Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. nóvember 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Háskólinn á Akureyri veitir Dr. Shirin Ebadi, friðarverðlaunahafa Nóbels, heiðursdoktorsnafnbót.

Dr. Shirin Ebadi, friðarverðlaunahafi Nóbels, háskólarektor, bæjarstjóri, góðir gestir,

Það er mér sönn ánægja að fá að vera hér í dag og taka þátt í þeirri merkilegu athöfn sem hér fer fram. Ég vil byrja á því að óska Shirin Ebadi til hamingju með heiðursdoktorsnafnbótina og ekki síður vil ég óska Háskólanum á Akureyri, stjórnendum, kennurum og nemendum, til hamingju með daginn. Það er skólanum ákaflega mikilvægt að Shirin Ebadi skuli vera hér í dag til að taka við þessari útnefningu.

Það er okkur Íslendingum mikilvægt, eins og öðrum þjóðum, að mannréttindamál séu stöðugt til umræðu. Þess vegna er tilkoma nýrrar deildar hér við háskólann á sviði félagsvísinda og laga afar jákvæð þar sem sérstök áhersla er lögð á kennslu í mannréttindum.

Það er mikill heiður fyrir svo unga deild að fyrsti heiðursdoktor við hana skuli vera handhafi friðarverðlauna Nóbels. Shirin Ebadi hefur lengi barist fyrir mannréttindum í heimalandi sínu Íran og einnig utan þess. Í baráttu sinni hefur hún lagt áherslu á friðsælar og lýðræðislegar lausnir á erfiðum málum. Rauði þráðurinn í hennar starfi er barátta gegn mismunum byggðri á kynferði eða trúarbrögðum. Þar hefur eðli málsins samkvæmt farið mest fyrir baráttu hennar fyrir frelsi kvenna innan íslamskra samfélaga. Hún hefur einnig barist fyrir mannréttindum barna í heimalandi sínu m.a. með stofnun samtaka til stuðnings börnum. Mikið verk er óunnið á því sviði og því skiptir máli að alþjóðasamfélagið viðurkenni störf einstaklinga eins og Shirin Ebadi. Það gerum við með ráðstefnu eins þeirri sem fram fer hér í dag og með því að veita heiðursdoktorsnafnbót. Veiting friðarverðlauna Nóbels hafa einnig mikla þýðingu fyrir það starf sem Shirin Ebadi vinnur.

Við sem búum fjarri þeim heimi sem Shirin Ebadi er alin upp í þekkjum illa til aðstæðna þar. Því er fróðlegt að fá að hlýða hér á fyrirlestra um þetta efni. Áherslur Shirin Ebadi á nýtúlkun íslamskrar trúarkenninga eru afar athyglisverðar, en rangtúlkun á íslam hefur bitnað mjög á réttindum kvenna í gegnum tíðina, og gerir enn, þótt staða kvenna sé misjöfn milli ríkja. Þegar staða kvenna í fjarlægum heimshlutum kemur til umræðu virðast áhyggjur okkar hér á landi oft harla léttvægar. Það breytir þó ekki því að við eigum ekki að líða nokkra misnotkun byggða á kynferði í okkar samfélagi. Okkur ber einnig siðferðileg skylda til að styðja baráttu fyrir mannréttindum í fjarlægum löndum.

Fordómum verður aðeins eytt með upplýstri umræðu.

Ég endurtek hamingjuóskir mínar til Dr. Shirin Ebadi og til Háskólans á Akureyri og óska ráðstefnunni heilla.

Takk fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta