Ársfundur stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands
Ágætu ársfundargestir.
Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa þetta málþing um svæðisbundnar áherslur í rannsóknum og þróunarstarfi. Það er lofsvert framtak að taka þetta mikilvæga mál á dagskrá.
Efling menntunar, rannsókna og nýsköpunar á landsbyggðinni hefur verið ofarlega á baugi í iðnaðarráðuneytinu. Segja má að núgildandi byggðaáætlun – fyrir árin 2002-2005 – hafi að stórum hluta snúist um þróun byggðar á grunni þekkingar og nýsköpunar. Ég trúi því að þetta sé farsælasta byggðastefnan, því hugvit og þekking munu ráða kjörum okkar í framtíðinni. Við Íslendingar höfum til þessa fyrst og fremst byggt afkomu okkar á hagnýtingu gjöfulla en takmarkaðra auðlinda en stöndum nú frammi fyrir því að efnahagsþróunin mun í hratt vaxandi mæli byggjast á margskonar þekkingariðnaði. Nú þurfum við að virkja mannauðinn.
Það er þekkt staðreynd að menntunarstig er töluvert lægra á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, þetta sýna tölur Hagstofunnar um brautskráða nemendur úr framhaldsskólum, sérskólum og háskólum m.a. glögglega. Hvort tveggja hefur valdið - að framboð á menntun hefur verið takmarkaðra úti á landi og skort hefur fjölbreytt störf fyrir vel menntað fólk. Hér verðum við að huga að leiðum til úrbóta.
Iðnaðarráðuneyti hefur þegar komið að fjölmörgum verkefnum sem miða að því að efla menntun, rannsóknir og nýsköpun á landsbyggðinni. Mig langar til að nefna nokkur dæmi um slík verkefni sem ráðist hefur verið í á grundvelli gildandi byggðaáætlunar. Stofnuð var nýsköpunarmiðstöð á Akureyri, sem er ætlað að efla nýsköpun í atvinnulífi landsbyggðarinnar, og í samstarfi við menntamálaráðuneyti hefur verið unnið að eflingu dreifmenntunar í dreifbýli, styrkingu símenntunarmiðstöðva og eflingu háskólanáms. Þá standa Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og Háskólinn á Akureyri saman að svokölluðu líftæknineti í auðlindanýtingu. Þetta er þróunarverkefni, sem hefur það að markmiði að efla rannsóknir og tækniþróun á sviði líftækni í þágu íslensks atvinnulífs.
Í nýrri ályktun Vísinda- og tækniráðs frá 2. júní sl. er lögð áhersla á þá sóknarmöguleika sem felast í sameiningu opinberra rannsóknastofnana og nábýli þeirra við háskóla og þekkingarfyrirtæki. Í ályktuninni kemur fram að miklu skiptir að aflstöðvar íslenskrar rannsókna- og þróunarstarfsemi styðji m.a. við fræðilega eflingu þekkingarsetra á landsbyggðinni. Hér kemur kannski að kjarna umræðuefnis þessa málþings.
Í ályktun Vísinda- og tækniráðs segir orðrétt: "Til að fullnýta þá möguleika sem samþjöppun háskóla, rannsóknastofnana og annarrar þekkingarstarfsemi býður þarf að huga sérstaklega að leiðum til að nýta þennan styrk annars staðar á landinu. Taka verður mið af því að aðstæður eru mjög ólíkar milli landssvæða. Greina þarf hvað henti best á hverju svæði út frá stöðu þess."
Þetta held ég að sé ákaflega mikilvægt að hafa í huga ef árangur á að nást í eflingu menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Við vitum að aðstæður eru ákaflega ólíkar eftir því hvar borið er niður á landsbyggðinni. Framboð menntunar er misjafnt, sérþekking liggur á mismunandi sviðum, sérhæfing atvinnulífsins er ólík og náttúrulegar aðstæður mismunandi. Það skiptir miklu að byggja á styrkleikum hvers svæðis þegar mótaðar eru áherslur í rannsóknum og þróunarstarfi. Frumkvæði og virk þátttaka heimamanna – og hér er ég meðal annars að tala um atvinnuþróunarfélögin - skiptir einnig sköpum, enda er þekking þeirra á aðstæðum og sérstöðu sinna svæða afar víðtæk.
Háskólasetur Vestfjarða sem var stofnað nú í vor byggir einmitt á þeim aðstæðum sem fyrir eru í landshlutanum. Háskólasetrið sækir styrk sinn til sérstöðu og áhuga heima í héraði. Sama á við um Austurland, en nú vinnur starfshópur á vegum menntamálaráðuneytisins, með aðkomu iðnaðarráðuneytis, að undirbúningi þekkingarseturs á Austurlandi. Þar er áhugi heimamanna mikill og vinnuhópurinn hefur leitast við að sníða starf sitt sem best að umhverfinu fyrir austan.
Þá má nefna það hér að iðnaðarráðuneytið hefur í auknu mæli lagt áherslu á að flytja mótun og ábyrgð á framkvæmd byggðaaðgerða heim í hérað með gerð svokallaðra vaxtarsamninga.
Góðir gestir.
Gildandi byggðaáætlun rennur skeið sitt á enda um næstu áramót. Vinna við gerð nýrrar fjögurra ára áætlunar er langt komin í iðnaðarráðuneytinu, en stefnt er að því að tillaga til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2006-2009 verði lögð fyrir Alþingi fljótlega eftir að þing kemur saman í haust. Áætlunin byggir á grunni forvera síns og haft hefur verið víðtækt samráð við fjölmarga aðila við gerð hennar, m.a. Byggðastofnun, atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og önnur ráðuneyti. Stefnt er að því að drög að byggðaáætluninni liggi fyrir í uppkast í lok þessa mánaðar.
Þrjú meginmarkmið hafa verið skilgreind með áætluninni. Í fyrsta lagi að landshlutakjarnar hafi eflst og treyst forsendur fyrir varanlegri búsetu, í öðru lagi að byggðarlög hafi lagað sig að örri samfélagsþróun og hröðum breytingum í atvinnuháttum og í þriðja lagi að atvinnulíf, menntun, menning og félagslegt jafnræði hafi styrkst á landsbyggðinni.
Áfram verður lögð áhersla á þróun byggðar á grunni þekkingar og nýsköpunar. Áherslan á menntun, rannsóknir, nýsköpunar- og atvinnuþróunarstarfsemi verður jafnvel enn ríkari en í gildandi byggðaáætlun. Gerð verður tillaga um á þriðja tug aðgerða til þess að ná markmiðum áætlunarinnar. Án þess að ég uppljóstri of miklu um innihald þeirra að svo stöddu get ég greint frá því að lagt er til að gerð verði áætlun um eflingu rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni, þar sem m.a. verða skilgreind áherslusvið og mótað fyrirkomulag samstarfs hagsmunaaðila, þeirra á meðal atvinnuþróunarfélaga og háskóla. Lagt er til að unnið verði að eflingu dreifmenntunar á öllum skólastigum, eflingu símenntunar, styrkingu atvinnuþróunar og uppbyggingu þekkingarsetra. Þá verður haldið áfram gerð og framkvæmd vaxtarsamninga.
Að lokum vil ég geta þess að uppkast að byggðaáætlun verður um næstu mánaðarmót sent til umsagnar þeirra fjölmörgu aðila sem komið hafa gerð þess, auk þess sem stefnt er að því að uppkastið verði gert aðgengilegt á Netinu. Við tökum öllum góðum hugmyndum fagnandi og ég reikna með að niðurstöður þessa málþings geti reynst gott innlegg í þá vinnu sem framundan er í ráðuneytinu.