Er framtíð í fortíðinni? - Gömul hús í skipulagi samtímans
Kæru gestir,
Það er mér sönn ánægja að fá að ávarpa þetta málþing sem ber yfirskriftina „Er framtíð í fortíðinni?"
Þegar stórt er spurt þarf oft að huga að mörgu í leit að svörum, ekki síst þegar fjallað er um jafn viðkvæmt málefni og gömul hús í skipulagi samtímans. Það er svo að um nokkurt skeið hefur staðið styr um friðun húsa hér á landi og þar blandast inn í ólík sjónarmið sem oft taka mið af varðveislu menningarverðmæta annars vegar og hagnýtingu húsa eða breytingu skipulags hins vegar.
Ég vil áður en lengra er haldið, fá að óska Seyðfirðingum til hamingju með þetta málþing, en þó alveg sérstaklega óska ykkur til hamingju með öll fallegu húsin hér í bænum, sem eru að mínu mati hrein gersemi.
Húsafriðunarnefnd hefur hlutverki að gegna í sambandi við friðun húsa. Samkvæmt húsafriðunarlögum eru öll hús, sem reist eru fyrir 1850, friðuð, sem og allar kirkjur, reistar fyrir 1918. Eigendum húsa, sem reist eru fyrir 1918 ,er skylt að leita álits hjá húsafriðunarnefnd, með góðum fyrirvara ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa. Auk þess má friða mannvirki, hús eða húshluta sem hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Húsafriðunarnefnd getur ákveðið skyndifriðun húsa ef talin er hætta á að hús, sem hafa fyrrgreind gildi, verði rifin eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt. Tilgangur friðunarinnar er að tryggja sem besta varðveislu hinna friðuðu mannvirkja.
Þá er jafnframt starfræktur sérstakur sjóður, húsafriðunarsjóður, sem á að stuðla að varðveislu og viðhaldi friðaðra húsa. Það er því ekki hægt að segja annað en að hið opinbera hafi ágæta stoð í lögum til að tryggja varðveislu húsa og mannvirkja sem hafa ákveðin gildi fyrir okkur sem þjóð.
Viðkvæmasta atriðið, sem tengist friðun og varðveislu húsa, er hins vegar mat á því hvað telst hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Ekki er hægt að segja annað en það sé huglægt mat sem fram fer í því ferli og fulltrúar í húsafriðunarnefnd ef til vill ekki öfundsverðir af því að bera slíka ábyrgð.
Hér er saman komið í dag margt fólk, sem án efa veltir því oft fyrir sér á hvern hátt hægt er að efla og styrkja byggð í heimabæ. Ég ber virðingu fyrir öllum hugmyndum sem koma upp í því sambandi.
Ég hef til að mynda mikla trú á því að sú stefna Seyðfirðinga að varðveita gömul hús hér í kaupstaðnum hafi haft og muni hafa góð áhrif á afkomu staðarins. Um leið og menningarverðmæti hafa verið varðveitt er ég þess fullviss að jákvæð ímynd kaupstaðarins hefur styrkst og hann er aðdráttarafl í augum ferðamanna. Ekki er hægt að segja annað en að Seyðisfjörður, sem oft hefur verið kallaður „norski bærinn" sökum þess hve mörg hús hér eru byggð í „norskum stíl" á tímabili þar sem norskir athafnamenn höfðu hér mikla starfsemi, taki vel á móti þeim sem heimsækja bæinn. Það er afar þýðingarmikið, ekki síst vegna þess að Seyðisfjörður er fyrsti viðkomustaður margra erlendra ferðamanna sem koma hingað til lands.
Sambúð þeirra menningarverðmæta, sem Seyðfirðingar hafa varðveitt svo vel, fer vel saman við þau verðmæti og þær tekjur sem fá má með menningartengdri ferðaþjónustu af ýmsu tagi. Sú þjónusta skapar störf og í fögru umhverfi þrífst fagurt mannlíf og blómleg menning. Varðveisla minja og menningarverðmæta og skynsamleg nýting þeirra fer því vel saman við markmið mín sem ráðherra byggðamála að treysta búsetu á landsbyggðinni. Víða um land eru slík verðmæti sem kunna, ef rétt er að málum staðið, að verða mikil auðlind. Í þessu samhengi vil ég geta þess að ég hef heyrt af sveitarfélögum sem hafa tekið þá ákvörðun að gefa eða selja gömul hús á mjög vægu verði og jafnvel hafa þau borgað styrk með slíkum húsum til að hvetja nýja eigendur til að gera þau upp með veglegum hætti. Slík hvatning hlýtur að vera ómetanleg og verða til þess að eldri hús verði staðarprýði á ný.
Í þessu sambandi er gaman að geta þess að Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna - UNESCO - hefur stutt verndun húsa og jafnvel götumynda auk ýmissa merkra mannvirkja. Skakki turninn í Pisa og Eiffelturninn draga að sér fjölda ferðamanna á hverju ári og menn ganga jafnvel svo langt að endurreisa gamlar byggingar sem hafa eyðilagst, t.d. gömlu húsin í miðborg Varsjár. Þannig mætti lengi telja. Í þessum tilfellum er talin nútíð og framtíð í fortíð.
Á sama tíma er ég ekki að segja að við eigum að vera svo rígbundin í varðveislusjónarmið að skipulagssjónarmið séu alveg sett til hliðar. Skynsamlegt samspil varðveislu og endurnýjunar hlýtur að vera það sem flestir, sem að þessum málum koma, hafa að markmiði. Málþing sem þetta er því mikilvægur liður í að koma ólíkum sjónarmiðum að og auka skilning þeirra á milli og ber að fagna þessu framtaki Seyðisfjarðarkaupstaðar og Tækniminjasafnsins.
Ágætu gestir –með þessu orðum lýsi ég málþing þetta sett.