Ársfundur Samtaka verslunar og þjónustu.
Fundarstjóri, ágætu aðalfundargestir.
Það er mér mikil ánægja að ávarpa Samtök verslunar og þjónustu á þessum aðalfundi. Samtökin hafa jafnt og þétt vaxið sem öflugur málsvari íslenskrar verslunar og augljóst er af störfum þeirra að þau láta sig hagsmuni félaga sinna miklu skipta. Verslun á Íslandi hefur undanfarna áratugi eflst og styrkst og er verslun og þjónusta fyrir löngu orðin mikilvægasta atvinnugrein landsmanna en rúmlega 60% landsframleiðslunnar eru þjónustugreinar einhvers konar. Undanfarin ár hafa svo verið ævintýri líkust þegar horft er til þess að íslensk verslunar- og þjónustufyrirtæki eru farin að hasla sér völl á erlendri grundu svo eftir er tekið. Fyrir stuttu var greint frá því í fjölmiðlum að íslensk fyrirtæki veita tugþúsundum manna vinnu víðs vegar um Evrópu.
Eftir því sem íslensk verslun og þjónusta eflist að styrk og áræði er mikilvægara að hugað sé vel að því baklandi sem hún byggir á, sem er fólkið sem vinnur í þessum geira. Þar hafa Samtök verslunar og þjónustu gengið á undan með góðu fordæmi með því að vinna markvisst að því að efla mannauðinn innan íslenskra verslunar- og þjónustufyrirtækja.
Eitt af því merkilegasta sem ég hef tekið eftir í starfi samtakanna undanfarin misseri er sú mikla áhersla sem þau hafa lagt á menntunarmál verslunarfólks en í þeim efnum hafa samtökin átt frumkvæði að mörgum athyglisverðum nýjungum. Þar má nefna til sögunnar samstarf samtakanna og nokkurra aðildarfyrirtækja þess við Viðskiptaháskólann á Bifröst, annars vegar um nám í verslunarstjórnun og hins vegar um stofnun Rannsóknarseturs verslunarinnar á Bifröst sem er verkefni sem viðskiptaráðuneytið hefur einnig komið að.
Það var ráðuneytinu ánægjuefni að geta ásamt SVÞ og stærstu verslunarfyrirtækjum landsins komið að stofnun Rannsóknarseturs verslunarinnar. Þessum umfangsmikla þætti efnahagslífsins hefur verið tiltölulega lítið sinnt hér á landi og löngu orðið tímabært að gera bragarbót þar á. Ég vænti mikils af starfi þessa seturs og veit að starfsgreinin mun horfa til þeirra rannsókna sem þaðan koma.
Góðir gestir,
Síðan núverandi stjórnarflokkar tóku við stjórnartaumum hefur íslenskt efnahagslíf tekið gríðarlegum breytingum. Er það ekki síst miklum skipulagsbreytingum að þakka og má þar nefna umbyltingu á skattkerfinu, auknu frelsi á fjármagnsmarkaði og eflingu atvinnulífs. Áhrif þessara breytinga eru augljós og má þar nefna mörg dæmi en augljós áhrif eru t.d. bætt samkeppnisstaða þjóðarinnar. Þar höfum við Íslendingar tekið markviss skref fram á við og er nú svo komið að Íslendingar eru fremstir þjóða hvað samkeppnishæfni varðar og í 5. sæti sé litið til þjóða heims.
Nauðsynlegt er að skapa atvinnulífinu áfram góð skilyrði til framsækni og eflingar. Þróunin verður jafnframt að vera á þann veg að atvinnulífið verði skilvirkt og njóti trausts. Í því skyni verður að leita leiða til að halda úti eðlilegum, almennum og sanngjörnum leikreglum án þess að opinbert eftirlit hefti eðlilegan framgang fyrirtækja.
Fyrir um ári síðan skipaði ég nefnd um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis. Vann nefndin gott starf og kom með margar góðar tillögur, m.a. um samkeppnismál. Á grundvelli þeirra lét ég vinna frumvarp að nýjum samkeppnislögum og lögum sem hafa það að markmiði að efla neytendavernd og neytendavitund. Hafa þessi frumvörp nú verið lögð fram á Alþingi og mun ég mæla fyrir þeim í dag. Samkvæmt þeim verður skipulagi samkeppnisyfirvalda breytt og stjórnsýsla á sviði samkeppnismála einfölduð. Þá munu samkeppnisyfirvöld fá heimild til skipulagsbreytinga á fyrirtækjum sem brotið hafa gegn ákvæðum samkeppnislaga eða hafa skapað aðstæður sem hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Neytendastofa verður sett á fót en sú stofnun mun hafa með höndum eftirlit með lagaákvæðum sem snúa að neytendavernd og óréttmættum viðskiptaháttum. Jafnframt verður komið á fót embætti talsmanns neytenda sem hefur það hlutverk að standa vörð um hagsmuni og réttindi neytenda og stuðla að aukinni neytendavernd.
Öll miða þessi frumvörp að því að lífskjör almennings og afkoma fyrirtækja byggist á heilbrigðri samkeppni um góða þjónustu, vöruúrval og lágt verð. Atvinnulífið lúti þannig leikreglum sem örva samkeppni og hvetji um leið til hagræðingar og nýsköpunar.
Samhliða eðlilegum leikreglum verður að gæta þess að eftirlitsþátturinn og reglugerðir vinni ekki gegn þeim markmiðum stjórnvalda að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar, búa í haginn fyrir enn frekari útrás íslenskra fyrirtækja á erlenda markaði ásamt eflingu þeirra heima fyrir, og því að skapa skilyrði fyrir auknar fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi. Í því skyni voru sett lög um opinbert eftirlit fyrir nokkrum árum. Í 2. gr. laganna segir að eftirlit á vegum hins opinbera megi ekki leiða til mismununar né takmarka á athafnafrelsi nema almannahagsmunir krefjist. Sérstök ráðgjafarnefnd, skipuð af forsætisráðherra, vinnur að framgangi laganna. Tel ég rétt að minnast á þetta atriði þar sem oft heyrast raddir úr atvinnulífinu þess efnis að opinbert eftirlit blási óheft út. Sú er ekki raunin og svo má ekki verða enda lýsti forsætisráðherra yfir stuðningi við þau sjónarmið að stjórnvöld hugi að frekari breytingum á eftirlitsþáttum og reglugerðarumfangi í ræðu sinni á Viðskiptaþingi fyrir mánuði síðan. Takmörkun reglugerðarumfangs er mikilvægt skref til að bæta starfsskilyrði atvinnulífsins, auka samkeppnishæfi fyrirtækja og greiða þannig fyrir auknum hagvexti hér á landi.
Góðir fundargestir,
Leikreglur einar og sér stuðla ekki að samkeppni. Þar spila aðrir þættir einnig inn í. Hefur mér á stundum fundist nokkuð vanta upp á öfluga samkeppni á ýmsum sviðum hér á landi. Sumir telja þetta afleiðingu þess að við Íslendingar séum ekki nógu meðvitaðir neytendur. Hvað sem því líður ber ávallt að fagna aukinni samkeppni, líkri þeirri sem við erum að upplifa nú á matvörumarkaðnum. Það er sannarlega gleðilegt að menn skuli vera tilbúnir að leita nýrra leiða til að geta boðið upp á lægra verð og þar með að auka samkeppni. Aukin samkeppni kemur neytendum til góða og vonandi verður framhald á þessari þróun.
Stjórnvöld hafa markvisst unnið í því á undanförnum árum að draga ríkið úr samkeppnisrekstri, m.a. til að fjölga tækifærum almennings og fyrirtækja til að láta að sér kveða og nýta þekkingu sína. Stjórnvöld hafa með öðrum orðum treyst einkaframtakinu til að sinna samkeppnisrekstri og því trausti má ekki spilla. Öflugir en jafnframt heiðarlegir forystumenn í viðskiptalífi skipta sköpum. Það má jafnvel að vissu leyti segja að í viðskiptalífinu ráðist örlög þjóða. Við munum ekki njóta hagsældar til framtíðar nema vera í fremstu röð í heiminum í verslun og viðskiptum. Ég hef fundið í starfi mínu sem ráðherra viðskipta að metnaður íslenskrar verslunar liggur ekki til neins annars.
Ágætu fundarmenn,
Þann 1. apríl næstkomandi verða 150 ár frá því að lög tóku gildi sem heimiluðu Íslendingum að reka verslun hér á landi fyrir eigin reikning. Fyrir þann tíma gátu Danir einir gert þetta. Í tilefni þessara merku tímamóta hef ég ákveðið að atburðarins verði minnst með athöfn í Þjóðmenningarhúsinu á afmælisdegi verslunarfrelsisins.
Á þessum 150 árum hefur velsæld íslensku þjóðarinnar aukist gríðarlega. Byggir hún í dag ekki síst á verslun og viðskiptum með auðlindir og hugvit. Má segja að margir öflugustu vaxtarbroddar íslensks efnahagslífs byggi á hugviti öðru fremur. Verslunin hefur augljóslega áttað sig á þessum sannindum og það ekki síst fyrir tilstilli Samtaka verslunar og þjónustu. Ég óska samtökunum velfarnaðar í öllu sínu góða starfi og vænti þess að aðalfundur ykkar verði árangursríkur.