Ráðstefna Norðurlandsdeilda VFÍ / TFÍ á Akureyri.
Ágætu ráðstefnugestir,
Það fer ekki fram hjá neinum sem fjallar um virkjunar- og iðnaðarmálefni að haldgóð þekking á verkefnisstjórnun er algert grundvallaratriði. Á þeim vettvangi eru það verkfræðingar og tæknifræðingar sem fyrst og fremst fara með verkefnisstjórnun. Í gegnum verkefni iðnaðarráðuneytisins hafa starfsmenn ráðuneytisins haft tækifæri til að kynnast verkefnisstjórnendum frá allmörgum þjóðum, auk þess sem sumir þeirra hafa verið beinir þátttakendur í verkefnisstjórnun um árabil, t.d. í tengslum við virkjunarframkvæmdir.
Haft hefur verið á orði að á sviði verkefnastjórnunar sé frammistaða Íslendinga ákaflega góð og bakgrunnur og þekkingarsvið þeirra almennt breiðara en meðal margra erlendra starfsbræðra þeirra. Þetta gefi þeim oft á tíðum forskot hvað varðar getu til að skoða og meta úrlausnarefnin á heildstæðari hátt og út frá fleiri sjónarhornum. Þrátt fyrir þessa skoðun virðist sem erlendir verkkaupar, sem starfa hér á landi, sjái þetta ekki alltaf á sama hátt. Það er út af fyrir sig skiljanlegt - enda er ætíð tilhneiging til þess að viðhalda tengslum við trausta viðskiptamenn sem hafa áralanga samvinnu að baki. Það getur gert aðkomu íslenskra ráðgjafa erfiða, - einkum þegar reynsla þeirra af stórum og sambærilegum verkefnum er takmörkuð.
Stundum hafa íslenskir verkkaupar, eins og t.d. Landsvirkjun, brugðið á það ráð að brjóta stór verk niður í nokkra verkþætti í þeim tilgangi að auðvelda aðkomu íslenskra fyrirtækja. Sé litið til virkjunarframkvæmda sérstaklega - þá var svo við byggingu Búrfellsvirkjunar á 7. áratug síðustu aldar, að öll hönnun, stjórnun, og eftirlit var á ábyrgð útlendinga enda var þar um að ræða fyrstu stórvirkjun Íslendinga og reynsla okkar af slíkum framkvæmdum á þeim tíma mjög takmörkuð. Þegar þriðja stórvirkjunin var byggð, sem var Hrauneyjafossvirkjun, var aftur á móti svo komið að hönnunin var að mestu á ábyrgð Íslendinga en stjórnun og eftirlit á byggingartíma alfarið í íslenskum höndum.
Enn lengra var gengið til móts við íslenska hagsmuni við byggingu Blönduvirkjunar. Blönduvirkjun var fjórða stórvirkjunin, en þá var skrefið stigið til fulls með því að öll hönnun, stjórnun og byggingareftirlit var í höndum Íslendinga. Þar var einnig sú stefna tekin að brjóta verkið niður í tiltölulega smáa verksamninga sem gerði íslenskum verktökum kleift að vinna öll verk sem þeir höfðu hæfni til að sinna. Haft hefur verið eftir staðarverkfræðingnum þar - að þegar mest var umleikis - hafi á annan tug verksamninga verið í gangi samtímis.
Talið er að þetta fyrirkomulag sem viðhaft var við byggingu Blönduvirkjunar hafi gefist vel og að í tengslum við verkefni þar hafi íslenskum tæknimönnum og verktökum gefist einstakt tækifæri til að skapa sér reynslu sem sjálfstæðir aðilar við stórframkvæmdir. Slík reynsla er einmitt það sem fyrst og fremst er litið til þegar nýir hönnuðir eða ráðgjafar eru valdir af erlendum aðilum. Einkum er þetta svo þegar í boði eru sjálfstæð ábyrgðarmikil verkefni. Þetta á við bæði þegar stórir verkkaupar koma til Íslands og leita eftir samstarfi við íslenskar verkfræðistofur og ekki síður þegar íslenskir tæknimenn vilja hasla sér völl á erlendri grund.
Þá er og vert að minnast á ágætt framlag Verkefnisstjórnunarfélags Íslands til kynningar og fræðslu um þýðingu verkefnisstjórnunar, - sérgreinar, sem í auknum mæli krefst sérþekkingar og reynslu til að ná góðum árangri. Verkefnisstjórnunarfélagið var stofnað 1984 í því augnamiði að leiða þróun og eflingu verkefnisstjórnunar á Íslandi. Félagið telur nú um 300 meðlimi, einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir. Með aðild að Alþjóðlega verkefnisstjórnunarsambandinu, IPMA, hefur félagið aðgang að víðtækum upplýsingum og nýjum straumum í greininni. Á síðari árum hefur félagið boðið félagsmönnum alþjóðlega vottun á fjórum stigum verkefnisstjórnunar. Slík vottun undirstrikar ákveðna þekkingu og reynslu, sem orðin er eftirsótt á vinnumarkaði sérfræðinga.
Í ljósi þeirra miklu umsvifa sem eru á sviði virkjunar- og stóriðjuframkvæmda er nú einstakt tækifæri fyrir íslenska tæknimenn að nýta meðbyrinn og skapa sér stöðu á hinum alþjóðlega ráðgjafamarkaði. Sú leið, sem farin hefur verið, að nokkrar verkfræðistofur stofni til formlegs samstarfs til að sinna stærstu verkefnunum, er áreiðanlega rétt. Það styrkir þær í samkeppninni við erlend hönnunar- og ráðgjafafyrirtæki og gefur þeim tækifæri til þess að byggja upp þekkingu, færni og orðspor sem er forsenda þess að þær geti leitað á erlenda markaði.
Ágætu ráðstefnugestir - með þessum ávarpsorðum lýsi ég, fyrir hönd iðnaðar og viðskiptaráðherra, ráðstefnu þessa um verkefnisstjórnun við stórframkvæmdir setta.