Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. febrúar 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Vaxtarsamningur Vestfjarða til aukinnar samkeppnishæfni og sóknar

Kæru gestir,

Það er mér sérstakt ánægjuefni að bjóða ykkur velkomin hingað í dag á kynningarfund um skýrslu Verkefnisstjórnar um byggðaáætlun Vestfjarða.

Á umliðnum árum hafa örar breytingar átt sér stað hvarvetna í heiminum, sem rekja má til efnahagslegra, tæknilegra og pólitískra þátta. Þessar breytingar má m.a. sjá í aukinni alþjóðavæðingu, sem hefur haft veruleg efnahagsleg og menningarleg áhrif á alþjóðavettvangi, einstök lönd, svæði, borgir og bæi. Allar þessar breytingar hafa haft áhrif á byggðaþróun og atvinnulíf. Við þessu þarf að bregðast, ef mögulegt á að vera að auka verðmætasköpun og bæta lífskjör.

Það var ekki síst á þessum grunni sem Alþingi samþykkti í maí 2002 tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002 – 2005. Eitt meginmarkmið þeirrar stefnu er að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni, líka í þeim byggðarlögum sem eru fjölmennust, hafa mest aðdráttarafl fyrir fólk og besta möguleika til uppbyggingar atvinnulífs, skóla, menningarlífs og opinberrar þjónustu. Ástæða er til að leggja áherslu á að efling stærstu þéttbýlisstaðanna á landsbyggðinni er ekki á kostnað minni og dreifbýlli svæða. Þvert á móti.

 

Í árslok 2003 skipaði ég verkefnisstjórn til að gera tillögu um byggðaáætlun fyrir Vestfirði. Í verkefnisstjórnina voru skipuð: Baldur Pétursson, iðnaðarráðuneyti, sem jafnframt gegndi formennsku, Kristján G. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Ísafirði, Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæ, Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði og Ásdís Leifsdóttir, sveitarstjóri á Hólmavík. Starfsmenn verkefnisstjórnarinnar hafa verið þau, Aðalsteinn Óskarsson, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Hrefna Magnúsdóttir, Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Guðmundur Guðmundsson, Byggðastofnun.

 

Hlutverk nefndarinnar var að leggja áhersla á verkefni sem líkleg eru til að skila árangri í styrkingu atvinnulífs og annarra búsetuskilyrða á Vestfjörðum og gera tillögur til ráðherra um aðgerðir í byggðamálum fyrir Vestfirði – þar sem lögð yrði áhersla á að styrkja Ísafjörð sem byggðakjarna á Vestfjörðum. Áætlað var að verkefninu lyki eigi síðar en við lok ársins 2006. Verkefnisstjórnin hefur nú, einungis rúmlega ári frá því að hún hóf störf, skilað tillögum sínum í viðamikilli skýrslu – þar sem byggt er á upplýsingum og samráði við aðila á svæðinu, auk þess sem aflað var upplýsinga og samráð haft við erlenda sérfræðinga. Því má segja að tillögurnar séu verulega á undan áætlun.

 

Það er niðurstaða Verkefnisstjórnar að Vestfirðir eigi sér mikla möguleika til vaxtar og þróunar og aukinnar samkeppnishæfni, með þeim aukna fjölbreytileika og bættum lífskjörum sem því fylgir. Markmiðið er að fyrir árið 2020 verði íbúatala Vestfjarða komin í um 8300, sem samsvarar árlegri fjölgun íbúa um 40, eða sem nemur 0,5%. Þetta er vissulega björt framtíðarsýn, en árangur næst ekki sjálfkrafa. Til þess að hann náist þarf atorku og samvinnu allra aðila.

 

Tillögur Verkefnisstjórnar er skipt í 3 flokka sem eru: 1. Uppbyggingu Ísafjarðarbæjar sem byggðakjarna, 2. Vaxtarsamning og 3. tillögur um beinar aðgerðir á einstaka sviðum.

 

Markmið tillagnanna er fyrst og fremst að auka hagvöxt svæðisins, fjölga atvinnutækifærum og treysta Ísafjörð sem byggðakjarna svo hann geti enn frekar sinnt því lykilhlutverki sínu að vera miðstöð atvinnu, menningar og þjónustu á öllum Vestfjörðum.

 

Óhætt er að fullyrða að tillögur þær sem hér eru settar fram, séu um margt nýjung á sviði byggðamála hér á landi, ekki síst hvað varðar uppbyggingu í formi svokallaðs vaxtarsamnings þar sem lögð er áhersla á þrjá klasa á sviði sjávarútvegs og matvæla, mennta og rannsókna, og menningar og ferðaþjónustu.

 

Útfærslan í svokölluðum Vaxtarsamningi, er nokkuð nýstárleg en áhersla er lögð á sérstöðu og styrkleika svæðisins, sem og samkeppnishæfni atvinnulífs. Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis í fjölmenni eða fámenni, þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna með markaðstengdum aðgerðum þar sem atvinnulíf ber uppi hagvöxt svæðisins. Þessar áherslur byggjast á og eru í samræmi við fyrri stefnumörkun stjórnvalda um uppbygginu byggðakjarna, en segja má að hér séu stigin markviss skref um framkvæmd þeirrar stefnumörkunar. Áherslur eru um margt sambærilegar og á Eyjafjarðarsvæðinu. Fyrir utan tillögu er snýr að vaxtarsamningi eru í skýrslunni einnig fjölmargar tillögur um einstaka framkvæmdir, er miða allar að því að efla Vestfirði sem samfélag sem byggir á fjölbreytileika og góðum lífskjörum.

 

Einnig er þess að geta að í um það bil eitt ár hefur verið unnið að þrem mikilvægum tillögum sem nefndin setti fram fljótlega eftir að hún hóf störf – og varða uppbygginu í eldis og veiðarfæratækni, snjófljóðarannsóknarmiðstöð og Háskólasetur. Sumar af þessum tillögum eru þegar komnar til framkvæmda og aðrar langt komnar.

Þar sem þetta eru tillögur verkefnisstjórnar til ráðuneytisins, verður næsta skref að meta þær og kalla eftir samstarfi við viðeigandi aðila, s.s. önnur ráðuneyti, bæjaryfirvöld á Ísafirði, sveitarfélög á svæðinu, atvinnulíf o.s.frv. Einnig má líta á tillögurnar sem hugmyndabanka að framkvæmdum, sem meta verður með markvissum hætti á næstunni í samvinnu við hlutaðeigandi aðila.

 

Að mínu mati er æskilegt að sumar af þeim tillögum sem hér eru settar fram verði sem fyrst að veruleika, s.s. tillaga um vaxtarsamning sem byggir á því að efla Ísafjörð sem byggðakjarna Vestfjarða. Ráðuneytið mun kalla eftir samráði viðeigandi aðila á næstunni með það að markmiði að meta þessar tillögur og hrinda þeim í framkvæmd eftir því sem tilefni, möguleikar og aðstæður leyfa. Samstillt átak sveitarstjórna, atvinnulífs og ríkisvalds er nauðsynlegt til að skila árangri.

 

Góðir gestir,

Við þurfum að halda vöku okkar þegar við vinnum að frekari þróun á sviði samkeppnishæfni og byggðamála. Þá er afar mikilvægt að leita að nýrri þekkingu og reynslu, til að sækja fram á nýjum sviðum. Með skýrslu þessari eru stigin skref í þessa átt.

Ég vil að lokum þakka þeim fjölmörgu aðilum sem komið hafa að þessu starfi á einn eða annan hátt. Síðast en ekki síst, vil ég þakka Verkefnisstjórninni um byggðaáætlun Vestfjarða sérstaklega fyrir sitt starf.

 

Við sem hér erum samankomin trúum því öll að hér á Vestfjörðum séu sóknarfæri og góðir möguleikar til vaxtar. Sú vinna sem nú er gerð opinber er mikilvægt gagn og leiðarvísir í þeirri vinnu sem er framundan. Nú reynir á alla þá sem málið varðar að sameinast um framkvæmdir á hinum ýmsu sviðum. Ég er bjartsýn fyrir hönd Vestfjarða þegar ég lít fram á veginn.

Ég þakka áheyrnina.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta