Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. febrúar 2005 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Verðmæti ferðaþjónustunnar

Ávarp Sturlu Böðvarsson á málþinginu er eftirfarandi:

Fundarstjóri, góðir fundarmenn!

Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með þetta málþing hér í dag. Það er auðvitað eðlilegt að hver og ein atvinnugrein skoði stöðu sína reglulega, meti aðstæður og hugi að því hvað megi betur fara.

Mér er það vel ljóst að ferðaþjónustan, eins og aðrar útflutningsgreinar, er að ganga í gegnum erfitt skeið. Gengi krónunnar hefur verið sveiflukennt undanfarin ár og mátti því búast við að tvísýn staða kæmi upp fyrr eða síðar. Að sama skapi má reikna með að krónan veikist á ný og hagur útflutningsgreinanna vænkist. Um þetta verður eflaust fjallað af mikilli kunnáttu hér á eftir og ég sný mér því að öðru þó að ég sé að sjálfsögðu reiðubúinn til að ræða þessi mál við ferðaþjónustuna hvar og hyggst því setja af stað öflugan vinnuhóp sem er ætlað að vera til ráðgjafar í ráðuneytinu um stöðu ferðaþjónustunnar. Tekjur af ferðamönnum hafa aukist hröðum skrefum og allt útlit fyrir enn eitt metárið í ár.

Í rétt ársgamalli skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að heildarumsvif í hagkerfinu vegna útgjalda erlendra ferðamanna hafi verið um 92,2 milljarðar árið 2002. Með hliðstæðri nálgun má gera ráð fyrir að þessi tala hafi nú þegar hækkað verulega. Það kemur því á óvart að stórfjárfestar eygi ekki möguleika í ferðaþjónustu á Íslandi á sama tíma og þeir fara í miklar áhættufjárfestingar á erlendum vettvangi. Ferðaþjónustan er stærsti atvinnuvegur veraldar og hefur farið vaxandi hér.

Það er stefna mín að áfram verði stefnt að því að stjórnvöld taki fullan þátt í almennri landkynningu. Það er vilji til að efla þessa atvinnugrein enn frekar og nýta þau tækifæri sem enn eru vannýtt. Ég kem betur að því síðar.

Á undanförnum árum hef ég látið greina stöðu, hæfni og möguleika okkar í ferðaþjónustunni. Má þar nefna skýrslu um Heilsutengda ferðaþjónustu, Menngingartengda ferðaþjónustu, skýrslu um framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu og skýrslu sem nefnd var Auðlindin Ísland, þar sem greindir voru megin seglar Íslands sem mynda auðlindir Íslands sem ferðaþjónustan selur. Nú hef ég látið vinna greinargerð sem felur í sér ferðamálaáætlun til næsta áratugar. Í þessari áætlun eru lagðar línur um það helsta sem að ferðaþjónustunni snýr og mun hún vonandi marka stefnu sem greinin ætti að gera fylkt sér um. Magnús Oddsson ferðamálastjóri stýrði vinnu ásamt Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra SAF og Helgu Haraldsdóttur, skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu. Að vinnunni kom einnig öflugt bakland helstu hagsmunaaðila og fulltrúa stjórnmálaflokkanna.

Það sem gerir ferðaþjónustuna ólíka öðrum atvinnugreinum er hve víða þræðir hennar liggja. Það er því ógerlegt að vinna að markmiðum ferðamálaáætlunar án náinnar samvinnu við ráðuneyti annarra málaflokka, svo sem fjármálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis.

Í framhaldi af þessu starfi við gerð áætlunar á sviði ferðamála hefur verið stefnt að því að leggja fram nýtt frumvarp um skipan ferðamála og hafa drög að því verið send til umsagnar og eru ágæt viðbrögð sem nú er unnið úr. Lögin sem nú eru í gildi eru að stofni til frá árinu 1964 og því löngu kominn tími á heildarendurskoðun.

Lagt var upp með að megintilgangur frumvarpsins skyldi vera þríþættur. Annars vegar breytingar varðandi stjórnsýslu með stofnun sérstakrar stofnunar og að færa þangað þær leyfisveitingar sem eru óhjákvæmilegar. Hins vegar að einfalda leyfisveitingar og tryggingamál ferðaskrifstofa. Í þriðja lagi að skýra og styrkja hlutverk Ferðamálaráðs. Og er í frumvarpinu gert ráð fyrir að nafni skrifstofu Ferðamálaráðs verði breytt í Ferðamálastofu.

Það er algjörlega nauðsynlegt að taka á tryggingarmálum ferðaskrifstofa og reyna að einfalda alla umsýslu vegna þeirra. Það er alls ekki eðlileg ráðstöfun að samgönguráðuneytið sjái um mat á tryggingarskyldri starfsemi, útgáfu leyfa og vörslu ábyrgða. Við gjaldþrot Samvinnuferða-Landsýnar haustið 2001 kom líka í ljós að ábyrgð sem ráðuneytið tók góða og gilda var ekki pappírsins virði. Þrátt fyrir að þar væri ábyrgð eigenda sem voru og eru með öflugustu aðila SAF, en kusu að hlaupast undan merkjum þegar á reyndi. Það var reyndar óvenjulegt mál og fer fjarri að ég sé að gefa í skyn að eitthvað sé gruggugt hjá öðrum ferðaskrifstofum. Það sem ég er að segja er að það verður að vera í höndum tryggingarfélaga að tryggja alferðir og heimflutning farþega komi til gjaldþrots eða annars tjóns. Vona ég að sátt náist um þessa leið og að atvinnugreinin sjái sér hag í því að leita nýrra leiða í þessum málum.

Nái frumvarpið fram að ganga munu helstu verkefni Ferðamálastofu verða, fyrir utan útgáfu ferðaskrifstofuleyfa, svipuð því sem nú er: Það eru þróunar- og gæðamál ferðaþjónustu, samræming umhverfis- og fræðslumála, miðlun upplýsinga, alþjóðlegt samstarf og markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar á vegum hins opinbera. Ferðamálastofu er einnig heimilt að hafa frumkvæði að, eða taka á annan hátt þátt í, samstarfsverkefnum með hagsmunasamtökum eða fyrirtækjum í greininni.

Ferðamálaráð fer núna með hlutverk stjórnar skrifstofu Ferðamálaráðs en með nýjum lögum yrðu tengsl ráðsins og Ferðamálastofu, sem stjórnsýslustofnunar, rofin þar sem það er skipað hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu. Þetta er í samræmi við starfsemi Flugráðs, Hafnarráðs, Siglingaráðs og Umferðarráðs.

Frumvarpið gerir ráð fyrir breytingu á skipan og hlutverki Ferðamálaráðs og að ráðið verði samgönguráðherra til ráðgjafar á sviði ferðamála. Ferðamálaráð skal, samkvæmt frumvarpinu, skipað átta fulltrúum í stað sjö eins og nú er en það eru nýmæli er að Útflutningsráð Íslands tilnefni í ráðið og er það til að tryggja aðkomu annarra útflutningsgreina að umfjöllun um ferðamál. Á þetta hef ég lagt mikla áherslu enda nauðsynlegt að ferðaþjónustan samsami sig enn frekar með öðrum útflutningsgreinum.

Stefnt er að því að fá nýju Ferðamálaráði mun skýrara hlutverk en núverandi ráði. Er það í samræmi við ábendingar úr greininni. Því yrði til að mynda falið það gríðarlega mikilvæga verkefni að gera tillögur til ráðherra um landkynningarmál. Ferðamálaráð leggi því meginlínurnar í því hvar og hvernig ferðamannalandið Ísland skuli kynnt fyrir umheiminum. Um nákvæmlega þennan þátt hefur jafnan staðið nokkur styr og hef ég velt því töluvert fyrir mér hvort og þá hvernig stjórnvöld eiga að koma að almennri landkynningu. Það er spurning hvort markaðsmálin eigi alfarið að vera í höndum fyrirtækjanna og ferðamálayfirvöld einbeiti sér að uppbyggingu nauðsynlegra innviða atvinnugreinarinnar. Með því að láta Ferðamálaráði þetta stefnumótunarverkefni í hendur er aðkoma hagsmunaaðila að markaðsmálum mun betur tryggð en hingað til. En auðvitað veldur hver er á heldur. Þetta reynir á að þeir sem tilnefni í ráðið geri sér grein fyrir hlutverki þess og þeirri miklu ábyrgð sem því er falin.

Ég hef verið ákaflega ánægður með það hvernig til hefur tekist með Iceland Naturally verkefnið í Bandaríkjunum og hvernig samstarf ríkisins og fyrirtækja hefur náð að blómstra. Því er ég núna að ýta úr vör Iceland Naturally í Evrópu sem tilraunaverkefni.

Samstarf atvinnugreinarinnar og stjórnvalda um almenna landkynningu var reynt með stofnun Markaðsráðs ferðaþjónustunnar og var hugmyndin sú að ná meiri slagkrafti með auknu fé – sem við þekkjum öll orðið ágætlega. Þar var atvinnugreinin sjálf í forystu og margt ákaflega vel gert. Það starf kom þó engan veginn í staðinn fyrir þá landkynningu sem skrifstofur Ferðamálaráðs standa að.

Þó að ég sé talsmaður þess að atvinnulífið og stjórnvöld taki höndum saman um einstök verkefni þá vil ég sjá framkvæmd markaðsmála í höndum Ferðamálastofu og að hún starfi eftir þeim meginlínum sem nýtt og öflugt Ferðamálaráð leggur.

Ég fæ ekki ekki séð hvernig skilja megi að markaðsmálin og Ferðamálastofu án þess að setja nýja stofnun á laggirnar með öllum þeim skyldum sem nú hvíla á skrifstofu Ferðamálaráðs. Samstarf greinarinnar við ríki og sveitarfélög er af hinu góða og mun ég vinna því brautargengi eftir því sem fjármunir fást og góðar hugmyndir kvikna. Ný stofnun við hlið Ferðamálastofu í formi einhverskonar Markaðsráðs kemur hins vegar ekki til greina miðað við núverandi forsendur.

Yfirskrift þessa fundar er ,,Verðmæti ferðaþjónustunnar". Verðmæti ferðaþjónustunnar hefur vaxið ár frá ári. Ferðamönnum fjölgar stöðugt. Það fer ekki hjá því að við verðum að viðurkenna að landkynning og markaðssókn hefur tekist einstaklega vel. Og þar gildir það að veldur hver á heldur..........

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri hér í dag en vona að dagskrá þessa málþings SAF verði okkur öllum uppspretta fróðleiks og uppörvunar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta