Aðalfundur Félags íslenskra stórkaupmanna.
Ný samkeppnislög.
Fundarstjóri og aðrir góðir gestir.
Ég vil í upphafi þakka fyrir að vera boðið að ávarpa árlegan aðalfund Félags íslenskra stórkaupmanna. Samtök ykkar hafa í gegnum tíðina mjög látið sig varða samkeppnismál og framkvæmd samkeppnisreglna og bent á það sem betur mætti fara í þeim efnum og er það vel.
Þegar ég talaði hér síðast fyrir einu ári skýrði ég frá því að ég hefði skipað nefnd um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis sem m.a. var ætlað að taka fyrir hvernig bregðast mætti við aukinni samþjöppun í íslensku viðskiptalífi og með hvaða hætti þróa ætti reglur þannig að viðskiptalífið væri skilvirkt og nyti trausts.
Að mínu mati vann þessi nefnd mjög gott starf og hún skilaði af sér skýrslu í september sl. sem hafði að geyma margar athyglisverðar tillögur til úrbóta. Meðal þeirra eru tillögur nefndarinnar varðandi samkeppnismál og á grundvelli þeirra hef ég látið vinna frumvarp að nýjum samkeppnislögum sem lagt verður fyrir Alþingi á næstu dögum. Þess skal þó getið að frumvarpið hefur einnig að geyma ný ákvæði sem rekja má til breyttra reglna EES-samningsins um framkvæmd samkeppnisreglna hans.
Það er skemmst frá því að segja að frumvarpið felur ekki í sér breytingar á efnisákvæðum samkeppnisreglnanna sem slíkra, það er bannið við misnotkun markaðsyfirráða, bannið við samkeppnishamlandi samningum og inngripum í samruna fyrirtækja. Breytingarnar lúta fremur að skipulagi samkeppniseftirlits og viðbrögðum samkeppnisyfirvalda við tilteknum samkeppnisaðstæðum og ítrekuðum samkeppnislagabrotum sem ég mun koma nánar inn á hér á eftir.
Hvað varðar skil á milli lögsögu lögregluyfirvalda og samkeppnisyfirvalda þegar upp koma alvarleg samkeppnislagabrot og þann ágreining sem upp kom milli þessara yfirvalda í því sambandi nýverið þá er starfandi nefnd á vegum forsætisráðuneytisins sem skoðar þetta mál en á þessari stundu er ekki ljóst hvenær niðurstöður hennar munu liggja fyrir.
Ég vil sérstaklega taka það fram að enda þótt ríkisstjórnin telji nauðsynlegt að gera breytingar á skipulagi samkeppniseftirlits hér á landi felst ekki í því gagnrýni á starf núverandi samkeppnisyfirvalda. Samkeppnisráð og Samkeppnisstofnun hafa allt frá því að samkeppnislögin frá 1993 tóku gildi unnið mjög gott starf. Nægir í því sambandi að nefna stór mál eins og grænmetismálið og olíumálið sem allir þekkja. Hvað varðar olíumálið þá er það ljóst að vinna samkeppnisyfirvalda í því máli, hver sem endanleg niðurstaða verður fari málið alla leið í gegnum dómstólakerfi, hefur vakið verðskuldaða athygli allra á skaðsemi alvarlegustu samkeppnislagabrotanna og verður án efa áminning um ókomin ár til allra fyrirtækja að virða samkeppnisreglur.
Framkvæmd samkeppnislaga, skipulag samkeppniseftirlits sem og efni reglnanna sjálfra tekur óhjákvæmilega breytingum í tímans rás. Efnahags- og viðskiptalíf sem byggir á frjálsu markaðshagkerfi stendur ekki í stað, það breytist í samræmi við þarfir þess og tækifæri, það þróast með tækniframförum og nýjum viðskiptaaðferðum og mótast að öðru leyti af þeirri umgjörð sem viðskiptalíf á hverjum tíma býr við og ég held að það sé ljóst að til þess að samkeppnisreglur virki sem best og hafi tilætluð áhrif verður að laga efni þeirra og framkvæmd að þeim samkeppnislegu vandkvæðum sem við er etja á hverjum tíma jafnframt því sem það verður að móta samkeppnisstefnu á grundvelli áherslna og mats á skaðsemi tiltekinna markaðs- og samkeppnisaðstæðna.
Saga samkeppnisreglna hér á landi er ekki ýkja löng. Hún spannar einungis um 25 ár og enn skemmri tíma ef miðað er við virka samkeppnislagaframkvæmd. Á sama tíma hafa orðið gífurlegar breytingar í viðskipta- og efnahagslífi okkar og það er athyglisvert að samkeppnislöggjöfin hefur einnig tekið miklum breytingum á þessum tíma. Í því sambandi er sennilega stærst breytingin sem var gerð árið 2000 þegar samkeppnislögin voru efnislega færð í sama mót og samkeppnisreglur Evrópska efnahagssvæðisins og Evrópusambandsins. Þessar breytingar fólust í afdráttarlausu banni við misnotkun markaðsyfirráða og útvíkkun á því ákvæði sem bannar hvers konar samkeppnishamlandi samninga. Það er m.a. af þessari ástæðu sem viðskiptalífsnefndin taldi ekki ástæðu til að setja sérstök lög um hringamyndun.
Stjórnsýsla og skipulag samkeppniseftirlits hefur hins vegar tekið mun minni breytingum frá því fyrstu lögin sem höfðu að geyma samkeppnislagaákvæði voru sett 1978 og má segja að við höfum búið við lítið breytt fyrirkomulag í þeim efnum allt frá þeim tíma. Á sama tíma hefur viðskiptalífið hins vegar tekið miklum breytingum. Samþjöppun hefur vaxið mikið á mörgum sviðum og fyrirtæki eru orðin stærri og öflugri en áður eru dæmi um í okkar tiltölulega litla hagkerfi. Í ljósi þessa og jafnframt með í huga hin umfangsmiklu mál sem samkeppnisyfirvöld hafa orðið að kljást við undanfarið er eðlilegt að stjórnvöld líti til þess hvort efla megi samkeppniseftirlit og gera það skilvirkara með því að gera breytingar á skipulagi þess um leið og þau skuldbinda sig til að láta meira fé rakna til samkeppniseftirlits í samræmi við þær pólitísku áherslur sem þau leggja á málaflokkinn.
Samkvæmt núgildandi samkeppnislögum er það samkeppnisráð sem er hinn formlegi úrskurðaraðili í samkeppnismálum á neðra stjórnsýslustigi. Það er hins vegar Samkeppnisstofnun sem rannsakar og undirbýr mál sem lögð eru fyrir samkeppnisráð og annast dagleg störf ráðsins. Þannig er það Samkeppnisstofnun sem sér um málsmeðferð þar til ákvörðun er tekin í máli. Þá tekur Samkeppnisstofnun bráðabirgðaákvarðanir þegar mál þola ekki bið. Eins og fyrr segir byggir þetta fyrirkomulag stjórnsýslu í samkeppnismálum á arfleifð frá þeim tíma þegar verðlagsráð, verðlagseftirlit og verðlagsstofnun voru við lýði samkvæmt eldri lögum.
Það var mat viðskiptalífsnefndarinnar að þetta fyrirkomulag væri óþarflega flókið og er ég sammála því mati. Frumvarpið að nýjum samkeppnislögum gerir ráð fyrir að þetta fyrirkomulag verði einfaldað og jafnframt verði starfssvið nýs samkeppniseftirlits afmarkaðra en áður og verður það gert með því að færa framkvæmd lagaákvæða sem lúta að neytendavernd og óréttmætum viðskiptaháttum til annarrar stofnunar. Tilgangurinn með hvoru tveggja er að leggja grunn að skilvirku samkeppniseftirliti.
Samkvæmt frumvarpinu verður skipulag stjórnsýslunnar í samkeppnismálum þannig að ný stofnun, Samkeppniseftirlitið, mun fara með framkvæmd samkeppnismála í umboði ráðherra. Viðskiptaráðherra setur Samkeppniseftirlitinu þriggja manna stjórn sem skal hafa það hlutverk að móta áherslur í starfsemi stofnunarinnar og fylgjast með starfsemi hennar og rekstri. Samkvæmt frumvarpinu eru gerðar strangar kröfur um hæfni stjórnarmanna en þeir skulu hafa sérþekkingu á samkeppnis- og viðskiptamálum og hafa menntun sem nýtist á því sviði. Samkeppniseftirlitið mun annast eftirlit samkvæmt lögunum og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin taka til. Í því felst m.a. að Samkeppniseftirlitið verður úrskurðaraðilinn í málum sem það tekur til rannsóknar, þó þannig að það skal bera undir stjórn eftirlitsins til samþykktar eða synjunar allar meiri háttar ákvarðanir. Þannig mun hlutverk stjórnar Samkeppniseftirlitsins verða annað og meira en samkeppnisráðs sem hefur fyrst og fremst lýst sér í því að það hefur verið hinn formlegi úrskurðaraðili í málum sem Samkeppnisstofnun hefur rannsakað.
Þær skipulagsbreytingar sem ég hef gert hér grein fyrir í fáum orðum og sem felast í afmarkaðra starfssviði Samkeppniseftirlitsins, hnitmiðaðri málsmeðferð og skipun stjórnar fyrir Samkeppniseftirlitið sem mótar samkeppnisstefnuna eiga allar ásamt hækkunum á framlögum til Samkeppniseftirlits að leiða til skilvirks og öflugs samkeppniseftirlits sem verði vel í stakk búið til að framfylgja markmiði samkeppnislaganna og stuðla að réttlátri samkeppni okkur öllum til hagsbóta.
Eins og ég nefndi í upphafi þá felast nýmælin í nýju samkeppnislögunum (ef frumvarpið nær fram að ganga) ekki eingöngu í skipulagsbreytingum á Samkeppniseftirlitinu. Samkvæmt frumvarpinu á Samkeppniseftirlitinu að vera heimilt að beita úrræðum bæði til breytinga á atferli og skipulagi fyrirtækja ef það er nauðsynlegt til að stöðva brot gegn ákvæðum laganna eða til að bregðast við aðstæðum sem skaðleg áhrif hafa á samkeppni.
Fyrirmæli að ofan ef svo má að orði komast um breytingar á skipulagi fyrirtækis, jafnvel uppskiptingu þess, eru að sjálfsögðu mjög afdrifarík aðgerð sem verður ekki beitt nema að teknu tilliti til meginreglunnar í stjórnsýslurétti um meðalhóf. Engu að síður er hér um mjög athyglisvert ákvæði að ræða sem mun gera Samkeppniseftirlitinu kleift að grípa inn í aðstæður á fákeppnismörkuðum og mæla fyrir um skipulagsbreytingar hjá markaðsráðandi fyrirtækjum sem ítrekað misnota yfirburðastöðu sína.
Hér er ekki tími til að gera nákvæma grein fyrir þeim nýju ákvæðum sem tekin verða upp í nýju samkeppnislögin vegna breytinga á framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins. Þetta eru þó mjög athyglisverðar breytingar sem munu hafa bein áhrif á framkvæmd samkeppnisreglna hér á landi. Þessi áhrif munu m.a. birtast í því að íslensk samkeppnisyfirvöld og íslenskir dómstólar verða skyldugir til að beita samkeppnisreglum EES-samningsins þegar þær eiga á annað borð við.
Hingað til hefur það fyrst og fremst verið í verkahring eftirlitsstofnunar EFTA að framfylgja samkeppnisreglum EES. Nú þegar ábyrgðin á að framfylgja samkeppnisreglum EES verður ekki síður í höndun íslenskra yfirvalda má segja að samkeppnisreglur EES séu raunverulega orðnar hluti af landslögum á Íslandi. Það er ljóst að þessar breytingar munu bæði hafa áhrif á starfsemi samkeppnisyfirvalda og dómstóla sem og á möguleika fyrirtækja að láta reyna á samkeppnisreglur EES fyrir þessum stofnunum.
Ég hef hér gert grein fyrir í stuttu máli helstu breytingunum sem frumvarp að nýjum samkeppnislögum gerir ráð fyrir og markmiði þeirra breytinga. Ég get þó ekki skilist við ykkur hér í dag án þess að gera grein fyrir þeim breytingum sem gerðar verða á framkvæmd ákvæðanna um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd samkvæmt tveimur frumvörpum sem verða lögð fram samhliða samkeppnislagafrumvarpinu. Annars vegar er um að ræða frumvarp að lögum um Neytendastofu og talsmann neytenda og hins vegar lagafrumvarp um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Það er mín skoðun að þær breytingar sem þessi frumvörp boða muni á sama hátt og nýju samkeppnislögin efla eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og neytendavernd. Samkvæmt frumvarpinu um Neytendastofu mun sú stofnun hafa með höndum eftirlit með lagaákvæðum sem snúa að neytendavernd og óréttmætum viðskiptaháttum, en auk þess verða færðir til hennar málaflokkar sem heyra nú undir Löggildingarstofu. Í tengslum við Neytendastofu er gert ráð fyrir að komið verði á stofn embætti talsmanns neytenda sem hafi það hlutverk að taka við erindum frá neytendum, gefa út álitsgerðir og hafa frumkvæði að úrbótum sem snerta hagsmuni einstaklinga sem neytenda. Talsmaðurinn mun ekki hafa yfir að ráða eigin starfsliði heldur nýta starfsmenn Neytendastofu sér til aðstoðar við dagleg störf og undirbúning mála. Ég bind miklar vonir við starf talsmanns neytenda. Það er full þörf á að tryggja enn frekar en nú er réttindi og hagsmuni neytenda í þjóðfélagi þar sem viðskiptalíf og viðskiptaaðferðir þróast jafn ört og raun ber vitni og eftir því sem fleiri svið þjónustu og atvinnustarfsemi eru færð undir lögmál markaðarins.
Góðir aðalfundargestir.
Ég óska Félagi íslenskra stórkaupmanna allra heilla og vænti hér eftir sem hingað til góðrar samvinnu við samtökin um úrlausn þeirra mála sem snerta verslun og viðskipti og til framfara horfa.