Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. janúar 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Umræður utan dagskrár um gildistöku og áhrif nýrra raforkulaga

Herra forseti

Eins og kunnugt er hefur gjörbreyting á skipulagi raforkumála landsins verið í undirbúningi í mörg ár og Alþingi sett lög um það efni. Nú um nýliðin áramót reyndi loks á framkvæmd þessa mikla lagbálks. Fréttaflutningur og umræða hefur verið einhæf og dregin eru fram einstök dæmi um hækkanir, en lítið fjallað um lækkanir, sem einnig eru verulegar. Ég fagna því að fá tækifæri til að geta nú hér á hinu háa Alþingi gert grein fyrir stöðu málsins. Þetta mun ég gera með því

Markmiðið með raforkulögunum er að skapa skilyrði fyrir samkeppni, en mér er fulljóst að lögin ein leiða ekki til samkeppni, til þess þarf markaðsvitund og auðvitað mun það taka tíma og réttar aðstæður að hún verði til. En það gagnsæi sem nú verður í verðmyndunni og það aukna eftirlit sem nú er með verðlagningu á sérleyfisþjónustunni, flutningi og dreifingu, hefur alla burði til að þess að veita fyrirtækjunum í raforkugeiranum aðhald.

Sagt hefur verið í umræðunni að hið nýja fyrirkomulag valdi miklum nýjum kostnaði. Svo er ekki enda hefur Orkustofnun einungis viðurkennt tvo kostnaðarliði sem tengjast breytingunum: Annars vegar eftirlitsgjald, sem nemur um 40 m.kr. á ári og hins vegar kostnaður vegna stofnunar Landsnetsins upp á 100 m.kr. Til samans eru þessir kostnaðarliðir langt undir 1% af heildarsöluverðmæti raforkunnar. Orkustofnun er jafnframt upp á lagt að gera hagræðingarkröfu til sérleyfisfyrirtækjanna, hún nemur á þessu ári 1% af heildarveltu þeirra.

Að settum tekjumörkum hafa fyrirtækin verið að setja sér gjaldskrár. Eins og vera ber rúmast þær innan hinna settu tekjumarka og sum fyrirtækjanna, RARIK, Orkubú Vestfjarða og Orkuveita Húsavíkur nýta þessi tekjumörk ekki að fullu, en aðrir þar með Landsnet nýta tekjumörkin því sem næst til fulls. Alþingi setti varfærnisleg mörk hvert arðsviðmiðið við setningu tekjumarkanna ætti að vera. Engu að síður er þetta viðmið hærra en sá arður sem fyrirtækin hafa almennt haft, enda hafa sum þeirra beinlínis verið rekin með tapi. Fyrirtækin eru nú að nýta tækifærið og auka arðsemi sína úr því að það rúmast innan tekjumarkanna. Þetta atriði eitt er stærsta skýringin á því að verð á rafmagni virðist nú vera að hækka nokkuð umfram almennt verðlag.

Spyrja má hvort þetta sé afleiðing af raforkulögunum eða nokkuð sem fyrirtækin hefðu gert hvort eð er fyrr eða síðar ef ekki ætti að stefna í óefni. Það verður t.d. ekki annað séð en að Landsnetið og móðurfyrirtæki þess Landsvirkjun séu til samans að bæta hag sinn með gjaldskrárbreytingunn nú sem eitt og sér gæti valdið um tveimur prósentum í hækkun raforkuverðs. Þar við bætist á almennu nótunum að allar verðskrár eru nú færðar upp til nýs verðlags. Þetta skýrir um 2-4% af verðhækkunum allt eftir því hvenær síðast var sett gjaldskrá og hvort nú er horft til verðlags í ársbyrjun eða spáðu verði um mitt ár.

Vitað var að það yrðu viðbótarhækkanir hjá Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur. Það á sér einkum þær skýringar að jöfnuður í flutningi á raforku er aukinn með hinum nýju lögum. Þeir sem gjalda þessa eru auðvitað þeir sem hafa lítinn ávinning af útvíkkun flutningskerfisins. Það eru einkum þessar tvær veitur auk Norðurorku. Aftur á móti kemur þetta atriði RARIK og Orkubúi Vestfjarða til góða. Þá veldur það hækkun hjá Hitaveitu Suðurnesja að nú er gert skylt að gjalda fyrir alla raforkuframleiðslu til hins sameiginlega flutningskerfis.

Á móti þessum hækkunum kemur verulegt lækkunartilefni einkum á svæðum RARIK og Orkubúsins. Það er af tvennum toga: Annars vegar aukin flutningsjöfnun, eins og fyrr segir, og hins vegar 230 m.kr. framlag frá ríkinu til lækkunar á dreifingarkostnaði í dreifbýli. Rétt er að fara nánar í þetta síðara atriði:

Hingað til hefur gilt sama gjaldskrá fyrir raforku á veitusvæðum RARIK og Orkubúsins hvort sem orkunni er dreift í strjálbýli eða þéttbýli, enda þótt vitað sé að það sé allt að tvöfalt dýrara að dreifa í sveitum en bæjum. Raforkunotendur í þéttbýli á þessum svæðum hafa því axlað þær byrðar umfram aðra landsmenn að greiða niður rafmagn fyrir dreifbýlið. Á þessu ranglæti var tekið með nýju lögunum.

Þetta er gert með þeim hætti að kostnaður við dreifingu í dreifbýli og þéttbýli er aðgreindur og sett tvenns konar tekjumörk þar að lútandi. Síðan er fyrrgreind fjárhæð úr ríkissjóði notuð til að lækka gjaldskrá fyrir flutning og dreifingu í dreifbýlinu niður að því marki að hún sé ekki hærri en sú gjaldskrá sem hæst er í þéttbýli, en þar nemur dreifingarkostnaðurinn að meðaltali 3,60 kr. á kWst. Þetta markmið laganna um jöfnun dreifingarkostnaðar næst að fullu með umræddri upphæð, öndvert við það sem fram hefur komið í umræðunni að mikið vanti á.

En lítum þá á nokkur dæmi um verðbreytingar. Í þeim dæmum sem ég ætla nú að nefna er gert ráð fyrir að ekki sé hitað upp með rafmagni.

  • Rafmagnskostnaður heimilis á þéttbýlissvæði RARIK lækkar um 5-10%. Hjá heimilum á dreifbýlissvæði RARIK sem nota lítið rafmagn hækkar reikningurinn lítillega, en lækkar hjá þeim sem nota meira og því meira sem þau nota meira rafmagn.
  • Rafmagnsreikningur fyrirtækja á þéttbýlissvæði RARIK lækkar um 20-25%, en heldur minna í dreifbýlinu, en lækkar þó talsvert. Þetta skiptir t.d. verulegu máli fyrir fiskvinnslufyrirtæki á landsbyggðinni.
  • Rafmagnsreikningur til heimila á þéttbýlissvæði Orkubús Vestfjarða lækkar um allt að 10%, því meira sem notkunin er meiri.

En það eru vissulega dæmi um hækkanir:

  • Raforkukostnaður á eldri svæðum Hitaveitu Suðurnesja hækkar hlutfallslega allmikið eða um allt að 20%. Gildir það jafnt um heimili sem og fyrirtæki. Verðið verður þó áfram lágt. Á veitusvæðum Hitaveitu Suðurnesja í Árborg og Vestmannaeyjum verður hækkunin verulega minni og minnst hjá fyrirtækjum.
  • Hjá Orkuveitu Reykjavíkur verður 2-8% hækkun hjá fyrirtækjum og heimilum.
  • Hjá Orkubúi Vestfjarða hækkar verð til smærri heimila án rafhitunar talsvert eða um rúmlega 20% sem gerir allt að 10 þúsund kr. á ári (með VSK).
  • Hjá Orkubúi Vestfjarða hækkar verð á afltaxta til fyrirtækja í dreifbýli á bilinu 15-25% en verð til fyrirtækja stendur nánast í stað í þéttbýlinu á Vestfjörðum.

Fyrr í þessari ræðu hef ég rætt um ytra tilefni til hækkunar. Að teknu tilliti til þessa er samt um ríflega hækkun að ræða hjá Hitaveitu Suðurnesja, sem helgast væntanlega af því að fyrirtækið er að bæta hag raforkuþáttarins í rekstri sínum. Þá eru hækkanir hjá Orkubúi Vestfjarða meiri en við var búist, en hafa verður í huga að fyrirtækið hefur verið rekið með tapi undanfarin ár.

En þá vil ég víkja að því sem mest hefur verið í umræðunni hækkun á kostnaði þeirra heimila sem hita upp með rafmagni. Sagðar hafa verið miklar sögur í þeim efnum. Hæst hef ég heyrt nefnda 75% hækkun! Sem betur fer fer því fjarri að um slíkar hækkanir sé almennt að ræða. Lítum á málið með sanngirni. Meðalheimili með rafhitun notar um 85% orkunnar til upphitunar og afganginn til venjulegra heimilisnota sem aðrir. Heildarnotkun slíkra heimila er þá á bilinu 30 til 40 þús. kWst á ári. Samkvæmt þeim gjaldskrám sem nú hafa verið gefnar út kemur eftirfarandi í ljós með þessi heimili:

  • Rafmagnsreikningur þeirra heimila á svæði RARIK sem hita upp með rafmagni hækkar að öllu óbreyttu um 15-20% í þéttbýli, en vart minna en 30% í dreifbýli.
  • Á Vestfjörðum er hliðstæð hækkun 5 til 10% í þéttbýli en 30 til 40% í dreifbýli.

Vissulega er hér um að ræða hækkanir hjá þessu fólki sem ekki verður við unað en áður en rætt verður um aðgerðir í því skyni er rétt að greina helstu þættina í verðhækkuninni:

Rafmagn til hitunar íbúðarhúsnæðis hefur notið sérstakra kjara með margvíslegum hætti og það svo að endanlegt verð til neytenda hefur verið undir helmingi verðs fyrir aðra raforku. Þetta er gert hér á landi til að jafna aðstöðu þessara íbúa við þá sem eru þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa jarðhita.

  • Ríkið ver nær 900 m.kr. á ári til beinna niðurgreiðslna á rafhitun og annarra tengdra aðgerða.
  • Landsvirkjun hefur veitt afslátt, allt að 100 m.kr. á ári.
  • Veitufyrirtækin sjálf hafa bætt í kringum 20 m.kr. við þennan afslátt. En það sem er meira um vert þá hafa þau haft sérstaka rafhitunargjaldskrá sem hefur verið mun lægri en gjaldskrá fyrir aðra notkun raforku.

Nú gerist það að fyrirtækin fella niður alla þessa sérívilnun til rafhitunar. Hvers vegna gera fyrirtækin þetta og er það innan heimilda þeirra? Er það jafnvel eitthvað sem lögin og eftirlitsaðilinn hefur fyrirskipað, eins sumir hafa haldið fram í fjölmiðlum? Hið sanna í þeim efnum er að sérleyfisfyrirtækin, Landsnetið og dreifiveiturnar, mega ekki veita sérívilnanir eftir því hver endanleg notkun rafmagnsins er. Þau mega því ekki hafa sértaxta fyrir flutning eða dreifingu á raforku, en séu rök fyrir því að mikil notkun, eins og rafhitun að jafnaði er, hafi minni kostnað í för með sér en venjuleg heimilisnotkun má láta það endurspeglast í gjaldskrám dreifiveitna.

En þótt sérleyfisfyrirtækin hafi nokkuð skerta möguleika á því að taka tillit til húshitunar þá gildir annað um orkusalana, þá sem eru að framselja raforkuna frá framleiðendum. Ekki verður séð annað en þeim sé heimilt að laða að sér góða kaupendur með sérstökum rafhitunarkjörum, nokkuð sem þeir virðast ekki hafa gert. En með þeirri samkeppni sem vonandi verður má ætla að þessi notendahópur hefði allsterka stöðu til að ná góðum kjörum.

Meðan fyrirtækin gera ekki betur er ljóst að ríkisvaldið verður að koma til sögunnar til að draga úr þeim hækkunum sem sérstaklega bitna á þeim heimilum sem búa við rafhitun. Að því hefur verið unnið á síðustu vikum í samstarfi iðnaðarráðuneytis, Orkustofnunar og dreififyrirtækja. Meðal tillagna sem hafa verið til skoðunar og kynntar voru í ríkisstjórn s.l. þriðjudag eru þær að lækka þak á niðurgreiddri hámarksnotkun úr 50.000 kWst á ári niður í 35.000 kWst á ári og nota það fjármagn er þannig sparaðist til aukinnar niðurgreiðslu á heimilishitun einkum þar sem hækkun hitunarkostnaðar er mest. Að auki hefur verið lagt til að hækka framlag til niðurgreiðslu húshitunar úr ríkissjóði þannig að hækkun á rafmagnskostnaði þessara heimila verði ekki hærri en 5-8% í þéttbýli og mest um 10% í strjálbýli. Þetta myndi þýða að auka þarf niðurgreiðslur til rafhitunar um allt að 135 mkr og nema þá heildarniðurgreiðslur til raffhitunar um 1 milljarði króna.

Herra forseti

Ég hef á naumum tíma farið vítt og breytt yfir mikið mál. Ég trúi því og treysti að þær breytingar sem nú ganga yfir raforkugeirann verði til góðs. Byrjunarörðugleikar eru nokkrir, flestir voru fyrirsjáanlegir aðrir síður. Enda þótt raforkuverð hafi nú lækkað víða, nokkuð sem mun ekki síst koma atvinnurekstri á landsbyggðinni til góða, hafa hækkanir einnig orðið nokkrar.

Ástæðurnar eru bersýnilega þær að orkufyrirtækin eru að nota tækifærið til að bæta hag sinn, enda hefur afkoma þeirra margra verið fremur bágborin. Þetta hafa þau m.a. gert með því að fella niður ýmsar sérívilnanir sem veittar hafa verið einstökum hópum notenda. Þetta eru breytingar sem að óbreyttum raforkulögum hefðu verið gerðar hvort eð er. Sé talið nauðsynlegt af félagslegum eða byggðalegum ástæðum að veita slíkum hópum sérstaka ívilnun virðist óhjákvæmilegt að fjármagna það með almennum hætti, hvort sem það er með fjármunum úr ríkissjóði eða sérstöku raforkugjaldi, sem ég er þó ekki að leggja til hér og nú.

Herra forseti

Ég hef lokið máli mínu.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta