Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

7. mars 2005 MatvælaráðuneytiðGuðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007

Ávarp á Búnaðarþingi 2005

Forseti Íslands, formaður Bændasamtakanna, Haraldur Benediktsson og frú, ágætu Búnaðarþingsfulltrúar og aðrir góðir gestir.

Margt hefur á dagana drifið á einu ári, merk tíðindi og nýjar áskoranir sem blasa nú við fulltrúum bænda á þessu Búnaðarþingi.  Breytingar eru örar og á slíkum tímum reynir mjög á aðlögunarhæfni landbúnaðarins.  Vil ég nota það tækifæri sem mér gefst hér í dag til að hvetja bændur til að viðhalda einbeittri samstöðu um sameiginlega hagsmuni og standa þéttan vörð um þau gildi sem liggja til grundvallar afkomu þeirra í órofinni heildarstefnu.  Með því að snúa bökum saman skapa bændur sér allar forsendur til að mæta farsællega þeim áskorunum sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir. 

Stærstu tíðindin úr stofnanakerfi landbúnaðarins frá því við komum síðast hér saman eru án efa stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands, sem byggður er á þremur traustum stoðum: Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Garðyrkjuskólanum á Reykjum og Rannsóknastofnun landbúnaðarins á Keldnaholti.  Hér er kominn til öflugur háskóli í kennslu, rannsóknum og leiðbeiningum, sannkallaður atvinnuvegaháskóli, sem verður nýtt flaggskip landbúnaðarins, háskóli sem boðar bændum framtíðarinnar nýja tíma og ný tækifæri.  Ég trúi því að þessi tímamót séu ein þau áhugaverðugustu á sviði menntunar og vísinda í landinu.

Hólaskóli hefur ennfremur verið í örum vexti og vil ég treysta stoðir hans sem mennta- og rannsóknastofnun á háskólastigi með breytingum þar að lútandi á lögum um búnaðarfræðslu.  Fjölþætt starf skólans á sviði hrossaræktar og reiðmennsku, fiskeldis og ferðaþjónustu er landbúnaðinum mikilvægt og styrkir stoðir atvinnulífs til sveita í umbreytingum samtímans.

Þegar þróun síðustu ára er skoðuð í sveitum þessa lands, blasir við hve menntun og rannsóknir hafa skilað landbúnaðinum og þeim sem hann stunda miklu.    Ný störf hafa skapast og bændur hafa eflst til sóknar og baráttu á nýjum sviðum.  Hefðbundnar búgreinar byggja sókn sína á gömlum gildum.  Þótt breytingar dagsins séu á margan hátt sárar, eins og fækkun og stækkun búa, þá verðum við að viðurkenna að vísindin og tæknin efla alla dáð og gera störf bóndans auðveldari og markvissari.  Ennfremur verður framleiðsla hans líklegri til að standa undir fjölþættum væntingum neytenda í vaxandi samkeppnisumhverfi.

Tilkoma Landbúnaðarháskóla Íslands er okkur hvatning til að halda áfram á sömu braut við endurskoðun á stoðkerfi landbúnaðarins, stofnunum hans og leiðbeiningastarfi.  Að þessu verkefni vil ég vinna í fullu samstarfi við forystumenn bænda.  Ég hef þegar kynnt frumvarp um háskólavæðingu Hólaskóla og er nú með í undirbúningi frumvarp um svonefnda Landbúnaðarstofnun, öfluga stjórnsýslu- og eftirlitsstofnun landbúnaðarins sem ætlað verður m.a. að sameina krafta nokkurra undirstofnana landbúnaðarráðuneytisins.

Í ljósi þróunar fjármálamarkaðarins hér á landi, sem einkum felst í hagstæðari kjörum á lánsfé og auðveldara aðgengi að fjármagni, ákvað ég í byrjun þessa árs að skipa verkefnisstjórn til að fara sérstaklega yfir framtíðarhlutverk og tilgang Lánasjóðs landbúnaðarins. Verkefnisstjórnin hefur ekki lokið störfum, en ég tel samt sem áður mikilvægt að Búnaðarþing fjalli efnislega um málið og þá félagslegu þætti sem sjóðurinn hefur staðið vörð um.  Ég tel afar þýðingarmikið að bændur komist að sameiginlegri niðurstöðu um framtíðarskipan þeirra mála er varða lánveitingar til landbúnaðarins og stöðu Lánasjóðsins í því sambandi.

Jafnréttismálin eru mér ofarlega í huga og vil ég hvetja ykkur til að vinna að aukinni þátttöku kvenna í félagsmálefnum bænda.  Það á að vera sameiginlegt verkefni kynjanna að vinna að jafnrétti.  Af fulltrúum bænda á Búnaðarþingi eru einungis 9 konur en 40 karlar. Þessu þarf að breyta.  Til að sjónarmið beggja kynja öðlist brautargengi í félagsmálum bænda þarf að hvetja konur til virkrar þátttöku. 

Ágætu Búnaðarþingsfulltrúar.

Ísland er hreint land og fagurt, vissulega kalt land á mælikvarða heimsins, en stórbrotið og engu líkt í huga okkar Íslendinga og hins erlenda gests.  Erlendir gestir sækja okkur heim, ekki bara landsins vegna heldur einnig fólksins vegna.  Við höfum náð miklum árangri í sveitum landsins og landbúnaðurinn skilar af sér afurðum, sem vekja ekki síður áhuga og aðdáun en sjávarafurðir okkar.  Verður Ísland fyrsta sjálfbæra þjóð heimsins á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs, þjóð sem lifir í sátt við náttúruna og varðveitir sínar auðlindir?  Það metnaðarfulla markmið eigum við að setja okkur.

Á fáeinum árum hafa bændur og afurðastöðvar þeirra tekið stór og markviss skref í átt til neytandans og á það við allar búgreinar.  Lambið er ekki lengur selt í grisjupokum, gamalt og þurrt.  Kjötiðnaðarmenn fullvinna það í afurðastöðvum og metnaður er í hávegum hafður.  Smásöluverslunin keppir um að hafa kjötborð sín heillandi.  Íslenskir og erlendir neytendur kunna að meta þessa þróun og þykir vænna um íslenskan landbúnað en áður og bændurnir okkar njóta verðskuldaðrar virðingar.

Nýr samningur við mjólkurframleiðendur varð að veruleika á síðasta vori með gildistöku frá og með komandi hausti.  Þessi samningur veitir atvinnugreininni eins mikinn stöðugleika og fyrirsjáanleika í starfsumhverfi sínu og talið var unnt til ársins 2012.  Mikil samstaða var um samninginn á Alþingi bæði hjá stjórn og stjórnarandstöðu.  Var starfsumhverfi mjólkuframleiðslunnar jafnframt styrkt með lagabreytingum, sem munu auðvelda iðnaðinum að mæta vaxandi samkeppni og halda áfram að mæta kröfum neytenda um vöruúrval, gæði, hollustu og verð.  Umtalsverð hagræðing hefur átt sér stað í mjólkurframleiðslunni á undanförnum árum og heldur hún áfram.  Hátt kvótaverð er vissulega áhyggjuefni og sú mikla skuldsetning sem þeir bændur undirgangast sem stækka við sig og endurnýja sína framleiðsluaðstöðu.  Ljóst er að starfsumhverfi mjólkurframleiðslunnar mun þurfa endurskoðunar á samningstímabilinu, ekki síst með tilliti til þróunar alþjóðlegra samninga sem setja okkur vaxandi skorður í opinberum stuðningi og markaðsvernd.  Um niðurstöður slíkrar endurskoðunar vil ég ekki spá en hlýt að hvetja bændur til að fara að öllu með gát og reisa sér ekki hurðarás um öxl.   

Sauðfjársamningurinn hefur reynst vel og hefur birt yfir stöðu og horfum í markaðsmálum greinarinnar, enda ríkir nú meira jafnvægi á kjötmarkaði en um nokkurra ára skeið.  Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra kjötframleiðenda að slíkt jafnvægi ríki.  Betur er að markaðsmálum sauðfjárframleiðslunnar staðið en nokkru sinni fyrr og með markvissum og vönduðum vinnubrögðum hefur tekist að finna íslensku lambakjöti fótfestu á erlendum mörkuðum, sem gefa hátt verð fyrir mikil gæði.  Sóknarfæri til hækkunar á skilaverði til bænda liggja í útflutningi á fersku lambakjöti.  Fer bilið milli afurðaverðs innanlands og utan minnkandi, sem skapar atvinnugreininni nýja stöðu og möguleika.   Hin ótvíræðu gæði íslensks lambakjöts eru jafnframt hérlendum neytendum hvati til aukinnar neyslu.  Nú hafa bændur hafið vinnu til undirbúnings nýjum sauðfjársamningi eftir að gildandi samningur rennur út árið 2007 og er ég fús til samstarfs um það mikilvæga starf, sem eins og í mjólkurframleiðslunni mun þurfa að taka tillit til þróunar alþjóðlegra samninga.

Gott heilbrigðisástand íslensks búfjár er undirstaða þeirra gæða sem leiða af íslenskri búvöruframleiðslu.  Mikilvægt er að tryggja að þetta góða ástand varðveitist.  Þótt vel hafi til tekist tel ég tímabært að fara yfir þær baráttuaðferðir sem beitt hefur verið gegn búfjársjúkdómum með hliðsjón af fenginni reynslu og nýrri þekkingu á þessu sviði.  Hef ég því ákveðið að skipa nefnd sérfræðinga og hagsmunaaðila til að yfirfara þessi mál og gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag þeirra.

Ánægjulegt er að sjá þá þróun sem farin er að ryðja sér til rúms þar sem bændur fjárfesta sameiginlega í vélum og tækjum til að gera búrekstur sinn hagkvæmari.  Hér getur verið um gríðarlegan sparnað að ræða fyrir hvert bú og mun betri nýtingu til að standa undir fjárfestingunni.  Enn og aftur vil ég hvetja bændur til að meta hagsmuni sína sameiginlega og huga að hvers konar samstarfi um nýtingu á tækjakosti, öllum til hagsbóta.

Þær breytingar sem ráðist var í á starfsumhverfi garðyrkjunnar fyrir þremur árum hafa reynst greininni vel.  Garðyrkjan hefur styrkst, tæknivæðing aukist og greinin býður íslenskum neytendum gæðaafurðir á góðu verði allan ársins hring.  Það stefndi í að breytingar á raforkulögum myndu raska jákvæðu starfsumhverfi garðyrkjunnar og auka framleiðslukostnað umtalsvert.  Ég beitti mér fyrir því í Ríkisstjórn að framlög yrðu aukin úr ríkissjóði til að mæta viðbótarútgjöldum greinarinnar og hefur þannig tekist að viðhalda stöðugleika, framleiðendum og neytendum til heilla.

Kjúklinga- og svínabúskapur er að jafna sig eftir mikil átök á markaði, undirboð og gjaldþrot.  Ég hef oft sagt að þessar búgreinar hafi markvisst nálgast þarfir neytenda og gert það vel.  Þessi hörðu og óvægnu átök settu mark sitt á kjötmarkaðinn í heild.  Ég trúi því að mikið innra starf og vaxandi samstaða styrki þessar búgreinar á ný. 

Loðdýrabændur hafa nú hægt og hljótt unnið markvisst með stjórnvöldum að því að efla og styrkja loðdýraræktina.  Fullyrða má að samstarf þeirra með danska uppboðshúsinu og dönskum bændum hafi einnig skipt sköpum.  Þrátt fyrir styrk íslensku krónunnar og þróun dollarsins horfa loðdýrabændur með bjartsýni fram á veginn og huga að bættum rekstri, meiri kynbótum og úrvals fóðri – þannig og aðeins þannig sækja þeir fram á heimsmarkaði.  Ég er sannfærður um að ef í árdaga loðdýraræktar hefði verið unnið eftir þessari stefnu, væru loðdýrabú ekki bara nokkrir tugir heldur skiptu hundruðum.

Nú er hafin endurskoðun Búnaðarlagasamnings milli ríkisvalds og bænda.  Vel hefur tekist til í framkvæmd samningsins til þessa.  Engu að síður tel ég afar mikilvægt að fara vel yfir allar áherslur hans með tilliti til reynslunnar og mótunar framtíðarstefnu.  Slík stefna þarf að eiga kjölfestu í sameiginlegum hagsmunum bænda og neytenda. Með Búnaðarlagasamningi er samfélagið að fjárfesta í betri landbúnaði.

Gott ástand íslenskra fiskstofna í ám og vötnum má ekki síst þakka því fyrirkomulagi sem viðhaldið er í veiðimálum hér á landi.  Miklir möguleikar liggja í aukningu arðs af veiði, ekki síst í bættri nýtingu silungsvatna.  Virkjun fallvatna hefur óneitanlega í för með sér rask á náttúru landsins.  Hér á landi er orkufyrirtækjum sem vinna orku úr vatnsafli skylt að greiða í Fiskræktarsjóð, sem hefur ötullega styrkt rannsóknir á ám og vötnum og veiðistofnum þeirra, auk þess að styðja við uppbyggingu á veiðinýtingu á landsvísu.  Landsvirkjun hefur nú kunngjört skoðanir í þá veru að afnema beri þessa gjaldtöku, sem þó er mun lægri hér en í nágrannalöndum okkar.  Landsvirkjun er öflugt fyrirtæki reist fyrir almannafé.  Fyrirtækinu ber að sýna ábyrgð gagnvart náttúrunni og efla rannsóknir á vatnafari og lífríki vatna í stað þess að reyna að komast undan eðlilegu gjaldi sem varið er til slíkra rannsókna.  Vil ég með nýrri lagasetningu treysta stoðir Fiskræktarsjóð og mun ég beita mér fyrir því að málið nái fram að ganga. 

Ágætu Búnaðarþingsfulltrúar.

Miklar breytingar eiga sér nú stað í sveitum landsins.  Þar á sér stað mikil nýsköpun og búsháttabreytingar.  Hefðbundinn landbúnaður þróast á færri bú og stærri, óhjákvæmilegt segja allir þeir sem reikna út þær tekjur sem fjölskylda í sveit þarf til að lifa af.  Aukin tæknivæðing og kröfur um aðbúnað og vinnuaðstöðu bóndans styður þessa þróun, eins það aukna frjálsræði á milli landa í viðskiptum með landbúnaðarafurðir sem framtíðin er líkleg til að bera í skauti sér.  Við skulum þó, íslenskir bændur, fara að með gát; verksmiðjur og rekstur hinna ofurstóru búa er hvorki sjálfstætt né sjálfbært markmið.  Fjölskyldubúrekstur sem skilar tekjum og góðri vöru á lægra verði er kall dagsins. 

Þó þeim búum fækki sem stunda hefðbundinn búskap fjölgar þeim sem stunda aðra atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar.  Tel ég að við eigum að leggja aukna rækt við nýsköpun og uppbyggingu nýrra búgreina og þjónustustarfsemi í sveitum landsins.    Nýlega skilaði nefnd sem ég skipaði af sér skýrslu um heimasölu afurða bænda.  Hér er á ferðinni tækifæri sem getur styrkt búsetu og tekjuöflun bænda í sveitum landsins, auk þess að stuðla að varðveislu mikilvægs menningararfs.  Einnig hef ég nýlega kynnt skýrslu með tillögum er varða aðstöðu til hestamennsku á landsbyggðinni.  Þar má meðal annars finna tillögur um opinberan stuðning við byggingu reiðhalla og reiðhúsa og reiðvega og uppbyggingu hins svokallaða knapamerkjakerfis, sem gæti orðið glæsilegur grundvöllur menntunar í hestamennsku um allt land og lagt grunninn að nýju og stórauknu markaðsstarfi við sölu á reiðhestum.

 Möguleikar landbúnaðar morgundagsins verða síst minni en þeir hafa verið til þessa.  Með hagstæðari veðurskilyrðum, aukinni þekkingu og bættri tækni opnast ný tækifæri í ræktun lands.  Nægir í þeim efnum að horfa til kornframleiðslu hérlendis.  Hvet ég til málefnalegra umræðna um öll þau tækifæri sem blasa við.  Ekki er svo ýkja langt síðan menn töldu fjarstæðukennt að rækta skóg á Íslandi eða berjast við náttúruöflin við að græða landið.   Mikil gróska er nú í skógræktarstarfinu og það sama er að segja um landgræðslumál.  Fullyrða má að án þessara verkefna væri staða sveita önnur og verri en hún er í dag.  Enn minni ég á að með skógrækt og landgræðslu er verið að skapa nýja auðlind Íslands sem afkomendur okkar munu njóta góðs af.

Mikil umræða  hefur verið um votlendismál og losun koltvísýrings frá framræstum mýrum.  Á mínum vegum hefur Votlendisnefnd unnið mikið og gott brautryðjendastarf sem miðar að endurheimt votlendis. Ljóst er að mun betri upplýsingar þurfa að vera til staðar um losun frá íslenskum landbúnaði en tiltækar eru.  Á það við um fleiri þætti en mýrarnar einar.  Hvað þær varðar sérstaklega er einnig ljóst að þær vísbendingar sem við fengum út frá könnun sem gerð var í Borgarfirði nægja ekki einar sér.  Ég mun beita mér fyrir því í ríkisstjórn að sérstakir fjármunir verði settir í þetta verk.  

Hinn mikli áhugi og eftirsókn eftir því að búa í sveit og eiga land, hefur hækkað verðlag á bújörðum meira en annað á síðustu árum.  Þótt hátt jarðaverð hafi þá ókosti að torvelda kynslóðaskipti, þá var hitt óásættanlegt að jarðir, jafnvel þjóðfrægar jarðir, væru verðlausar og óseljanlegar.  Ég fagna því að bændur sem bregða búi fari ekki öreigar í litla kjallaraholu, heldur selji eign sína á hærra verði en tíðkast hefur um áratugi.

Ný jarða- og ábúðarlög tóku gildi á síðasta ári, sem fela m.a. í sér metnaðarfulla skilgreiningu á landbúnaði í samræmi við fjölþætt hlutverk hans.  Er það sannfæring mín að þær umtalsverðu breytingar sem lögin fela í sér verði landi og þjóð almennt til heilla, og þá ekki síst bændum.  Þó er ávallt ástæða til að fylgjast með þróun mála, meta áhrifin og bregðast við breyttum aðstæðum ef tilefni er til.  Hef ég fyrir mitt leyti viljað sjá bændur hafa sem ríkastan ráðstöfunarrétt á eignum sínum.  Það er engin spurning að allir þeir sem eiga sumarhús eða heilsárshús, jarðir eða jarðarparta, renna styrkari stoðum undir búsetu í sveitunum.

Landbúnaðurinn er hornsteinn hinna dreifðu byggða á Íslandi.  Ekki er hægt að ímynda sér heilsteypta byggða- og atvinnustefnu án öflugs landbúnaðar og blómlegs lífs til sveita.  Hvoru tveggja stendur og fellur með samstöðu bænda og einhug þeirra um sameiginleg gildi.  Lífsýn hins dugmikla bónda er og hefur verið “Morgunstund gefur gull í mund.”  Íslenskir bændur eru sókndjarfir á morgni nýrrar aldar.  Standi bændur saman mun þjóðin standa með þeim.  Ég óska ykkur heilla í störfum ykkar hér og til framtíðar.     

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta