Ársfundur RARIK 2005
Ágætu ársfundargestir
Síðasta ár var viðburðarríkt á sviði orkumála. Þetta var ár merkra tímamóta í raforkusögu landsins og var þess minnst með margvíslegum hætti. Hæst ber þar aldarafmæli þess atburðar sem óumdeilanlega hefur valdið einna mestum þáttaskilum hér á landi á liðinni öld, en þar á ég við gangsetningu fyrstu rafstöðvarinnar, í desember árið 1904 í Hafnarfirði. Var haldið upp á aldarafmælið með veglegum hætti þann 12. desember s.l. og er óhætt að fullyrða að oft hefur ómerkari tímamóta verið minnst.
Eins og kunnugt er tóku ný raforkulög gildi árið 2003, en gildistöku hluta laganna var frestað meðan unnið var að endurskoðun lagakaflanna um flutning og dreifingu raforku. Á liðnu haustþingi var lagt fram og samþykkt frumvarp um breytingar á raforkulögum er varðaði þennan hluta laganna. Breytt raforkulög tóku gildi um síðustu áramót og má telja að þá fyrst hafi öll ákvæði raforkulaga í raun tekið gildi.
Ein mikilvægasta kerfisbreytingin er þá kom til framkvæmda var aðskilnaður raforkuflutnings frá framleiðslu og dreifingu. Um áramótin tók til starfa í samræmi við þessa breyttu tilhögun sérstakt raforkuflutningsfyrirtæki, Landsnet hf, en eigendur þess eru Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða. Tilgangur þess er að annast rekstur og uppbyggingu flutningskerfis landsins ásamt kerfisstjórnun raforkukerfisins alls.
Í hinum nýju raforkulögum er gert ráð fyrir því að hver dreifiveita hafi eina gjaldskrá innan gjaldskrársvæðis síns, en verði heimilt að sækja sérstaklega um gjaldskrá fyrir strjálbýli, enda geti viðkomandi dreifiveita sýnt fram á hærri kostnað við dreifingu raforku þar.
Hér er um að ræða nokkra breytingu frá fyrri tilhögun, en eins og kunnugt er hefur sama gjaldskrá gilt á öllu dreifiveitusvæði RARIK alla tíð. Í raun hafa þéttbýlissvæði landsbyggðarinnar með þessu greitt niður dreifingu á strjálbýlli svæðum um áratuga skeið. Með lögunum verður sama gjaldskrá fyrir allt þéttbýli á veitusvæði RARIK og önnur fyrir allt strjálbýli. Sú hugsun er hér að baki að óréttlátt sé að þéttbýlissvæði á landsbyggðinni skuli skattlögð sérstaklega umfram aðra landsmenn í formi hærra raforkuverðs til að niðurgreiða raforkudreifingu í dreifðari byggðum.
Árlegur rekstrarhalli óarðbærra eininga í aðveitu- og dreifikerfi RARIK í strjálbýli hefur undanfarin ár verið áætlaður að minnsta kosti 400 milljónir kr. Þessi rekstrarvandi fyrirtækisins hefur verið fyrir hendi um margra ára skeið - eða í það minnsta frá því ég tók við embætti iðnaðarráðherra. Með stækkun flutningskerfisins hefur ákveðnum bagga vissulega verið létt af dreififyrirtækjum á landsbyggðinni, en meira þarf til að tryggja dreififyrirtækjum eðlilegar tekjur af dreifingu í jaðarbyggðum. Því voru lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku samþykkt á vorþingi 2004, þar sem segir að ákveði Alþingi að veita fjármuni til að lækka kostnað vegna dreifingar raforku, skuli einungis greiða niður þann kostnað á svæðum þar sem í gildi er sérstök dreifbýlisgjaldskrá. Með þessum aðgerðum, auknum jöfnuði kostnaðar í flutningskerfi landsins og beinum framlögum hins opinbera til jöfnunar í dreifikerfinu, hefur fjárhagsleg staða og rekstur RARIK breyst mjög til hins betra og gert fyrirtækinu kleift að sinna enn betur því veigamikla hlutverki er það hefur sinnt fyrir alla landsbyggðina.
Þegar raforkulögin komu til framkvæmda um síðustu áramót urðu eðlilega breytingar á gjaldskrám orkufyrirtækja með því að greina varð á milli flutnings- og dreifingarkostnaðar annars vegar og orkukostnaðar hins vegar. Kerfisbreytingin ein og sér olli ekki nema óverulegum verðhækkunum og þá helst hér á suðvesturhorni landsins en fyrir almennan notanda á þéttbýlissvæði RARIK og fyrir atvinnulíf almennt á landsbyggðinni munu breytingarnar leiða til lækkunar. Langveigamesta röskunin varð þó á gjaldskrá vegna rafhitunar húsnæðis og á fyrstu vikum ársins fóru margir að mínu mati offari við að fullyrða um gífurlegar hækkanir á því sviði. Þó voru hvorki gjaldskrár á þeim tíma endanlega komnar fram né lá fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um breytingar á niðurgreiðslum til húshitunar. Þegar gjaldskrár höfðu verið ákveðnar í janúar var unnt að skoða í heild áhrif gjaldskrárbreytinga og til hvaða aðgerða væri unnt að grípa gegn óeðlilegum hækkunum.
Sem kunnugt er hefur rafmagn til upphitunar verið á sérstökum kjörum. Þannig veittu Landsvirkjun og dreifiveiturnar sérstakan rafhitunarafslátt auk þess sem það gjald er veiturnar fengu fyrir dreifingu raforkunnar var afar lágt. Ólíklegt er að þessir taxtar í heild sinni hafi staðið undir kostnaði og því má ætla að um hafi verið að ræða niðurgreiðslu frá öðrum notendum rafmagns til rafhitunarnotenda. En framlag ríkissjóðs hefur þó vegið langþyngst við niðurgreiðslur rafmagns til hitunar á íbúðarhúsnæði og nemur fjárlagaliður til þeirra niðurgreiðslna og tengdra verkefna 1 milljarði króna í ár. Var sú upphæð aukin um 130 milljónir kr. á þessu ári þar eð niðurgreiðslur orkufyrirtækjanna féllu niður um s.l. áramót.
Engu að síður hefur þessi breyting því miður haft í för með sér nokkra hækkun á rafhitunargjaldskrá dreififyrirtækja, en á móti hefur orðið nokkur lækkun á almennum töxtum og afltöxtum til fyrirtækja. Þegar í upphafi árs var ljóst að við gjaldflokka- og gjaldskrárbreytingar þyrfti að framkvæma álestur hjá notendum á fyrstu mánuðum ársins. Þeir álestrar leiddu til allharkalegra viðbragða margra notenda enda notkunin yfir hávetrartímann langtum meiri en árlegt jafnaðargjald. Þetta hefur góðu heilli verið leiðrétt í flestum tilvikum og allir þeir sem óskað hafa eftir fengið sín mál skoðuð nánar af RARIK eða Orkustofnun. Við getum ýmislegt lært af þessari reynslu og ekki síst það að huga þarf að augljósum annmörkum á gjaldskrám við lok ársins enda hefur verið litið á þetta fyrsta ár í nýju umhverfi sem reynsluár. Þá kennir þessi reynsla okkur ekki síður það að við þurfum að undirbúa vel kynningu fyrir opnun raforkumarkaðarins um næstu áramót fyrir almennum notendum raforku.
Nýtt raforkulagaumhverfi mun hafa jákvæð áhrif á rekstrarafkomu RARIK. Með þessum breytingum er leitast við að létta af raforkufyrirtækjum alls kyns óhagkvæmum skuldbindingum og niðurgreiðslum sem ríkið greiðir nú beint af fjárlögum og því fær RARIK nú greitt eðlilegt verð fyrir dreifingu raforkunnar óháð notkunarflokkum. Með breyttum tímum og atvinnuháttum hljóta raforkutaxtar að breytast og sem dæmi um þetta má nefna marktaxtana, sem byggðust á mikilli raforkunotkun að sumarlagi vegna súgþurrkunar. Þeir taxtar hafa nú verið aflagðir enda er notkun til sveita orðin líkari almennri raforkunotkun í dreifbýli. Þá vil ég fagna nýlegri áætlun RARIK um endurbætur á dreifikerfi fyrirtækisins sem ber vitni um metnaðarfull áform varðandi endurbætur og endurnýjun dreifikerfisins. Þar eru tillögur um að þrefalda upphæð til endurnýjunar dreifikerfis á jaðarsvæðum þar sem þrífösunar er þörf miðað við áætlanir fyrri ára. Þessi tillaga er byggð á ítarlegri áætlun sem iðnaðarráðuneytið, RARIK og Orkubúið unnu að á árunum 2001-2002 í samstarfi við sveitarfélög landsins.
Mér finnst ástæða til þess hér að þakka starfsmönnum og stjórnendum RARIK fyrir farsælar breytingar er gerðar voru á stjórnun fyrirtækisins á liðnu ári, í þá veru að aðlaga fyrirtækið að breyttum aðstæðum með nýjum lögum. Þar á ég við að fyrirtækið hefur verið í fremstu röð orkufyrirtækja við að upplýsa notendur og leiðbeina um gjaldskrárflokka í nýju umhverfi - og þá ekki síður verið vakandi við að afla nýrra raforkukaupenda. Þá er mikilvægt að RARIK undirbúi sig vel fyrir komandi breytingar um næstu áramót, þegar fullt frjálsræði mun ríkja um val á orkuseljendum.
Uppbygging smávirkjana hér á landi hefur verið vaxandi og mikilvægur þáttur í uppbyggingu endurnýjanlegra orkulinda landsins. Smávirkjanir hafa á undanförnum árum sífellt orðið hagkvæmari og tækniþróun síðustu ára hefur leitt til þess að auðveldara er að samtengja smávirkjanir og dreifiveitur. Með því hafa opnast möguleikar smærri orkuframleiðenda á sölu sem gjörbreytir hagkvæmni flestra smávirkjana. Við breytingar raforkulaga á síðasta vori var minni orkuframleiðendum auðveldað að tengjast flutningskerfinu, sem ívilnar nokkuð samkeppnisstöðu smávirkjana gagnvart eldri og stærri virkjunum.
Að mínu mati er þetta mikil örvun til eflingar á uppbyggingu smávirkjana á næstu áratugum. Sú uppbygging er mikilvægur hluti af þeirri stefnu stjórnvalda að nýta endurnýjanlegar orkulindir okkar á sjálfbæran og hagkvæman hátt og styrkja þar með og efla þær byggðir landsins sem hafa einna helst átt í vök að verjast.
Góðir gestir
Við horfum enn til breytinga á næstu misserum. Í febrúar sl. undirrituðu iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri viljayfirlýsingu um að íslenska ríkið leysi til sín eignarhluta sameigenda sinna í Landsvirkjun. Óformlegar viðræður aðila höfðu farið fram um þetta efni síðustu ár en með samkomulagi þessu var staðfest að samningur um þetta efni skuli liggja fyrir eigi síðar en 30. september næstkomandi og að eignabreytingar muni eiga sér stað um næstu áramót. Eigendur hafa hafið vinnu við að verðmeta Landsvirkjun og stefnt er að því að breytingar á eignarhaldi fyrirtækisins eigi sér stað um áramót. Ríkisstjórnin ráðgerir eftir að hafa leyst til sín eignarhluta sveitarfélaganna í Landsvirkjun að sameina Landsvirkjun, RARIK og Orkubú Vestfjarða, en þó þannig að sú starfsemi verði undir einum hatti móðurfyrirtækis og með sjálfstæðum dótturfyrirtækjum.
Verði af þessum áformum er ljóst að stærsti hluti RARIK, dreifingarstarfsemin, verður áfram rekin í sjálfstæðu félagi. Orkuframleiðslan og sölusvið myndu aftur á móti flytjast til orkusviðs Landsvirkjunar í samkeppnishluta hins nýja fyrirtækis, sem yrði þá í smásölusamkeppni við aðra orkuframleiðendur. Ljóst er að gera þarf verulegar lagabreytingar áður en þetta nær fram að ganga. Þá þarf að endurskoða löggjöf um Orkubúið og Landsvirkjun, gangi viðræður þær sem ég hef greint hér frá eftir.
Ágætu ársfundargestir
Það eru jákvæðar breytingar framundan í íslenskum orkumálum og það er bjart yfir að líta. Við getum fagnað því að framtíð RARIK sem dreifingarfyrirtækis landsbyggðarinnar er tryggari en nokkru sinni fyrr. Landið okkar býr yfir gnægð ónýttra orkumöguleika, bæði í vatnsorku og jarðvarma, sem við höfum á liðnum árum öðlast síaukna færni og tæknigetu til að nýta. Við eigum afar hæfa vísindamenn í náttúrufars- og orkurannsóknum og reynslumikla sérfræðinga í hönnun og rekstri virkjana, og getum miðlað af reynslu okkar til þeirra þjóða er á þurfa að halda á þessu sviði.