Ársfundur Byggðastofnunar 2005.
Ágætu ársfundargestir.
I.
Byggðastefna snýst um fólk, - afkomumöguleika þess og lífskjör almennt. Hún fjallar um markmið um jöfnun og skilgreinir aðgerðir til að ná árangri. Í þessu felst að stjórnvöld leggja áherslur sem hafa áhrif á þróun efnahagslífsins, og koma m.a. fram í sérsniðnum stuðningi við tilteknar atvinnugreinar og verkefni. Markmið og áherslur núverandi byggðastefnu hefur í hnotskurn verið að efla menntun og nýsköpun atvinnulífsins á breiðum grunni þar sem áhersla hefur verið á sérkenni og styrkleika hvers svæðis fyrir sig.
Þessi áhersla kemur einna best fram í svo kölluðum vaxtarsamningum, en nú þegar er lokið við gerð vaxtarsamninga fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Vestfirði og aðrir eru í undirbúningi. Til skýringar má segja að vaxtarsamningur sé samkomulag á milli þeirra sem láta sig varða framtíðarþróun viðkomandi svæðis og geta haft áhrif á þá þróun.
Samningarnir byggja á niðurstöðum úttektar á styrkleikum svæðis og greiningu á þeim möguleikum sem eru til vaxtar og fjölgunar samkeppnishæfrar vöru eða þjónustu og fjölgunar starfa.
Einkenni vaxtarsamninga er því fyrst og fremst - að þeir byggja á sameiginlegri stefnumótun heimamanna fyrir vaxtargreinar á svæðinu. Annað einkenni er - að komið er á formlegu tengslaneti eða klasasamstarfi þeirra, t.d. fyrirtækja og stofnana, sem geta styrkt hver aðra með nánu samstarfi til að þróa og styrkja atvinnulífið og efla svæðisbundna þekkingu. Þá er þriðja einkenni vaxtarsamninga að mótun og ábyrgð á framkvæmd byggðaðagerða er flutt heim í hérað.
Vaxtarsamningurinn fyrir Eyjafjarðarsvæðið var gerður á grundvelli einnar af 22 aðgerðum gildandi byggðaáætlunarinnar, en þessar aðgerðir mynda uppistöðuna í framkvæmd áætlunarinnar.
II.
Byggðaáætlunin rennur sitt skeið á enda nú við árslok. Gerð nýrrar fjögurra ára byggðaáætlunar fyrir árin 2006-2009 er langt komin og verður hún til í uppkasti fyrir lok þessa mánaðar.
Áætlunin byggir á grunni núverandi byggðaáætlunar. Með henni er stefnt að því að treysta búsetuskilyrði á landsbyggðinni og efla samkeppnishæfni Íslands. Þrjú meginmarkmið hafa verið skilgreind, en þau eru í fyrsta lagi að landshlutakjarnar verði efldir og forsendur fyrir varanlegri búsetu treystar, í öðru lagi að byggðarlög nái að laga sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum og í þriðja og síðasta lagi að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði verði styrkt á landsbyggðinni.
Í drögum að nýrri byggðaáætlun er lagt til að sérstök áhersla verði lögð á eftirfarandi fjögur atriði:
1. Gildi menntunar og menningar;
2. aukna nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi;
3. bættar samgöngur og fjarskipti ; og
4. styrkingu þriggja landshlutakjarna, þ.e. Akureyrar, Ísafjarðar og Mið-Austurlands.
Í byggðaáætluninni verða skilgreindar á þriðja tug aðgerða til þess að ná markmiðum hennar. Aðgerðirnar fela í sér tiltekna meginhugmynd, sem verður útfærð nánar af tilgreindum ábyrgðaraðilum - fyrir framkvæmd hverrar þeirra - og öðrum þátttakendum, sem einnig eru tilgreindir í áætluninni. Iðnaðarráðuneytið hefur lagt áherslu á að auka ábyrgð Byggðastofnunar á framkvæmd byggðaáætlunar og hlutverk stofnunarinnar við eftirfylgni áætlunarinnar verður aukið frá því sem verið hefur.
Það er mikið ánægjuefni hve margir hafa komið að gerð næstu byggðaáætlunar. Öll frumvinna var unnin hjá Byggðastofnun í vetur. Í febrúar var haldinn fundur með atvinnuþróunarfélögum og fulltrúum sveitastjórna þar sem fundarmenn skilgreindu aðgerðir til að ná tilgreindum markmiðum áætlunarinnar. Fjölmargar hugmyndir komu fram á fundinum og munu flestar þeirra verða í einni eða annarri mynd í endanlegri gerð áætlunarinnar.
Þá hefur verið haft náið samráð við önnur ráðuneyti um skilgreiningu aðgerða sem tengjast verkefnasviðum þeirra. Samstarf við önnur ráðuneyti hefur verið lykilatriði í framkvæmd núgildandi áætlunar enda eru aðgerðir í byggðamálum þess eðlis að þær snerta starfssvið þeirra flestra.
Uppkastið sem tilbúið verður í lok mánaðarins verður sent til umsagnar til allra þeirra fjölmörgu sem komið hafa að gerð þess, en stefnt er að því að tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006-2009 verði lögð fyrir Alþingi fljótlega eftir að þing kemur saman í haust.
III.
Byggðastofnun stendur á nokkrum tímamótum um þessar mundir. Miklar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi og stöðu stofnunarinnar, en meginástæða þess er að framboð á lánsfé hefur stóraukist og vextir lækkað. Þetta hefur m.a. komið fram í því að fyrirtækjum, með traustan fjárhag, hafa boðist kostakjör á almenna markaðinum og því hafa þau fært lánaviðskipti sín frá Byggðastofnun yfir til banka og annarra fjármálafyrirtækja. Þessar breytingar hafa haft neikvæðar afleiðingar fyrir lánastarfsemi og afkomu stofnunarinnar Þá hefur stofnunin þurft að afskrifa verulegar upphæðir á undanförnum árum sem leitt hefur til þess að eiginfjárstaðan hefur versnað umtalsvert.
Ráðuneytið hefur fylgst náið með þessari þróun og haft verulegar áhyggjur af henni. Það varð því að ráði að í mars sl. var ráðgjafafyrirtækið Stjórnhættir ehf. fengið til að greina núverandi stöðu stofnunarinnar út frá þróuninni síðustu ár og falið að meta þá kosti sem helst kæmu til greina varðandi framtíðarþróun stofnunarinnar.
Meginniðurstaða þessarar greiningar á stöðu Byggðastofnunar er að stofnunin eigi við verulegan vanda að stríða. Fjárhagsstaðan sé mjög erfið og fátt bendi til þess að fjármögnunarstarfsemin geti orðið fjárhagslega sjálfbær. Þá virðist núverandi lánastefna frekar þjóna stöðnuðu atvinnulífi en framsæknum nýiðnaði. Sama máli gegni um atvinnuþróunarstarfsemina en þar hafi fyrst og fremst skort á það frumkvæðis- og forystuhlutverk sem ætla mætti að þróunarsviðið hefði í málaflokknum.
Í greiningunni kemur fram að þetta sé ekki óumbreytanlegt og til staðar séu tækifæri til að móta nýja stefnu og áherslur með því markmiði að gera starfsemina markvissari og sérhæfðari. Slíkum breytingum megi e.t.v. ná með fram með áherslubreytingum innan núverandi skipulags, en einnig koma til greina stærri breytingar sem þá fælust í uppstokkun og endurskilgreiningu á bæði fjármögnunar- og atvinnuþróunarstarfseminni.
Í þessu fælist að Byggðastofnun fengi nýtt hlutverk í framtíðinni þar sem blásið yrði til sóknar við nýjar aðstæður og með styrktri faglegri starfsemi. Meginmarkmið starfseminnar gæti þá verið að sinna fyrst og fremst nýsköpun atvinnulífsins á landsbyggðinni.
Efnislega má segja að fyrirliggjandi greining á framtíðarþróun Byggðastofnunar hafi fært fyrir því ýmis rök að áhersla á nýsköpun sé vænlegasta leiðin til að stuðla að sjálfbærri atvinnuþróun á landsbyggðinni. Efling nýsköpunar, með aðstoð við fjármögnun eða aukningu á hæfni og þekkingu, er einn af lykilþáttum í efnahagsframförum á næstu árum og áratugum. Nýskipan byggðamála undir merkjum nýsköpunar er því verðugt úrlausnarefni stjórnvalda.
IV.
Ágætu ársfundargestir.
Framundan er að ljúka gerð nýrrar byggðaáætlunar fyrir árin 2006-2009. Þar mun Byggðastofnun fá aukið hlutverk við framkvæmd aðgerða og ný verkefni sem eru til þess fallin að styrkja stöðu málaflokksins. Þá er nýhafin vinna starfshóps sem mun fara yfir greiningarvinnu ráðgjafafyrirtækisins og gera tillögur um leiðir til þess að efla það hlutverk sem Byggðastofnun gegnir. Ef fram fer sem horfir er líklegt að ég muni á haustþinginu leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um Byggðastofnun. Þar verður brugðist við þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir.
Ég vil að lokum þakka starfsmönnum og stjórn fyrir vel unnin störf á liðnu starfsári og hef til samræmis við það ákveðið að stjórn Byggðastofnunar skuli sitja óbreytt komandi starfsár.