Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. mars 2005 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Fundur Reykjavíkurakademiunnar 5. mars 2005.

Góðir gestir. Ég vil í upphafi nota tækifærið og þakka Reykjavíkurakademíunni fyrir fundarröðina um Virkjun lands og þjóðar. Þessi mál hafa verið í brennidepli þjóðmálaumræðunnar um langt skeið og ber að fagna allri málefnalegri umræðu um virkjanamál.

Umræðuefni fundarins er einkavæðing Landsvirkjunar – Verður hún seld? – Hver vill kaupa? – Er hún eigulegt fyrirtæki? Fyrstu tveimur spurningunum um hvort Landsvirkjun verði seld og hverjir vilja kaupa get ég ekki svarað en hitt veit ég að Landsvirkjun er eigulegt fyrirtæki. Einkavæðing Landsvirkjunar er ekki upp á borðinu á næstu árum og það á mikið vatn eftir að renna til sjávar áður en fyrirtækið verður selt, ef til þess mun koma.

Fyrir nokkru var skrifað undir viljayfirlýsingu um að ríkið leysi til sín eignir Akureyrar og Reykjavíkur í Landsvirkjun. Jafnframt gáfu iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra út yfirlýsingu um framtíð Landsvirkjunar. Það sem liggur fyrir nú er pólitísk stefnumörkun um að ríkið verði eini eigandi Landsvirkjunar og að ríkið hyggist sameina eignir sínar á orkusviði í eitt fyrirtæki. Stefnt er að því að þetta gerist á þessu ári.

Í yfirlýsingu iðnaðar- og fjármálaráðherra kom einnig fram hvernig ríkið sér fyrir sér framtíð hins sameinaða fyrirtækis til lengri tíma litið. Hlutafélagavæðing sameinaðs fyrirtækis er að mínu mati óumflýjanleg á næstu 3-5 árum. Hverjir eru valkostirnir við hlutafélagaformið? Ekki getur félagið verið sameignarfélag áfram því félagið verður aðeins í eigu eins aðila. Vart sjá menn fyrir sér að fyrirtækið verði ríkisstofnun. Hlutafélagaformið er langalgengasta og best skilgreinda rekstarform á Íslandi og því eðlilegast að stefnt sé að því að félag í samkeppnisrekstri sé rekið í því formi.

 

Í yfirlýsingunni kom einnig fram að hlutafélagavæðingin gæfi möguleika á aðkomu nýrra fjárfesta að fyrirtækinu. Í því felst ekki ákvörðun um einkavæðingu. Hægt væri að hugsa sér að nýir aðilar, svo sem lífeyrissjóðir, legðu fyrirtækinu til nýtt eigið fé í framtíðinni, án þess að til sölu hlutafjár ríkisins kæmi.

Ég varð mjög vör við það þegar þessi yfirlýsing var gefin út að með sölu Landsvirkjunar væri útlendingum gefinn kostur á að eignast íslenskar virkjanir og það bæri að sjálfsögðu að stöðva með öllum tiltækum ráðum. En bíðið við. Útlendingum er heimilt að reisa virkjanir á Íslandi í dag og hefur reyndar verið heimilt að eiga virkjanir á Íslandi frá árinu 1996. Þetta kemur til vegna aðiladar okkar EES.

 

II.

Góðir gestir. Ég vil fara hér stuttlega yfir rökin fyrir kaupum ríkisins á Landsvirkjun og sameiningu orkufyrirtækja ríkisins. Það eru mikil tímamót á raforkumarkaði að eigendur Landsvirkjunar skuli hafa náð saman um stefnumörkun um eignarhald fyrirtækisins. Það eru nýju raforkulögin sem eru kveikjan að viljayfirlýsingu eigenda Landsvirkjun sem undirrituð var í síðustu viku. Núverandi eigendasamsetning raforkufyrirtækja er ekki heppileg til að ná fram því markmiði raforkulaganna að stuðla að samkeppni í vinnslu og sölu raforku. Ástæðan er ekki síst sú að allir eigendur Landsvirkjunar eru eigendur að öðrum raforkufyrirtækjum, en það skapar hagsmunaárekstra. Það er því nauðsynlegt að kanna hvort samkomulag geti tekist um nýja skipan eignarhalds raforkufyrirtækja.

 

Um þetta er ekki deilt meðal eigenda Landsvirkjunar og hefur í raun náðst mjög breið samstaða um að æskilegt sé að stefna að breyttri eignaraðild. En málið á langan aðdraganda. Reykjavíkurborg hefur í mörg ár óskað eftir viðræðum við iðnaðarráðuneytið um kaup ríkisins á Landsvirkjun að hluta eða heild. Á síðasta ári var byrjað að ræða möguleg kaup ríkisins í eigendanefnd Landsvirkjunar. Jafnframt var gefin út á síðasta ári stefnumótun Reykjavíkurborgar í orkumálum þar sem sú stefna var mörkuð að borgin losaði um eignarhlut sinn í Landsvirkjun.

 

III.

En ríkið þarf einnig að móta stefnu um það hvað það hyggst fyrir með Landsvirkjun og önnur fyrirtæki í sinni eigu eftir að það hefur eignast Landsvirkjun að fullu. Það er eðlilegt að ríkið gefi strax út sína stefnu til framtíðar og byrji að vinna eftir henni. Ríkið ráðgerir að sameina Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða eftir að hafa leyst til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun. Með því sameinar ríkið eigur sínar á raforkumarkaði í eitt fyrirtæki í framleiðslu, dreifingu og sölu raforku. Gárungarnir hafa kallað þetta sameinaða fyrirtæki OVON, sem er stytting á Orkubú Vestfjarða og nágrennis.

 

Ég tel að mjög margt mæli með sameiningu Landsvirkjunar, RARIK og Orkubús Vestfjarða. Með því yrði til öflugt fyrirtæki í framleiðslu og sölu raforku. Með sameiningunni er eiginfjárstaðan styrkt og hagræðing yrði umtalsverð, m.a. í viðhaldi háspennulína. Með þessu móti lækkaði kostnaður við raforkukerfið og fyrir vikið yrði verð til notenda lægra en ella.

Þessi samruni er lóðréttur, þ.e. núverandi starfsemi fyrirtækjanna er ólík. Landsvirkjun er fyrst og fremst í framleiðslu en RARIK og Orkubúið í dreifingu. Samruni þessara fyrirtækja hefur því sáralítil áhrif á samkeppni í samkepppnisþætti raforkukeðjunnar en nokkur hagræðing verður í einkaleyfaþáttum. Saman eiga svo fyrirtækin Landsnet að fullu.

 

Nokkur umræða hefur verið um það að undanförnu að rétt sé að búta RARIK í sundur og sameina hlutana þeim dreififyrirtækjum sem fyrir eru. Ég leyfi mér að fullyrða að það yrði ekki landsbyggðinni til framdráttar ef stofnaðar yrðu litlar dreifiveitur sem einbeittu sér að takmörkuðu landssvæði. Slíkt myndi einungis auka kostnað, hækka raforkuverð og minnka samkeppni á markaðnum til lengri tíma litið.

 

Ég tel að við skipulagsbreytingar á raforkumarkaði verði að taka mið af hagræðingarsjónarmiðum, samkeppnissjónarmiðum og byggða-sjónarmiðum. Endurskipan raforkufyrirtækja verður að leiða til minni kostnaðar og betri reksturs í greininni. Þetta sjónarmið mun leiða til fækkunar fyrirtækja á raforkumarkaði. Hins vegar verður að gæta að því að samkeppni ríki í framleiðslu og sölu í samræmi við markmið raforkulaga. Hagræðing og fækkun fyrirtækja má ekki koma í veg fyrir að samkeppni geti þrifist. Að síðustu verður við endurskipan raforkumála að leitast við að treysta undirstöður byggðar í landinu í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Sameining Landsvirkjunar, RARIK og Orkubúsins nær að mínu mati mjög vel þessum markmiðum. Það verður hagræðing án þess að samkeppni skerðist. Við sameininguna gefst einnig möguleiki á að hafa byggðasjónarmið í heiðri.

 

 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta