Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar
Ræða Sturlu er eftirfarandi: Fundarstjóri, góðir fundarmenn! Það er mér bæði heiður og ánægja að ávarpa ársfund ykkar í sjötta sinn og geta með sanni sagt að ferðaþjónustan sem atvinnugrein er á mikilli siglingu. Á þessum síðustu dögum vetrarins hefur verið í mörgu að snúast í samgönguráðuneytinu. Ég hef á yfirstandandi þingi lagt fram á Alþingi 11 þingmál og þar af varða 8 þeirra ferðaþjónustuna beint og óbeint. Er hér um að ræða: 1. Löggjöf um Þriðju kynslóð farsíma, sem hefur tekið gildi 2. Löggjöf um Rannsóknir umferðaslysa, sem taka gildi í haust 3. Frumvarp til laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga 4. Frumvarp til laga um loftferðir 5. Frumvarp til laga um fjarskipti og þingsályktu um fjarskiptaáætlun 6. Þingsályktun um ferðamál 7. Samgönguáætlun og 8. Frumvarp til laga um skipan ferðamála. Ég vil sérstaklega nefna þingsályktunartillögu um ferðamál þar sem meginlínur stjórnvalda í ferðamálum til ársins 2015 eru lagðar. Tillagan byggir á vinnu stýrihóps um ferðamálaáætlun fyrir tímabilið 2006 til 2015 og gerir m.a. ráð fyrir því að náttúra Íslands, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála. Í tillögunni er jafnframt fjallað um rekstrarumhverfi, kynningarmál, rannsóknir og gæða- og öryggismál svo eitthvað sé nefnt. Tillagan fékk góðar undirtektir þegar ég mælti fyrir henni á Alþingi og spunnust um hana nokkrar umræður. Núna er hún til meðferðar hjá samgöngunefnd og býst ég við að hún verði afgreidd frá Alþingi í vor. Ég hvet fundarmenn til að kynna sér efni tillögunnar, sem er að finna á vef samgönguráðuneytisins, en henni fylgir viðamikil skýrsla stýrihópsins. Eins og ykkur er kunnugt hefur frumvarp um skipan ferðamála verið í smíðum og hefur það nú verið samþykkt í ríksstjórn. Geri ég ráð fyrir að mæla fyrir frumvarpinu á Alþingi á allra næstu dögum. Frumvarpið var samið í samgönguráðuneytinu og var haft víðtækt samráð við hagsmunaaðila og samtök þeirra. Frumvarpið var gert aðgengilegt almenningi á vef ráðuneytisins rétt fyrir jól eða á sama tíma og það var sent til hefðbundinnar umsagnar. Var athyglisvert að fá athugasemdir frá ýmsum aðilum, sem eiga hagsmuna að gæta eða eru áhugamenn um framgang ferðaþjónustunnar, en standa utan þeirra hagsmunasamtaka og stofnana sem leitað var umsagnar hjá. Þessi ráðstöfun gafst svo vel að ákveðið hefur verið að nota þetta verklag í samgönguráðueytinu framvegis þegar því verður við komið. Umsagnartíminn var einnig óvenju rúmur og er það mat ráðuneytisins að það hafi haft áhrif á hversu vandaðar og vel ígrundaðar umsagnir bárust. Megintilefni þess að ráðist var í heildarendurskoðun laganna var að gera skrifstofu Ferðamálaráðs kleift að gegna hlutverki stjórnsýslustofnunar og rjúfa valdboð á milli stofnunarinnar og Ferðamálaráðs sem er skipað hagsmunaaðilum. Skrifstofa Ferðamálaráðs mun fá heitið Ferðamálatofa. Samkvæmt gildandi lögum sér samgönguráðuneytið um útgáfu leyfa ferðaskrifstofa og aðra umsýslu er því tengist. Aðilar hafa því, eins og staðan er í dag, ekki möguleika á að skjóta ákvörðunum til æðra stjórnvalds og er það andstætt góðum stjórnsýsluháttum nútímans. Skipan ferðamálaráðs breytist nokkuð og verða í því átta fulltrúar í stað sjö eins og nú er. Samgönguráðherra skipar formann og varaformann án tilnefningar og Samtök ferðaþjónustunnar tilnefna þrjá fulltrúa í stað tveggja í núverandi ferðamálaráð. Ferðamálasamtök Íslands tilnefna tvo fulltrúa í stað eins og Útflutningsráð einn fulltrúa, en það hefur ekki tilnefnt fulltrúa í ferðamálaráð fram að þessu en ég tel nauðsynlegt að efla tengsl ferðaþjónustunnar við aðrar útflutningsgreinar. Iceland Naturally verkefnið sem samgönguráðuneytið hefur nú staðið að vel á sjötta ár í Bandaríkjunum hefur sýnt fram á að ferðaþjónustan og aðrar útflutningsgreinar eiga mikla samleið og sameiginleg markmið varðandi eflingu á ímynd landsins og kynningu á íslenskum vörum og þjónustu. Eins og áður segir er fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar fjölgað í þrjá og hefur þar verið komið til móts við eindregnar óskir samtakanna um að eiga sterka rödd í nýju ferðamálaráði. Það er auðvitað mjög mikilvægt að tryggja aðkomu hagsmunasamtaka í ferðaþjónustu að ferðamálaráði, ekki síst þegar því hefur verið falið það hlutverk að gera tillögur til ráðherra um markaðs- og kynningarmál greinarinnar. Sú sérþekking sem rekstraraðilar búa yfir nýtist þannig enn frekar við mótun þess umhverfis sem ferðaþjónustunni er búið, ekki síst á sviði landkynningar og hvernig háttað skuli meðferð opinbers fjár á þessum vettvangi. Ég bind miklar vonir við þessa breytingu og tel að með henni skapist tækifæri fyrir ferðamálaráð til að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir um stefnu yfirvalda á öllum sviðum ferðaþjónustunnar. Góðar samgöngur eru forsenda fyrir öflugri ferðaþjónustu. Endurskoðuð samgönguáætlun fyrir næstu fjögur árin hefur verið lögð fram á Alþingi. Í henni kemur fram með skýrum hætti hve mikla áherslu ég legg á að uppbygging samgöngumannvirkja komi ferðaþjónustunni að sem mestu gagni. Hefur verið leitað samráðs við fólk alls staðar á landinu og þó að allir draumar séu ekki uppfylltir horfir mjög margt til betri vegar um úrbætur á vegakerfinu. Það blasir t.d. við að tvöföldun Reykjanesbrautar er ferðaþjónustunni mikilvæg. Ekki er einungis um mikla öryggisframkvæmd að ræða heldur gjörbreytir þetta fyrstu kynnum ferðamanna af landinu. Miklar framkvæmdir eru fyrirhugaðar á Hellisheiði og eru þær hafnar. Um hana, eins og Reykjanesbraut, fara líklega flestir ferðamenn á ferð sinni um Ísland. Því er nauðsynlegt að gera veginn eins öruggan og mögulegt er og tryggja að hann sé greiðfær alla daga ársins. Með styttingu leiða og endurbyggðum vegum á Vestfjörðum opnast möguleikar á hringleiðum sem ferðaþjónustuaðilar hafa lagt áherslu á að séu til staðar. Fleiri slíkar leiðir opnast með nýjum vegi vestan Dettifoss, sem verður nú lagður, en hann hefur um árabil verið efstur á óskalista ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Með þessum vegi geta mun fleiri notið Jökulsárgljúfra auk þess sem hægt er að fara hringinn á skemmri tíma en núverandi vegir bjóða upp á. Það er von mín að þetta efli ferðaþjónustuna á Norðurlandi enn frekar og að þess verði ekki langt að bíða að Demantshringurinn, eins og þeir kjósa að kalla leiðina, verði ekki minna aðdráttarafl en Gullni hringurinn hér sunnanlands. Þegar er hafin uppbygging Uxahryggjarvegar og er gert ráð fyrir framhaldi á henni í nýrri samgönguáætlun. Þessi leið skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustuna enda mun uppbygging vegarins lengja þann tíma mikið sem hægt er að fara um Þingvelli. Vonandi mun ferðaþjónustan t.d. í Borgarfirði njóta nokkurs ágóða af þessu en þar eins og annars staðar mun lenging ferðamannatímans skipta sköpum. Þá er gert ráð fyrir endurbyggingu Gjábakkavegar um Lyngdalsheiði. Aðgengi að þjóðgarðinum á Þingvöllum verður sem sagt stórbætt með þessum aðgerðum og á samgönguáætlun er einnig svokallaður Útnesvegur sem er vegurinn fyrir Snæfellsnes. Snæfellsnesþjóðgarður mun þannig opnast enn frekar en nú er. Ég á von á því að sú perla sem þessi þjóðgarður er verði smám saman að einum þeirra staða sem allir verða að heimsækja. Í samgönguráætlun er því rík áhersla lögð á bætta aðkomu í þjóðgörðum. Jarðgöng virðast vera umdeildar framkvæmdir. Það er mjög eðlilegt þegar fjármunir eru ekki ótakmarkaðir. Við vitum hins vegar að alls staðar þar sem göng hafa verið gerð hefur ferðaþjónustan eflst á viðkomandi svæði. Í haust þegar Fáskrúðsfjarðargöngin verða formlega tekin í notkun opnast til að mynda feikilega falleg og skemmtileg hringtenging um Hérað og sunnanverða Austfirði. Ég hef hér einungis nefnt fá dæmi um úrbætur á vegakerfinu, þar er af mörgu að taka og ég minni á að allar framkvæmdir á vegakerfinu auka umferðaröryggi. Það má segja að nánast allt sem við gerum í samgönguráðuneytinu snerti ferðaþjónustuna. Nýlega hef ég með reglugerð breytt reglum um akstur leigubifreiða til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og gert höfuðborgarsvæðið og Suðurnes eitt gjaldsvæði fyrir leigubíla. Þar voru í gildi reglur sem stóðu eðlilegum viðskiptum á þessu sviði fyrir þrifum. Vona ég að þetta leiði til eðlilegrar samkeppni og að ferðamenn njóti góðs af henni. Við uppbyggingu innviða á borð við vegi, flugvelli og hafnir er mikilvægt að rödd ferðaþjónustunnar heyrist. Við í samgönguráðuneytinu erum stolt af þeim þunga sem ferðaþjónustan hefur fengið í ALLRI áætlunargerð og úthlutun fjármagns á vettvangi samgöngumála. Núna liggur t.d. fyrir Alþingi ný fjarskiptaáætlun en hún var samþykkt í ríkisstjórn síðast liðinn mánudag. Fréttaflutningur af henni hefur eðlilega verið mjög tengdur einkavæðingu Símans en þar koma þó fram margar aðrar áherslur og mjög metnaðarfull markmið um m.a. eflingu GSM kerfisins. Núna eru u.þ.b. 400 km á hringvegi án sambands en þar sem reiknað er með að ríkissjóður komist í nokkrar álnir með sölu Símans verði til fjármunir til að ráðast í þessa uppbyggingu. Með GSM væðingu hringvegarins og helstu stofnvega munu langflestir fjölsóttir ferðamannastaðir komast í samband. Um það hefur verið tekið ákvörðun. Íslendingar hafa sterka stöðu hvað varðar aðgengi að háhraðatengingum en það er með því besta sem gerist í heiminum. Nettengingin er fyrirtækjum lífsnauðsynleg og held ég að hægt sé að fullyrða að sala á flugmiðum og ferðaþjónustu sé á meðal þess algengasta sem almenningur um allan heim kaupir á netinu. Að því er stefnt í fjarskiptaáætlun að allir landsmenn, sem þess óska, hafi aðgang að háhraðatengingu. Mun þetta m.a. verða til þess að ferðamenn eiga að hafa aðgang að neti og þannig getur öll upplýsingagjöf t.d. vegna öryggismála orðið mun öflugri en nú er. Tillögur um að samgöngumiðstöð rísi í Reykjavík eru núna til vinnslu hjá samgönguráðuneytinu. Er það í samræmi við samkomulag sem ég gerði við borgarstjórann í Reykjavík í tengslum við lokagerð skýrslu um samgöngumiðstöð. Stefnir í mannvirki sem á eftir að gjörbreyta aðkomu landsmanna sem erlendra ferðamanna til og frá Reykjavík. Þarna munu flestir þræðir samgöngukerfisins koma saman á einum stað. Í samgöngumiðstöðinni verður að vera öll aðstaða eins og best gerist í heiminum. Gert er ráð fyrir að þarna geti landkynning ýmiss konar og upplýsingagjöf átt heima auk verslunar. Ferðamaðurinn hafi þannig aðgang að öllu sem hann þarf til að halda ferð sinni áfram hér í borginni eða hvert á land sem er. Ný samgöngumiðstöð er forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu og eflingu almenningssamgangna. Liður í því að efla almenningssamgöngur er að ég hef falið Vegagerðinni að bjóða út öll rútusérleyfin á landinu. Þurfa nú rútufyrirtækin að undirbúa sig undir þá breytingu sem tekur gildi 1. janúar 2006. Jafnfram hef ég falið Vegagerðinni að bjóða út rekstur Vestmannaeyjarferjunnar Herjólfs frá áramótum og miða við að ferjan fari 13 eða 14 ferðir á viku allt árið og er það í samræmi við óskir heimamanna. Þá eru í gangi samningar vegna Breiðafjarðarferjunnar baldurs en ljóst er að þegar vegur um Barðaströnd hefur verið endurbyggður breytist þjónusta ferjunnar. Þá má geta þess að unnið er að nýju útboði á flugi til jaðarbyggða svo sem Grímseyjar og Gjögurs sem er auðvitað mikilvægt fyrir ferðamennsku á þeim svæðum. Þegar ég byrjaði mitt annað kjörtímabil í samgönguráðuneytinu lýsti ég því yfir að ferðaþjónustan mundi hafa forgang. Eins og heyra má af þessari kynningu á verkefnum ráðuneytisins sem tengjast beint ferðaþjónustu þá er það deginum ljósara að hagsmunum ferðaþjónustunnar er vel borgið í samgönguráðuneytinu. Við horfum til þarfa greinarinnar í öllu okkar starfi og nýtur ferðaþjónustan stöðugt meiri skilnings og virðingar þeirra sem koma að skipulagi nauðsynlegra innviða á sviði samgöngu- og fjarskiptamála. Fyrir þessu hefur eðilega þurft að berjast en ég tel ekki eftir mér að koma hagsmunum ferðaþjónustunnar á framfæri hvar sem ég sé tækifæri til. Ég mun áfram leggja áherslu á að framlög til markaðsmála verði til staðar og að nýjasta verkefnið á sviði markaðsmála, Iceland Naturally í Evrópu nái góðu flugi með aðkomu fyrirtækja í ferðaþjónustu og annarra atvinnugreina. Það er von mín að íslensk ferðaþjónusta geti nýtt sér að aldrei fyrr hefur verið ráðist í svo mikla uppbyggingu á samgöngukerfi landsins. Aldrei fyrr hafa verið sett fram svo metnaðarfull markmið um fjarskipti jafnt sem samgöngumiðstöð – og síðast en ekki síst eru sett fram metnaðarfull markmið með sjálfstæðri Ferðamálastofu og öflugu Ferðamálaráði sem á að geta eflt greinina sjálfa með því að fylgja eftir markmiðum í ferðamálaáætlun næstu árin. Ágætu ársfundargestir. Megi SAF vegna vel í mikilvægu starfi. |