Samráðsfundur Landsvirkjunar 2005.
Valgerður Sverrisdóttir
Iðnaðar- og viðskiptaráðherra
Ávarp
á samráðsfundi Landsvirkjunar
8. apríl 2005
16
Ágætu fundargestir.
Þegar íslensk stjórnvöld ákváðu að ráðast í byggingu stórvirkjana, og sölu raforku til stóriðju, varð það að ráði helstu sérfræðinga, að hagkvæmast væri að stofna sjálfstætt fyrirtæki, til að annast uppbyggingu og rekstur stórvirkjana ásamt helstu flutningslínum.
Með lögum um Landsvirkjun árið 1965, verður því sú meginbreyting á skipan raforkumála, að komið er á fót fyrirtæki, sem að jöfnu var í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar og sem hafði það hlutverk að afla raforku til stóriðju og almenningsveitna á orkuveitusvæði sínu.
Stofnun Landsvirkjunar fyrir 40 árum var merkilegur áfangi í orku- og iðnsögu Íslands. Fyrirtækið var beinlínis stofnað til þess að afla orku fyrir álver Alusuisse í Straumsvík, en um leið að selja dreifiveitum raforku á þeim hagkvæmu kjörum, sem hinn nýja Búrfellsvirkjun bauð upp á.
Aðstæður til að reisa stórar vatnsaflsvirkjanir á 7. og 8. áratug síðustu aldar voru sérlega hagkvæmar fyrir blandaða almenna orkunotkun annars vegar og sölu raforku til stóriðju hins vegar.
Hlutfall stóriðju í raforkunotkun hefur eðlilega breyst með aukinni uppbyggingu hennar, og minni aukningu í almennri raforkunotkun en enginn vafi er á því að uppbygging raforkukerfis okkar með þessum hætti hefur reynst þjóðinni hagkvæm.
Landsvirkjun gegndi lykilhlutverki í þessari uppbyggingu allt frá upphafi, og er erfitt að sjá í ljósi reynslunnar, að betur hefði mátt standa að því að renna styrkari stoðum undir þessa uppbyggingu á raforkukerfi landsins og hinni kröftugu stóriðju sem hefur fest hér rætur.
Með sérstöku samkomulagi við ríkisstjórn, yfirtók fyrirtækið rekstur byggðalínu árið 1982 og með lögum um Landsvirkjun árið 1983 sameinuðust Landsvirkjun og Laxárvirkjun, og fyrirtækið varð landsfyrirtæki eins og upphaflega var að stefnt með stofnun þess.
Þar með var mörkuð ný stefna í orkumálum landsins og í stórum dráttum höfum við búið við óbreytt lagaumhverfi raforkumála fram undir síðustu ár.
Er óhætt að fullyrða að það hefur reynst vel í öllum megin atriðum.
*
Þó svo að við höfum búið við stöðugleika í raforkulöggjöf okkar á síðustu áratugum, hafa orðið miklar breytingar í orkuumhverfi lands og þjóðar á þessum tíma.
Raforkuframleiðsla hér á landi hefur aukist um rúmlega 80% á síðustu 9 árum, og er raforkunotkun á mann hér á landi orðin sú mesta í heiminum. Þá hefur raforkuframleiðsla jarðvarmavirkjana meira en fimmfaldast á liðnum áratug.
Á þessu tímabili hefur tekist að skjóta styrkum stoðum rótum undir uppbyggingu stóriðju, eftir áralanga stöðnun og vel lítur út með frekari aukningu á næstu árum.
Við höfum því eðlilega þurft að huga að breytingum á lagaumhverfi orkumála okkar eins og gerst hefur hjá öðrum þjóðum.
Á síðustu 10-15 árum hafa verið gerðar miklar breytingar á skipan raforkumála víða um heim, þar sem áhersla hefur verið lögð á, að draga úr lykilhlutverki hins opinbera og auka frjálsræði í raforkuviðskiptum.
Tillögur í þessa veru um endurskipulagningu raforkumála hér á landi voru fyrst mótaðar, þegar á árinu 1996, af fjölmennri nefnd helstu hagsmunaaðila og stjórnmálaflokka, sem þáverandi ráðherra skipaði, til að vera sér til ráðuneytis um endurskoðun á löggjöf um raforkumál.
Með nýjum raforkulögum, er löggjöf hér á landi orðin efnislega svipuð og gildir í öllum nágrannalöndum okkar, og raunar í flestum OECD ríkjunum.
Auðvitað miðast raforkulögin eins og kostur er við hinar sérstöku aðstæður hér á landi. Þau eru um þessar mundir að taka gildi og of snemmt er því að fullyrða um áhrif þeirra, en meginbreyting laganna er að komið er á samkeppni í framleiðslu og sölu á raforku en einokunarstarfsemi raforkufyrirtækja, flutningur og dreifing er aðskilin frá samkeppnishluta þeirra.
Með nýju lögunum hefur orðið sú breyting á að allir sameigendur Landsvirkjunar eru með beinum og óbeinum hætti að verða samkeppnisaðilar fyrirtækisins í raforkusölu sem telja verður mjög óeðlilegt.
Því hefur eins og kunnugt er orðið að samkomulagi að vinna að því að ríkið kaupi eignarhluta Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun og var viljayfirlýsing þess efnis undirritað í febrúar.
Miðað er við að niðurstaða fáist fyrir lok þessa árs.
*
Ágætu samráðsfundargestir.
Það eru breytingar framundan í íslenskum orkumálum en það er bjart yfir að líta. Landið býr yfir mikilli ónýttri orku, bæði í vatnsorku og jarðvarma, sem við höfum á liðnum árum öðlast síaukna tækni og færni á að nýta.
Við eigum afar hæfa vísindamenn í orkurannsóknum og reynslumikla sérfræðinga í hönnun og rekstri virkjana, og getum miðlað af reynslu okkar, til annarra þjóða.
Eitt merkasta verkefni sem orkurannsóknir hér á landi hafa staðið frammi fyrir undanfarna áratugi er svokallað djúpborunarverkefni.
Að mati fræðimanna á sviði jarðhita er möguleiki á því að vinna langtum meiri orku úr háhitasvæðum landsins en hingað til hefur verið gert.
Markmiðið með slíku verkefni og tilheyrandi rannsóknum, er að kanna möguleika á að nýta varma úr rótum háhitakerfa á allt að 5 km dýpi.
Með djúpborunum er talið að vinna megi margfalt meiri orku úr háhitasvæðum landsins en hingað til hefur verið gert.
Um þessar rannsóknir á djúphitakerfi landsins, þarf samstillt átak allra hagmuna- og rannsóknaraðila hér á landi, enda kosta þær mikla fjármuni, en geta varpað nýju ljósi á orkugetu landsins og stórauknum möguleikum á nýtingu jarðhitaorku hér á landi í framtíðinni.
Hér er ekki um að ræða tilraunaborun og rannsóknir er gagnast aðeins hér á landi. Niðurstöður þessa verkefnis munu geta gagnast fjölmörgum ríkjum og ekki síst þróunarríkjum, er búa yfir háhitasvæðum sem hafa svipuð einkenni og hin eldvirku íslensku háhitasvæði.
Hér getur því verið um að ræða afar mikilvægt verkefni, fyrir íslensk stjórnvöld, að benda á, sem mikilvægt þróunarverkefni á sviði endurnýjanlegra orkulinda á heimsvísu.
Þrátt fyrir göfug fyrirheit og háleit markmið helstu ráðmanna heims um nauðsyn þess að draga úr notkun brennslueldsneytis á næstu árum, til orkuframleiðslu, benda allar spár Alþjóða orkustofnunarinnar til þess, að hlutur þessa orkugjafa muni á næstu 25 árum heldur aukast, eða fara úr 80% árið 2002, upp í 82% árið 2030.
Öllu alvarlegri eru spár fyrir losun gróðurhúsalofttegunda fyrir þetta tímabil.
Stofnunin spáir því að losun koltvísýrings við orkuframleiðslu verði 62% hærri árið 2030 en er í dag, sem að tveimur þriðju hlutum stafar af aukinni orkuþörf þróunarríkja.
Þessi varnaðarorð glymja nú víða um heim sem hvatning til allra þjóða um að örva og auka enn frekar nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.
Þar getum við ekki undan vikist, aukin raforkuframleiðsla hér á landi í náinni framtíð mun auka hlutfall endurnýjanlegra orkulinda á heimsvísu.
*
Þetta færir okkur heim sanninn um það að sú stefna er íslensk stjórnvöld hafa rekið undanfarna áratugi hefur verið afar giftudrjúg, bæði hitaveituvæðing síðustu áratuga og nýting raforku til atvinnusköpunar.
Góðir gestir.
Okkur Íslendingum hefur tekist á liðnum áratugum að nýta sjálfbærar orkulindir okkar til uppbyggingar atvinnulífsins, sem mun verða undirstaða frekari vaxtar iðnaðar- og tæknigreina og leiða til aukins hagvaxtar og velmegunar þjóðarinnar um langa framtíð. Landsvirkjun hefur spilað þar stórt hlutverk og á farsæla sögu að baki.
Nú er komið að ákveðnum tímamótum. Afmælisbarnið er orðið fullra 40 ára og hefur elst vel svo sem sjá má. Aðstæður hafa hins vegar breyst og með nýjum raforkulögum mun Landsvirkjun feta nýjar brautir. Ég er þess fullviss að þessar breytingar verða til góðs og að fyrirtækið muni dafna áfram í nýju umhverfi. Því eins og máltækið segir þá er allt fertugum fært.
Ég þakka áheyrnina.