyrir þjóðina. Þróun ykkar í ferskfiskútflutning undanfarin áratug hefur reynst okkur sérstaklega mikilvæg nú þegar samkeppni frá Kína er orðin eins mikil og raun ber vitni. Þessi staðreynd sýnir okkur að fyrirtækin í samtökum ykkar eru nauðsynlegur hlekkur í þeirri heildarkeðju sem útgerð, fiskvinnsla og útflutningur sjávarafurða á Íslandi er.
Það eru hins vegar ekki aðeins að kröfur markaðarins verði sífellt flóknari heldur bætast þar við kröfur opinberra stofnana bæði hér á landi og erlendis ásamt aðgerðum og upphlaupi ýmissa öfgasamtaka sem skeyta of litlu um staðreyndir og gera út á einfaldan boðskap og vilja fólks til að láta gott af sér leiða í náttúru og umhverfisvernd. Gengur þeim best að fá fólk til að styðja það sem er svo fjarlægt því að afleiðingarnar snerta það ekki sjálft. Sjávarútvegur er, hvort sem okkur líkar betur eða verr, í þeirri stöðu í borgar og tæknisamfélagi nútímans. En barátta slíkra samtaka sem ekki byggir á traustum grunni skilar litlu. Hún skapar hins vegar mikla vinnu fyrir þá sem þurfa að verjast ásókninni. Þeir sem gæta hagsmuna Íslands og sjávarútvegsins í heild hafa að undanförnu beitt sé í meira mæli við að koma staðreyndum til skila bæði í alþjóðlegu starfi og heimavinnu í upplýsingamálum.
Við þurfum að vera viðbúin því óvænta úr þessari átt annars getur útflutningur sjávarfangs hlotið mikinn skaða af. Það er því einnig mikilvægt að búa yfir vönduðum upplýsingum frá viðurkenndum aðilum og vera ætíð viðbúinn því að þurfa að koma þeim hratt og örugglega á framfæri. Það getur skipt sköpum varðandi markaðsaðgang okkar víða um heim eins og sýndi sig þegar lagt var til bann við innflutningi á fiskimjöli í dýrafóður. Í því tilfelli tókst að milda áhrifin til muna þó svo að ekki tækist að afstýra banni við að nota fiskmjöl í fóðri jórturdýra. Binda menn nú vonir við, að í ljósi þess að tekist hefur að endurbæta próf á greiningu kjötmjöls í fóður, muni framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aflétta banninu. En það er við rammann reip að draga þar sem er "svokallað almenningsálit" sem birtist m.a. í þeirri skoðun nokkurra þingmanna á þingi ESB að ekki eigi að fella bannið úr gildi því að ekki sé eðlilegt að kýr éti fisk !! Mér þykja slík ummæli sýna vanþekkingu á nútíma fóðrun dýra.
Af dæminu má sjá hvernig einstakar stjórnvaldsaðgerðir geta skaðað útflutningstekjur okkar með beinum hætti og óhætt er að fullyrða að verr hefði farið ef ekki hefðu verið til upplýsingar frá þar til bærum aðilum. Það getur tekið einn dag að eyðileggja markaðsstarf sem hefur tekið ár og jafnvel áratugi að byggja upp. Til að koma í veg fyrir að útflutningstekjur þjóðarinnar skaðist vegna nýrra viðmiða eða krafna þá verðum við að með óyggjandi hætti að geta sýnt fram á að fiskafurðir okkar séu öruggar með hliðsjón af þeim viðmiðum sem í gildi eru. Útflutningstekjur sjávarútvegsins eru ein megin stoð íslenska efnahagskerfisins og því ber okkur að tryggja þær eins og frekast er kostur.
En það er fleira en slíkar stjórnvaldsaðgerðir og aðgerðir náttúruverndarsamtaka sem geta haft víðtæk áhrif á fismarkaði. Það færist sífellt í aukanna að stórfyrirtæki setji fram eigin kröfur varðandi öryggi matvæla. Við þurfum líka að vera búin undir að þær geti verið á skjön við það sem opinberir aðilar krefjast á hverjum tíma. Í þessu felst bæði ögrun en sannarlega líka mikil sóknarfæri fyrir íslenskan fiskútflutning. Það felast tækifæri í því fyrir okkur að stórfyrirtæki eins og Carrefour, McDonalds og Unilever séu farin að taka það upp hjá sjálfum sér að gera kröfur um að fiskur sem þau kaupa sé veiddur úr stofnum sem nýttir eru með sjálfbærum hætti. Nú þegar hefur starfsfólk sjávarútvegsráðuneytisins þurft að gefa skýringar á því hvers vegna við veiðum umfram það aflamark sem er ákveðið í upphafi hvers fiskveiðiárs. Fyrirtæki gera einnig ríka kröfu um öryggi matvæla. Af þessu má sjá hvernig þessir þættir spila allir saman og tengjast markaðsfærslu sjávarafurða með beinum hætti og ef við stöndum okkur ekki í öflun upplýsinga þá getur það komið í bakið á okkur fyrr en varir og hefur ráðuneytið og stofnanir þess verið meðvituð um þetta.
Að frumkvæði sjávarútvegsráðuneytisins hóf Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins
árið 2003 að mæla innihald óæskilegra efna í sjávarafurðum, bæði afurðum
til manneldis og afurðum lýsis- og mjöliðnaðar. Upplýsingarnar munu nýtast
þeim sem vinna við að selja sjávarafurðir til að meta það hvernig afurðir
standast þau mörk sem þegar eru í gildi á Íslandi, ESB og viðskiptaþjóðum
Íslendinga, og sem stjórnvöld og söluaðilar sjávarfangs þurfa að geta upplýst
kaupendur og neytendur um.
Niðurstöður mælinganna hafa nú verið birtar á netinu, nánar tiltekið á
heimsíðum sjávarútvegsráðuneytisins og hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
Megin niðurstöður þeirra mælinga sem liggja fyrir sýna að mengunarefni í íslensku sjávarfangi eru í langflestum tilvikum langt undir þeim mörkum sem sett hafa verið.
Þá er rétt að geta þess að til þess að tryggja frekari uppbyggingu á þessu sviði er í fjárlagafrumvarpi því sem nú liggur fyrir gert ráð fyrir 30 milljónum sem sérstaklega eru ætlaðar í þetta verkefni. Viðbótar mælingar á heilnæmi sjávarfangs munu fyrst og fremst fara fram í nýrri aðstöðu Rf í rannsóknahúsi Háskólans á Akureyri sem nýverið tók til starfa.
Í sumar var kynnt skýrsla sem unnin var af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og hægt er að nálgast á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins. Í henni er bent á fleiri leiðir til að tryggja öryggi útflutningstekna.
Góðir fundarmenn!
Við höfum áður rætt á þessum vettvangi um aukið virði sjávarfangs. Í skýrslu AVS-hópsins er gerð grein fyrir framtíðarsýn fagfólks í sjávarútvegi. Einn þeirra þátta sem ætlað er stórt hlutverk og mun snerta ykkur í framtíðinni er fiskeldið. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að hlutur þess geti vaxið úr einum milljarði frá árinu 2001 í 36 milljarða á árinu 2012. Vitaskuld hlýtur þessi framtíðarsýn að teljast nokkuð bjartsýn og fyrir liggur að ef hún á að verða að raun þarf að herða sóknina. Því nýjustu tölur sýna að útflutningstekjur fiskeldisafurða námu um 1500 milljónum króna á árinu 2003 eins og fram kemur í nýrri skýrslu Fiskeldisnefndar um stöðu og framtíðaráform í íslensku fiskeldi sem Valdimar Ingi Gunnarsson sjávarútvegsfræðingur tók saman.
Eldi nýrra tegunda þarf ekki endilega að þróast með sama hætti og laxeldið. Þó margir horfi til þess að þorskeldi þróist þannig gæti það hæglega lagt drjúgan skerf til verðmætaaukningar þó mál þróist á annan veg. Benda má í því sambandi á að hér á landi hefur náðst mikill árangur í eldi á bleikju en styrkur hennar liggur meðal annars í því að hún er framleidd í litlu magni og því fæst gott verð fyrir hana inn á sérhæfða markaði. Þannig má hugsa sér að tækifæri okkar liggi í því að einblína ekki um of á magnframleiðslu heldur framleiða fleiri tegundir og leita sérhæfðra markaða þar sem hátt verð fæst fyrir fiskinn. Ég undirstrika þó að með þessum orðum er ég hvergi að leggjast gegn fiskeldi á stórum skala, ef sýnt þykir að það gefi góðan arð.
Hvaða leið sem verður ofaná í þróun eldisins hér, þá er ljóst að það verður til þess að auka framboð á sjávarfangi í framtíðinni. Þetta skiptir ykkur miklu máli því þrátt fyrir ógnanir eldisins þá hljóta að felast í því fleiri tækifæri fyrir ykkur. Fiskvinnslur án útgerða munu án efa verða öflugir kaupendur á eldisfiski í framtíðinni og geta orðið þar sem annars staðar lykilaðilar í því að framleiða inn á sérhæfða markaði.
Í sjávarútvegsráðuneytinu hefur um nokkurt skeið verið unnið að nýrri reglugerð um vigtun sjávarafla. Síðastliðið vor kynnti ráðuneytið á netinu drög að nýrri reglugerð sem fela í sér töluverðar breytingar frá núgildandi reglugerð. Markmiðið með hugmyndinni að breytingunum er að taka tillit til nýrrar tækni sem gerir okkur kleift að einfalda reglurnar til að auðveldara sé að fylgja þeim og jafnframt varðveita gæði aflans. Athugasemdir bárust frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar um ýmis atriði sem snéru meðal annars að meginreglunni um heilvigtun, hlutfalli íss í afla og vigtun á fiskmörkuðum. Í ljósi innkominna athugasemda hefur ráðuneytið ákveðið að fara yfir málið meðal annars í samstarfi við ykkur. Allir eru meðvitaðir um nauðsyn þess að endurskoða reglur um vigtun sjávarafla og þörfina á því að aðlaga reglurnar að starfsemi mismunandi fyrirtækja, fiskvinnslustöðva og fiskmarkaða þannig að sem mest sátt ríki um málið.
Varðandi starfsumhverfi fiskmarkaða er rétt að taka það fram að í ráðuneytinu hefur verið hafin vinna við endurskoðun laga um uppboðsmarkaði sjávarafurða. Núgildandi lög eru frá árinu 1989. Þau eru ekki mjög ítarleg, en hafa gegnt hlutverki sínu vel. Í núgildandi lögum er gert ráð fyrir því að markaðir setji sér starfsreglur sem ráðherra samþykkir. Þetta er fyrirkomulag sem ef til vill þarf að endurskoða með það í huga að setja ítarlegri efnisreglur í lögin eða reglugerð byggða á þeim, fremur en að láta fiskmörkuðum þetta eftir í eigin starfsreglum. Áður en þessari vinnu verður lokið verður hún að sjálfsögðu kynnt hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri.
Ágætu fundarmenn!
Þið haldið nú upp á 10 ára afmæli samtaka ykkar. Á þeim tíma og lengur hafið þið sýnt að fiskvinnslur sem ekki ráða yfir kvóta eru nauðsynlegur þáttur í flóru þeirra fyrirtækja sem starfa í þessum geira. Þið hafið sýnt fram á að með útsjónarsemi og sókn inn á sérhæfða markaði sem borga hátt verð fyrir góða vöru skila vinnslur ykkar arði. Útsjónarsemi og góður rekstur er gott veganesti inn í framtíðina sem styrkir þá trú mína að samtök ykkar eigi eftir að halda upp á mörg stór afmæli þegar fram líða stundir. Til hamingju.