Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. apríl 2005 InnviðaráðuneytiðSturla Böðvarsson, samgönguráðherra 1999-2007

Framsöguræða með tillögu til þingályktunar um samgönguáætlun

Framsöguræða samgönguráðherra á Alþingi með tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2005-2005.

Hæstvirtur forseti!

Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2005-2008.

Uppbygging samgönguáætlunar er í samræmi við lög um samgönguáætlun nr. 71/2002. Frá því að síðasta samgönguáætlun var samþykkt hefur verið unnið eftir þeirri stefnumótun sem lögð var fram í 12 ára áætluninni sem var samþykkt hér á Alþingi. Hér er því í annað sinn sem lögð er fram samræmd heildstæð áætlun um rekstur og uppbyggingu samgangna sem tekur til allra samgöngumáta undir meginmarkmiðunum um greiðar, hagkvæmar, umhverfisvænar og öruggar samögnur, sem tólf ára áætlunin tiltekur.

Við afgreiðslu fjárlaga síðastliðið haust tók ríkisstjórnin þá ákvörðun að hægja á opinberum framkvæmdum á þessu og næsta ári til að draga úr spennu sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar. Í fjárlögunum var gert ráð fyrir meiri samdrætti en lagt er til í núverandi samgönguáætlun, en þess ber að geta að samdrátturinn er einungis frestun framkvæmda þar sem reiknað er með að fjármagnið komi til baka sem fjárveitingar á árunum 2007-2008.

Miklar kröfur eru gerðar til uppbyggingar samgöngukerfisins af hálfu sveitarstjórna, hagsmunaaðila og almennings í landinu. Eins og áætlunin ber með sér eru verkefnin framundan stór og þrátt fyrir að meira fé sé veitt í þennan málaflokk á áætlunartímabilinu, en áður fyrr, er ógerningur að verða við óskum allra. Þeir áfangar sem stefnt er að á tímabilinu munu samt sem áður stórbæta samgöngur víða um land, og í sumum tilfellum verður um kúvendingu að ræða en þar valda jarðgöng mestum straumhvörfum.

Í þessari ræðu vil ég kynna fyrir háttvirtum alþingismönnum helstu áhersluþætti í samgönguáætluninni, en eins og venjan er gerir áætlunin ráð fyrir verulegum framkvæmdum í hafnargerð, rekstri flugmála, vegagerð og að lokum, sem er nýlunda í þessu samhengi, umferðaröryggisáætlun.

Flugmál

Nýframkvæmdir flugvalla eru að þessu sinni ekki stór hluti útgjalda samgönguáætlunar. Áætlaður stofnkostnaður á tímabilinu er tæpir 1,4 milljarðar og þar af er verið að greiða af lánum vegna Reykjavíkurflugvallar um hálfan milljarð. Uppbygging samgöngumiðstöðvar er fyrirhuguð við Reykjavíkurflugvöll en samgöngumiðstöðin verður að öllum líkindum byggð og rekin sem einkaframkvæmd. Framkvæmdum við Reykjavíkurflugvöll er annars að stórum hluta lokið ef undan er skilinn frágangur flughlaða. Aðrar framkvæmdir tengdar flugvöllum eru lenging og endurbygging flugvallarins á Þingeyri, endurbætur á Akureyrarflugvelli, Egilsstaðaflugvelli og Bakkaflugvelli. Samgönguáætlun gerir ráð fyrir að úttekt verði gerð vegna lengingar á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum, sem þjóna eiga millilandaflugi. Að lokum má nefna að tæplega hálfur milljarður er ætlaður til flugöryggisbúnaðar og annarra framkvæmda á áætlunartímabilinu. Um þessar mundir er verið að ljúka við endurbyggingu flugvallar í Grímsey, sem breytir miklu um flugið þangað.

Hafnarmál

Í samræmi við ákvæði nýrra hafnalaga mun ríkið draga saman seglin í fjárstuðningi við nýframkvæmdir í höfnum og þá sérstaklega í stærri höfnum en þetta mun ekki koma að fullu til framkvæmda fyrr en árið 2007. Svigrúm hafna til tekjuöflunar hefur rýmkast frá setningu síðustu samgönguáætlunar og gjaldskráin hefur verið gefin frjáls. Þeir fjármunir, sem þannig sparast í höfnum, ganga til vegagerðar. Ný lög, um vaktstöð siglinga, lög um eftirlit með skipum og lög um siglingavernd, hafa m.a. leitt til þess að færa hluta af starfsemi Siglingastofnunar út á almennan markað eða í samvinnu við fleiri ríkisaðila. Heildargjöld siglingamála á áætlunartímabilinu nema um 6.3 milljörðum króna.

Út frá byggðasjónarmiði er mikilvægt að tryggja góða aðstöðu í höfnum landsins, þ.a. þjónusta hafnanna geti fylgt eftir þróun flotans og að byggðir landsins séu í stakk búinar að takast á við ný verkefni. Í grunneti landsins eru 33 hafnir. Nokkrar af stærstu framkvæmdum, sem njóta ríkisstyrkja á þessu tímabili, eru hafnirnar í Grindavík, Þorlákshöfn, Vestmannaeyjum, Hornarfirði, Reyðarfirði, Vopnafirði, Húsavík, Akureyri, Skagaströnd, Bolungarvík, Ísafirði, Vesturbyggð, Grundarfirði og Snæfellsbæ. Hafnir, sem liggja utan grunnets, njóta einnig verulegra styrkja vegna framkvæmda sem fyrirhugaðar eru, er þar helst að nefna hafnirnar í Grímsey, Hvammstanga, Súðavík, Tálknafirði, Bíldudal og Reykhólahöfn.

Þeir fjármunir, sem varið verður í framkvæmdir í framtöldum höfnum, fara til uppbyggingar á um 1,5 km af viðleguköntum úr stáli auk þess sem unnið verður að stofndýpkun innan hafna, viðhaldsdýpkun í höfnum og brimvarnargarða svo nokkuð sé nefnt.

Vert er að geta annarra markmiða og áhersla í rekstri Siglingastofnunar næstu fjögur árin sem eru eftirfarandi:

Ákveðið breytingaferli á sér nú stað vegna þess að nýjar styrkjareglur eru að taka við 2007. Af þessum ástæðum er hér lagt til að ríkissjóður meðhöndla styrki til nýframkvæmda á sérstakan hátt á yfirgangstímanum. Þarna er átt við að áætlaðar framkvæmdir 2005-2006, skv. þessari áætlun, sem ekki verður lokið í árslok 2006 og falla niður um styrktarflokka árið 2007 skv. nýjum hafnalögum, verði eftir sem áður heimilaðar undir eldri styrkjareglum á árunum 2007-2008, sé það hagfellt fyrir viðkomandi hafnarsjóð að haga framkvæmdahraða með öðrum hætti en hér er gert ráð fyrir í áætluninni.

Unnið verður að gerð ýmiss konar fræðsluefnis og leiðbeininga undir merkjum langtímaáætlunar um öryggismál sjófarenda. Ennfremur verður unnið að ýmsum rannsóknum svo sem öldufarsreikningum við suðurströndina, á siglingaöryggi á mismunandi leiðum undan ströndinni, auk rannsókna vegna endurbóta í höfnum, t.d. innsiglinga, svo sem vegna úrbótaþarfar í innsiglingunni í Rifshöfn, sem í eina tíð var Landshöfn ásamt Þorlákshöfn og Njarðvíkurhöfn.

Í grunnneti samgöngukerfisins eru 10 flugvellir, 33 hafnir og um 5.200 km af vegum. Af þessum þremur þáttum er óumdeilt að fjárfestingaþörfin er langmest í vegunum.

Vegamál

Samgönguáætlun næstu fjögurra ára gerir ráð fyrir að á áætlunartímanum verði heildargjöld Vegagerðarinnar tæplega 60 milljarða. Útgjöldum til vegamála er skipt í þrennt, þ.e. rekstur og þjónustu, viðhald og stofnkostnað.

Á síðustu árum hafa útgjöld til reksturs, þjónustu og viðhalds aukist og því valda sívaxandi kröfur um aukna þjónustu, ekki síst vetrarþjónustu, en sem kunnugt er eigum við fleiri bíla að hlutfalli en flestar aðrar þjóðir.

Viðhaldsþörf vega vex síðan jafnframt í hlutfalli við verðmæti vega svo og í hlutfalli við aukna umferð, einkum þungaumferð. Þær sviptingar sem hafa orðið í flutningum á síðustu árum með samdrætti í strandflutningum hafa verið til skoðunar hjá stjórnvöldum. Reynt er að mæta þessari auknu þörf í samgönguáætlun, með breikkun vega og á næstu árum má búast við auknu viðhaldi.

Almenningssamgöngur utan þéttbýlis á samgönguáætlun eru skilgreindar sem ferjur, sérleyfi og styrkt flug. Útgjöld til þessa hafa farið stigvaxandi.

Nefnd, skipuð af samgönguráðherra, hefur starfað við að móta stefnu um málefni almenningssamgangna milli þéttbýliskjarna til næstu framtíðar. Líta má á þetta sem fyrsta áfanga til að ná þeim markmiðum sem lagt var upp með í samgönguáætlun 2003-2014. Nefndin leggur til í skýrslu sinni að sérleyfi verði boðin út í samræmi við lög nr. 73/2001 til 2-3 ára. Jafnframt leggur hún til að eftir samruna sveitarfélaga verði unnið að því að sveitarfélög takist á hendur meiri ábyrgð á uppbyggingu og stjórnun almenningssamgangna á landi, en talið er að þetta muni m.a. stuðla að bættu þjónustustigi. Ég hef þegar ákveðið að sérleyfi verði boðin út til þriggja ára að mestu í óbreyttri mynd hvað varðar leiðarkerfi. Jafnframt er gert ráð fyrir óbreyttri þjónustu ferja og verður rekstur Herjólfs boðinn út í ár. Með sama hætti verður flug til jaðarbyggða boðið út á þessu ári. Útgjöld samgönguáætlunar vegna almenningssamgangna eru veruleg. Á áætlunartímibili er gert ráð fyrir að styrkur til sérleyfa geti numið allt að 692 milljónum - til áætlunarflug 570 milljónum og til ferja 2.802 milljónum, þar af afborganir ferjulána 945 milljónir.

Rúmlega helmingur vegafjár fer þó til stofnkostnaðar og þá helst til framkvæmda í grunnneti, sem miðar að því að stytta vegalengdir milli þéttbýlisstaða.

Eins og nefnt var í upphafi var sú ákvörðun tekin, við afgreiðslu fjárlaga síðastliðið haust, að fresta nokkrum opinberum framkvæmdum á þessu og næsta ári til að draga úr þenslu sem ríkir í efnahagslífi þjóðarinnar. Fyrir utan bein þensluáhrif þessara framkvæmda liggur fyrir því nokkur vissa að verð eru nokkru hærri á þenslutímum en annars og er þetta því líka spurning um hagkvæma notkun fjármagns. Frestun framkvæmda fyrir um 1.900 milljónir á þessu ári og 2.000 milljónir á árinu 2006 munu koma til baka sem auknar fjárveitingar á árunum 2007-2008.

Með þessu er leitast við að koma á móts við þarfir samgangna í heild í því þjóðfélagsástandi sem við búum við. Stefnan er því að þrátt fyrir frestun framkvæmda verði lyft grettistaki á seinna tímabili samgönguáætlunar og þannig nást margir góðir áfangar á áætlunartímabilinu, og verða hér nefndir nokkrir þeirra:

Stærstu einstöku framkvæmdir sem unnið verður að eru tvöföldun Vesturlandsvegar í Mosfellsbæ og tvöföldun Reykjanesbrautar í Kópavogi, Garðabæ og Suðurnesjum. Hellisheiðarvegur verður að auknum hluta byggður sem 2+1 vegur en við þá gerð vega eru bundnar miklar vonir út frá umferðaröryggi. Lokið verður við jarðgöng í Almannaskarði og Fáskrúðsfirði, framkvæmdir hafnar á jarðgöngum um Héðinsfjörð, lokið við tengingu Hringvegarins milli Austurlands og Norðurlands, framkvæmdum haldið áfram í Ísafjarðardjúpi og á Vestfjarðarvegi. Framkvæmdir hafnar við veg um Arnkötludal og verulegar framkvæmdir í vegum í þjóðgörðum svo sem Dettifossvegi, Uxahryggjarvegi og Útnesvegi um Snæfellsnes-þjóðgarðinn og svo mætti lengi telja. Auk þessa er gert ráð fyrir einum og hálfum milljarði á tímabilinu til umferðaröryggisaðgerða.

Framkvæmdaáætlun umferðaröryggisáætlunar er nýjung þessarar samgönguáætlunar, en hún kemur inn í framhaldi af því að umferðarmál fluttust yfir til samgönguráðuneytis. Mótuð hefur verið ný stefna í umferðaröryggismálum þar sem stillt er saman kröftum þeirra stofnana sem fara með umferðaröryggismál. Framkvæmdaáætlunin mun stuðla að auknu öryggi vegfarenda og vonandi eiga sinn þátt í því að fækka slysum.

Nýtt olíugjald. Hinn 1. júní taka ný lög gildi um olíugjald og kílómetragjald. Þungaskattskerfið mun því verða lagt niður í núverandi mynd. Næsta skref að minni hyggju er að kanna möguleikann á innleiðingu á nýju gjaldtökukerfi þar sem gjaldtakan mun taka sérstakt tillit til umhverfis, umferðaröryggis og notkunarþátta á vegakerfinu. Ljóst er til viðbótar að núverandi tekjustofn fer þverrandi vegna minni eyðslu bílvéla og að fyrirsjáanlegir eru nýir orkugjafar sem koma munu í stað jarðefnaeldsneytis í framtíðinni. Því er mjög brýnt að umræða skapist um þetta mál eigi að vera hægt að halda áfram uppbyggingu samgöngukerfisins.

Fyrir stuttu skilaði nefnd um gjaldtöku og einkafjármögnun vegaframkvæmda skýrslu og tillögu um gjaldtöku og einkafjármögnun umferðarmannvirkja. Þar eru gerðar tillögur um gjaldtöku af umferðinni með nýjum aðferðum og tekjuöflun vegna einkaframkvæmda í vegagerð. Geri ég ráð fyrir að við afgreiðslu langtímaáætlunar verði afstaða tekin til þeirra tillagna.

Hér hefur verið minnst á nokkuð af því sem fram kemur í samgönguáætlun til næstu fjögurra ára. Með þessum áföngum og öðrum sem nást á tímabilinu munu samgöngur stórbatna víða um land.

Ég vil fara nokkrum orðum um skiptingu fjár í samgönguáætluninni vegna þeirrar umræðu sem verið hefur í fjölmiðlum síðustu daga þar sem bygging Sundabrautar og gerð mislægra gatnamóta við Kringlumýrarbraut/Miklubraut hefur komið upp. Nauðsynlegt er að minna á að borgarstjórn tók ákvörðun að hætta við gerð mislægra gatnamóta á Kringlumýrarbraut og Miklubrautar þegar hönnun var komin af stað. Þess í stað var valið að endurbæta ljósastýrð gatnamót. Augljóst er að fjármögnun Sundabrautar er svo stórt og viðamikið verkefni að taka verður á því með sérstökum hætti. Ef til vill er hægt að segja að það rúmist ekki innan samgönguáætlunar vegna stærðar þess. Nægt fjármagn er hins vegar á tímabilinu til undirbúnings verksins. Það er mitt mat að leggja eigi Sundabraut sem eitt verk alla leiðina frá Sæbraut upp á Kjalarnes og tengja þannig höfuðborgarsvæðið við hafnarstarfsemina og stóriðjuna á Grundartanga og byggðirnar norðan Hvalfjarðar sem eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Vegna umræðunnar síðustu daga er vert að minna á að enn hefur borgarstjórn ekki tekið afstöðu til þess hvar Sundabrautin eigi að liggja. Auk þess hefur ekki verið úrskurðað í þeim kærum sem komu vegna samþykktar Skipulagsstofnunar á kostunum sem til skoðunar eru. Það er því margra ára vinna eftir við undirbúning Sundabrautar og ótímabært að gera ráð fyrir framkvæmdum næstu tvö árin uns samgönguáætlun verður næst til endurskoðunar.

Ég vil minna á að nú fer síðan í hönd endurskoðun á tólf ára samgönguáætlun 2007-2018 og samhliða henni önnur endurskoðun fjögurra ára áætlunarinnar 2007-2010. Þessar nýju áætlanir verða lagðar fram á Alþingi veturinn 2006-2007 og það er í þessum áætlunum sem taka verður endanlega ákvörðun um þetta mikla verk sem Sundabrautin er.

Samantekt

Herra forseti.

Þessi tillaga til þingsályktunar, sem ég hef hér mælt fyrir, er til marks um að með þeim framkvæmdum, sem í henni felast, munu margir stórir áfangar nást. Í hnotskurn má segja:

Að fylgt sé þeirri heildstæðu stefnu og skýru markmiðum sem sett var í síðustu 12 ára samgönguáætlun.

Að sett sé fram metnaðarfull áætlun um ráðstöfun fjármuna í samgöngumál næstu 4 árin.

Að áætlunin gefi skýra og heildstæða sýn á samgöngumál og setji flugmál, siglingamál, vegamál og nú umferðaröryggismál í samhengi.

Að vinnubrögð við þessa áætlanagerð hafi stuðlað að stóraukinni samvinnu milli stofnana samgöngumála og bætt reynslu þeirra sem að samgöngumálum koma.

Hæstvirtur forseti, með þessum orðum hef ég mælt fyrir þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2005-2008. Ég legg til að tillögunum verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umræðu og til háttvirtrar samgöngunefndar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta